Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Hverjum datt upphaflega í hug sú reginvitleysa að brenna sorp?

Lengi vel hélt ég að Ísfirðingar væru þeir einu hér á landi sem settu upp og ráku SORPBRENNSLU. En þar fór ég villur vegar; sorpbrennslur eru miklu fleiri. Meira að segja er sorpbrennslan á Kirkjubæjarklaustri nánast sambyggð barnaskólanum, enda er varminn frá henni notaður til að hita upp skólahúsið og mun það vera eina sorpbrennslan hérlendis sem hirðir um að nýta þann mikla varma sem verður til við brennsluna.

En hugmyndin að brenna sorp er og hefur ætíð verið algjörlega galin. Svo það ætti engum með sæmilegt vit í hausnum að koma á óvart að sorpbrennsla getur aldrei orðið annað en mikill mengunarvaldur, svo hroðalegur mengunarvaldur að það hefur verið eyðilagður búskapur vestur í Skutulsfirði og nú skal hefja átak til að kanna heilsufar þeirra sem búa í nágrenni eða starfa við sorpbrennslurnar.

Það er hægt að eyða eða vinna sorp á margan annan hátt en að brenna því og þar er auðvitað nærtækast að urða það. 

Það er athyglisvert að langsamlegasta stærsta sorpstöð landsins að magni, SORPA í Reykjavík, sem þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu og vel það, hefur aldrei gert minnstu tilraunir til sorpbrennslu. Hins vegar er þar hafið framleiðsla á metangasi sem að sjálfsögðu kemur ekki til greina þar sem sorpbrennslur eru.

Það er vonandi að öllum SORPBRENNSLUSTÖÐVUM landsins verið lokað sem allra fyrst, við næstu áramót verða þær aðeins til í minningunni sem heimskra mann gjörð.

Í framtíðinni verður að gera átak um allt land að allt sorp verði flokkað þar sem það verður til hvort sem það er á heimilum eða fyrirtækjum. Þá verður auðveldara að beina hverjum flokki sorps í réttan farveg og örugglega engu í BRENNSLU.


Hæstiréttur ógildir kosningar til Stjórnlagaþings með pólitískum dómi

Þetta eru mikil tíðindi og koma vissulega á óvart. Hér hefur Hæstiréttur kveðið upp pólitískan dóm eins og hann sé pantaður úr Valhöll enda ríkir þar mikil Þórðargleði. Þar fer fremstur hinn nýi varaformaður Sjálfstæðisflokksins Ólöf Nordal. Reynsluleysi hennar á hinum pólitíska vettvangi kemur æ meir í ljós og engu líkara en að hennar eina og sanna fyrirmynd sé reyndar ekki í Sjálfstæðisflokknum, Vigdís Hauksdóttir heitir fyrirmyndin sem er búin að slá öll met í ofstæki og innihaldslausum glamuryrðum.

En hvernig dirfist ég að gagnrýna Hæstarétt? Er hann ekki yfir alla gagnrýni hafinn?

Því hafna ég alfarið og endurtek: dómur Hæstaréttar um ógildingu kosninga til Stjórnlagaþings er pólitískur dómur, til þess gerður að styðja íslenskan stjórnmálaflokk, Sjálfstæðisflokkinn, sem hefur barist með öllum meðulum gegn Stjórnlagaþinginu og verkefni þess, að skipan yfirstjórnanda flokksins Davíðs Oddssonar ritstjóra Morgunblaðsins, enda hefur Morgunblaðinu verið stanslaust beitt gegn þessu merka átaki að kjósa til Stjórnlagaþing.

En nú er líklega farið að fjúka í marga (vonandi) og ég skal ekki víkjast undan því að rökstyðja það að dómur Hæstaréttar sé fráleitur og hlutdrægur. Dómstólar eiga að vinna eftir gildandi lögum á tvennan hátt: a) gildandi lagabókstaf b) anda gildandi laga. Þarna er sá gullni meðalvegur sem hver dómstóll verður að feta. Í þessum dómi Hæstaréttar er hver smuga fundin til að fara eftir lagabókstafnum en ekki í neinu hirt um að fara eftir anda laganna. Reyndar hefur sá merki lagaprófessor Eiríkur Tómasson bent á (um leið og hann dregur dóm Hæstaréttar í efa) að ef skírskotunin í lög um Alþingiskosningar hefðu ekki verið í lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings hefði Hæstiréttur ekki getað notað þær smugur sem hann fann til að ógilda lögin.

Þá hefði ekki verið hægt að gera athugasemd við pappaveggina, ekki við kjörseðlana, ekki við kjörkassana eða annað sem Hæstiréttur tíndi til.

Núverandi dómarar við Hæstarétt eru nánast alfarið afsprengi Sjálfstæðisflokksins og skipaðir af dómsmálaráðherrum Sjálfstæðisflokksins. Sá lærdómur af þessum hlutdræga dómi er ekki sístur sá að skipun þeirra sem eru þriðja valdið, dómara, verður að breyta og það strax.  

Og mörgum Sjálfstæðismönnum rennur blóðið til skyldunnar og réttlæta þennan fráleita dóm og réttlæta ekki síður baráttu Sjálfstæðisflokksins gegn kjöri Sjórnlagaþings og að það fái það verkefni að semja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Í Féttablaðinu í dag (laugard. 29. jan) horfir Þorsteinn Pálsson af sínum Kögunarhóli sem jafnan og þar er þessi makalausa setning:

Sjálfstæðisflokkurinn vildi hins vegar að Alþingi risi undir þessari skyldu sjálft. Það hefði getað tryggt skjótvirkari framgang þeirra stjórnarskrárbreytinga sem kallað er eftir.

Hvar hefur Þorsteinn Pálsson alið manninn eftir að hann sleit barnsskónum? Veit fyrrverandi forsætisráðherra ekki að þetta hefur verið verkefni Aþingis í nær 56 ár eða allt frá því lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944?

Og hver er árangurinn, það ætti Þorsteinn Pálsson að vita mæta vel, árangurinn er enginn! Þrátt fyrir að starfað hafi árum saman Stjórnarskrárnefndir kjörnar af Alþingi, oftast nær undir formennsku Sjálfstæðismanna.

Kosningarnar til að velja fulltrúa á Stjórnlagaþinng var nýjung, það var engan veginn hægt að styðjast við þau lög um kosningar sem gilda í landinu. Þess vegna voru sett sérstök lög um þessar kosningar og þar voru gerð mistök, að vísa í lög um Alþingiskosningar. Enginn hefur efað að kosningarnar fór rétt og skipulega fram, engin efar að þeir 25 fulltrúar sem kjörnir voru voru rétt kjörnir, engum hefur hugkvæmst að eitthvað óheiðarlegt hafi verið við kosningarnar.

Þes vegna átti Sjálfstæðsiflokkurin enga aðra leið færa til að eyðileggja þetta merka framtak en kalla eftir flokkshollustu þeirra sem hann hefur skipað í æðsta dómstól þjóðarinnar, Hæstarétt.


Við verðum að skapa skörp skil á milli Alþingis (löggjafarvaldsins) og Ríkistjórnar (framkvæmdavaldsins)

Nú þegar nær dregur kosningum til Stjórnlagaþings er ekki úr vegi að vekja athygli í stuttum pistlum á hver eru þau meginmál sem ég vil leggja áherslu á:

Viljum við halda í þingræði sem ríkjandi stjórnarform? Þá er ekki úr vegi að rifja upp örstutt hvað er átt við með þingræði.

Við kjóum fulltrúa á Alþingi, alþingismenn. Oftast skipa þeir sér í stjórnmálaflokka og eftir kosningar hefjast samningar milli flokka til að mynda Ríkisstjórn. Sú reglu hefur verið nær alsráðandi að einungis alþingismenn verða ráðherrar en þeir sitja samt sem áður áfram sem þingmenn.

Þetta er þingræði en þá kemur spurningin: Er þetta það eina sem kemur til greina sem stjórnskipun Íslands, erum við að skaða lýðræðið með því að hrófla við þessu?

Nei þetta er ekkert "heilagt" fyrirkomulag og það þarf síður en svo að skaða lýðræðið þó við þingræðinu sé hróflað.

Þetta er mín skoðun í stuttu máli:

Ráðherrar eiga ekki að sitja á Alþingi. Það á ekki að vera lögmál að það verði umfram allt þingmenn sem verða ráðherrar. Þingmenn sem þó verða ráðherrar segi af sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á Alþingi en hafa rétt til að koma á þingfundi til að mæla fyrir lagafrumvörpum en hafa ekki atkvæðisrétt. Einstakar þingnefndir hafa rétt til að kalla ráðherra á nefndarfundi til að nokkurs konar yfirheyrslu. Þarna er skilið á milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds.

Með þessu er endir bundinn á innihaldslaust þras á milli ráðherra og þingmanna svo sem með fyrirspurnum einkum frá þingmönnum í stjórnarandstöðu. Þegar ráðherrar fá fyrirspurnir á borð við "hvernig var brugðist við heillaóskum Hilary Clinton utanríkisráðherra Bandaríkjanna sl. 17. júní" eða "hvernig eru minkaveiðar skipulagar nú" þá hljóta allir að sjá að það verður að binda enda á þetta rugl sem framar öðru hefur stórskemmt orðstír Alþingis.

Er hægt að auka áhrif  kjósenda á hvað Ríkisstjórn þjóðin fær efir kosningar? Er hægt að búa við þetta kerfi að einhver ríkisstjórn taki við völdum eftir kosningarog þá sambræðsla flokka sem eru búnir að bræða sín stefnumál, sem fólkið kaus, í einhvern allt annan bræðing en fram var settur fyrir kosningar?

Fram hafa komið hugmyndir, fyrst settar fram af Vilmundi Gylfasyni, um að forsætisráðherra yrði kosinn beinni kosningu og hann veldi síðan og skipaði ráðherra. Auðvitað yrði hver og einn sem býður sig fram til forsætisráðherra að setja fram skýra stefnu fyrir framkvæmdavaldið og það yrðu að vera fleiri umferðir kosninga þar til forsætisráðherra yrði kjörinn af meirihluta kjósenda.

Ætti slík ríkisstjórn að vera bundin af því að fá meirihluta stuðning á Alþingi?

Þetta kann allt að virka sem útópía á marga. Ég held samt að þarna sé verið að reifa eitt mikilvægasta mál sem Stjórnlagaþing mun fjalla um:

Aðskilnaður Alþingis (löggjafans) og Ríkisstjórnar (framkvæmdavaldsins) er algjör nauðsyn. Sú stjórnskipan sem nú er við lýði hefur gengið sér til húðar og haft í för með sér ýmiskonar subbuskap, jafnvel spillingu.

Þegar þessi mál hafa verið til lykta leidd er tímabært að ræða stöðu Forsetaembættisins.

Ætlum við að hala í það embætti og hvert á þá að vera hlutverk þess?


Eiga allar auðlindir, sem tilheyra Íslandi, að vera þjóðareign?

Fáir málaflokkar sem auðlindamálin eru af mörgum drifin áfram af tilfinningum frekar en skynsemi. Fyrir það fyrsta vil ég benda á að þegar rætt er um auðlindir á Íslandi er nær eingöngu rætt um auðlindir á landi og í landi.
Get ég ekki skilyrðislaust skrifað upp á að allar auðlindir á og í landi séu þjóðareign?

Nei, það get ég ekki.

Og hvers vegna spyrja eflaust margir undrandi?
Vegna þess að auðlindir á landi og í landi er mjög flókið mál, miklu flóknara mál en þeir sem drifnir eru áfram af tilfinningum einum átta sig á.
Það eru margvíslegar auðlindir á og í landi sem eru í einkaeign og ekki tel ég að við því eigi að hrófla.
Förum austur í Skaftafellssýslur. Þar hafa margir bændur virkjað bæjarlækinn og svo er reyndar víðar. Á Snæfellsnesi hafa verið byggðar einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, sem framleiða mun meira rafmagn en eigandinn hefur þörf fyrir. Þar er umframrafmagnið einfaldlega selt inn á landsdreifikerfið, viljum við þjóðnýta litlu virkjanirnar í bæjarlækjunum eða þessar litlu en þó stærri vatnsaflsvirkjanir?
Ekki er ég tilbúinn að vinna að því.
Ein mikil l auðlind eru fallvötn Íslands með eru í raun gjöful fiskimið. Þar hefur verið staðið vel að þróun mála og þess vandlega gætt að ekki sé gengið á stofnana og ekki nóg með það; mikil ræktun á sér stað víðast hvar þar sem þörf er á.
Vil ég þjóðnýta allar veiðiár landsins til að færa þær í þjóðareign?
Mitt svar er afgerandi nei.
Öll orkuver landsins, bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég er eindregið fylgjandi því að öll stærstu orkuver okkar séu í opinberri eigu svo sem er í dag, ég mæli sterkt á móti því að þau verði einkavædd þó ekkert mæli á móti því að þar geti einkaaðilar komið að fjármögnun, eins og ég mæli gegn algjörri þjóðnýtingu auðlinda hversu smár sem þær eru.
Ég ætla að lokum að biðja alla að ræða þessi mál af yfirvegum, án upphrópana byggðum á tilfinningum eingöngu, sem er ágætt að hafa með í bland. En rökhyggja og skynsemi þarf þar einnig að koma að.
Þá vil ég ekki síður biðja alla að gera greinarmun á auðlindum og nýtingu auðlinda. Þessu hefur því miður verið ruglað saman endalaust í opinberri umræðu, þar skulum við gera skil á málum, auðlind er eitt, nýting hennar annað.
Hér hef ég eingöngu rætt um auðlindir í og á landi.
Ég ætla að ræða um auðlindir hafsins í annarri grein.


Hvernig er innivistin á þínu heimili?

Íslendingar búa flestir í góðum húsum, með góðum hitakerfum og flestir á svæðum þar sem hitaorkan er frekar ódýr. Það má fullyrða það jafnvel eftir síðustu hækkanir Orkuveitu Reykjavíkur og svo virðist sem Hitaveitur víðar ætli að sigla í kjölfarið. Einhversstaðar sá ég að Hitaveita Árborgar ætli að hækka heita vatnið hressilega.

En þetta er nógu langur inngangur því það tók sig upp gömul árátta, sú að koma með svolítinn pistil um góðar hitavenjur sem Íslendingar á hitaveitusvæðum hafa ekki vanið sig á vegna þess hve heita vatnið hefur verið ódýrt.

Tvennt er nauðsynlegt að hafa í huga til að manni líði vel innandyra og það er ekki vanþörf á að fara nokkrum orðum um það þegar kuldaboli er farin að sýna klærnar. 

a) Það er jafn slæmt að búa við og of mikinn hita eins og of lítinn. Æskilegur  innihiti er 20 -21°C, það finnst líklega flestum of lágt, en er ekki betra að halda lægra hitastigi og fara þá bara í peysu? Algengt hitastig á hitaveitusvæðum er 23 - 25°C. Við slíkan stöðugan hita líður engum vel og eftir að heita vatnið hækkaði í verði er rétt að benda húseigendum á að hann lækkar hitareikninginn um 5% fyrir hverja hitagráðu (°C) honum tekst að lækka hitann stöðugt.

b) Rakastig innanhúss er nokkuð sem nánast enginn hirðir um eða gerir sér ekki grein fyrir að sé eitthvað sem er mikilægt. Núna þegar frost er farið að sýna sig má búast við að rakastigið falli innanhúss. Rakastigið á ekki að vera lægra en 40%, mætti vera 50%, en víða er það um 30% og þaðan af lægra.

Tvennt ætti að vera til á hverju heimili 1) hitamælir 2) rakamælir. Ef þessi mælar sýna þér að hitinn er 25°C og rakstigið 28% þá má ætla að þér líði ekki nógu vel. Ef hitinn er 21°C og rakastigið 40% þá er öruggt að þér líður mun betur.

En hvernig á að halda stöðugu hitastigi og æskilega miklum raka?

Hitastillar á hitakerfinu (ofnakerfi/gólfhiti) eiga að sjá um rétt hitastig en þá verða hitakerfin að sjálfsögðu að vera rétt stillt. Það er ekki nóg að stilla hita á hitastilli (termóstati), það þarf einnig að stilla rennslið um kerfið.

Sértu með ofnakerfi og villt auka rakan á einfaldan hátt þá er gamla húsráðið að setja ílát með vatni á heita ofnana, það er einnig hægt sérstaklega í opnum eldhúsum, að sjóða vatn í potti. En öruggast er auðvitað að kaupa rakatæki, þau geta haldið rakanum hæfilegum og jöfnum.


Athyglisvert viðtal Þórhalls við Björk í Návígi í gærkvöldi

Ég játa strax; viðtalið kom mér mjög á óvart, jákvætt á óvart. Björk sýndi og sannaði að hún er ekki í hópi glamrara, hún hefur greinilega kynnt sér mál auðlindanna og orkugeirans á Íslandi mjög vel.

Það er vissulega hægt að þrasa endalaust um kaup Magma Energy á hluta af HS-Orku á Suðurnesjum. En þær deilur sem þar hafa risið koma ekki síst af því að við höfum ekki markað okkur stefnu í auðlinda- og orkumálum, það er kjarni málsins. Ég held raunar að við ættum að hætta að þrefa um Magma málið og láta það ná fram að ganga, allt annað er rugl. En sé okkur það ekki að skapi eigum við umfram allt að marka stefnuna til framtíðar það vel að við í framtíðinni verðum að finna okkur annað til að þrasa um. En stefnumörkunin er lífsnauðsyn og þá ákalla ég Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um að ganga hratt til verks, ég trúi henni og treysti til forystu.

Þrennt gladdi mig sérstaklega sem Björk sagði í gær:

Hún benti á það sem og ég hef bent á áður en fengið litla athygli; nýting jarðgufu til orkuframleiðslu er allt annað mál en nýting vatnsafls. Á mínu bloggi er þessi pistill:

Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind

Mér til nokkurrar furðu hef ég lítil viðbrögð fengið. En Björg kom réttilega inn á að við gætur ekki borað að vild og sótt endalaust gufu, jarðhitasvæðin eru viðkvæm en nóg um það; þeir sem ekki hafa lesið þennan pistil minn geta blaðað aftur til 8. okt. og þar er hann.

Í annan stað nefndi hún fiskinn í sjónum sem mér finnst fá allt of litla athygli sem auðlind. Auðlindaumræðan hefur eingöngu snúist um auðlindir á og í  landi, þess vegna verður þessi mikli hvellur út af Magma Energy, allt virðist ætla af göflunum að ganga vegna eignarhalds einkaaðila, ekki á auðlindinni heldur á nýtingu hennar. En þeir sem hæst láta þar virðast eingöngu taka við sér ef útlendingar koma með eignaraðild, en láta sér í léttu rúmi liggja þó íslenskir ríkisborgarar sölsi undir sig auðlindir okkar með dyggum stuðningi stjórnmálaafla. Mér liggur við að bera þetta saman við það að við kipptum okkur ekki upp við það að menn færu um rænandi og ruplandi einungis ef þar færu Íslendingar en legðum allt kapp á að góma slíka kóna ef þeir væru útlendingar.

Í þriðja lagi vil ég nefna þá róttæku hugmynd sem Björk setti fram; að breyta stálgrindaskálunum tveimur, sem búið er að reisa fyrir álver, í ylræktarver. Þarna mætist það sem ég hef lagt áherslu á; að ef við öflum gufu til orkuframleiðslu getum við ekki nýtt hana af viti og framsýni nema láta hana fyrst framleiða rafmagn og þar á eftir heitt vatn eða áframhaldandi sem gufu líkt og gert er á Nesjavöllum, Svartsengi og gert verður í Hellisheiðarvirkjun.

Ég benti á Kröfluvirkjun; hversvegna ekki ylræktarver þar?

 

 


Ríkissjóður á hundruðir milljarða króna hjá Lífeyrissjóðum landsins, fé sem þeir geta braskað með að vild

Einn ágætur bloggari, líklega einn af þeim gleggri á tölur og peningagildi, velti upp mörgum hliðum þess að lina skuldabyrði almennings sem er ekki einfalt mál. M. a. kom framhjá honum að niðurfærsla fasteignalána gæti orðið Lífeyrissjóðum landsins þung byrði, svo þung að Ríkissjóður yrði jafnvel að hlaupa undir bagga og veita fé í Lífeyrissjóðina. Hann benti jafnframt á að Ríkissjóður ætti að fá teygjuband á þessi fjárframlög, greiða þau á allt að tíu árum.

En er ekki eitt að gleymast? Í allri skattheimtu er það regla að skatt skal greiða um leið og skattstofn verður til, þannig er það bæði um tekjuskatt og fjármagnsskatt og að ég held um alla aðra skatta. 

Nei, það er ein undantekning. Lífeyrisgreiðslur í Lífeyrissjóði eiga að bera skatt en sá skattur er ekki tekin af stofninum um leið og hann verður til. Sá sem fær greiðsluna til varðveislu og ávöxtunar fær einnig að halda skattgreiðslunum árum saman sér til ábata, líklega geta þessir skattpeningar verið í umferð Lífeyrisjóðanna í ártugi, eru fimmtán tugir ára ekki mögulegir?

Ef svo fer að Lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeim afföllum sem skuldaniðurfelling hefur í för með sér þá þarf Ríkissjóður ekki að leggja þeim til  fjármagn beint. Það gæti hins vegar verið í formi þess að Ríkissjóður gæfi eitthvað eftir af hinni miklu skattaskuld Lífeyrissjóðanna, sá sem á stórfé hjá öðrum aðilum getur tæpast þurft að leggja þeim til fé þó tímabundnir erfiðleikar steðji að.


KJördæmaskipun landsins hefur alltaf verið vandræðabarn

Sá sem er í framboði til Stjórnlagaþings er að sjálfsögðu orðinn æði upptekinn að velta fyrir sé málefninu sem bíður; að setja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Eitt af því sem þar bíður að fást við er vægi atkvæða sem oft hefur verið æði misjafnt. Aldrei mun það þó hafa verið jafn slæmt og vægið ójafnara en á 4. ártug síðustu aldar. Svo langt gekk það að Framsóknarflokkurinn bar ægihjálm yfir aðra flokka og atkvæðafylgið  ekki í neinu samræmi við þingmannafjölda flokksins. Margar tilraunir hafa verið gerðar til jöfnunar á vægi atkvæða með breytingum á kjördæmum en oftast riðlast það jafnvægi fljótlega vegna búferlaflutninga.

Það virðist vera nokkuð almenn skoðun landsmanna að eina ráðið til jöfnunar sé að gera Ísland að einu kjördæmi. Það er vissulega rétt að þá hefur náðst algjör jöfnuður.

En hefur Ísland eitt kjördæmi  engar neikvæðar hliðar?

Ég hef alla tíð verið nokkuð gagnrýninn á landið sem eitt kjördæmi og óttast það neikvæða sem fylgir. Það sem ég óttast mest er að með því eflist flokksræðið og finnst víst mörgum að það sé nægilegt fyrir. Við þetta fyrirkomulag, landið eitt kjördæmi, býður hver flokkur fram aðeins einn lista hvort sem það eru gömlu flokkarnir, fjórflokkurinn margumtalaði, eða ef til vill mergð nýrra flokka sem bjóða fram;  framboðslistar yrðu settir saman í höfuðstöðvum flokkanna í Reykjavík.

Yrði þetta ekki lyftistöng fyrir flokksræðið?

Þrátt fyrir Ísland eitt kjördæmi er ekki loku skotið fyrir það að til verði sérframboð og þá einkum á landbyggðinni. Þeir listar gilda að sjálfsögðu sem listar bornir fram á landinu í heild. En á þetta má minnast, Ísland eitt kjördæmi er ekki trygging fyrir að ekki verði landshluta togstreita.

En hvernig er hægt að tryggja að kjósandinn geti jafnvel kosið einstaklinga? Verða þeir þá að vara frambjóðendur á flokkslistum?

Er það gerlegt að einstaklingar geti einnig boðið sig fram til Alþingis í þessu stóra kjördæmi. Íslandi öllu?


Ánægjuleg og fróðleg heimsókn í Háskólann í Reykjavík

Það fyrsta sem mætir manni við komuna í ný húsakynni Háskólans í Reykjavík er gott skipulag bygginganna, ég tala um þau í fleirtölu því þannig er skólinn uppbyggður, sjálfstæðar álmur út frá sterkri miðju, Sólinni.

Ég fór í heimsókn í HR laugard. 31. okt sl. með því gamla fornfræga félagi, Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Þar tók á móti okkur Gunnar Guðni Tómasson sem ég held að ég megi titla sem deildarstjóra tækni- og raungreina ásamt meðkennara sínum. Það kom ýmislegt á óvart. Háskólinn Í Reykjavík er í rauninni afsprengi Verslunarskólans og þar mætti einnig nefna Viðskiptaráð sem er kannski ekki í dag uppáhald allra. Ég hef alltaf litið á HR fyrst og fremst sem háskóla sem sinnir viðskiptalífinu, ég hélt áður en ég kom í þessa heimsókn að þar væru einkum menntaðir viðskiptafræðingar, endurskoðendur og hagfræðingar. En þarna kom annað í ljós og kannski hefði ég átt að muna eftir því að ein af undurstöðunum, sem skólinn byggði strax á við stofnun, var þáverandi Tækniskóli. 

En hvað kom mest á óvart?

Að öflugasta deild skólans er tækni- og raungreinadeild og þar er boðið nám sem aldraður maður kynnti sér opinmynntur, aldraður maður sem reyndi að finna sér frekara nám fyrir meira en hálfri öld eftir sveinspróf í pípulögnum en það var ekkert slíkt nám í boði á Íslandi þá.

Ég sannfærðist um það að enginn háskóli á Íslandi leggur jafn ríka áherslu á tækni- og raungreinar og Háskólinn í Reykjavík. Ég nefni fyrst Iðnfræðimenntun og að sjálfsögðu varð aldinn pípulagningamaður með 52 áragamalt sveinspróf stoltur og glaður þegar í ljós kom að HR gefur engan afslátt frá því að þeir sem hefja iðnfræðinám séu með sveinspróf í fögum sem eru undirstöður þeirrar menntunar. Þó varð ég fyrst undrandi þegar Gunnar Guðni kynnti okkur of sýndi tæknibúnað skólans, vinnustofur þar sem nemendur geta sannreynt það sem hugir þeirra hafa skapað og er tilbúið á skjánum. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt því það þekkja flestir að góð hugmynd eða hönnun fær ekki eldskírn sína fyrr en hún er fullsköpuð og vinnsluhæf.

En svo kom gamla íslenska áráttan í ljós þegar okkur var kynntur þessi alltumlykjandi niðurskurður sem er afleiðingin af gersamlega  brjáluðu ástandi sem kollvelti fjármálum þjóðarinnar á haustdögum 2008. Það verða víst fáar stofnanir eða skólar sem ekki verða að taka á sig skerðingu. En Háskólanum í Reykjavík er skammtaður niðurskurðurinn, hann kemur ekki í einni og sömu skál heldur er rækilega búið að skammta í askana af stjórnvöldum.

Og úr hvaða aski skyldi mest vera tekið, svo mikið að það glittir í botn?

Gamla áráttan að taka mest af tækni- og raungreinum, þessum myndarlegasta vaxtasprota Háskólans í Reykjavík.

Ég er hér með þessum pistli mínum að halda áfram umfjöllun minni um auðlindir Íslands. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ein helsta auðlindin er hugarorkan, hana verðum við að rækta. Við höfum orðið fyrir miklu áfalli af völdum þeirra sem menntuðu sig og tóku sæti við, að þeir héldu, við allsnægtaborð fjármagnsins, fjármagnið skyldi öllu bjarga. Er það ekki þversögn að hlífa þeim greinum sem framleiddu því miður flesta af mestu óþurftarmönnum sem uppi hafa verið á Íslandi frá Sturlungaöld? Hvers vegna í ósköpunum koma stjórnvöld ekki auga á að vaxtarsproti okkar í framtíðinni er ekki síst í tækni- og raungreinum.

Í gærkvöldi var viðtal í Sjónvarpinu við framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Marorka.

Hver eru helstu vandamál Marorki?

Skortur á starfsmönnum, rímar það við að engir vilji fjölga starfsmönnum, allt sé í doða?

Nei. engan veginn. En eru stjórnvöld ekki að raða vitlaust í askana, eru það ekki einmitt starfskraftar þeirra sem afla sér menntunar í raungreinum sem sjáanlega er skortur á í dag?

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að við höfum mikla þörf fyrir hugverkahópinn og vissulega var það litill minnihluti úr þeim hópi sem reyndist rotin epli. En við höfum menntað mikinn fjölda t. d. viðskiptafræðinga sem eru að vinna mörg nytsamleg verk. En vorum við ekki farin að mennta of marga í hugverkagreinum? Er ekki kominn tími til að við skiljum þörfina fyrir tækni- og raungreinafólkið. er ekki í þeim falin ein af okkar auðlindum?

Ég ætla að vona að við lokafrágang Fjárlaga nái sá skilningur inn hjá Alþingi og stjórnvöldum að í tækni- og raungreinamenntun liggur einn okkar öflugasti sproti í baráttunni við að komast upp úr dýinu sem við mörrum í eftir Hrunið mikla.

 

 


Stefnumið vegna Stjórnlagaþings

 @font-face { font-family: "Times New Roman"; }@font-face { font-family: "Courier New"; }p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal { margin: 0cm 0cm 0.0001pt; font-size: 12pt; font-family: "Times New Roman"; }table.MsoNormalTable { font-size: 10pt; font-family: "Times New Roman"; }div.Section1 { page: Section1; }ol { margin-bottom: 0cm; }ul { margin-bottom: 0cm

Þar sem ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings tel ég rétt að setja fram mín sjónarmið, hvernig ég tel rétt að starfa ef ég næði kjöri og hver eru mín helstu stefnumið:

  • Ég vil taka sæti á Stjórnlagaþingi með opnum huga, þó ég sé búinn að setja mér markmið fer ég á þingið tilbúinn til að hlusta á aðra þingfulltrúa. Þeir sem þar taka sæti mega engan veginn falla í sömu gryfju og Alþingi er í; á Stjórnlagaþingi verður að ræða mál af yfirvegun, með rökum og virðingu fyrir öðrum fulltrúum og sjónarmiðum þeirra.
  • Ég hef áður lýst því að ég hef miklar efasemdir um að gera landið að einu kjördæmi. Ekki verður nær komist algjöru jafnræði í vægi atkvæða, það viðurkenni ég. En með þeirri gjörð óttast ég að flokksræðið aukist, framboðslistar verði ákveðnir í höfuðstöðvum flokka í Reykjavík, þetta gæti minnkað vægi byggða utan höfuðborgarsvæðisins til áhrifa og almennings almennt..
  • Núverandi kjördæmaskipan hefur sýnt nokkuð hvað væri í vændum með landinu sem einu kjördæmi. Þessi stóru kjördæmi hafa dregið fram galla vegna stærðar sinnar.
  • Vissulega mundi það draga úr kjördæmapoti, þingmenn falla oft í freistingu atkvæðapots og vinsældaleitar eins og sjá má um dæmi þegar rætt hefur verið um hinn mikla niðurskurð í heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni.
  • Einmenningskjördæmi eru eflaust þau óréttlátustu sem finnast, en þar er einn kostur; hver frambjóðandi verður að standa undir sjálfum sér, hefur ekki lista til að fljóta með eða meðframbjóðendur til að skýla sér.
  • Mikil krafa hefur verið uppi um meiri áhrif hvers kjósanda á hverjir veljast til framboðs og forystu. Ein hugmynd um slíkt ef landið verur gert að einu kjördæmi: Frambjóðendur mega skipa sér á lista þar sem kjósendur geta raðað í sæti á listanum upp á nýtt en jafnframt geta einstaklingar boðið sig fram á eigin spýtur jafnframt því að lýsa yfir stuðningi við flokka eða verið alfarið óháðir en með skýr markmið.
  • Skýra þarf verk- og valdsvið hinna þriggja stoða lýðveldisins, löggjafarvalds (Alþingi) framkvæmdavald (Ríkisstjórn) og dómsvalds (Dómstólar). Ég tel mikla þörf á að fá fram betri aðskilnað sérstaklega á löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi.
  • Við höfum alla tíð frá því að við fengum íslenskan ráðherra búsettan á Íslandi búið við þingræðisstjórn. Hefur það gefist vel eða er það sjálfgefið að það sé það sem við viljum í framtíðinni? Hvernig hefur þetta skipulag gefist? Eitt af því neikvæðasta við þingbundna ríkisstjórn er að kjósandinn veitt ekkert hvaða Ríkisstjórn hann er að kjósa í Alþingiskosningum, hann hefur ekkert að segja um það hvaða Ríkisstjórn verður við völd að loknum kosningum. Er þetta lýðræðislegt?
  • Í núverandi stjórnarskrá er mikil umfjöllun um Forsetaembættið, það er að mörgu leyti dapurlega lesning. Forsetanum eru veitt mikil völd í öðru orðinu en tekin frá honum í því næsta, þannig er Forseti lýðveldisins Íslands nær algerlega valdalaus. Aðeins að einu leyti hefur hann raunveruleg völd; hann  getur neitað að undirrita lög frá Alþingi og vísað þeim til þjóðaratkvæðis.
  • Ég tel að tveir möguleikar séu til að ákvarða framtíð Forsetaembættisins; a) leggja það niður, b) breyta því og efla. Óbreytt Forsetaembætti á enga framtíð.
  • Þarna kemur möguleikinn til að aðskilja frekar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. Gefum okkur dæmi: Forsetinn er kjörinn í þjóðaratkvæði. Hann skipar forsætisráðherra sem síðan velur menn til að gegna ráherraembættum. Þeir sem veljast til ráðherraembætta ættu síst að vera alþingismenn, ef svo er afsala þeir sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á þingi en einstakar þingnefndir geta kallað þá fyrir út af einstökum málum. Á ríkistjórnin að þurfa að fá meirihlutastuðning Alþingis? Á Alþingi að geta lýst vantrausti á Ríkisstjórn? Hve mikill skal meirihlutinn að vera til að vantraust hljóti gildi? Er einfaldur meirihluti alltaf það rétta, gæti ekki þurft 2/3 meðatkvæði til að vantraust verði samþykkt?
  • Alþingi verður eftir þessa breytingu sannarlega Löggjafarþing sem ekki situr og stendur eins og framkvæmdavaldinu þóknast. Vissulega verður Ríkisstjórn hverju sinni að leggja fram lagafrumvörp vegna ýmissa mála, Fjárlagfrumvarp að sjálfsögðu svo nokkuð sé nefnt.
  • Með þessu yrði lagt niður einskisvert karp milli ráðherra og þingmanna sem ekki hvað minnst hefur eyðilagt virðingu Alþingis og er algjör tímasóun.
  • Tel að ekki eigi að fækka þingmönum sem er oft hávær krafa. Til að unnt sé að manna allar starfsnefndir Alþingis eru takmörk fyrir því hve fámennt Alþingi má vera. Krafan um fækkun Alþingismanna virðist oftast koma fram sem krafa um sparnað, ekki tekið tillit til annarra þátta. Á Alþingi ekki að hafa áfram rétt til að rannsaka ýmis álitamál? Það tel ég einsýnt.
  • Er líklegt að ef hið margumrædda karp milli Ráðherra og Alþingismanna lýkur að unnt verði að stytta starfstíma Alþingis? Er möguleiki að hverfa aftur til þess tíma þegar seta á Alþingi var ekki fullt starf? Væri ekki þannig hægt að búast við að Alþingi verði þverskurður þjóðarinnar og loku yrði skotið fyrir að menn verði atvinnustjórnmálmenn sem óttast má að slitni úr sambandi við lífið í landinu?

Læt hér staðar numið að sinni, umsagnir um þessar hugmyndir væru vel þegnar. Vonandi stutt í næsta pistil um Stjórnarskrána.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband