Færsluflokkur: Bílar og akstur

Nú er lag Ögmundur að vinda ofan af óráðsíu forvera þíns, Kristjáns Möller

Ögmundur var, eins og búast mátti við, í klemmu í Kastljósi í gærkvöldi að sannfæra Sigmar og hlustendur alla um að VG sé ekki kofinn flokkur. Það er ekki undarlegt, þingflokkurinn er klofinn, það fór ekki á milli mála efir að hafa hlustað á viðtal við Atla Gíslason.

En Ögmundur var skeleggur og afgerandi þegar hann ræddi um hugsanlega gjaldtöku á höfuðvegum út frá Reykjavík, Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi og Reykjanesbraut. Ég leit öðrum augum á þessa gjaldtöku, sem ég fram að því taldi algjöra fásinnu, eftir að hafa hlustað á rök Ögmundar sem eru mjög einföld:

Ef við viljum fá umbætur á þessum stofnbrautum eins fljótt og auðið er verður að afla fjár með gjaldtöku allra sem um framangreinda þjóðvegi fara.

Ef við neitum alfarið að gangast undir þessa gjaldtöku þá verður ekkert frekar gert á næstu árum í endurbótum á þessum þjóðvegum, það er einfaldlega ekki til fjármagn.

Sem íbúi fyrir "austan fjall" tel ég að við eigum að samþykkja gjaldtökuna. Margur kann að segja, sem þekkir mína hagi, sem svo að það sé einfalt fyrir mig að samþykkja, lífeyrisþega sem fer sjaldan um þjóðvegina, allavega ekki nauðbeygður til þess vegna vinnu minnar. Þar á móti segi ég að þeir sem þar fara á milli vegna vinnu sinnar  eru flestir, ef ekki allir, á góðum launum, ekki vafi að þau eru hærri en þau laun sem ég fæ útborguð mánaðarlega kr. 129.000 svo eflaust kunna tvær ferðir á mánuði að ganga nær minni pyngju en þeirra sem eru í fullu starfi á sæmilegum launum og fara daglega.

En þá tek ég upp gamalt baráttumál um sparnað í útgjöldum til vegamála. Forveri Ögmundar á stóli samgönguráðherra var flokksbróðir minn Kristján Möller. Ég tók þátt í umræðunni um Suðurlandveginn í ræðu og riti hvort hann ætti að vera 2+2 eða 2+1. Ég hikaði ekki við að segja að 2+2 vegur væri óþarfur, hann væri flottræfilsháttur og það er bjargföst sannfærin mín enn þann dag í dag. En háværar raddir hér austanfjalls féllu að hugmyndum Kristjáns Möller sem var ölvaður af velgengni sinni af því að hafa látið bora í gegnum fjöllin í sinni heimsbyggð, flott skyldi það vera.

Hinn 6. jan. 2008, vel að merkja fyrir hrun en á hrunárinu, var haldinn merkilegur fundur á Grand Hótel, fundarboðandi Lýðheilsustöð. Þar var rætt um hvort skyldi velja 2+2 eða 2+1 á Suðurlandsvegi. Þar hélt Haraldur Sigþórsson verkfræðingur á Línuhönnun eftirminnilegt og fróðlegt erindi. Hann bar saman kostnaðinn við Suðurlandsveg ef annarsvegar yrði farið í 2+2 væri kostnaðurinn 6 milljarðar en ef farið  yrði í 2+1 yrði kostnaðurinn 2 milljarðar. Umferðaröryggi yrði það sama miðað við hámarkshraða 90 km á 2+1 og 110 km hraða á 2+2. Þróun í öðrum löndum væri sú, sérstaklega í Evrópu (Svíþjóð) að æ fleiri vegir væru lagðir sem 2 +1. Slíkur vegur mundi hæglega anna þeirri umferð sem yrði um Suðurlandsveg til ársins 2030.

Ég tók þátt í umræðunni á fundinum og mælyi með 2+1 vegi gegn nokkrum háværum Sunnlendingum en hafði stuðning tveggja  lækna, Brynjólf Mogensen læknis og formanns slysavarnaráðs og Sigurðar Guðmundssonar þáverandi landlæknis.

Það er rétt að hafa það í huga að fundurinn og þær ákvarðanir sem teknar voru af Kristjáni Möller voru teknar í upphafi hrunársins, hvaða máli skipti hvað hlutirnir kostuðu, nægir voru andskotans peningarnir. En nú er lag að hugsa málið upp á nýtt. Það er aðeins komin í framkvæmd 2+2 vegalagning yfir Sandskeið. Og ef Ögmundur veit það ekki þá bendi ég honum á að fá það staðfest hjá Vegagerðinni að á þeim tímapunkti sem fundurinn var haldinn í  jan. 2008 var til hönnun vegarins milli Reykjavíkur og Selfoss sem 2+1, lausn sem vegagerðin mælti eindregið með.

Ég vona að Ögmundur samgönguráðherra taki til hendi og geri sér grein fyrir hve mikla fjármuni má spara með því að hverfa til upphaflegra áætlana með 2+1 veg. Hann á vísa góða ráðgjafa hjá Vegagerðinni og ég bendi honum eindregið á að fá Harald Sigþórsson verkfræðing einnig sem ráðgjafa sinn.

Ögmundur, þarna eru miklir fjármunir í húfi, við lifum ekki lengur í loftbólu fjármálavitfirringar sem betur fer.


Flatur niðurskurður á skuldum fasteignaeiganda er feigðarflan

Svo virðist sem Ríkisstjórnin sé að missa staðfestuna og láta undan þeim sem hæst hafa látið og heimtað flatan niðurskurð á skuldum fasteignaeigenda. Þar láta hæst minnihlutaflokkar á Alþingi með Framsóknarmenn í broddi fylkingar og ekki stendur á Hreyfingunni , Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur (Birgitta er úti á túni að lemja tunnur), að fylgja þeirri forystu, svolítið hik virðist vera á Sjálfstæðismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna fylgja málinu eindregið og nú er búið að festa hugsanlegan flatan niðurskurð skulda heimilanna við 18%. Satt best að segja get ég ekki skilið Hagsmunasamtök heimilanna  styðji slíkar aðgerðir því þær munu  að lokum kosta skattgreiðendur fúlgur fjár og leysa lítinn vanda.

Ég hef fyrir framan mig töflu frá Fjármálaráðuneytinu, sem ég dreg ekki í efa, að 20412 einstaklingar skuldi meira en 100% í sínum fasteignum og það kann að vera að þar bætist fleiri í hópinn ef fasteignaverð lækkar umtalsvert.

En þennan hóp má alls ekki setja í eina rétt og ganga síðan til verks þannig að skuldir allra séu færðar niður um 18% því aðstæður innan þessa hóps eru ákaflega misjafnar og það liggur í augum uppi að það verður ekki öllum bjargað. Ég undrast stórlega orð  bankastjóra Landsbankans í Sjónvarpinu í gærkvöldi að það ætti að einbeita sér að því að bjarga þeim sem eru verst settir.

Ef það verður gert verður engum bjargað.

Þarna eru 1360 einstaklingar sem skulda meira en 200% af verðgildi sinna fasteigna. Það liggur í augum uppi að þessum hópi verður ekki bjargað þó bankastjóri Landsbankans vilji einbeita sér að því. Með 18% flötum niðurskurði fær þessi hópur háar afskriftir af sínum skuldum en mér finnst liggja í augum uppi að það dugi engan veginn til að bjarga þeim frá því að missa  eignir sínar.

Það sem hefði átt að gera fyrir löngu er að greina þá sem skulda yfir 100% af sínum heimilum og sannreyna hvern og einn, hvernig er hægt að hjálpa þeim sem geta orðið bjargálna. Ef markið er sett sem hámark við þá sem skulda alt að 150% þá eru það 16433 einstaklingar.

Þetta er hópurinn sem á að einbeita sér að því að bjarga. Þeir sem eru yfir þessum mörkum eru 3979 einstaklingar og þeirra mál ber að sjálfsögu að skoða einnig. En þetta er sá hópur sem þarf mesta fjármuni til að bjarga og í þessum hópi eru þeir sem höguðu sér óskynsamlegast. Það er ekki vafi að margir þar voru í allt og dýru húsnæði og stóru og ekki ólíklegt að á heimreiðinni hafi staðið tveir jeppar, jafnvel sportbíll einnig og í einum bílskúrnum mótorhjólið, snjósleðinn og fjórhjólið. Ég veit að þessi orð geta orðið mér dýrkeypt en mér er nokkuð sama. Þetta eru þau orð sem hafa verið "tabú" í allri umræðunni, ég hika ekki við að brjóta það "tabú".

Satt best að segja líst mér ekkert á hvernig þessi mál þróast nú og spurning hvort hið fornkveðna "því verr gefast heimskra manna ráð því fleiri sem koma saman" á ekki orðið við um hvert stefnir.

 


Veggjöld eða ekki veggjöld?

Eru veggjöld ætíð af hinu illa? Svo mætti ætla ef tekið er mið af vanstilltum bloggurum eða samskonar greinarhöfundum í öðrum fjölmiðlum. Það virðist vera nokkuð sama hvaða róttækar tilögur koma fram; þá hefst mikið ramakvein hjá þeim sem alltaf eru fúlir á móti. Þar má benda á hugmyndir Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra um að frysta laun opinberra stafsmanna næstu þrjú árin. Líklega er engin leið betri til að tryggja opinberum stafsmönnum störf áfram, en opinberir starfsmönnum fjölgaði gífurlega í bólutíðinni og er víst að fjölga ennþá. Tillögur Jóns Steinssonar um að hafa eina virðisaukaskattsprósentu á alla selda vöru og þjónustu fékk sömu móttökur hjá öskuröpunum, bakgrunnurinn ekkert skoðaður. Það er sérstakt að þeir sem hæst hafa látið og öskra stöðugt um að Ríkisstjórnin geri ekki neitt og heimta aðgerðir, umhverfast algjörlega ef fram koma róttækar tillögur sem vert er að skoða.

Ég hef hér að framan nefnt þrjár róttækar tillögur sem berja á niður strax í fæðingu án nokkurrar skoðunar. Það sem ég nefndi fyrst eru vegtollar, aðferð sem gæti hleypt miklu lífi í opinberar framkvæmdir, fjármögnun þeirra og mundi draga talsvert úr viðvarandi atvinnuleysi. Við skulum ekki gleyma því að slíkar framkvæmdir hafa mikil jákvæð áhrif, vegaframkvæmdir sem byggjast á að kostnaður verði endurgreiddur með vegatollum mun örva atvinnulífið umtalsvert vegna afleiddra starfa einnig.

Kristján Möller samgönguráðherra lýsti því nýlega í viðtali að það er hægt að innheimta vegagjöld rafrænt það er óþarfi að menn sitji í búrum og heimti peninga af öllum sem framhjá búrunum fara. Þannig mundu vega tollar á engan hátt hamla umferð, en þær framkvæmdir sem kalla á vegtolla skapa betri umferðaræðar, gera umferðina öruggari og draga úr umferðarslysum, greiða götu allra sem um vegina fara.

Ég minnist þess að hafa komið til höfuðborgar eins vestræns ríkis fyrir nokkrum árum þar sem til var mikið net þar sem vegatollar voru innheimtir. Þannig hafði þessi borg getað lagt mikið af jarðgöngum sem gjörsamlega endurnýjaði umferðarnetið. Þetta var í höfuðborg ríkasta lands heims, Noregs, þetta var í Oslo. Meira að segja ríkasta land í heimi notaði vegatolla til að standa undir vega- og gangagerð.

Ég hef hér að framan nefnt þrjár athyglisverðar tillögur, róttækar tillögur; a) veggjöld sem leggur grundvöll að umtalsverðum vegaframkvæmdum b) tillögur Árna Páls Árnasonar um að frysta laun opinberra starfsmann í 3 ár, sem mun ekki síst koma opinberum starfsmönnum til góða c) hugmynd Jóns Steinssonar um eina % virðisaukaskatts, sem mun einfalda alla slíka skattheimtu og ekki síst; tryggja að ábatinn af skattheimtunni skili sér til ríkisins og okkar allra, flestum ætti að vera í fersku minni að þegar % á matvæli var lækkuð hvarf ábatinn að mestu í fjárhirslur verslunar og þjónustu. 


Svívirðileg álagning olíufélaganna birtist grímulaust við Smiðjuveginn í Kópavogi

Lengst af störfuðu þrjú olíufélög á Íslandi og þótti mörgum nóg um, líklega kallaði þetta á hærri álagningu þar sem yfirstjórn þriggja dreifingarfélaga þyrfti sitt í kostnað og að gjalda hluthöfunum sæmilega digran álegan arð. En fyrir nokkrum árum bættist fjórði dreifingarfélagið í hópinn, þá héldu margir að kominn væri fram sölufélag bensíns og olíu sem mundi láta sé nægja minni álagningu og þar með lækka verðið.

En þetta nýjasta olíufélag hefur fyrirhafnarlaust runnið inn í samráðshópinn, það selja allir þessa vöru á sama verði. En við norðurenda Byko í Breiddinni gefur á að líta. Rétt hjá Bónus við Smiðjuveginn hefur verið sjálfsafgreiðslustöð frá Skeljungi, Orkan, og ef litið er yfir Nýbýlaveginn blasir mikil og vel hýst bensínsstöð frá N1. En þetta dugar ekki. Mitt á milli þessara tveggja bensínstöðva er Atlantic olíufélagið búið að reisa bensínsölu, fékk svolitla skák úr bílastæði Byko. Sem sagt; á örlitlum bletti eru komnar 3 bensínstöðvar, hvað segir þetta okkur sem erum að kikna undan bensínverði? Það segir okkur að bensínsölufélögin vaða í peningum til að leika sér með, byggja bensínstöðvar hver við annars hlið.

Er ekki hægt að finna smá blett fyrir Olís þarna, ekki eiga þeir að verða útundan. Þeir hljóta að eiga gnægð seðla eins og hin félögin til að leika sér með. 


Víti til varnaðar

Það er víst til lítils að vera að "nöldra" um tvöföldun Suðurlandsvegar. Ég hef í ræðu og riti bent Kristjáni Möller samgönguráðherra á þau gönuhlaup sem hafa verið stöðug í ákvarðanatöku um endurbætur á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss. Kristján, Björgvin Sigurðsson og Árni Matt. voru ótrúlega samstíga í því að henda allri skynsemi og ráðdeild sem lengst í burtu  þegar teknar voru ákvarðanir um endurbætur Suðurlandsvegar

sem allir eru sammála um að er forgangsmál í samgöngumálum á Íslandi.

En þetta var ákveðið:

1. Elta gamla vegastæðið hvað sem það kostaði.

2. Ekki mátti minnast á þá gömlu skynsamlegu hugmynd að leggja veginn um Þrengsli, yfir Ölfusið með brú yfir Ölfusá fyrir sunnan Selfoss.

3. Þrátt fyrir að færustu erlendir sérfræðingar og einnig íslenskir teldu að mörgu leyti 2+1 veg betri endurbót og öruggari en 2+2, var haldið fast við 2+2, "nógir eru andskotans peningarnir sagði kallinn forðum".

4. 2+2 skyldi það vera þó Haraldur Sigþórsson verkfræðingur hjá Línuhönnun sýndi fram á að 2+2 kostar þrefalt meira en sá góði kostur 2+1.

5. Þrátt fyrir að ég hafi reynt að benda á þá staðreynd hverskonar óráðsía það er að leggja 2+2 yfir Hellisheiði því það munu örugglega koma göng undir heiðina síðar, þá fékk það engan hljómgrunn. Á sama tíma hamrar bormeistari Ísland, Kristján Möller, á að göng undir Vaðlaheiði séu forgangsmál. Víkurskarð er þó mun lægri og auðveldari vegur en Hellisheiði syðra.

En vitleysan og gönuhlaupin verða að hafa sinn gang. Það er eins og sumir hafi ekkert lært af "Hruninu mikla".

En eitt er víst, svona á ekki að taka ákvarðanir og það á ekki að henda peningum í vitleysu, vonandi verður þessi ferill víti til varnaðar öllum sem þurfa að taka tæknilegar ákvarðanir og sýsla með opinbert fé, sameign okkar allra.

(Tilefnið þessa pistils er að ég setti athugasemd inn hjá Morten Lange, en taldi svo ekki úr vegi að þetta kæmi inn á mitt blogg)


Vanhugsuð tillaga um hækkun aldurs til bílprófs

Þá er komin fram einhver vanhugsaðasta tillaga, og raunar óréttlátasta, sem lengi hefur komið frá stjórnvöldum. Nú skal hækka aldur þeirra sem taka  bílpróf úr 17 árum í 18 ár.

Hvers vegna er þetta vanhugsuð tillaga?

Hún er fyrst og fremst óréttlát og jaðrar við það að standast ekki jafnræðisreglu, en sú regla á að vera leiðarljós stjórnvalda í öllum málum og er raunar lögvernduð. 

Forsendan fyrir því að hækka bilprófsaldurinn er sú að sagt er að 17 ára bílstjórar séu valdir að fleiri umferðabrotum en aðrir aldursflokkar. Hins vegar eru það aðeins fáir einstaklingar sem fremja brot í þessum aldursflokki en eigi að síður skal refsa öllum aldursflokknum fyrir afbrot fárra. 

Stenst þetta jafnræðisreglu?

Það má líkja þessari tillögu við ákvörðun veitingamanns í Austurstræti sem setti alla þeldökka menn í bann á sínum veitingastað vegna þess að þeldökkur maður hafði sýnt hvítri konu áreitni við barinn. Hann var spurður að því hvort hvítir karlmenn sýndu aldrei slíka hegðun og viðurkenndi hann að slíkt hefði komið fyrir. Hann var spurður að því af hverju hann setti þá ekki bann á alla hvíta karlmenn. Svar við þeirri spurningu kom aldrei.

Fáránlegar tillögur

Það á líka að lögfesta að ungir 18 ára ökumenn megi ekki hafa í bílum sínum nema takmarkaðan farþegafjölda. Hver á að framfylgja þeim lögum? Á lögreglan að gera það? Á sama tíma og lögreglan er í fjárhagslegri spennitreyju þá á að leggja meiri skyldur á þá fáu lögreglumenn sem eru á vakt hverju sinni. Þetta er einkenni íslenskra stjórnvalda; að setja lög og reglur sem vitað er fyrirfram að ekki er hægt að framfylgja. Er þetta ekki eitthvað svipað og bannið við að tala í gemsa undir akstri? Vissulega er það algjör óþarfi að tala í síma undir stýri og auðvitað hættulegt, athæfi sem hver maður ætti að venja sig af. En það breytir ekki því að það er ekki bæði hægt að skera lögregluna niður við trog og leggja svo á hennar herðar meiri og meiri skyldur.

Hverjar verða afleiðingarnar?

Mjög líklega munu fleiri ungmenni stelast til að aka próflaus en áður. Það er ekki nema von að það kraumi reiði í mörgum þeirra sem eru að verða 17 ára og höfðu hlakkað til að fá  réttindi til að aka bíl. Við skulum ekki gleyma því að langflest 17 ára ungmenni haga sér vel í umferðinni, að refsa öllum fyrir afbrot fárra  stenst ekki.

Hvað er skynsamlegast að gera?

Efla kennsluna, ekki síst sálfræðilega. Það verður að efla starf ökukennara, það er eins og samfélagið hafi litið á ökukennslu sem eitthvað formsatriði, þetta nám hefur aldrei notið þeirrar viðurkenningar sem það á skilið. Akstur á vegum er dauðans alvara, um það höfum við óræk dæmi. Þess vegna á ekki að nálgast þetta vandamál með refsigleði heldur nákvæmlega því gagnstæða, með kennslu og upplýsingu um þær hættur sem bíða okkar allra á þjóðvegum og strætum.


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband