Færsluflokkur: Tölvur og tækni

Herfileg misnotkun á póstlista frambjóðenda til Stjórnlagaþings

Fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings varð til póstlisti hvar á voru póstföng nær allra frambjóðenda. Þetta var þarft framtak þá, frambjóðendur áttu að sjálfsögðu marga sameiginlega hagsmuni þó í samkeppni væru um hilli kjósenda. Nú eru kosningar að baki og meira að segja úrskurðaðar ógildar af hlutdrægum Hæstarétti, en ekki meira um það að sinni.

En nú brennur svo við að einhverjir óprúttnir náungar úr hópi frambjóðenda hafa tekið póstlistann traustataki til að berjast gegn samþykkt Icesave III á Alþingi og að samningurinn verði lagður undir þjóðaratkvæði.

Ég er ekki einn um það að mótmæla slíkri misnotkun á póstlistanum, inn til mín hafa streymt margir póstar þar sem einstaklingar mótmæla þessari misnotkun  og krefjast þess að verða strikaðir út af listanum.

Ég er ekki nógu tölvufróður til að vita hvernig koma á í veg fyrir þessa misnotkun, ég sé að fjölmargir frambjóðendur vilja láta eyða póstlistanum, en er það hægt? Geta óprúttnir einstaklingar látið dynja yfir okkur áróður um alla framtíð?

Spyr sá sem ekki veit.


Fulltrúalýðræði, með rétti til að skjóta málum í þjóðaratkvæði, er sá rammi sem ég sé sem ríkjandi stjórnarform á landi hér

Lýðveldið í Aþenu til forna og íslenska þjóðveldið á miðöldum eru líklega þau þjóðfélög sem hafa komist næst beinu lýðræði. Svo virðist sem ýmsir virðist sjá beint lýðræði í hillingum eða hvernig ber að skilja kröfuna um "valdið til fólksins". Þessi tvö fyrrnefndu þjóðríki liðu undir lok, þar kom ýmislegt til, ekki síst að skortur á einhverju valdi til að koma málum í framkvæmd sem fjöldinn hafði ákveðið. Þá kom til sögunnar fulltrúalýðræði, að vísu ekki hérlendis því tvö öfl náðu öllum völdum á Íslandi, Noregskonungur og Kaþólska kirkjan.

En lýðræðið með sínu fulltrúaveldi hefur reynst skásta stjórnarformið sem mannkynið hefur notað þrátt fyrir alla sína galla.
En hérlendis hefur því miður margt í grundvallareglum lýðveldisins verið fótum troðið á þessari og síðustu öld. Tveir valdamenn höfðu ekkert vald til að skipa Íslandi í flokk þjóða sem ýmist réðust á glæpsamlegan hátt inn Írak eða studdu innrásina, en gerðu það samt. Komin er út ævisaga hins merka stjórnmálamanns Gunnars Thoroddsen sem lýsir vel þeirri spillingu sem ríkti nær alla síðustu öld og ekki batnaði ástandið eftir að við komum fram á þessa öldina.
Ég er mjög hlynntur því að við sköpum öryggisventla fyrir að Stjórnarskrá sé haldin og stjórnsýslan og framkvæmdavaldið taki sér ekki meiri völd en það á að hafa samkvæmt okkar leikreglum.
Það munum við gera með ströngu eftirliti og ekki síður málskotsrétti til almenning, með réttinum að skjóta málum í þjóðaratkvæði.
En þar þurfum viða að vanda okkur, þjóðaratkvæði á að vera réttur sem umgangast á með virðingu. Það verða að vera ákveðnar, allt af því strangar reglur um hverjir hafa rétt til að skjóta málum í þjóðaratkvæði eða krefjast þjóðaratkvæðis.
Þá kemur tæknin til sögunnar. Með nútímatölvutækni þarf þjóðaratkvæðagreiðsla ekki að vera svo kostnaðarsöm. Við getum einfaldlega virkjað okkar heimabanka til þess að hver og einn geti kosið heima hjá sér, það er lítið mál að sjá til þess að aðeins sé kosið einu sinni á hverja kennitölu. Enn er einhver þjóðfélagshópur sem ekki hefur tileinkað sér möguleika tölvunar. Þeim verður að gera kleyft að fá aðstoð við atkvæðagreiðslur á þennan hátt.
Og um leið og atkvæðagreiðslu lýkur liggja úrslitin fyrir.


Það getur ekki verið hagkvæmt að reka allan þennan fjölda af lífeyrirsjóðum hér á landi

Ragnar Ingólfsson stjórnarmaður í VR var gestur í Silfri Egils sl. sunnudag. Þar gagnrýndi hann hinn mikla rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Ég hef löngum undrast hvaða þörf er fyir allan þennan fjölda. Sumir lífeyrisþegar lífeyrissjóðanna hafa fengið þunga skelli í töpuðum lífeyri vegna rýrnunar hjá nokkrum minni lífeyrissjóðunum, ýmist af röngum fjárfestinga stjórnendanna, en það hefur einnig komið fyrir að þeir sem þá áttu að annast þá hafa látið greipar sópa í sjóðunum og sumir jafnvel síðan hlaupist af landi brott.

En stjórnendur lífeyrissjóðanna eru í algjörri afneitun. Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Sambands lífeyrissjóða, Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ljúka upp einum rómi um að hjá lífeyrisjóðunum sé allt í blóma, hagkvæmni mikil og lágur rekstrarkostnaður. Ég held að það verði ekki hjá því komist að gerð verði úttekt á sjóðunum, þessir forystumenn falla í sama afturhaldpyttinn og LÍÚ, Þjóðkirkjan og Bændasamtökin, það má engu breyta, allt er eins og það á að vera.

En er það svo? Íslenskur hagfræðingur í framhaldsnámi í útlöndum sagði framtíðarhorfur lífeyrissjóðanna mjög dökkar og ekki langt í að þeir getir ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ætla forystumenn lífeyrissjóðanna að hundsa með ölu þessa gagnrýni? Hvað mælir gegn því að á Íslandi starfi einn hagkvæmur lífeyrissjóður og þannig verði sparaðar hundruðir milljarða í rekstrarkostnað?                                                                        


Leiðir út úr skuldavanda fasteignaeigenda sem hafa verið reiknaðar út

Sérfræðinganefndin, sem Ríkisstjórnin skipaði, hefur lokið störfum. Nú þegar eru ýmsir farnir að agnúast út í störf sérfræðinganefndarinnar, en væri ekki rétt að skoða fyrst hvað kom út úr hennar starfi.

Í skýrslunni kemur fram að engin ein leið dugi ein og sér til að fækka heimilum sem eru í greiðsluvanda vegna húsnæðislána. Leiðirnar eru miskostnaðarsamar og misáhrifaríkar til að hjálpa þeim heimilum sem eru í vanda stödd.



Staða heimilanna

·    Um fjórðungur heimila landsins er ekki með skuldir vegna húsnæðis.

·    Vanskil tekjuhæstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru þrefalt minni í dag en árið 2004. Þetta bendir til þess að þeir sem helst bættu stöðu sína síðastliðin ár standi enn vel og ráði vel við greiðslubyrði lána sinna.

·    Tekjulægstu 20% lántakenda Íbúðalánasjóðs eru færri í vanskilum nú en árið 2004.

·    3.651 manns, eða um 5% lántakenda, eru í þeirri stöðu að þeir eiga ekki fyrir grunnneyslu. Sérfræðingahópurinn telur að þessum hópi verður ekki bjargað með skuldaaðgerðum. Þá reynir á að fjármálastofnanir, ríki og sveitarfélög bjóði upp á húsnæðisúrræði.

·    Þá standa eftir 7.097 heimili sem eru í greiðsluvanda, (sé miðað við neysluviðmið Umboðsmanns skuldara + 50%) eða 10.666 heimili (sé miðað við tvöfalt neysluviðmið UMS).

·    Rúmlega 80% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda keypti fasteign á árunum 2004-2008.

·    Gengisbundin húsnæðislán eru í kringum 117 milljarðar og nema 8,4% af heildar fasteignaskuldum heimila 1. október. Þessi lán munu lækka verði frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um gengislán að lögum.

Misdýrar og misáhrifaríkar leiðir

·    Hækkun vaxtabóta er sú leið sem skilar mestum árangri miðað við kostnað, sé markmiðið að fækka heimilum sem eru í vanda. Við aðgerðina komast 1.450 heimili úr vanda, eða 20,5% þeirra heimila sem eru í greiðsluvanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 1,3 milljón á ári.

·    Dýrustu leiðirnar eru flöt 15,5% niðurfelling skulda og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð, ef fækka á heimilum í vanda. Kostnaður við hvert þeirra heimila er um 12,4 milljónir, ef fara á aðra hvora þessara leiða.

·    Ljóst er að engin ein leið hjálpar öllum. Þær dýrari þýða mikið högg fyrir ríkissjóð og lífeyrissjóðina, sem þarf að fjármagna með hærri sköttum, niðurskurði eða skerðingu lífeyrisbóta. Þær ódýrari gagnast frekar þeim sem minnst hafa milli handanna en skila litlu til þeirra sem hafa séð lán sín hækka, en eru þó ekki í greiðsluvanda.



Athyglisverðar niðurstöður

·    Færri eru í vanskilum við Íbúðalánasjóð nú en voru árið 1997.

·    Heildarskuldbindingar heimila hjá Íbúðalánasjóði eru 579 milljarðar en heildarútlán banka og sparisjóða til fasteignakaupa einstaklinga nema hins vegar 630 milljörðum skv. skýrslu sérfræðingahópsins. Lán lífeyrissjóða beint til fasteignakaupa nema 183 milljörðum.

·    Sérfræðingahópurinn taldi mjög erfitt, ef ekki útilokað, að meta þrjár þeirra leiða sem honum var falið að athuga. Þetta eru svokölluð tveggja þrepa nálgun, „LÍN-leiðin“ og eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi. LÍN-leiðin er talin gagnast tiltölulega fáum og koma lítt til móts við þá sem lakast standa. Sú leið felst í að afborganir verði tekjutengdar.



Sem fyrr segir þá voru 11 mismunandi leiðir til að bregðast við vandanum skoðaðar sérstaklega af hópnum. Þessar leiðir eru;

Sértæk skuldaaðlögun
Flöt lækkun skulda um 15,5%
Niðurfærsla skulda m.v. upphaflega lánsfjárhæð
Lækkun skulda að 110% verðm.eigna
Lækkun skulda að 100% verðm.eigna
Stiglækkandi niðurfærsla skulda að 90% af verðm.eigna
Hækkun vaxtabóta
Lækkun vaxta í 3%
Tveggja þrepa nálgun (sölu-/kaupréttur)
LÍN leiðin
Eignarnám og niðurfærsla skulda með gerðardómi.
 


Eru engin takmörg fyrir því hvað djúpt er hægt að sökkva sér í skotgrafirnar á Alþingi?

Ekki man ég eftir kvöldi í langan tíma þar sem svo margar jákvæðar fréttir hafa komið í fjölmiðlum. Þar á ég ekki síst við þau tímamót sem urðu á Suðurnesjum að frumkvæði Ríkisstjórnarinnar, fundi hennar með forystumönnum allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er vissulega gleðileg tíðindi, þarna taka höndum saman um að efla atvinnu á svæðinu og uppbyggingu Ríkisstjórn, sem talin er vinstri stjórn, og sveitarstjórnir á Suðurnesjum sem að ég held allar teljist til hægri í pólitík.

Ætla mætti að þessu væri tekið fagnandi í stjórnsýslunni, á Alþingi ekki síst.

En það var öðru nær. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson ruku í pontu og rökkuðu allt niður sem fram kom í í þessi samkomulagi  og hæddust að öllu þó flokksbræður þeirra á Suðurnesjum gangi fagnandi til verks. 

Líklegt þykir mér að þarna hafi lágkúran á Alþingi komist neðst í leðjuna.

En hvaða samkomulag var gert á Suðurnesjum í dag, er ekki fróðlegt að líta á það?

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu

Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver

Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt

Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)

Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum

Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum

Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku

Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár

Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra.

Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.

Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra


1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands.

Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Þetta er það sem þeir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins þeir Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson töldu sig hafa stöðu til að rakka niður og hæðast að. Mér segir svo hugur um að ýmsir flokksfélagar þeirra á Alþingi kunni þeim litlar þakkir fyrir.


Ánægjuleg og fróðleg heimsókn í Háskólann í Reykjavík

Það fyrsta sem mætir manni við komuna í ný húsakynni Háskólans í Reykjavík er gott skipulag bygginganna, ég tala um þau í fleirtölu því þannig er skólinn uppbyggður, sjálfstæðar álmur út frá sterkri miðju, Sólinni.

Ég fór í heimsókn í HR laugard. 31. okt sl. með því gamla fornfræga félagi, Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Þar tók á móti okkur Gunnar Guðni Tómasson sem ég held að ég megi titla sem deildarstjóra tækni- og raungreina ásamt meðkennara sínum. Það kom ýmislegt á óvart. Háskólinn Í Reykjavík er í rauninni afsprengi Verslunarskólans og þar mætti einnig nefna Viðskiptaráð sem er kannski ekki í dag uppáhald allra. Ég hef alltaf litið á HR fyrst og fremst sem háskóla sem sinnir viðskiptalífinu, ég hélt áður en ég kom í þessa heimsókn að þar væru einkum menntaðir viðskiptafræðingar, endurskoðendur og hagfræðingar. En þarna kom annað í ljós og kannski hefði ég átt að muna eftir því að ein af undurstöðunum, sem skólinn byggði strax á við stofnun, var þáverandi Tækniskóli. 

En hvað kom mest á óvart?

Að öflugasta deild skólans er tækni- og raungreinadeild og þar er boðið nám sem aldraður maður kynnti sér opinmynntur, aldraður maður sem reyndi að finna sér frekara nám fyrir meira en hálfri öld eftir sveinspróf í pípulögnum en það var ekkert slíkt nám í boði á Íslandi þá.

Ég sannfærðist um það að enginn háskóli á Íslandi leggur jafn ríka áherslu á tækni- og raungreinar og Háskólinn í Reykjavík. Ég nefni fyrst Iðnfræðimenntun og að sjálfsögðu varð aldinn pípulagningamaður með 52 áragamalt sveinspróf stoltur og glaður þegar í ljós kom að HR gefur engan afslátt frá því að þeir sem hefja iðnfræðinám séu með sveinspróf í fögum sem eru undirstöður þeirrar menntunar. Þó varð ég fyrst undrandi þegar Gunnar Guðni kynnti okkur of sýndi tæknibúnað skólans, vinnustofur þar sem nemendur geta sannreynt það sem hugir þeirra hafa skapað og er tilbúið á skjánum. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt því það þekkja flestir að góð hugmynd eða hönnun fær ekki eldskírn sína fyrr en hún er fullsköpuð og vinnsluhæf.

En svo kom gamla íslenska áráttan í ljós þegar okkur var kynntur þessi alltumlykjandi niðurskurður sem er afleiðingin af gersamlega  brjáluðu ástandi sem kollvelti fjármálum þjóðarinnar á haustdögum 2008. Það verða víst fáar stofnanir eða skólar sem ekki verða að taka á sig skerðingu. En Háskólanum í Reykjavík er skammtaður niðurskurðurinn, hann kemur ekki í einni og sömu skál heldur er rækilega búið að skammta í askana af stjórnvöldum.

Og úr hvaða aski skyldi mest vera tekið, svo mikið að það glittir í botn?

Gamla áráttan að taka mest af tækni- og raungreinum, þessum myndarlegasta vaxtasprota Háskólans í Reykjavík.

Ég er hér með þessum pistli mínum að halda áfram umfjöllun minni um auðlindir Íslands. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ein helsta auðlindin er hugarorkan, hana verðum við að rækta. Við höfum orðið fyrir miklu áfalli af völdum þeirra sem menntuðu sig og tóku sæti við, að þeir héldu, við allsnægtaborð fjármagnsins, fjármagnið skyldi öllu bjarga. Er það ekki þversögn að hlífa þeim greinum sem framleiddu því miður flesta af mestu óþurftarmönnum sem uppi hafa verið á Íslandi frá Sturlungaöld? Hvers vegna í ósköpunum koma stjórnvöld ekki auga á að vaxtarsproti okkar í framtíðinni er ekki síst í tækni- og raungreinum.

Í gærkvöldi var viðtal í Sjónvarpinu við framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Marorka.

Hver eru helstu vandamál Marorki?

Skortur á starfsmönnum, rímar það við að engir vilji fjölga starfsmönnum, allt sé í doða?

Nei. engan veginn. En eru stjórnvöld ekki að raða vitlaust í askana, eru það ekki einmitt starfskraftar þeirra sem afla sér menntunar í raungreinum sem sjáanlega er skortur á í dag?

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að við höfum mikla þörf fyrir hugverkahópinn og vissulega var það litill minnihluti úr þeim hópi sem reyndist rotin epli. En við höfum menntað mikinn fjölda t. d. viðskiptafræðinga sem eru að vinna mörg nytsamleg verk. En vorum við ekki farin að mennta of marga í hugverkagreinum? Er ekki kominn tími til að við skiljum þörfina fyrir tækni- og raungreinafólkið. er ekki í þeim falin ein af okkar auðlindum?

Ég ætla að vona að við lokafrágang Fjárlaga nái sá skilningur inn hjá Alþingi og stjórnvöldum að í tækni- og raungreinamenntun liggur einn okkar öflugasti sproti í baráttunni við að komast upp úr dýinu sem við mörrum í eftir Hrunið mikla.

 

 


Ríkisútvarpið er í tilvistarkreppu, þessi ómetanlega menningarstofnun fyrri ára

Þegar ég fæddist var Ríkisútvapið 4 ár. Síðan höfum við, ég og Ríkisútvarpið,  átt samfellda samleið og það hefur verið mér óemetanlegt. Ég ólst upp á menningarheimili sem hafði tónlist í hávegum, faðir minn átti orgel sem hann var að mestu hættur að spila á en elsti bróðir minn, Þorgeir, hafði tekið við, hann lærði hjá Kjartani frá, að ég held,  Stóra-Núpi, lærði að lesa og spila eftir nótum. Það var oft tekið lagið þegar góða gesti bar að garði.

En á seinni árum hefur mér orðið æ ljósara hve gífurleg menningarstofnun Ríkisútvarpið var á fyrstu ártugum sinnar tilvistar, ég vil segja ótvírætt fyrstu þrjá ártugina. Foreldrar mínir keyptu útvarpstæki um leið og RÚV tók til starfa. Minnisvert tæki sem samanstóð af hátalara, lampatæki, sýrurafhlöðu og stóru þurrbatteríi, allt þetta varð að vera til svo hljóð heyrist, úti var loftnet sem strengt var í staur mikinn nokkuð frá húsinu. Þurrbatteríið var keypt hjá verslun Friðriks í Þykkvabæ, en sýrugeymarnir voru 2, annar alltaf í hleðslu á Urriðafossi yfir í Árnessýslu.

Það var þessi menningarstofnun sem leiddi mig og mína kynslóð inn í undraheim tómlistarinnar, þar var ekki aðeins leikið á eitt orgel, þar hljómuðu öll hljóðfæri í stórum hljómsveitum. Ég fékk að kynnast Motsart og öllum stóru meisturunum, Stefán Íslandi söng perlurnar með þeim afleiðingum að í bernsku ákvað ég að verða óperusöngvari, af því varð þó ekki af skiljanlegum ástæðum. Útvarpssögurnar voru ógleymanlegar og svo komu laugardagsleikritin, Lárus Pálsson og allir hinir stórkostlegu leikararnir urðu heimilisvinir. Svo barnatímar Þorsteins Ö á sunnudögum, það þurfti mikið að ganga á til að draga mann frá tækinu þá. Bjarni Björnsson lék jólasveininn um hver jól og ég minnist þeirrar sorgar þegar sagt var frá því að hann væri dáínn. Auðvitað átti maður sem barn ekki að vita annað en þarna færi ekta jólasveinn en stundum gerði maður þeim eldri það til geðs að vera eitthvað heimskari og einfaldari en raunin var.

En ekki sleppa sér aðveg í "nostalgíunni". 

Allar stofnanir þurfa að fylgjast með í straumi tímans, aðlaga sig að breyttum veruleika. Og þar hefur RÚV brugðst eða ölu heldur stjórnmálmennirnir sem ráðskast hafa með þessa merku stofnun. Fyrir líklega u. þ. b. 25 árum var útvarps- og sjónvarpsrekstur gefinn frjáls. Því miður voru ekki allir þeir sem réðu örlögum RÚV með það á hreinu hvað þeir vildu. Í stað þess að halda fast í hið upprunaleg menningargildi RÚV var ákveðið að elta "frjálsu" stöðvarnar, vera sem mest eins og þær og vinna í harðri samkeppni. Þess vegna var RÁS2 sofnuð og löngu áður var búið að stofna Sjónvarpið, sjónvarpsstöð sem varð í harðri samkeppni við "frjálsu" stöðvarnar og skrapar auglýsingamarkaðinn sem ákafast. Efni sjónvarpsins er keimlíkt hinum "frjálsu", ameríst drasl áberandi. Þó má segja Sjónvarpinu það til hróss að hjá þeim slæðist með efni frá Evrópulöndum, stundum sæmiegt, stundum skelfilega lélegt (þýskar og franskar myndir margar slæmar).

En nú er RÚV að verða nánast óþolandi vegna yfirgengilegra íþróttafrétta. Vetrarleikarnir taka sinn toll en í gær tók steininn úr þegar boðað var að framundan væri heil syrpa af umfjöllun um löndin sem taka þátt í Heimsmeistarakeppni í knattspyrnu á sumri komandi. Meira að segja á besta útsendingartíma. Þá er ótalið að 10 - 20% af hvejum fréttatíma kl 19:00 fer í íþróttafréttir. Mér finnst sjálfsagt að flytja fréttir af öllu því kraftmikla unga íþróttafólki hérlendis sem er í öllum mögulegum íþróttgreinum.

En mér er spurn: Hefur það verið kannað hve stór hluti sjáenda og hlustenda RÚV er áfjáður í að sjá amerískan körfubolta, amerískan "fótbolta" og síðan fréttir frá nánast hverju golfmóti vestanhafs? Þurfum við að eltast við alla knattspyrnuleiki í Evrópu?

Og þá kemur  spurning: Hve mikill kostnaður fylgir því að stofna sérstaka íþróttarás. Þar geta hinir "forföllnu" horft og séð meðan við hin veljum okkur annað, þar gætu verið fréttir frá yfirstandandi Vetrarólympíuleikum. Hve margir sitja fram eftir nótti til að sjá hægvirka og langdregna keppni skíðaíþrótta, hefur það verið kannað?

En að kjarna málsins. Hvaða breytingar vil ég, sem þessar línur rita, sjá á Ríkisútvarpinu?

1. Leggja niður eða selja RÁS2. Allt sem þar kemur fram er lítill vandi að finna á öðrum stöðvum.

2. Efla RÁS1. Þó ekki þannig að lengja dagskrána. Hana mætti gera fjölbreytari og að hluta léttari, þó verðum við að vera nokkuð íhaldsöm þarna, gömlu gildin eiga að halda sér.

3. Efla landhlutastöðvarnar, efla og auka heimaunnið efni þeirra, hleypa þeim markvisst inn í RÁS1 svo hlustendur fylgist betur með hvað er að garast hjá samborgurum sem víðast.

4. Taka RÚV alfarið af auglýsingamarkaði,  landshlutastöðvum ættu þó að eiga möguleika á tilkynningum og auglýsingum sem tæplaga komast til viðkomandi frá "frjálsu" stöðvunum. Þetta gæfi öðrum stöðvum auknar tekjun og þær greiði RÚV ákveðinn hluta af þeim tekjum. Þarna er vandfundið meðalhófið en það er hægt að finna.

5. Nefskattur til RÚV afnuminn, stofnunin færi alfarið á fjárlög.

6. Sjónvarpinu yrði sett ný stefnuskrá og raunar RÚV í held. Sjónvarpið hafi ákveðnar skyldur til að efla innlenda dagskrárgerð og ekki síst styðja íslenska kvikmyndagerð. Sjónvarpið hafi skyldur til að kynna menningu sem víðast að t. d. með því að kynna hvað er að gerast í kvikmyndagerð í fjarlægum löndur. Þá á Sjónvarpið að efla margskonar kynnigar á mannlífi, náttúru og þróun í heiminum, reka öfluga og heiðarlega fréttastofu, flytja fréttaskýringar í hæsta gæðaflokki 

PS: Aldrei talsetja kvikmyndir fyrir  fullorðna. Það er hluti af því að kynnast örum menningarheimum að hlusta á framandi tungutak. Textun á að nægja 

 

 


Climategate, hvernig komst upp um svindl vísindamanna IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna?

Öll þau býsn af tölvupósti frá CRU, Climate Research Unit sem er í University of East Anglia hafa hangið eins og óveðursský yfir sirkusnum í Kaupmannahöfn. Í þeim pósti sést það svart á hvítu að "vísindamennirnir" hafa haft víðtækt samráð um að hagræða staðreyndum svo þær féllu betur að þeirri niðurstöðu sem ætlunin var að fram yrði sett. Enda stendur það í stofnskrá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna að sýnt skuli fram á hækkandi hita á jörðinni!

Það var aldrei ætlunin að sýna fram á staðreyndir eða það sem sannast reynist!

picture_1_942149.pngÞessi tölvuleki hefur þó haft það í för með sér að Phil Jones, forstjóri CRU, hefur vikið úr stöðu sinni og opinberar rannsóknir eru hafnar austan hafs og vestan á vinnubrögðum "vísindamannanna".

En hvar birtust öll þessi gögn, allir þessir tölvupóstur?

Auðvitað á ólíklegasta stað, í borginni Tomsk austur í Úralfjöllum Rússlands. Þar með var því slegið föstu að þarna hefði verið rússneskur "hakkari " á ferð. Rússar segjast hafa kannað málið og þetta hafi einfaldlega ruðst í tölvuverið í Tomsk. Sumir hafa verið með þá kenningu á lofti að þarna hafi "whistleblower" verið að verki, innanbúðarmaður hjá CRU. En nú er komin fram ný kenning. Fjölmargir ekta vísindamenn hafa undanfarin ár  krafið Phil Jones um að fá að sjá þau gögn sem hlaðist hafa upp hjá CRU og eru undirstaða "heimsendaspánna". Phil Jones hefur ætíð neitað því að efasemdarmenn fái nokkuð að sjá af grundvallargögnum. Þrýstingurinn á hann hefur þó verið að aukast og hafa menn jafnvel farið af stað með því að snúa sér til dómstóla. Svo mikill var þrýstingurinn að Phil Jones hafi verið orðinn lafhræddur um að hann yrði dæmdur til að hleypa "úlfunum" inn. Þess vegna hafi hann tekið á ákvörðun að eyða öllum gögnum og kenna um tölvuhruni. Allur póstur var pressaður" svo hægt væri að senda hann á felustað undir nafninu tom.cru.

En þá urðu honum á mistök, punkturinn lenti á röngum stað og heimilisfangið verður tomc.ru, sem sagt tölvuverið í Tomsk í Úralfjöllum Rúslands.  

Og þangað ruddist öll runan og eitt mesta hneyksli í vísindaheiminum var komið fyrir allra augu!


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband