Færsluflokkur: Bloggar

Söm er þeirra gjörðin stórveldanna tveggja, Kína g Bandaríkjanna

Friðarverðlaun Nóbels voru að venju afhent í Osló 10. des. Að vísu ætti að vera búiðað nefna þessi verðlaun nýju nafni, þau eru miklu fremur frelsisverðlaun en friðarverðlaun. Í ár var reisn yfir norsku Nóbelsverðlaunanefndinni undir forystu Thorbjörn Jagland, meiri reisn en árið 2009 þegar nefndin sleikti sig upp við Obama bandaríkjaforseta öllum til undrunar, ekki síst Obama sjálfum.

Nú var það kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo sem verðlaunin hlaut, maður sem nú situr í fangelsi einhversstaðar í Kína fyrir að hafa barist fyrir pólitísku frelsi í sínu stóra heimalandi. Kínversk stjórnvöld eru æf yfir verðlaunaveitingunni og höfðu í hótunum gegn öllum þeim ríkjum sem voguðu sér að senda fulltrúa á verðlaunaafhendinguna, sem betur fer hundsuðu flestar ríkisstjórnir þessar hótanir, það gerðum við hérlendis einnig.

Einhvern tíma mun sú stund renna upp vonandi að Liu Xiaobo fái uppreisn æru og auði stóllin með verðlaunaskjalinu verði Kínverjum til ævarandi skammar. Sú stund rennur upp vonandi sem fyrst að Liu Xiaobo fái að sýna sömu reisn í sínu ættlandi og Selson Mandela í Suður-Afríku. Það tókst að knésetja það alræðisríki og frelsa Nelson Mandela úr 29 ára prísund. En nú upplifum við að það er verið að kyrkja þjóð, þjóð Palestínumanna. Sú þjóð er eins og fugl sem óargadýrið Ísrael heldur kverkataki á og er hægt og bítandi að kvelja úr líftóruna. Ekki er annað að sjá en fasistaríkinu muni takast sitt ætlunarverk.

En það eru ekki aðeins meintir íslamskir hryðjuverkamenn sem Bandaríska leyniþjónustan lætur leita uppi til að myrða. Bandríkjamenn hafa fengið nýjan óvin, vefinn Wikileaks og þó sérdeilis aðalhöfund síðunnar og stjórnanda, Julian Assange. Flestir eru sammála um það, sem skoða mál af sanngirni, að á Wikileaks hafi aðeins birst sérdeilis krassandi upplýsingar, aðallega frá stjórnsýslu Bandríkjanna, ekki síst frá sendiráðum stórveldisins. Enginn sakar Wikileaks fyrir að hafa brotist inn og stolið gögnum, einhverjir innanbúðarmenn í stjórnsýslu stórveldisins ofbýður margt sem þar gerist og vilja koma því fyrir sjónir almennings. Stjórnendur Wikileaks, hvort sem þeir heita Júlían eða Hrafn hafa engin lög brotið. Samt hefur málmetandi fólk (ef þannig má til orða taka) krafist þess að hryðjuverkamorðingjar verði sendir út af örkinni og linni ekki ferðinni fyrr en Julian AssAssange hefur af lífi verið tekinn. Þar fer fremst í flokki fyrrum frambjóðandi til varaforsetaembættis Bandaríkjanna, repubikaninn Sara Palin og marga fleiri má þar nefna.

Hjá þessum stórveldum er krafan sú sama og aðferðirnar þær sömu. Einstaklingar sem lýsa sannfæringu sinni eða koma óþægilegum upplýsingum á framfæri til almenning, svo sem myndbandi af því þegar þyrluhermenn bandarískir strádrepa saklausa borgara í Bagdad, skulu réttdræpir. Þó eru Kínverjar ögn skárri, þeir láta fangelsin nægja sem er þó nógu  viðbjóðslegt til að hefta skoðanafrelsið en Bandríkjamenn vilja gera út leigumorðingja sína til að drepa þá sem setja óþægilegar upplýsingar á netið.

Söm er þeirra gjörðin stórveldanna tveggja, Kína g Bandaríkjanna!


Þjóðin ætti að taka sér Reyni Pétur sem fyrirmynd og líta bjartari augum á framtíðina

Það var einstök mynd sem við fengum að sjá í Sjónvarpinu þar sem bjartsýnismaðurinn  Reynir Pétur á Sólheimum birtist. Óneitanlega hvarflaði hugurinn að andstæðunni, sumum bloggurum sem aldrei sjá annað en dauðann og djöfulinn í hverju skoti og velta sér endalaust upp úr svartsýni og hlutdrægni

Reynir Pétur varð þjóðþekktur þegar hann gekk hringveginn fyrir 25 árum, það var svo sannarlega ástæða til að rifja það afrek upp því nú er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem var ófædd eða nýfædd þegar gangan mikla var farin. Reynir Pétur á að varða veginn fyrir þjóðina og kenna henni að leggja bölmóðinn alfarið niður og eigna sér bjartari framtíðarsýn.

Ég finn að nú byrja svartagallsrausararnir að segja "það er allt að fara norður og niður, það gerist ekkert jákvætt".

Er það svo?

Lítum á nokkur jákvæð atriði:


Stýrivextir lækkaðir um eitt prósentustig - eru nú 4.5%, það er ekki langt síðan þeir voru 18%?

Laun hækkuðu um 2,0% frá fyrri ársfjórðungi

New York Times: Iceland Emerged From Recession in 3rd Quarter

1,2% hagvöxtur á milli ársfjórðunga

Einkaneysla jókst um 3,8% á þriðja ársfjórðungi

Vöruskiptin hagstæð um 10,4 milljarða í nóvember

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins ekki betri í áratugi

Ríkistjórnin bætir við sig um 6%  skv. þjóðarpúlsi Capacent, 36% styðja rikisstjórnina

Atvinnuleitendur fá desemberuppbót

Landinn orðinn léttari í lundu - væntingavísitala hækkar um helming

Vöruskiptajöfnuður hagstæðari í ár en í fyrra 

Aflaverðmæti jókst um 14 milljarða 


Ráðstafir Ríkisstjórnar og fjármálfyrirtækja vegna skulda heimilanna fara fyrir brjóstið á öfgasinnuðum bloggurum og ákveðnum öflum í þjóðfélaginu

Það samkomulag sem gert var ætti að sýna öllum að það var ekki létt verk að ná saman þeim sem þar þurftu að koma að. Vissulega er búið að gera margt í bönkunum til að koma til móts við þá sem eru illa komnir vegna Hrunsins og afleiðingunum af falli krónunnar. En sá punktur sem settur var í gær var bráðnauðsynlegur  vegna þess að það hefur verið mikil tregða hjá þeim sem illa eru staddir til að leita sér aðstoðar; þar kemur til hávær yfirboð ákveðinna afla í þjóðfélaginu sem Guðmundur Guðmundsson formaður Rafiðnaðarsambandsins lýsti vel í Kastljósinu þegar Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar hélt enn eina ruglingsræðu um hvernig ætti að bjarga öllum, því miður verður það aldrei hægt. En þeir sem barist hafa við skuldabaggann hafa látið glepjast af þessum fagurgala og þess vegna haldið að sér höndum í von um eitthvað miklu, miklu betra sem aldrei var nema tálsýn.

En það er fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum ýmissa einstaklinga svo sem bloggaranna sem alltaf eru "fúlir á móti". En ég nenni ekki að eltast við þá enda eru þar þó nokkur hópur sem ekki er hægt að eiga orðastað við.

En viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru því athyglisverðari og þar vil ég fyrst nefna Bjarna Benediktsson og flokk hans, Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ekki ólíklegt að Bjarna hafi brugðið illilega þegar hann sá að stjórnarandstaðan hafði í skoðanakönum 16% traust þjóðarinnar og þar í hlýtur hlutur stærsta stjórnarandstöðufokksins, Sjálfstæðisflokksins, að vega þungt. Oftast hefur stjórnarandstaðan talað einni röddu, verið á móti öllu og rakkað allt niður sem frá Ríkisstjórninni hefur komið. Það skyldi þó ekki vera að augu Bjarna hafi opnast og hann séð það skýrt að þessi ómálefnalega og einskisnýta þjösnabarátta stjórnarandstöðunnar gengur ekki lengur. Bjarni stökk frá borði stjórnarandstöðunnar í gær og virtist vera að sjá að málefnaleg umræða um mál, hvaðan sem þau koma, er það sem almenningur vill sjá og heyra. Bjarni hefur sem sagt skyndilega skilið að fólk er ekki fífl sem láta bjóða sér hvað sem er. Ekki ólíklegt að þetta verði örlítill plús eftirleiðis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

En Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins er samur við sig, þó mátti sjá að öryggi hrópandans fúll á móti var ekki það sama óg áður Þegar hann kom fram í Kastljósi. Auðvitað þurfti hann að tæta gerðir Ríkistjórnarinnar í sig en gat þó ekki annað en verið örlítið jákvæður.

En svo komum við að ósköpunum sem kallast Hreyfingin og átti að vera hin mikla endurnýjun, komin fram eftir ákalli fólksins eins og þeir segja. Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar leyfir sér í Fréttablaðinu í dag að segja að þær ráðstafanir sem kynntar voru í gær væru "Ölmusupólitík og aumingjavæðing". Er Margrét með þessu að segja að öll þau heimili sem fá hjálp, líklega 60.000 heimili og þeir sem þar búa, séu ölmusufólk og aumingjar, liggur það ekki í hennar orðum? Það er litlu við að bæta eftir þá hirtingu sem Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar fékk hjá Guðmundi Gunnarssyni í Kastljósi. Þór hefur aldrei svo ég hafi orðið var við annað gert en vera á móti öllu og rakkað allt niður sem fá Ríkisstjórninni kemur, hann er fyrir löngu búinn að gera sig að slíkum ómerkingi að á hann verður ekki hlustað meir. Það dapurlegast er samt að grasrótarhreyfing eins og Hagsmunasamtök heimilanna, sem hefur alla tíð predikað þá vitlausu leið flatan niðurskurð, hefur alla tíð njörvað sig við Hreyfinguna eins og þar fari deild í þeim ólukkuflokki. 

Mér varð það á í síðasta pistli að fara rangt með föðurnafn Halldórs Ásgrímssonar, sagði hann Ingólfsson. En einhverjir kunna að hafa tekið þetta sem styttingu og samsetningu nafnanna Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson. Það finnst mér hið besta mál, samhentari menn voru tæpast til þegar hinum feysknu stoðum Hrunsins var hróflað upp, þar unnu þeir sem ein persóna. 


Hvað með málskotsréttinn?

Yfirleitt eru flestir að ræða um Forsetann þegar málskotsrétt ber á góma, þar er jafanan rætt um þann rétt hans, sem enginn hefur beitt nema núverandi Forseti, að skjóta málum til úrskurðar þjóarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En ég er enn svilítið óákveðinn í hvort við ætlum að hafa Foreta eða ekki, en ef hann verður einn af hornsteinum stjórnskipunar landsins þá tel ég að hann eigi að hafa málskotsrétt.
En það eiga fleiri að hafa, bæði einhver hluti alþingismanna og einnig almenningur þá einhver ákveðim prósenta atkvæðisbærra manna.
En þjóðaratkvæðagreiðslur, um hvaða mál þær eiga að fjalla og hvernig er hægt að krefjast þeirra. Mér finnst að skilyrðin eigi að vera þröng, það gengur ekki að lítill minnihlutahópur geti krafist þjoðaratkvæðis um lítilsverð mál
Svolítið um framkvæmd þjóðaratkvaðagreiðslna. Þær þurfa alls ekki að vera svo dýrar í framkvæmd eins og Alþingiskosningar. Þó ég sé ekki einn af þessum mörgu tölvusnillingum þá sýnist mér að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið rafrænar. Þá geti hver og einn kosið í sínum heimabanka. ég veit að það eru ekki allir með heimabanka, margt eldra fólk er það ekki. Þá er tvennt til í spilunum; fara til nágrannans og kjósa þar eða að einhver miðstöð verði fyir þann fámenna hóp sem ekki á möguleika heima hjá sér eða hjá nágrannanum. Það yrði ekki hægt að kjósa nema einu sinni á hveri kennitölu og hugbúnaðurinn, sem tekur á móti atkvæðunum, hefur úrslitin klár þegar kjörtími er útrunninn.
Ég set þetta hér inn, ekki til að þetta fari í Stjórnarskrá, heldur til að vekja athygl á möuleikum tölvunnar.
Ég heyrði það frá einum frambjóðanda að honum hugnaðist ekki að í núverandi Stjórnarskrá eru þó nokkur ákvæði sem leyfa að um Stjórnarskrárbundin ákvæði megi fjalla á Alþingi til breytinga án þess að það teljist breyting á Stjórnarskrá. Ég tel að slíkt sé í meira lagi vafasamt, Stjórnarskrá verði ekki breytt nema þar sé ótvírætt um Stjórnarskrárbreytingu að ræða og þá verði málsmeðferðin í samræmi við það.


Hafa tölur jákvæð eða neikvæð gildi?

Þar sem ég er frambjóðandi til Stjórnlagaþings, 1 af 523, þá hef ég fengið mitt númer sem væntanlegir kjósendur mínir skrá á kjörseðilinn í komandi kosningum.

Mitt númer er 4976

Einn ágætur vinur minn hér í Þorlákshöfn kom að máli við  mig ábúðarmikill í gær og spurði mig þeirrar sérstæðu spurningar hvort ég ætti mér einhverjar happatölur. Ég kvað nei við þó oftar en einu sinni hefði ég fengið ábendingar í einhverju spjalldálkum að ég ætti mér eina slíka, en látum það liggja milli hluta, ég hef ekki tekið mark á slíkum boðskap.

Spyrjandinn varð nú ábúðarmeiri og spurði af mikilli alvöru hvort ég forðaðist ákveðnar tölur eða hvort ég óttaðist að þær boðuðu ógæfu. Mér varð víst nokkur hlátur í hug og svaraði að því síður óttaðist ég neikvæð áhrif nokkurra talna, hvorki einfaldra né samsettra. Vini mínum var greinilega létt og skýrði fyrir mér hver væri grunnurinn að þessari könnum.

Hann hafði skyndilega gert sér grein fyrir því að ef lagðir væru saman tveir fyrstu stafirnir í kjörnúmeri mínu til Stjórnlagaþings kæmi út talan 13 og ekki nóg með það; ef lagðir eru saman tveir seinni tölustafirnir kemur einnig út talan 13.

Ég sagði sem var að aldrei hefði ég haft beyg af tölunni 13 á því yrði engin breyting nú.

Kannski verður talan 13 einmitt mín happatala í komandi kosningum?


Fjórða stoð lýðræðis, fjölmiðlar

Í lýðræðisríki gegna fjölmiðlar geysimiklu hlutverki, þeirra þýðing hefur stöðugt aukist undanfarna áratugi. Einn atburður markar þó dýpra spor hérlendis en nokkur annar, stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930. Áhrif Ríkisútvarpsins urðu mjög mikil strax eftir stofnun og fjölmörg heimili á landinu lögðu í þá fjárfestingu að kaupa sér útvarpstæki. Ég er orðinn nokkuð aldraður en þó er Ríkisútvarpið nokkru eldra en ég. Ég man ekki eftir örðu en að hafa hlustað á útvarpið og ég held að áhrif þess hafi ekki síst verið fræðslan sem þá seytlaði frá því um allt þjóðlífið. Ég horfði opinmyntur sem barn á þessi merkilegu tæki sem stóðu á hornhillu í baðstofunni sem við kölluðum svo. Bogadregni hátalarinn lengst til hægri, svarti kassinn sem kallaður var lampatækið, á milli þeirra þungur sýrufylltur rafgeymir, þeir voru til tveir og var annar oftast á hleðslu á Urriðafossi hinum megin við Þjórsá. En hann nægði ekki sem orkugjafi, það þurfti einnig heljarmikið þurrbatterí sem keypt var hjá Verslun Friðriks Friðrikssonar í Miðkoti í Þykkvabæ.

Útvarðið sagði fréttir á hverjum degi. Ég var einmitt að komast til vits og ára þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og hélt því lengi vel að stríð væri eðlilegt ástand sem væri stöðugt í heiminum og má segja að þar hafi ég skilið ástandið rétt. En ekki síður var það tónlistin sem flæddi frá tækinu og Stefán Íslandi varð heimilisvinur. Bjarni Björnsson lék jólasveininn í barnatíma sjónvarpsins á jóladag. Auðvitað átti ég að trúa því að þetta væri ekta jólasveinn en ég vissi betur en tókst að halda því leyndu. Þess vegna var sorgin mikil þegar sú frétt barst að Bjarni Björnsson hefði dáið langt fyrir aldur fram, mundi enginn jólasveinn koma hér eftir í útvarpið? Það er ekki nokkur vafi á að útvarpið var ein helsta menntastofnun landsins. Leikritin á laugardagskvöldum var nokkuð sem enginn vildi missa af og enn man ég flutning Helga Hjörvar á þekktustu útvarpssögu allra tíma, Bör Börsson eftir norska skáldið Johan Falkberget. Seinna hlotnaðist mér sú ánægja að leika "skúrkinn" Óla í Fitjakoti á sviði hjá Leikfélagi Kópavogs, þá umbreytt í söngleik af Norðmönnunum Harald Tussberg og Egil Monn Iversen.

En nú er ég þó svo sannarlega kominn út um víðan völl því ætlunin var að fjalla um fjölmiðla sem fjórðu stoð lýðræðis í okkar landi. Ég verð að viðurkenna að þá liggur við að mér falla allur ketill í eld. Enn vil ég minnast á Ríkisútvarpið sem vissulega hefur orðið að hopa talsvert eftir að útvarps- og sjónvarprekstur var nær alfarið gefinn frjáls, það var vissulega óhjákvæmilegt. Oftast hlusta ég á gömlu gufuna og læt mér nægja að horfa á Ríkissjónvarpið, ekki eftir neinu að slægjast á öðrum stöðvum. Hvernig veit ég ég það kann einhver að spyrja fyrst þú sérð þær aldrei? Nægjanlegt að lesa sjónvarpsdagskrárnar, á þeim er nánast ekkert annað en amerískt drasl, nóg af því í Sjónvarpinu vissulega. Það er dapurlegt að sjá hvert frelsið hefur leitt einstaka menn eins og ég hef áður bloggað um; Ingvi Hrafn Jónsson fyrrum fréttastjóri Ríkisútvarpsins kófdrukkinn á sjónvarpsstöð sinni að ryðja úr sér svívirðingum og sleggjudómum.

En Ríkisútvarpið og Sjónvarpið á tvímælalaust tilverurétt, hvorutveggja  á að efla eins og ég kem inn á í umsögn minni um viðtalið við Pál Skúlason í þætti Þórhalls Gunnarssonar, Návígi.

En hvað um prentmiðlana, blöðin?

Þar er ástandið ekkert annað en skelfilegt. Hér eru tvö dagblöð gefin út. Morgunblaðið á langa sögu að baki og var lengst af eitt af illvígustu flokksblöðum landsins. En Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarson rifu blaðið upp úr lágkúrunni um leið og öll flokksblöð liðu undir lok, þau mátti svo sannarlega missa sig. En það varð mikil breyting á eignarhaldi Morgunblaðsins fyrir fáum árum og þá varð stórslys. Í stað þess að Morgunblaðið kæmist í hendur víðsýnna útgefenda lenti það í höndum samtakanna sem hafa komist yfir eina dýrmætustu auðlind Íslands, fiskinn í sjónum og réttin til að veiða hann. Þeir komust á svipaðan hátt yfir fiskinn og þeir sem eignuðust bankana og rændu þá innanfrá. Landsamband ísl. útvegsmann áttu næga hauka í horni á Alþingi sem réttu þeim auðlindina á silfurfati, þeir þurftu engu að stela en hvað um siðferði þeirra sem réttu fram silfurfatið og þeirra sem tóku við? 

Glórulaus og siðlaus gjörð sem tilreidd var sem lögleg!

Og svo kom reiðarslagið. Fyrrum Forsætisráðherra og Seðlabankastjóri Davíð Oddsson, maðurinn sem ber einna mesta sök á að fjármálkerfið hrundi, var gerður að ritstjóra.

Síðan er blaðið á fallandi fæti, einsýnt og þröngsýnt, málpípa þeirra sem ætla ekki að sleppa því sem þeir hafa komist yfir á hneykslanlegan hátt, auðlindum hafsins. Meira en fjórðungur áskrifenda blaðsins létu ekki bjóða sér þennan óþverra allan og sögðu blaðinu upp. Tap þess á ári er nú talið í milljörðum og skyldi engan undra.

En hve lengi ætlar útgerðarauðvaldið að láta milljarðana renna í taphít blaðsins, ætla menn að endalaust að láta peninga renna í hana?

En hvað um hitt blaðið, Fréttablaðið. Þetta er blaðið sem fyrrnefndur Davíð Oddsson fékk á heilann og, barðist gegn ásamt allri sinni hirð og fékk um það sett eftirminnileg lög sem nefndust Fjölmiðlalögin.

En ólíkindatólið á Bessastöðum greip þá inn í, neitaði að undirskrifa og vísaði Fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar. En þá sá Davíð sitt óvænna og dró lögin til baka og ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.

En hver á Fréttablaðið? Er það ekki maðurinn sem hefur gert usla í fjármálum þjóðarinnar, er það ekki maðurinn sem á íbúðir á dýrasta stað í New York, er það ekki maðurinn sem átti (eða á ) skemmtisnekkju sem er á stærð við okkar gamla Gullfoss, nefnist sá maður ekki Jón Ásgeir Jóhannesson?

Hvers vegna er þessi maður að eiga og gefa út dagblað, reka útvarsstöð og sjónvarpsstöð, er það til þess að standa vörð um prentfrelsið og málfrelsið? Lætur hann enn fé af hendi rakna til að halda þessum fjölmiðlum á floti?

Það virðist einsýnt að slíkur karakter sé fyrst og fremst í fjölmiðlun til að hans eigin  fjölmiðlar taki svari hans ef á þarf að halda!

DV hefur sinn sess og ákveðinn lesendahóp,  blað sem á sín systkinu víða um lönd. En líklega er DV eina blaðið á Íslandi sem er ekki læst í helgreipar sérhagsmunaaðila.

Svo er það öll tímaritaflóran. Ekki vantar að tímaritin séu flott, glanspappírinn ekki sparaður og sannarlega merkilegt a þau hafa getað sópað til sín  dýrum auglýsingum þrátt fyrir hrun og kreppu. En öll eru glanstímmaritin á kafi í því að búa til staðalmyndir, einkum ungra stúlna. Þær skulu vera leggjalangar og þvengmjóar. Helstu fyrirmyndir eru sýningarstúlkur í París og öðrum tískuháborgum sem víxla sér fram eftir göngubrettum með smínk á andlitinu sem sóma mundi sér á andliti Djáknans á Myrká.

En hvað um allar bloggsíðurnar? Er þær ekki hluti af íslenskri fjölmiðlum? Vissulega, og í bland eru þar rökræður viðhafðar en þeir eru ekki margir sem þannig tjá sig. Mikið ber á háværum upphrópunum og þar sjást einnig svívirðingar, það er hin dapurlega staðreynd.

Þannig er ástand fjölmiðla á Íslandi í dag!

Ástandið er í einu orðði sagt:

SKELFILEGT!!!

 


Málfrelsi er ein af undirstöðum lýðræðis, dapurlegt að sjá hvernig það er misnotað

Ég var að enda við umfjöllun um það sem fram kom hjá Páli Skúlasyni í Sjónvarpinu á gær; um hvernig stjórnmálaumræðan hérlendis er sokkin djúpt í skotgrafir.

En það verður að gera kröfu til fleiri en stjórnmálmanna. Í lýðræðisríki hafa allir þegnar málfrelsi en því miður, nokkur hluti þeirra telur að málfrelsi sé frelsi til að ausa skít yfir náungann, að halda endalaust fram sömu rökleysunum, að tyggja aftur of aftur sömu innihaldslausu frasana. Ég hef stundum verið komin á fremsta hlunn með að hætta hér á blogginu, of margir á því eru ekki viðræðuhæfir og því miður virðist ýmsum ofstækismönnum vera hossað hátt og eru stöðugt í sérstöku úrvali. Þó gagnrýna megi stjórnmálamenn fyrir margt eru takmörk fyrir því þar sem annarsstaðar hve lágt má leggjast í orðbragði og lúalegri framkomu. Líklega hefur enginn fengið jafn margar svívirðingar hér á blogginu og Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra, þar virðist einnig blandast inn í karlremba sumra lítilsigldra karla, sem  aldrei geta falið og vilja líklega ekki fela, kvenfyrirlitningu sína.

Ég er satt að segja ekki enn  búinn að ná mér eftir að hafa rekist einhverstaðar á myndband með Ingva Hrafni Jónssyni fyrrum fréttastjóra Sjónvarpsins og núverandi sjónvarpsstjóra á eigin Sjónvarpsstöð. Það var ekki nóg með að aumingja maðurinn væri augljóslega kófdrukkinn, heldur jós hann úr sér svívirðingum aðallega um tvær persónur, Evu Joly og Ólaf Hauksson sérstakan saksóknara. Reyndar voru allir "undir" sem starfa við embætti Sérstaks saksóknara, þetta var að áliti hins kófdrukkna allt undirmálsfólk. Nákvæmnin í málflutningi aumingja mannsins var reyndar engin eins og oft vill verða þegar drukknir menn fara að láta ljós sitt skína. M. a. sagði hann að Eva Joly hefði fengið hundruður þúsunda dollara" í laun og ferðakostnað frá Íslenska ríkinu. Einhverstaðar sá ég að heildarkostnaður viðstörf Evu Joly hérlendis væru um 27 milljónir króna.

En það dapurlegasta er að þó nokkur fjöldi venjulegs fólks virðist njóta illmælginnar sem út úr Ingva Hrafni veltur drukknum sem ódrukknum.


Að einstaklingur eyði 2 milljónum króna i kosningabaráttu fyrir sjálfan sig fyrir Stjórnlagaþingið nær ekki nokkurri átt

Ég lauk við í gær að senda þau gögn sem ég átti að senda rafrænt til Landskjörstjórnar vegna framboðs míns til Stjórnlagaþings svo ég tel á þar með sé ég orðinn fullgildur frambjóðandi. Ég ætla á næstunni að setja fram skoðanir mínar um helstu atriði sem ég legg á herslu á á Stjórnlagaþinginu. Ég er þegar búinn að lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að gera landið að einu kjördæmi sé lýðræðinu ekki til framdráttar og er andvígur því.

En því miður eru þeir sem sett hafa saman reglur fyrir frambjóðendur til Stjórnlagaþings undir áhrifum síðustu bólutíma í fjármálum. Í reglum fyrir frambjóðendur stendur skýrum stöfum að hverjum og einum frambjóðanda sé heimilt að verja 2 milljónum króna til að kynna sjálfan sig.

Fékk enginn í undirbúningsnefnd Stjórnlagaþings bakþanka þegar þetta var ákveðið? Eru menn enn svo samdauna því siðlausa peningasukki sem viðgengist hefur hjá mörgum stjórnmálamönnum sem hafa verið í framboði til Alþingis? Framboð til Stjórnlagþings er algjörlega persónulegt, eða það vona ég að minnsta kosti. Að leyfa þetta peningasukk í undirbúningi kosninga til Stjórnlagaþings er andlýðræðislegt og skekkir stórlega aðstöðu frambjóðenda. Ég persónulega á engar 2 milljónir til að leggja í framboðssukk og þó svo væri mundi ég aldrei fara að eyða peningum í framboð mitt. 

Ég ætla stoltur að lýsa því yfir að ég muni ekki eyða 1 krónu í að koma mér á framfæri og skora á undirbúningsnefnd  Stjórnlagaþings  að afturkalla þetta sukkákvæði úr reglum um kosningar til Stjórnlagaþings. Ef það verður ekki gert tel ég að ég og margir fleiri drögum framboð okkar til baka eða sumir hætti við framboð.


Er skynsamlegt að gera landið að einu kjördæmi?

Þessi krafa, að Ísland verði eitt kjördæmi, er ekki ný af nálinni. Það sem fyrir þeim vakir, sem aðhyllast þessa stefnu, er að sjálfsögðu múmer  1, 2 og 3 að þannig verði endanlega náð fram algjörlega jöfnu vægi atkvæða sem lengi hefur verið stefnt að. Þær breytingar, sem gerðar hafa verið á kjördæmaskipan hníga allar í þá átt. En fólksflutningar innanlanda skekkja fljótlega þann jöfnuð sem í sjálfu sér var ætíð nokkuð langt frá því að nást.

Vissulega er það lýðræðislega rétt að vægi atkvæða sé sem jafnast, helst algjört.

En í þessu máli, sem svo mörgum öðrum, fylgir  böggull skammrifi. Með því að gera Ísland að einu kjördæmi koma fylgifiskarnir:

Efling flokksræðis er sá hættulegasti. Er ekki hættan sú að með þeirri gjörð verði allt vald og ákvarðanir um framboð flutt til höfuðstöðva flokkanna sem allar eru í Reykjavík? Hvað mundi Gunna á Raufarhöfn eða Jón á Rauðasandi hafa um þetta að segja? Hætt er við að áhrif þeirra, og annarra á landbyggðinni sem oft á tíðum eru sáralítil í dag, hverfi næstum því með öllu.

En ein spurning vekur aðra. Er hægt með því að stórauka persónukjör og gefa kjósendum meira val í kjörklefanum að vinna gegn nefndu flokksræði. Er mögulegt að frambjóðendur séu á listum flokka og einnig einstaklingar sem bjóða sig fram á eigin vegum eða á vegum ákveðinna hópa? 


Úr einum öfgum í aðra

Þetta var fyrst skrifað sem athugasemd við bloggTryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara, sem flestir ættu að lesa það sem hann skrifar um þetta efni.

Í grundvallaratriðum er ég sammála þér um flest sem þú segir hér að framan. Við Íslendingar erum gjarnir á að fara öfganna á milli, nú eru stjórnmálflokkar réttdræpir og mér finnst miður að flokksforingi minn, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, kvað upp dauðadóm yfir flokkakerfinu. Ég tel hins vegar að allir flokkar hafi villst af leið sem kemur greinilegast fram í hinu gjörspillta kerfi prófkjöranna. Þegar ég tók fyrst þátt í prófkjöri fyrir bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 1970 fyrir 40 árum síðan, þá var ég mikill talsmaður fyrir prófkjör, taldi að þau mundu efla lýðræði innan og utan flokka. Við í Kópavogi héldum prófkjör allra flokka sameiginlega fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1970, þá voru okkar áhyggjur að flokkar færu að læða sér inn í prófkjör annarra eða allra flokka, við höfðum engar áhyggjur af fjármálum í sambandi við prófkjörin enda datt okkur ekki í hug að nota fjármuni til að pota okkur áfram. Sumir munu eflaust þá þegar hafa notað símann óspart, ég var þá svo bláeygur að mér datt ekki slíkt athæfi í hug.

En því miður hafa prófkjör fyrir kosningar, hvort sem er til Alþingis eða sveitarstjórna, orðið eitt versta spillingarbæli sem stjórnmálamenn hafa fallið í.

Það er nokkuð einfeldningslegt að halda að fyrir utan Alþingi og sveitarstjórnir séu flokkur manna sem sé með öllu óspilltur og geti kippt öllu í liðinn. Það séu aðeins þeir kjörnu sem hafi verið kosnir til trúnaðarstarfa sem séu gjörspilltir. Við höfum dæmið fyrir okkur; Borgaraflokkurinn sprakk um leið og hann hafði fengið fulltrúa á Alþingi, ég sé ekki að í Hreyfingunni sé mikill akkur til endurnýjunar.

Við munum áfram hafa þörf fyrir stjórnmálaflokka, en þeir þurfa nýjan grundvöll sem aðeins verður lagður með nýrri stjórnarskrá sem unnin verði á Stjórnlagaþingi þar sem fulltrúar verða kjörnir beinni kosningu af öllum þeim sem kosningarétt hafa. Það er greinilegt að það er andstaða innan Alþingis og stjórnmálaflokka  við Stjórnlagaþing. Þar verður almenningur að vera fastur fyrir og láta ekki þá sem, sumir hverjir a. m. k., hafa orðið berir að spillingu, aðallega í prófkjörum


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband