Færsluflokkur: Menning og listir

Lagnafréttir úr Borgarleikhúsinu

Hreint út sagt; Fjölskyldan eftir bandaríska Írann Tracy Letts er mögnuð leiksýning þar sem ekki er nokkur einasti veikur hlekkur, ekki meðal þrettán leikaranna né annarra sem haf skapað þessa þriggja og hálfs klukkustunda löngu sýningu. Og ekki skal gleyma þeim stóra hópi sem skapar grundvöllinn og umgjörðina, án þeirra yrði erfitt fyrir leikarana að skila sínu hlutverki.

Það er freistandi að setjast í stól gagnrýnandans, hver velt nema hann skríði fram áður en pistlinum er lokið. En það var fleira sem upp í minn huga kom en í þá gömlu góðu daga þegar lifað var í andrúmslofti leikhússins. Ekki síður þau sextán ár sem pistlahöfundur Morgunblaðsins og skrifaðir voru þeir lífseigu pistlar, Lagnafréttir. Það rifjaðist einnig upp að nokkrir pistlanna tengdust leikhúsum, eða öllu heldur vanköntum nokkurra leikhúsa. Þessi árátta tók sig upp kröftuglega í gærkvöldi (laugard. 5. febr. 2011). Við Helga sátum á 14. bekk ásamt Sváfni syni okkar og Erlu tengdadóttur. Eins og flestir vita, sem notið hafa leiksýninga í Stóra sal Borgarleikhússins, er salurinn "brattur" sem tryggir öllum góða sjónlínu á sviðið, ekki er það verra. En þess vegna sitja áhorfendur í mismunandi hæð í salnum og þá kom vandamálið.

Það er ótrúlegt að í þessu tiltölulega nýja húsi, sem að sjálfsögðu hefur verið byggt samkvæmt ströngustu kröfum þar sem nýtt hefur verið öll nýjasta tækni, skuli áhorfendur verið farnir að stynja undan hita og þungu lofti þegar leið á sýninguna. 

Hvað hefur gerst?

Er Borgarleikhúsið eitt af þeim "fórnarlömbum" þar sem ekkert hefur verið til sparað, öll lagnakerfi sem best úr garði gerð, en síðan fer ýmislegt úrskeiðis? Hvað um viðhald og eftirlit, hvernig er því háttað. Við Íslendingar vorum ótrúlegir vitleysingar þegar við fórum fyrir alvöru að byggja hús úr varanlegu efni fyrir rúmri hálfri öld. Við fengum þá kolvitlausu flugu í höfuðið að þegar húsið væri fullbyggt væri ekki annað en að flytja inn, hvort sem það voru íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Þá værum við komin í mannanna verk sem væru eilíf, ekkert þyrfti framar að gera. Ég er nú einmitt að vinna að því að koma endurbótum á geislahitunarkerfi á tveimur stöðum, þrjú stigahús á hvorum stað, þar sem allt er óbreytt síðastliðna hálfa öld, sýnir að vissulega hefur hönnum kerfanna verið með ágætum í upphafi.

En nú er ég komin út um víðan völl, aftur í Borgarleikhúsið. Ég er viss um að í Borgarleikhúsinu er loftræsikerfi sem bæði getur haldið góðu lofti í leikhússölum og hæfilegum hita. Það er líklegt að þetta sé ekki stórmál að kippa þessu í liðinn. Það er merkilegt að flestum er ljóst að það þurfi að smyrja bílinn með vissu millibili, láta skoða hann ekki eingöngu af skyldu heldur af tæknilegum þörfum, hemlabúnað þarf að endurnýja reglulega o. s. frv. En þegar kemur að tækni bygginganna þá virðist skilningurinn ærið takmarkaður.

Ég hef verið undir áhrifum þessarar mögnuðu leiksýningar, Fjölskyldunnar,  þennan sunnudagsmorgun og óneitanlega blaðað í leikskránni sem ég hafði ekki gefið mér tíma til fyrr en nú. Með því að skoða hana og lesa ætti flestum að vera ljóst hve mikið stuðningslið fylgir hverri leiksýningu, hverju leikhúsi. 

Skyndilega staldraði ég við eitt nafn, maður var titlaður umsjónarmaður hússins, maður að nafni Ögmundur Þór Jóhannesson. Það skyldi þó ekki vera sá sami og kom sem unglingur inn í Leikfélag Kópavogs og tók þátt söngleiknum "Bör Börsson" sem tveir Norðmenn gerðu eftir hinni vinsælu skálsögu Jóhan Falkberget og Helgi Hjörvar las sem vinsælustu útvarpssögu allra tíma. Guðrúm Þ. Stephensen leiksýrði þessari sýningu okkar með mikilli prýði árið 1974. Í Bör Börssyni fékk ég hlutverk skálksins Óla í Fitjakoti, ótrúlega skemmtilegur karakter. Þetta er líklega sá sami Ögmundur Þór sem tók við af mér nokkrum árum síðar sem formaður Leikfélags Kópavogs.

Nú við ég á engan hátt kenna Ögmundi um hitasvækjuna í Borgarleikhúsinu í gær, veit ekki einu sinni hvort þetta er í hans verkahring. En Ömmi, ef þú lest þessar línur þá er mera en tilbúinn til að líta til þín til ráðgjafar, eða réttara sagt benda þér á ráðgjafa því að hluta liggur þetta utan míns sérfræðisviðs.

Og þessi heimsókn skal ekki kosta þig meira en einn eða tvo kaffibolla. 

En þá er ekki hægt að stilla sig um að minnast aðeins nánar á þessa ótrúlegu "fjölskyldu" sem var á fjölunum í gær. Þarna rumskuðu þó aðallega gamlar minningar. Það byrjaði þegar tjaldið lyftist og Pétur Einarsson opnaði verkið. Pétur fékk ég einu sinni til að leikstýra hjá Leikfélagi Kópavogs. leikriti eftir Jökul Jakobsson, leikriti sem mér finnst atvinnuleikhúsin hafi ekki virt viðlits nema einu sinni í upphafi í Þjóðleikhúsinu, þetta var "Sonur skóarans og dóttir bakarans" Þar fékk ég hlutverk sem er í minningunni eitt af fjórum uppáhaldshlutverkum mínum, útbrunna skarið Albjart þar sem Helga kona mín lék jafn glataða konu hans, Matthildi. 

Sjaldan hef ég séð Margréti Helgu vinna eins afgerandi sigur og í "Fjölskyldunni" og hefur hún þó margan karakterinn skapað, ætíð með glæsibrag. Enn fór fortíðin að kræla á sér. Það var fyrir löngu sem ég fékk Margréti Helgu til að leikstýra barnaleikriti hjá Leikfélagi Kópavogs. Það var verk Herdísar Egilsdóttur "Gegn um holt og hæðir" og þá vil ég minnast einstaks samstarfsmanns sem nú er látinn. Gylfi Gíslason myndlistarmaður skapaði leikmyndina og saman lögðum við Gylfi okkar þekkingu til að búa til eðlilegan lítinn foss sem féll frama f sviðsbrúninni, líklega þætti það ekki mikið "flóð" miðað við hellirigninguna í Lé konungi á sviði Þjóðleikhússins. 

En það voru fleiri sem sýndu magnaðan leik. Sigrún Edda er stórkostleg sem elsta systirin, dóttir móðurinnar Margrétar Helgu. Það var magnað að sjá skyldleik þeirra mæðgna aukist óhugnanlega eftir því sem á leið sýninguna.  Sigrún Edda á ekki langt að sækja gáfuna, móðir hennar Guðrún Ásmundsdóttir sést nú sjaldan á sviði því miður. En enn eitt minnið skreið fram. Guðrún leikstýrði hjá okkur í Kópsvogi sóngleiksútgáfu af þeim gamla góða "Leynimel13". Enn fékk ég draumahlutverk; Madsen klæðskerameistara sem byrjaði sem mikill bindindismaður en að lokum sofnaði fullur í þvottabala. 

Eina persónan í"fjölskyldunni" er ameríski "frumbygginn" eða Indíánastúlkan sem vinnur verkin, þvær, býr til matinn og vinnur raunar öll störf á heimilinu. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að þarna var á ferðinni Unnur Ösp dóttir Stefáns Baldurssonar fyrrum Þjóðleikhússtjóra, borinn og barnfæddur Kópavogsbúi. Ég held að Stefán sé einhver minnisstæðasti leikstjóri sem ég fékk tækifæri til að starfa með. "Glataðir snillingar" eftir færeyska skáldið Villiam Heinesen er ljóðrænt og trakísk verk en þar fékk ég fjórða uppáhaldskarlinn minn að kljást við, Ankersen sparisjóðsstjóra og leiðtoga sértrúarsafnaðarins Iðunnar. Mér finnst furðulegt að leikhúsin skuli ekki hafa sýnt þessu einstaka verki áhuga. "Glataðir snillingar" hafa aðeins einu sinni hafa verið settir á fjalir eftir þetta, en það var Nemendaleikhús Leiklistarskólans sem setti það upp undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Þar kom fram leikari sem síðan hefur mikið látið að sér kveða á leiksviði og kvikmyndum en þar lék Ingvar Sigurðsson Ankersen sparisjóðsstjóra og safnaðarleiðtoga. Ég sá þá sýningu enda nokkuð tengdur Leiklistarskólanum. Næst þegar ég hitti Stefán Baldursson var mér heitt í hamsi og lét gagnrýnina ganga og spurði "hvernig gastu breytt þessu ljóðræna og trakíska verki í farsa, þetta var skemmdarverk". Stefán brást við með sínu rólyndi og sagðist vilja kynna okkur nafnana í ágætu samkvæmi sem við vorum í og kallaði Ingvar Sigurðsson á vettvang. Sagði að hann hefði farið fljótlega til útlanda eftir fumsýningu í Nemendaleikhúsinu og ekki getað fylgst með framvindu og þróun legsýningarinnar. Spurði Ingvar hvort verið gæti að nokkurt ærsl hefði læðst inn í hinn unga hóp leiklistarnemanna?. Ingvar maldaði í móinn en viðurkenndi að lokum "að ekki væri loku fyrir það skotið að einhver fiðringur hefði gripið hópinn og ýmsir leyft sér meira í átt til ærslanna en lagt hefði verið upp með".

En svona vill stundum fara, ætlunin er að fara nokkrum orðum um magnaða leiksýningu en enginn ræður för, það er farið um víðan völl áður en við er litið.


Áramótaskaupið og sjálfhverfa montspíran

Í rauninni er tæpast hægt að segja álit sit á Áramótaskaupinu fyrr en við endurskoðun sem vonandi verður bráðlega. En samt sem áður fannst mér margt ágætt og hnittið  sem þar bar fyrir augu og eyru. Líklega er þó atriðið með veiku konuna á spítalanum einna eftirminnislegast. Að sjálfsögðu vildu starfsfólk spítalans að konan hefði það sem best þar sem hún var tengd ýmsum tólum og tækjum til að halda i henni lífinu. Auðvitað var sjálfsagt að hún fengi að horfa á Sjónvarpið og þar með var henni boðin góð nótt. En óhamingjan ríður ekki við einteyming. Á sjónvarpsskjánum birtist ömurlegasti sjónvarpsþáttur sem sést hefur í mörg ár í dagskrá Sjónvarpsins, "HRINGEKJAN", sem kom í stað Spaugstofunnar. Mer fannst Spaugstofan gjarnan mega hverfa, átti þó stundum sæmilega spretti en var oftast gömul og þreytt. En það jafnvel læðist að manni sá grunur að þeir Spaugstofumenn hafi haft hönd í bagga með arftakanum, svo arfalélegur var þessi þáttur, "HRINGEKJAN". Það lá jafnvel við að gömlu þættirnir MAÐUR ER NEFNDUR gæfu ekki sama aulahrollinn í minningunni. En aumingja konan á spítalanum reyndi af veikum mætti að slökkva á þessari hörmung, "HRINGEKJUNNI", sem birtist á skjánum. Það tókst ekki fyrr en hún tók sjálfa sig úr sambandi og dó drottni sínum.

Það var gaman að sjá viðbrögð ýmissa sem komu við sögu, voru skotspónar Skaupsins, flestir voru ánægðir með sinn hlut. Þó saknaði ég viðbragða Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem nú hugsar ekki nema um eitt; hvernig hann geti lamið í gegn að engar breytingar verði á ráðuneytum svo hann geti setið áfram í sínum ráðherrastóli með Bjarna Harðarson við fótskörina. En einn af viðmælendunum, uppáhald fjölmiðlanna, montspíra sem kallar sig Gils eitthvað. Hann var yfir sig hneykslaður á því að hann skyldi ekki sýndur af einhverju vöðvabúnti, annað væri honum ekki boðlegt. Aumingja drengurinn skyldi ekki háðið í Skaupinu. Auðvitað var hann sýndur af einhverjum með þunna vöðva, höfundar skaupsins sendu honum kveðju og sýndu að það sem innra fyrir býr er ekki minna virði heldur en að vaða um með vöðvabúntin. Og auðvitað endaði vöðvabúntið röfl sitt á því að hann ætlaði að skíta á höfunda skaupsins.

Skrifaði þessi sjálfhverfa montspíra, sem endar flestar ræður sínar á að viðmælandi eigi að skíta á sig upp á bak eða hann geri það með eigin framleiðslu, bók um KURTEISI, bók sem átti að vera kennslubók í kurteisi og framkomu?


Hafa tölur jákvæð eða neikvæð gildi?

Þar sem ég er frambjóðandi til Stjórnlagaþings, 1 af 523, þá hef ég fengið mitt númer sem væntanlegir kjósendur mínir skrá á kjörseðilinn í komandi kosningum.

Mitt númer er 4976

Einn ágætur vinur minn hér í Þorlákshöfn kom að máli við  mig ábúðarmikill í gær og spurði mig þeirrar sérstæðu spurningar hvort ég ætti mér einhverjar happatölur. Ég kvað nei við þó oftar en einu sinni hefði ég fengið ábendingar í einhverju spjalldálkum að ég ætti mér eina slíka, en látum það liggja milli hluta, ég hef ekki tekið mark á slíkum boðskap.

Spyrjandinn varð nú ábúðarmeiri og spurði af mikilli alvöru hvort ég forðaðist ákveðnar tölur eða hvort ég óttaðist að þær boðuðu ógæfu. Mér varð víst nokkur hlátur í hug og svaraði að því síður óttaðist ég neikvæð áhrif nokkurra talna, hvorki einfaldra né samsettra. Vini mínum var greinilega létt og skýrði fyrir mér hver væri grunnurinn að þessari könnum.

Hann hafði skyndilega gert sér grein fyrir því að ef lagðir væru saman tveir fyrstu stafirnir í kjörnúmeri mínu til Stjórnlagaþings kæmi út talan 13 og ekki nóg með það; ef lagðir eru saman tveir seinni tölustafirnir kemur einnig út talan 13.

Ég sagði sem var að aldrei hefði ég haft beyg af tölunni 13 á því yrði engin breyting nú.

Kannski verður talan 13 einmitt mín happatala í komandi kosningum?


Landselur var það, ekki útselur

Ekki er nokkur vafi að skemmtilegasta sjónvarpsefni, sem nú er í boði, er Útsvar. Þau eru aldeilis prýðilegir stjórnendur þau Þóra og Sigmar. Mismunandi er hvernig keppendur ýta undir húmor og skemmtilegheit, i gær var stórgaman af liðum Reykjaness og Álftaness.

Í gær varð að koma fram leiðrétting vegna fjölda sveitarfélaga og þar var annað liðið í þarsíðustu keppni hækkað um 15 stig sem þó hafði ekki áhrif á úrslitin.

Í gærkvöldi kom svar í flokkaspurningum frá Álftnesingum hvaða selur sæist a mynd. Álftnesingar svöruðu að þar væri liggjandi útselur og fengu stig fyrir rétt svar. Ég er alinn upp á Þjórsárbökkum en þar á eyrunum kæpti landselurinn og frá blautu barnsbeini man ég ekki eftir nokkru vori að ekki væru veiddir 20 - 30 landselskópar. Það er öruggt að svarið útselur var rangt, myndin var af landsel. Útselurinn er miklu stærri og þessa seli er auðvelt að að þekkja í sundur á höfuðlaginu, útselurinn er miklu stórskornari.


Ásbjörn Óttarsson þingmaður hefur reist sér minnisvarða sem lengi mun standa

"Listamenn geta fengið sér venjulega vinnu" segir Ásbjörn og vill afnema  öll listamannalaun. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkar kröfur koma fram á Alþingi, en listamannalaun eru miklu eldri en núverandi lög um launin. Vissulega gerðist ýmislegt rammpólitískt fyrrum svo sem þegar Halldór Laxnes var sviptur þeim launum, sem Alþingi hafði samþykkt honum til handa, fyrir hið eftirminnilega ljóð "Unglingurinn i skóginum".

En nefndur Ásbjörn Óttarsson á sér nokkuð eftirminnilega sögu eftir að hann kom á þing. Hann er útgerðarmaður af Snæfellsnesi og eflaust einn af þeim sem vilja standa fast á þeim "stuldi" á auðlind sem er fiskurinn í sjónum. Að vísu var sá "stuldur" studdur lögum frá Alþingi svo það má víst heimfæra hin fleygu ummæli Vilmundar Gylfasonar um þann verknað að hann sé" löglegur en siðlaus". En eins og flestir útgerðarmenn vill Ásbjörn gera tvennt í einu; skuldsetja útgerðina upp í rjáfur en fá samt góð laun auk ríkulegs arðs út úr sömu útgerð. Eitt árið gekk ekki vel svo hann, auk launa, tók aðeins um 20 milljónir í arð og er þó hans útgerð ekki nema einn bátur. En þar skriplaði hann á skötunni, þetta ár var bókhaldslegt tap á útgerð hans og skattmann þurfti endilega að skipta sér af. Fyrirtæki sem er rekið með bókhaldslegu tapi má ekki greiða eiganda sínum arð!

Þar fór í verra, Ásbjörn einfaldlega endurgreiddi 20 milljónirnar og sagðist ekkert hafa vitað um að hann mætti ekki taka að vild peninga úr sinni eigin útgerð. En næsta árið var reksturinn með bókhaldlegan hagnað og að sjálfsögðu fór Ásbjörn í sjóði félagsins og greiddi sér arð auk launa.

Þá bætti hann sér ríflega upp 20 milljónirnar sem hann varð að skila og tók sér 60 milljónir í arð fyrir eitt ár! 

Er nokkur furða að slíkur landstólpi sjái ofsjónum yfir launum til bókabéusa, einhverra gaulara og pensilstrokumanna svo nokkrir hópar séu nefndir sem fá einhverja hungurlús frá því opinbera. Svo hefur nefndur Ásbjörn allt á hornum sér vegna Hörpunnar, tónlistarhússins  sem er að rísa við höfnina. Peningarnir, sem til þeirrar byggingar renna, væru eflaust betur komnir í umferðamiðstöð við flugvöll sem er að hverfa,  austur á peningum í 2+2 Suðurlandsveg þegar hægt er að fá jafnvel betri veg sem er 1+2 og að minnsta kosti helmingi ódýrari, eða þá að gera aðra tilraun við að byggja "nothæfa" höfn í sandi Suðurstrandar.

En hafa listamenn ekki alltaf verið til óþurftar? Það er ekki eins og listamen séu einhver nútíma uppfinning. Þessi þjóð var ekki búin að vera lengi á Íslandi þegar menn fóru að paufast við að skrifa á kálfskinn í klaustrum og kotbýlum. Hvað mörgum kálfslífum fórnaði Snorri Sturluson til að geta párað á skinnin, þá var að vísu enginn Ásbjörn uppi til að koma í veg fyrir alla kálfaslátrunina. Ef Íslendingar hefðu alla tíð verið harðir gegn allri sóun til manna og kvenna sem telja sig listamenn en ættu í staðinn að vinna ærlega vinni væri öðru vísu umhorfs. Af hverju gátu Einar Jónsson, Ásmundur og Sigurjón ekki unnið sem múrarar í staðinn fyrir að vera að búa til fígúrur sem  sem svo er dreift út um borg og bí? Og hvaða vit er í að vera að gera eitt einbýlishús í Mosfellsdalnum að safni til minningar um mann sem páraði nokkrar bækur og sigldi til Svíþjóðar til að ná sér í verðlaun sem sprengjusérfræðingurinn Nóbel stofnaði?

En til að öllu réttlæti sé fullnægt er rétt að geta þess að nefndur Ásbörn hefur beðist afsökunar á orðum sínum um listamannalaun. Ástæðan til að þau hrukku út úr honum eru alls ekki á hans ábyrgð, þau eru á ábyrgð konunnar sem í það skipti sat í forsetstóli á Alþingi. Hún hélt fast við einhver tímamörk þegar Ásbjörn lét gullkornin falla í ræðustóli og lá á því lúalagi að fara að lemja bjöllu. Hvernig átti arðþeginn af Snæfellsnesi að geta hugsað skýrt við slíkar aðstæður og truflanir?

Það er sannað að til eru menn sem geta ekki gengið eftir gangstétt og tuggið tyggigúmmí jafnframt, ráða við annaðhvort; standa kyrrir og tyggja eða ganga og tyggja ekki. Slíkir menn verða að velja sér verk sem þeir ráða við og starfsvettvang eftir hæfileikum.  

 


Íslandsklukkan í Þjóðleikhúsinu er afburða góð leiksýning

Það var vissulega með nokkuð gagnrýnum huga sem ég tók mér sæti í Þjóðleikhúsinu til að sjá þriðju uppfærslu sem ég hef séð þar á hinu magnaða verki Halldórs Laxness, Íslandsklukkunni. Ég vissi að þar mundi ég sjá ný efnistök Baltasar, hvernig mundi mér líka þau? Enn situr í mér sýningin sem ég sá fyrir 55 árum, en þá var  vígsluverk Þjóðleikhússins tekið til endursýningar vegna Nóbelsverðlauna Halldórs Laxness. Þetta var sýningin sem formaði Íslandsklukkuna sem leikhúsverk, sá sem hvað mest og best vann að þeirri umbreytingu var leikstjóri verksins, Lárus Pálsson. Ég skal vissulega játa það að Jón Hreggviðsson er í mínum huga Brynjólfur Jóhannesson, Snæfríður Herdís Þorvaldsdóttir, Arnas Þorsteinn Ö. Stephensen og Jón Grínvisensis Lárus Pálsson. En ég gerði mér grein fyrir því að það var ekki sami persónuleikinn sem gekk inn í Þjóðleikhúsið sl. föstudag og tvítugi ungi maðurinn sem settist þar í stólinn 1955, þá þegar að fangast alvarlega af leiklistargyðjunni sem hann átti að förunaut í yfir fjóra áratugi.

Vissulega leist mér ekki á sviðið í upphafinu en ég gekk fljótlega inn í þetta nýja umhverfi Íslandsklukkunnar og naut svo sannarlega að heyra hinn meitlaða texta Halldórs og sjá persónur hans persónugerast. Hér er ekki ætlunin að skrifa  leiklistarrýni, miklu frekar að fara nokkrum orðum um eftirminnilega upplifun í leikhúsi. Ég get samt ekki setið á mér að minnast á nokkur þeirra sem ljáðu persónum Íslandsklukkunnar hold, blóð, hreyfingar og rödd, við suma var ég fyllilega sáttur, ekki alveg eins við aðra eins og gengur. Ingvar er þriðji Jóninn Hreggviðsson  sem ég sé þarna á fjölunum. Hann gaf ólánsmanninum Jóni fyllilega allt sem þurfti. Lilja Nótt sem Snæfríður fyllti mjög vel út í þær lýsingar sem koma fram í textanum (álfakroppurinn mjói) en náði ekki alveg að sýna mér þá Snæfríði sem ég vildi sjá. Framsögn hennar var einnig stundum á tæpasta vaði og þar held ég að Þjóðleikhúsið þurfi að gera átak, framsögn hefur að mér fundist frekar vera afturför hjá leikhúsunum. Meira að segja gamli jöfurinn Erlingur Gíslason, sem flutti prologus Halldórs Laxness að ég held frá vígslu hússins, var of kraftlaus svo tæpast heyrðist út í salinn. En mér féll mjög vel túlkun Björns Thors á jungkæranum Magnúsi í Bræðratungu, ólánsmannsins sem drakk frá sér vitið á kvöldin og grét á morgnana. Hann sýndi vel þennan klofna persónuleika.

En umhverfið var ekki sá raunveruleika stíll sem oftast hefur fylgt gamalli íslenskri klassík en sýndi þá ótrúlegu endurnýjun sem leikhúsið ræður yfir. Meira að segja hýðing Jóns Hreggviðssonar með hvellhettum og tússpenna, sem vissulega var á mörkunum, gekk  upp.

Það sem ég gekk inn með hvað gagnrýnast í mínu sinni var að láta konu leika Jón Grindvíking og ég spurði sjálfan mig; á að gera Jón að fífli eða skrípi, það væri skemmdarverk. En Ilmur gerði þetta mjög vel og slapp fyrir horn. Kækurinn sem Lárus Pálsson bjó til 1950, að klóra sér á kálfanum, hefur ætíð fylgt Jóni síðan. Ilmur notaði kækinn því miður of ótæplega, þetta gerist stundum í leikhúsi; ef eitthvað atriði fellur í kramið og vekur hlátur verður freistingin til endurtekninga og mikil, reyndir leikarar eiga ekki að falla í þá gryfju.

En allt tekur enda, svo er um hverja leiksýningu og oft er vandi að ljúka góðu verki. Ekki veit ég hvað Baltasar gengur til að útvatna lokatriðið þegar Jón Hreggviðsson mætir dómkirkjuprestinum, sem Jón Eyjólfsson lýsi mæta vel, með því að troða honum með sinni ektakvinnu Snæfríði Íslandssól inn í hliðarsvalirnar þar sem þó sjást varla. Þetta dró úr skerpu lokanna, Jón á heimleið eftir áratuga streð við yfirvöldin, Snæfríður stendur við orð sín; heldur þann versta en þann næstbesta. Ég er ekki viss um að þeir sem ekki þekkja Íslandklukkuna gerla hafi áttað sig á hvað persónur voru þar á ferð, hver voru karlinn og konan sem varla sáust inn í svölunum, þetta atriði má ekki útvatnast .

En Íslandsklukka Baltasar er geysilega gott leikhúsverk. Hann er trúr hinum magnaði texta Halldórs þó sumir mættu fara nokkuð ákveðnar og skarpar með hann. Engu hefur verið bætt við, mér heyrðist að eitthvað hefði verið fellt út svo sem í samræðum Snæfríðar við föður sinn og hjá kanselíráðinu með sultutauið.

Og að lokum; aldrei bregst Herdís, hún var einstök í sínu litla hlutverki sem móðir Jóns Hreggviðssonar. 


Ég fékk gula spjaldið

Ég hef lítið látið fyrir mér fara hér á blogginu þennan mánuð þó ég hafi lesið það sem þar kemur og satt best að segja hefur umræðan lítið batnað, mikið um innhaldlausar upphrópanir sem fyrr

En ég byrjaði þetta merkilega ár á nokkuð óvæntan hátt, sjónin úr fókus, hægri hendi lömuð og málfarið brenglað. Helgi, okkar ágæti Heilsugæslulæknir hér í Þorlákshöfn reif sig upp og kom til mín samstundis, tveir vaskir sjúkraflutningamenn frá Selfossi fluttu mig á góðum hraða á Borgarspítalann.

Ég minnist sérstaklega á þetta til að þakka öllum þeim ágætu starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum sem liðsinntu mér, við eigum sannarleg hæft fólk í heilbrigðisþjónustunni.

En ég hef verð að dunda við það eftir að heim var komið að vinna að eigin endurhæfingu, lyklaborðið er farið að hlýða mér, lesa upphátt Helgu konu mína hvort sem henni líkar betur eða verr,  lauk þar með við tvær frábærar ævisögur um Snorra Sturluson og Vigdísi Finnbogadóttur okkar fyrrum forseta. Ég held að til þess að fá sem bestan skilning á Snorra sé nauðsynlegt að hafa lesið Sturlungu og það oftar en einu sinni. Satt best að segja læddist að mér kaldur hrollur við lestur ævisögu Sturlu. Höfðingjar þá, flestir, voru ekki að hugsa um þjóðarhag heldur að ota sínum tota og vinna þannig að eigin tortímingu og má þar nefna feðgana Sturlu og föður hans Sighvat Sturluson, bróður Snorra, Þorvald Vatnsfirðing, Gissur Þorvaldsson og ekki var sonur Snorra, Órækja, barnanna bestur. Líklega hefur hann verið mesti ruddinn í þessum hópi. Snorri kom honum til valda á Vestfjörðum og þar máttu menn þola ótrúleg og miskunnarlaus rán og yfirgang Órækju. Í öllum þessum djöfulgangi miðjum sat Snorri og samdi sínar einstæðu bókmenntir, maður friðarins og var fyrir vikið sakaður um að vera bleyða.

Og hver urðu örlög hans?

Tengdasonur hans fyrrverandi, Gissur Þorvaldsson, lét læðast að honum að óvörum og myrða.

Eru einhverjar hliðstæður í nútímanum? Hvernig hafa útrásarvíkingarnir hagað sér, þeir hafa aldeilis ekki verið að hugsa um þjóðarhag eða þá ýmsir pótintátar í pólitíkinni. Hafa sumir hverjir pólitíkusanna ekki hugsað meira um það að kom höggi á núverandi ríkisstjórn sem er að moka flórinn eftir óráðsíu fyrri ára?

Það rifjaðist margt upp fyrir mér við lestur ævisögu Vigdísar og sérstakleg hvað margt var illvígt í kosningabaráttu hennar þegar hún fór fyrst í framboð 1980. Ég var þá formaður kosninganefndar Vigdísar í Kópavogi. Þá kynntist ég því hvað konur geta verið konum verstar. Ég vil eftir þennan langa tíma ekki nefna nein nöfn. En merkar konur sem sumar höfðu markað talsverð spor í  söguna, jafnvel konur sem höfðu verið frumkvöðlar í kvennabaráttu, höfnuðu því alfarið að styðja kjör Vigdísar sem forseta.

En Vigdís vann, það var ógleymanleg stund.

En þessi pistill minn átti að vera stutt æfing á lyklaborðinu en það vill oft fara svo að maður fer út um víðanvöll áður en varir. En lyklaborðið hlýðir mér bara bærilega svo það verður ekki látið friði hér eftir. 


"Ertu búinn að versla þér sundskýlu"

Nákvæmlega þetta, sem í fyrirsögn stendur, sagði Ragnhildur Steinunn í Kastljósi í gærkvöldi. Hvað er að ykkur sem starfið í fjölmiðlum, er til of mikils mælst að þið talið íslensku nokkurn veginn lýtalaust? Ef ungu mennina, sem rætt var við, vantar sundskýlu þá ráðlegg ég þeim að fara í einhverja verslun og "kaupa" sér sundskýlu. Fólk fer oft út að versla og kaupir sér hitt og þetta. Þetta viðtal var sannarlega fróðlegt, þessir tveir ungu menn eru að fara til Feneyja og ætla að leika þar tvo klæðlausa keisara í hálft ár á kostnað lands og þjóðar. Ég lái þeim ekki, klæðlausir keisarar hafa alltaf verið vinsælir og afburða seigir við að útvega sér peninga fyrir fötum sem enginn sér.

 


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband