Færsluflokkur: Spaugilegt

Spaugstofan lögð niður í Sjónvarpinu, hárrétt ákvörðun

Það virðist hrista upp í mörgum að Spaugstofan hafi runnið sitt skeið í Sjónvarpinu, það er ekki einkennilegt því þeir eru búnir að vera fastur punktur í Sjónvarpinu í rúmlega tuttugu ár.

En það voru ekki Spaugstofumenn sem tóku þessa ákvörðun, það var Páll Magnússon sem það gerði tilneyddur með niðurskurðarhnífinn á lofti.

En tími Spaugstofunnar var liðinn og þó fyrr hefði verið. Oft á tíðum hittu þeir á að gera góða þætti en þreytumerkin á þeim voru greinileg síðustu árin. Það var frekar sjaldgæft að þeim tækist að hitta naglann á höfuðið í spaugi sínu og þöglir einþáttungar Arnar Árnasonar, sem stundum  voru voru settir inn í prógrammið til uppfyllingar, vor sérlega pínlegir satt að segja.

Ég hef verið þeirrar skoðunar í þó nokkurn tíma að Spaugstofan ætti að hverfa af skjánum, en í skemmtanabransanum eiga þeir sem koma fram oft og verða vinsælir erfitt með að þekkja sinn vitjunartíma.

En nú hefur Páll Magnússon tekið af þeim ómakið. Þegar er farið að bollaleggja að þeir komi fram á örðum stöðvum, ekki hirði ég um það. Ég sé einungis Sjónvarpið og þykir alveg nóg að hafa völ á einni lélegri sjónvarpsstöð. Einhver kann að segja sem svo að ég sé tæplega hæfur til að dæma þær stöðvar sem ég hef enga reynslu af, en mér nægir að líta yfir dagskrár annarra stöðva, þar eru ríkjandi amerískir aulaþættir sem ég ef engan áhuga á.

En aftur að Spaugstofumönnum sem ekki þekktu sinn vitjunartíma. Ég minnist þess sem Einar Kristjánsson óperusöngvari sagði forðum. Hann var nær allan sinn starfsaldur söngvari við Konunglega leikhúsið í Kaupmannahöfn. Einar tilkynnti óvænt á besta aldri að hann væri hættur hjá Konunglega og hættur að syngja opinberlega. Fjölmargir skoruðu á hann að halda söngnum áfram en þá svaraði Einar:

Ég vil heldur að sagt verði "synd að hann Einar sé hættur að syngja" frekar en "synd að hann Einar sé enn að syngja".

Spaugstofumenn hefðu átt að taka álíka ákvörðun eins og Einar fyrir þó nokkru, ekki láta Pál taka hana fyrir sig.


Þjóðremba nær nýjum hæðum hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur náði hæstu hæðum í þjóðrembu með sinni fáránlegu tillögu um að skora á Ríkisstjórnina að hún komi í veg fyrir að Evrópusambandið taki umsókn Íslands  til umræðu og líklega afgreiðslu á 17. júní af því að þessi dagur er þjóðhátíðardagur Íslendinga!!!

Aðeins Oddný Sturludóttir  sá hversu fáránleg þessi ályktun var og gerði sérstaka bókun gegn því að ÍTR færi að skipta sér af utanríkismálum. En sex ráðsmenn voru einhuga um þessa endemisþvælu. Það virðist svo að ýmsir umhverfist algjörlega ef minnst er á umsóknaraðild Íslands að ESB. Umsóknin er þó einganveginn ákvörðun um inngöngu, við vitum ekki hvað kemur í ljós, en það sem út úr þeim viðræðum kemur ætti að vísa öllum veginn hvort sem er gegn inngöngu eða með inngöngu.

Ég beini því til sexmenninganna hvort þeir ættu ekki að snúa sér frekar að því að starfa innan sértrúarhópa þar sem bókstafurinn blífur. Vottar jehóva væri þeim ábyggilega góður staður eða þá Krossinn. Þar vantar sárlega nýja stríðsmenn sem láta sig ekki aðeins sig varða trúna einu og sönnu. Landsmálin munu jafnvel skyggja á hin háleitari markmið, sanna trú, þar sem Gunnar í Krossinum mun jafnvel fara í framboð í næstu forsetakosningum.


Það stendur hvergi í lögum að þú megir mála húsið þitt, svo láttu það vera, annars geturðu haft verra af!

Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sló öll met í Sjónvarpsfréttum nýlega þegar hún var spurð að því hvort úrskurður Svandísar Svavarsdóttir, núverandi umhverfisráðherra, um að staðfesta ekki skipulag þeirra sveitarfélaga þar sem fyrirhugaðar virkjanir munu rísa í neðri Þjórsá, stæðust lög, hvort einhver lög kveði á um að sveitarfélög megi ekki afla fjár til að greiða fyrir skipulag síns sveitarfélags nema beint frá hefðbundnum tekjustofnum.

Þórunn viðurkenndi að það væri ekkert sem bannaði sveitarfélögum að afla fjár til að greiða fyrir skipulagsvinnu  hvar sem væri, en það væri heldur hvergi til lög um það að það væri leyft!

Þess vegna stæðist úrskurður Svandísar!!!

Þvílík hundalógik.


Sirkusinn í Kaupmannahöfn á enda runninn

Þá er víst lokið hinum stóra sirkus í Kaupmannahöfn sem haldinn var til að reyna að komast að einhverri þvæluniðurstöðu um loftslagsmál. Ekki veit ég hvort komist var að einhverri niðurstöðu en eins og alþjóð veit gengur starf IPCC, loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna út á það að hræða fólk um heimsbyggð alla með því hiti fari hækkandi á jörðinni, að hemja verði undirstöðu lífsins á jörðinni, koltvísýring CO2, með ofursköttum og áróróðri, og vinna gegn öðrum lífgjafa jarðarbúa, gróðurhúsalofttegundum sem gera það að verkum að meðalhiti á jörðinni er +14.5°C en án hans væri hann -18°C og jörðin óbyggileg.

Það er með ólíkindum að það skuli hafa tekist að trylla svo alla stjórnmálamenn heimsins, eða flesta, að þeir trúi þessu bulli sem herskari að svokölluðum vísindamönnum hafa kokkað ofan i þá með beinum blekkingum og fölsunum. Svo reyna þeir að slá hvern annan út í yfirboðum sem þeir halda að gangi í augu eigin kjósenda og sýni þá í einhveri ofurbirtu í augum starfsbræðra. Nýjasta útspilið kom frá Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur; að minnka losun á CO2 um 80% að ég held fyrir 2050, kann að vera að það ætti að gerast á styttri tíma. Rasmussen hefur verið bent á að þá yrði amnnkynið að draga stórlega úr því að draga andann, honum var ráðlagt að fara nú að æfa sig og vera búinn að fækka þeim skiptum sem hann fyllir lungun með súrefni um 80% fyrir tilsettan tíma.

picture_11_942121.png Sumum Dönum þótti einum landa sinna ekki nógur sómi sýndur, það hefði átt að minnast Hans Cristian Andersen og hefja hvern fund með því að lesa upp eitt af hans snjöllu ævintýrum "Nýju fötin keisarans" það hefði svo sannarlega átt við sem einkennistexti sirkussins. 

En nú er víst ballið búið. það boðvar látið út ganga um allan hinn kristna heim að kirkjuklukkum skyldi hringt 350 sinnum og átti samhljómurinn að hefjast kl. 15:00 í dag. Hér í Þorlákshöfn hefur ekki heyrst múkk frá kirkjuklukkum, en kannski verður hefðbundin klukknahringing kl. 18:00 eitthvað kröftugri en venjulega.

En nú geta ráðstefnugestir haldið heima á sínum 140 einkaþotum, límósínurnar 1200 frá Danmörku, Þýskalandi og Svíþjóð hafa lítið að gera og svo mun einnig verða hjá elstu starfsstétt mannkynsins. 


Yfirlýsing mörgæsanna

Picture 12

Þeir hafa húmor hjá Danmarks Meterologiska Institute og það hefur einnig Mikkel Sander í Kaupmannahöfn sem sendi þeim þessa skemmtilegu mynd. 

Undir myndinni stendur i lauslegri þýðingu:

Harðlínumörgæsir á Istedagade hafna alfarið allri málmiðlun, þó það þýði að allar plöntur deyja út.

Framtíðin hrein af CO2

Yes sir Devil


Systkinin frá Bakka ætla að verða tengiliðir þings og þjóðar

Þetta er boðskapur Borgarahreyfingarinnar í Morgunblaðinu í dag. Minn skilningur nær víst æði skammt, ég sá bloggið hans Þór Saari og hélt að hann væri að fjalla um eigin flokk:

Picture 10

 

 

 

En svo djúpt fer ekki hans innri rýni, þremenningarnir hafa aðeins eitt skotmark; það er það sem þau kalla Fjórflokkinn. Borgarahreyfingin ætlaði að koma inn með nýja sýn, nýtt siðferði og ný vinnubrögð á Alþingi. En allir vita hver framvindan hefur orðið.

Hinsvegar kom fram nokkuð merkilegt fram í bloggi Birgittu Jónsdóttur. Í fyrsta lagi að Þór Saari sé ákaflega hláturmildur maður, sérstaklega geti hann hlegið endalaust að Alþjóða gjaldeyrissjóðnum. Í örðu lagi ennþá merkilegri frétt. Þór Saari ætlar ekki eingöngu að bjarga Íslandi frá bæði Fjórflokknum og Alþjóða gjaldeyrissjóðnum heldur fer hann eins og logi yfir akur um þriðjaheims löndin og sópar upp óstjórn og ráðleysi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur skilið eftir sig eftir misheppnaða hjálp.

Þetta hlýtur að vera rétt, þetta segir Birgitta í sínu bloggi. Það er enginn smátækur kraftaverkamaður sem ekki aðeins ætlar að bjarga Íslandi eftir hrunið og frá Fjórflokknum heldur einnig flestum þeim frumstæðu þjóðfélögum sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur verið skaða á undanförnum árum.

Erum við að fá nýjar persónur inn í þjóðsögurnar, þessi sérkennilegu systkini frá Bakka?


Hvernig eru hinir útvöldu bloggarar valdir?

Ég er búinn að vera samferða Morgunblaðinu æði lengi; sem áskrifandi, sem pistlahöfundur og nú bloggari um nokkurt skeið. Bloggið er vissulega merkilegt fyrirbæri þó ég hafi ekki séð jafn mikið bull í nokkrum fjölmiðli sem blogginu. En á milli eru ýmsar góðar ábendingar og sumir stunda yfirveguð og nokkuð innihaldsrík skrif.

En þegar slegið er á <blog.is> þá birtist fyrst aðgangur að einhverjum 8 útvöldum sem þá auðvitað verða þeir sem mest eru heimsóttir, þar fyrir neðan ýmsir sem hægt er að velja á mismunandi hátt.

En það sem vekur athygli mína er að þessir 8 útvöldu eru svo sannarlega útvaldir því líklega er þetta ekki nema 20 - 30 manna hópur sem nýtur þeirrar náðar að komast inn í þessa "elítu". Þess vegna koma þarna fyrir aftur og aftur sömu andlitin (eða merkin) og það sem er merkilegra; flestir sem þangað upp komast eru neikvæðir nöldrarar, svo virðist sem jákvæðni og bjartsýni eigi ekki upp á pallborðið þegar í "elítuna" er valið.

Nú kann einhver að spyrja; hefur þú sem þessar línur ritar aldrei komist í "elítuna" og svo er ertu þá ekki bar öfundsjúkur? Ég hef aldrei þangað upp komist, sé örstutt í smettið á mér stundum þegar ég skrifa pistil undir <nýtt blog> en er venjulega horfinn að kveldi eða morgni.

En eftir stendur spurningin: Hver velur og hvernig er "elíta þeirra átta valin"?

Líklega fæ ég aldrei svar við því. 


Getur verið að ég sé með áfallastreituröskun?

Hvað veit maður. Satt best að segja hef ég verið sáralítið sótthræddur á minni löngu ævi en kannski ætti maður að vera betur á verði. Ég hef látið mér í léttu rúmi liggja hvort svínainflúensan er komin til landsins og hvorki keypt mér grímu, spritt eða einhver töfralyf til að varna þessum veiruher að komast inn í skrokkinn á mér (Biðst afsökunar, ég á víst að segja "versla mér" en ekki "kaupa mér" skv. hinum einörðu tilskipunum fjölmiðlafólks).

En það er þetta með áfallastreituröskunina. Ég held að ég skilji íslensku nokkuð vel en verð að segja eins og er; orðið áfallastreituröskun veldur mér talsverðum heilabrotum, ég veit að þetta kemur eitthvað inn á heilbrigðið. En nú held ég að ég sé búinn að skilja þetta til fulls.Þetta á við ef maður verður fyrir áfalli, dettur niður stiga, verður fyrir bíl, stígur á nagla eða eitthvað annað. Þá er áfallið komið, ekki vafi. Af áfallinu fæ ég líklega streitu, það er víst eitthvað skylt við það sem í gamla daga var kallað taugveiklun eða móðursýki. En þá fer málið að vandast. Ef streitan er ekki  viðvarandi heldur að koma og fara þá er streitan sem sagt að raskast, hún slitnar sundur. Er það þá jákvætt að vera stöðugt með streitu, er það betra en að hún sé á stöðugut að raskast? En ef hún kemur og fer eins og sjávarföll þá er viðkomandi klárlega kominn með "áfalla-streitu-röskun"

Nei skrattakornið, ég held að ég sé ekki með "áfallstreituröskun".

 


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113833

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband