Færsluflokkur: Lífstíll

Þórhallur fer vel af stað með framtíðarþátt sinn um Ísland í Sjónvarpinu, en fyrsti þátturinn var helmingi of langur

Ég held að þessi t Þórhalls lofi nokkuð góðu. En Þórhallur þarf að muna það að þessir umræðuþættir mega ekki vera of háfleygir og á mannamáli. Það tekur nokkuð á að fylgjast með umræðu um félags- og framfærslumáleins eins og annað sem þar bar á góma. Þess vegna átti Þórhallur að efna til umræðu um heilbrigðismálin í örðum þætti, þarna var allt of mikið efni sett fram í einu og ég óttast að það hafi í för með sér að áheyrandi/áhorfandi nái ekki að fanga allt sem þar kemur fram.

Eðlilega urðu miklar umræður um kjör öryrkja og einnig um kjör einstæðra foreldra sem í flestum tilfellum eru konur, þær sjá oftast um börnin eftir skilnað og sumar hafa misst maka sinn, en einstæðir feður eru einnig til. Það sem mér fannst athyglisverðast í umræðunni var sú hugmynd um að snúa mati á öryrkjum við, meta þá út frá færni en út frá vöntun á færni. Einnig að það gengur ekki lengur að flokka ákveðna þjóðfélagshópa eftir einu og sama lögmálinu, þarna er hópur sem er eins misjafn og aðrir hópar þjóðfélagsins að möguleikum og aðstöðu. Þarna þarf að skoða mál sérhvers einstaklings, þá kann að koma í ljós að sá hópur sem býr við hreina neyð er ekki eins stór og ætla mætti.

Það var nánast ekkert minnst á eldri borgar í þessum þætti frekar en annarstaðar í þjóðfélaginu. Aðeins Stefán Ólafsson ræddi um eldri borgara í sínu innslagi og benti einnig á að þar þyrfti að endurskipuleggja það flókna kerfi lífeyris sem klambrað hefur verið saman. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur, þar er mannflóran mjög fjölbreytt. Þar eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar en þar er sem betur fer allgóður hópur sem á eignir og hefur góðar tekjur, þarna er ekki síðri þörf á að skoða mál einstakslingins, ég held að það sé engan veginn eins mikið verk og ætla mætti.

Enn og aftur segi ég að ég hef aldrei skilið þá gjörð Árna Páls flokksbróður míns, þáverandi félagsmálaráðherra, þegar hann lækkaði frítekjumark eldri borgara úr 1.300.200 kr niður í 480.000 á ári, fyrr mátti nú rota en dauðrota. Hvað halda ráðmenn að Ríkið græði á þessari gjörð? Ekki nokkurn skapaðan hlut en þetta sviptir margan mann möguleikanum á að afla sér nokkurra aukatekna og án vafa safnar það nokkrum krónum í skattpeningum í kassa ríkisins. Það ætti Árni Pál og aðrir unggæðingar að vita að ekkert er eins gefandi og gefa öldruðum kost á að vera á vinnumarkaði eins lengi og kostur er og miðla sérþekkingu sinni til samborgaranna.

Það þýðir lítið að segja við hálf áttræðan mann að þetta verði leiðrétt eftir tíu ár eða svo. 

Veit Árni Páll hvert á að senda leiðréttinguna til mín, á húna að fara í körina, eða þá upp eða niður?


Hverjum datt upphaflega í hug sú reginvitleysa að brenna sorp?

Lengi vel hélt ég að Ísfirðingar væru þeir einu hér á landi sem settu upp og ráku SORPBRENNSLU. En þar fór ég villur vegar; sorpbrennslur eru miklu fleiri. Meira að segja er sorpbrennslan á Kirkjubæjarklaustri nánast sambyggð barnaskólanum, enda er varminn frá henni notaður til að hita upp skólahúsið og mun það vera eina sorpbrennslan hérlendis sem hirðir um að nýta þann mikla varma sem verður til við brennsluna.

En hugmyndin að brenna sorp er og hefur ætíð verið algjörlega galin. Svo það ætti engum með sæmilegt vit í hausnum að koma á óvart að sorpbrennsla getur aldrei orðið annað en mikill mengunarvaldur, svo hroðalegur mengunarvaldur að það hefur verið eyðilagður búskapur vestur í Skutulsfirði og nú skal hefja átak til að kanna heilsufar þeirra sem búa í nágrenni eða starfa við sorpbrennslurnar.

Það er hægt að eyða eða vinna sorp á margan annan hátt en að brenna því og þar er auðvitað nærtækast að urða það. 

Það er athyglisvert að langsamlegasta stærsta sorpstöð landsins að magni, SORPA í Reykjavík, sem þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu og vel það, hefur aldrei gert minnstu tilraunir til sorpbrennslu. Hins vegar er þar hafið framleiðsla á metangasi sem að sjálfsögðu kemur ekki til greina þar sem sorpbrennslur eru.

Það er vonandi að öllum SORPBRENNSLUSTÖÐVUM landsins verið lokað sem allra fyrst, við næstu áramót verða þær aðeins til í minningunni sem heimskra mann gjörð.

Í framtíðinni verður að gera átak um allt land að allt sorp verði flokkað þar sem það verður til hvort sem það er á heimilum eða fyrirtækjum. Þá verður auðveldara að beina hverjum flokki sorps í réttan farveg og örugglega engu í BRENNSLU.


Lagnafréttir úr Borgarleikhúsinu

Hreint út sagt; Fjölskyldan eftir bandaríska Írann Tracy Letts er mögnuð leiksýning þar sem ekki er nokkur einasti veikur hlekkur, ekki meðal þrettán leikaranna né annarra sem haf skapað þessa þriggja og hálfs klukkustunda löngu sýningu. Og ekki skal gleyma þeim stóra hópi sem skapar grundvöllinn og umgjörðina, án þeirra yrði erfitt fyrir leikarana að skila sínu hlutverki.

Það er freistandi að setjast í stól gagnrýnandans, hver velt nema hann skríði fram áður en pistlinum er lokið. En það var fleira sem upp í minn huga kom en í þá gömlu góðu daga þegar lifað var í andrúmslofti leikhússins. Ekki síður þau sextán ár sem pistlahöfundur Morgunblaðsins og skrifaðir voru þeir lífseigu pistlar, Lagnafréttir. Það rifjaðist einnig upp að nokkrir pistlanna tengdust leikhúsum, eða öllu heldur vanköntum nokkurra leikhúsa. Þessi árátta tók sig upp kröftuglega í gærkvöldi (laugard. 5. febr. 2011). Við Helga sátum á 14. bekk ásamt Sváfni syni okkar og Erlu tengdadóttur. Eins og flestir vita, sem notið hafa leiksýninga í Stóra sal Borgarleikhússins, er salurinn "brattur" sem tryggir öllum góða sjónlínu á sviðið, ekki er það verra. En þess vegna sitja áhorfendur í mismunandi hæð í salnum og þá kom vandamálið.

Það er ótrúlegt að í þessu tiltölulega nýja húsi, sem að sjálfsögðu hefur verið byggt samkvæmt ströngustu kröfum þar sem nýtt hefur verið öll nýjasta tækni, skuli áhorfendur verið farnir að stynja undan hita og þungu lofti þegar leið á sýninguna. 

Hvað hefur gerst?

Er Borgarleikhúsið eitt af þeim "fórnarlömbum" þar sem ekkert hefur verið til sparað, öll lagnakerfi sem best úr garði gerð, en síðan fer ýmislegt úrskeiðis? Hvað um viðhald og eftirlit, hvernig er því háttað. Við Íslendingar vorum ótrúlegir vitleysingar þegar við fórum fyrir alvöru að byggja hús úr varanlegu efni fyrir rúmri hálfri öld. Við fengum þá kolvitlausu flugu í höfuðið að þegar húsið væri fullbyggt væri ekki annað en að flytja inn, hvort sem það voru íbúðir eða atvinnuhúsnæði. Þá værum við komin í mannanna verk sem væru eilíf, ekkert þyrfti framar að gera. Ég er nú einmitt að vinna að því að koma endurbótum á geislahitunarkerfi á tveimur stöðum, þrjú stigahús á hvorum stað, þar sem allt er óbreytt síðastliðna hálfa öld, sýnir að vissulega hefur hönnum kerfanna verið með ágætum í upphafi.

En nú er ég komin út um víðan völl, aftur í Borgarleikhúsið. Ég er viss um að í Borgarleikhúsinu er loftræsikerfi sem bæði getur haldið góðu lofti í leikhússölum og hæfilegum hita. Það er líklegt að þetta sé ekki stórmál að kippa þessu í liðinn. Það er merkilegt að flestum er ljóst að það þurfi að smyrja bílinn með vissu millibili, láta skoða hann ekki eingöngu af skyldu heldur af tæknilegum þörfum, hemlabúnað þarf að endurnýja reglulega o. s. frv. En þegar kemur að tækni bygginganna þá virðist skilningurinn ærið takmarkaður.

Ég hef verið undir áhrifum þessarar mögnuðu leiksýningar, Fjölskyldunnar,  þennan sunnudagsmorgun og óneitanlega blaðað í leikskránni sem ég hafði ekki gefið mér tíma til fyrr en nú. Með því að skoða hana og lesa ætti flestum að vera ljóst hve mikið stuðningslið fylgir hverri leiksýningu, hverju leikhúsi. 

Skyndilega staldraði ég við eitt nafn, maður var titlaður umsjónarmaður hússins, maður að nafni Ögmundur Þór Jóhannesson. Það skyldi þó ekki vera sá sami og kom sem unglingur inn í Leikfélag Kópavogs og tók þátt söngleiknum "Bör Börsson" sem tveir Norðmenn gerðu eftir hinni vinsælu skálsögu Jóhan Falkberget og Helgi Hjörvar las sem vinsælustu útvarpssögu allra tíma. Guðrúm Þ. Stephensen leiksýrði þessari sýningu okkar með mikilli prýði árið 1974. Í Bör Börssyni fékk ég hlutverk skálksins Óla í Fitjakoti, ótrúlega skemmtilegur karakter. Þetta er líklega sá sami Ögmundur Þór sem tók við af mér nokkrum árum síðar sem formaður Leikfélags Kópavogs.

Nú við ég á engan hátt kenna Ögmundi um hitasvækjuna í Borgarleikhúsinu í gær, veit ekki einu sinni hvort þetta er í hans verkahring. En Ömmi, ef þú lest þessar línur þá er mera en tilbúinn til að líta til þín til ráðgjafar, eða réttara sagt benda þér á ráðgjafa því að hluta liggur þetta utan míns sérfræðisviðs.

Og þessi heimsókn skal ekki kosta þig meira en einn eða tvo kaffibolla. 

En þá er ekki hægt að stilla sig um að minnast aðeins nánar á þessa ótrúlegu "fjölskyldu" sem var á fjölunum í gær. Þarna rumskuðu þó aðallega gamlar minningar. Það byrjaði þegar tjaldið lyftist og Pétur Einarsson opnaði verkið. Pétur fékk ég einu sinni til að leikstýra hjá Leikfélagi Kópavogs. leikriti eftir Jökul Jakobsson, leikriti sem mér finnst atvinnuleikhúsin hafi ekki virt viðlits nema einu sinni í upphafi í Þjóðleikhúsinu, þetta var "Sonur skóarans og dóttir bakarans" Þar fékk ég hlutverk sem er í minningunni eitt af fjórum uppáhaldshlutverkum mínum, útbrunna skarið Albjart þar sem Helga kona mín lék jafn glataða konu hans, Matthildi. 

Sjaldan hef ég séð Margréti Helgu vinna eins afgerandi sigur og í "Fjölskyldunni" og hefur hún þó margan karakterinn skapað, ætíð með glæsibrag. Enn fór fortíðin að kræla á sér. Það var fyrir löngu sem ég fékk Margréti Helgu til að leikstýra barnaleikriti hjá Leikfélagi Kópavogs. Það var verk Herdísar Egilsdóttur "Gegn um holt og hæðir" og þá vil ég minnast einstaks samstarfsmanns sem nú er látinn. Gylfi Gíslason myndlistarmaður skapaði leikmyndina og saman lögðum við Gylfi okkar þekkingu til að búa til eðlilegan lítinn foss sem féll frama f sviðsbrúninni, líklega þætti það ekki mikið "flóð" miðað við hellirigninguna í Lé konungi á sviði Þjóðleikhússins. 

En það voru fleiri sem sýndu magnaðan leik. Sigrún Edda er stórkostleg sem elsta systirin, dóttir móðurinnar Margrétar Helgu. Það var magnað að sjá skyldleik þeirra mæðgna aukist óhugnanlega eftir því sem á leið sýninguna.  Sigrún Edda á ekki langt að sækja gáfuna, móðir hennar Guðrún Ásmundsdóttir sést nú sjaldan á sviði því miður. En enn eitt minnið skreið fram. Guðrún leikstýrði hjá okkur í Kópsvogi sóngleiksútgáfu af þeim gamla góða "Leynimel13". Enn fékk ég draumahlutverk; Madsen klæðskerameistara sem byrjaði sem mikill bindindismaður en að lokum sofnaði fullur í þvottabala. 

Eina persónan í"fjölskyldunni" er ameríski "frumbygginn" eða Indíánastúlkan sem vinnur verkin, þvær, býr til matinn og vinnur raunar öll störf á heimilinu. Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á því að þarna var á ferðinni Unnur Ösp dóttir Stefáns Baldurssonar fyrrum Þjóðleikhússtjóra, borinn og barnfæddur Kópavogsbúi. Ég held að Stefán sé einhver minnisstæðasti leikstjóri sem ég fékk tækifæri til að starfa með. "Glataðir snillingar" eftir færeyska skáldið Villiam Heinesen er ljóðrænt og trakísk verk en þar fékk ég fjórða uppáhaldskarlinn minn að kljást við, Ankersen sparisjóðsstjóra og leiðtoga sértrúarsafnaðarins Iðunnar. Mér finnst furðulegt að leikhúsin skuli ekki hafa sýnt þessu einstaka verki áhuga. "Glataðir snillingar" hafa aðeins einu sinni hafa verið settir á fjalir eftir þetta, en það var Nemendaleikhús Leiklistarskólans sem setti það upp undir leikstjórn Stefáns Baldurssonar. Þar kom fram leikari sem síðan hefur mikið látið að sér kveða á leiksviði og kvikmyndum en þar lék Ingvar Sigurðsson Ankersen sparisjóðsstjóra og safnaðarleiðtoga. Ég sá þá sýningu enda nokkuð tengdur Leiklistarskólanum. Næst þegar ég hitti Stefán Baldursson var mér heitt í hamsi og lét gagnrýnina ganga og spurði "hvernig gastu breytt þessu ljóðræna og trakíska verki í farsa, þetta var skemmdarverk". Stefán brást við með sínu rólyndi og sagðist vilja kynna okkur nafnana í ágætu samkvæmi sem við vorum í og kallaði Ingvar Sigurðsson á vettvang. Sagði að hann hefði farið fljótlega til útlanda eftir fumsýningu í Nemendaleikhúsinu og ekki getað fylgst með framvindu og þróun legsýningarinnar. Spurði Ingvar hvort verið gæti að nokkurt ærsl hefði læðst inn í hinn unga hóp leiklistarnemanna?. Ingvar maldaði í móinn en viðurkenndi að lokum "að ekki væri loku fyrir það skotið að einhver fiðringur hefði gripið hópinn og ýmsir leyft sér meira í átt til ærslanna en lagt hefði verið upp með".

En svona vill stundum fara, ætlunin er að fara nokkrum orðum um magnaða leiksýningu en enginn ræður för, það er farið um víðan völl áður en við er litið.


Ástráður Haraldsson var geysilega rökfastur í Kastljósi í gærkvöldi

Eins og venjulega setur Helgi Seljan sig í stellingar saksóknara (svona eins og við sjáum þá í Bandarískum hasarmyndum) þegar hann heldur að nú sé fórnarlamb komið á sakabekkinn. En Ástráður Haraldsson fráfarandi formaður Landskjörstjórnar tók forystuna í þeirra átökum fyrir "réttinum" og satt að segja varð ég mjög með að þrautreyndur lögmaður flutti af sannfæringu þau rök sem ég hef áður sett fram um að Hæstiréttur hafi með úrskurði sínum túlkað lögin eftir strangasta bókstaf en algjörlega horft framhjá anda laganna og þar höfðaði Ástráður til þeirra laga og hefða sem hérlendis hafa gilt um kosningar almennt. Enn og aftur vil ég leiðrétta sjálfan mig og fjölmarga aðra; Hæstiréttur kvað ekki upp dóm heldur úrskurð og það bar honum að gera samkvæmt lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings, honum hafði verið falið það illu heilli. Þarna tókust ekki á sækjendur né verjendur, sexmenningarnir hlustuðu ekki á neina nema hver á annan og nú skilaði Jón Steinar ekki sératkvæði enda var enginn í sakleysi sínu að opna útidyr með haglabyssu af því hann vildi endilega ná tali af húsráðanda.

En fullvissan um að Hæstiréttur hafi alltaf rétt fyrir sér birtist víða. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fer mikinn á vísi.is en þar er hann fastur pistlahöfundur. Ég rakst á pistil hans og þar segir hann m. a:

Þegar almennar kosningar eru dæmdar ógildar af sjálfum Hæstarétti landsins jafngildir það yfirlýsingu um að viðkomandi þjóð sé fákunnandi um lýðræði.

Hvernig rithöfundurinn kemst að þessari niðurstöðu er mér hulið. Kosningarnar voru engan veginn "dæmdar" ógildar heldur "úrskurðaðar" ógildar og á þessu er reginmunur. Það sem brást í kosningunum til Stjórnlagaþings var aðallega tvennt. Alþingi vann sitt löggjafarstarf ekki nógu vel þegar lögin um kosningarnar voru sett. Það var enginn vandi að girða fyrir það að dómarar, sem áttu að úrskurða um lögmæti kosninganna, gætu ekki fundið króka til að kveða upp hlutdrægan og pólitískan úrskurð og ég hef ekki heyrt betri rökstuðning fyrir því en hjá Ástráði Haraldssyni lögfræðingi í gærkvöldi. Hið síðara var að kjósendur brugðust og þá fyrst og fremst sjálfum sér. Krafan um beint og milliliðalaust lýðræði hefur verið hávær frá Hruninu í okt. 2008. Þeir eru eflaust fáir ofar moldu sem  fengu tækifærið í lýðveldiskosningunum 1944. Þegar á reyndi lögðu 2/3 hlutar kjósenda ekki á sig að taka þátt, stór huti af þeim reknir til heimasetu af Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni.

Guðmundur Andri sagði margt fleira í þeim pistli hans sem ég hef minnst á og vitnað í. Guðmundi Andra yrði fagnað ef hann sækti um aðild að Sjálfstæðisflokknum, hann þyrfti ekki að útfylla umsókn, pistillinn yrð tvímælalasut tekinn gildur til inngöngu í flokkinn í Valhöll. 

 

 





 

 


Hvað skal gera eftir hinn fráleita úrskurð Hæstaréttar?

Það er mikil ólga víða í þjóðfélaginu eftir úrskurð Hæstaréttar; að ógilda kosningarnar til Stjórnlagaþings og það ríkir mikil Þórðargleði í sumum slotum. Mörum finnst það harður dómur hjá mér að segja fullum fetum að úrskurður Hæstaréttar sé pólitískur. En á er mér spurn, hvers vegna kætast svo geysilega frammámenn og fylgjendur eins stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, öðrum fremur?

En hvað er til ráða, kosningarnar ógildar, það stendur. Aðallega er rætt um þrjár leiðir eftir úrskurðinn: a) hætta við Stjórnlagaþing, þá situr stjórnarskrármálið í sömu hjólförunum og sl. 56 ár b) endurtaka kosningarnar c) Alþingi samþykki að áður kjörnir fulltrúar á Stjórnlagaþing fái umboð til að starfa á Stjórnlagaþingi og semja uppkast að nýrri stjórnarskrá og ég leyfi mér að bæta við; uppkastið verði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ÁÐUR en Alþingi fær það til endanlegrar lagalegra afgreiðslu. Það á við jafnt þó að kjörnir yrðu nýir (eða gamlir) fulltrúar á Stjórnlagaþing.

Og hvað finnst mér sjálfum skynsamlegast að gera?

Það kemur ekki til greina að gefast upp og hætta við allt saman. Þá fer allt í gömlu hjólförin, málið komið til Alþingis án þess að nokkrir fulltrúar þjóðarinnar fái að fjalla um það beint. Þá hef ég afgreitt lið a).

Efna til nýrra kosninga? Það mun kosta vænan skilding en er þó réttlætanlegt ef almennt er talið að um þær kosningar verði sæmilegur friður. En því miður, um þær kosningar verður enginn friður, þau sterku öfl sem eyðilögðu kosningarnar sem Hæstiréttur úrskurðaði ógildar munu fara hamförum til að eyðileggja kosningarnar. Það þarf ekki annað en vitna í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Silfri Egils í dag þar sem hún áréttaði með þunga andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þessa málsmeðferð; að kjósa fulltrúa og halda Stjórnlagaþing. Það má búast við að margir af þeim sem kusu í góðri trú telji sig svikna og mæti ekki aftur á kjörstað. Margir af frambjóðendum munu jafnvel neita að taka þátt aftur og þá óttast ég að það verði ýmsir sem fengur er að sem frambjóðendum, frekar að þeir sem minna erindi áttu sitji sem fastast. Hættan er sú að nýjar kosningar til Sjórnlagaþings verði dæmdar til að mistakast, kosningaþáttaka hrapi og þeir sem þar verða kjörnir sitji með mjög vafasamt umboð.

Alþingi veiti þegar kjörnum fulltrúum fullt umboð til að sitja á Stjórnlagþingi sem til þess kjörnir af Alþingi. Þetta er eina færa leiðin, verður vissulega mjög umdeild en er þó miklu vænlegri til árangurs en að efna til nýrra kosninga.

Það sem þarf að gerast á Alþingi er að þetta þarf að fá meira fylgi en fylgi stjórnarflokkanna (sem að sumu leyti er vafasamt). Í Silfri Egils í dag áréttaði Eygló Harðardóttir þingmaður Framsónarflokksins þá afstöðu síns flokks að hann hefði í rauninni átt upphafið að hugmyndinni að Stjórnlagaþingi. Ég tek mark á því sem Eygló segir, því mér finnst hun vera vaxandi þingmaður sem ræðir oftast málefnalega.

Ef það tækist að meirihlutaflokkarnir með tilstyrk Framsóknarflokksins og jafnvel Hreyfingarinnar stæðu að því að veita kjörnum fulltrúum á Stjórnlagaþings lögformlegt umboð til starfa á Stjórnlagaþingi yrði það mikill sigur fyrir lýðræðið í landinu.

Einu skulum við ekki gleyma, einu sem mér finnst að hafi alveg gleymst í umræðunni eftir hinn fráleyta úrskurð Hæstaréttar.

Það er réttur þeirra sem kjörnir voru á Stjórnlagaþing. Þeir hafa eflasut allir búið sig rækilega undir störf á þiginu, þeir eiga skilið að Alþingi sýni þeim þann trúnað og virðingu að þeir fái að taka að sér þá ábyrgð og störf sem þeir voru réttilega kjörnir til.

Þannig getur Alþingi leiðrétt þann óréttláta úrskurð sem Hæstiréttur kvað upp og verður honum til ævarandi minnkunar.


Ríkisútvarpið brýtur hlutleysisreglur og skiptir sér að starfi dómstóla á freklegan hátt

Mér brá illa í brún þegar haldinn var áróðursfundur í Kastljósi með söng Ellenar Kristjánsdóttur og dætra til að halda fram sakleysi þeirra níu sem voru með ólæti á áhorfendapöllum Alþingis. Burt séð hvaða skoðun menn hafa á framferði níumenninganna þá var þessi umfjöllun i Kastljósi fyrir neðan allar hellur og freklegt brot á hlutleysisreglum Ríkisútvarpsins. En þetta var áréttað í gær í Úrvarpinu þegar fjallað var um sama mál í þætti eftir fjögurfréttir á sama hátt, í bæði skiptin fullyrt að níumenningarnir væru saklausir og hefðu ekkert brotið að sér. Þetta mál er til meðferðar hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og það er nánast hneyksli að Ríkisútvarpið leyfi sér að fjalla um dómsmál, skiptir ekki máli hvaða dómsmál það er, og kveða upp sýknudóma og þar dugði ekki minna en umfjöllun bæði í Sjónvarpi og Útvarpi.

Það hefur mikið verið fjallað um þrískiptingu valdsins i okkar þjóðfélagi undanfarið, fjallað um stoðirnar þrjár, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og nauðsyn þess að þarna séu skörp skil á milli þessara stoða. Fjölmiðlarnir eru oft nefndir sem fjórða valdið og að sjálfsögðu ber þeim að virða ákveðnar leikreglur, virða verksvið hinna þriggja meginstoða lýðræðisins á Íslandi. Fjölmiðlum ber einnig að virða sjálfstæði dómstóla. Það er dómari sem mun kveða upp dóm í þessu máli á sama hátt og í öðrum málum sem rekin eru fyrir dómstólum. Hvort hinir ákærðu verða sýknaðir eða dæmdir til refsingar veit ég ekki, það mun koma í ljós.

Ég spyr að lokum Pál Magnússon útvarpsstjóra: Er þessi fráleita umfjöllun um dómsmál gerð að hans frumkvæði eða var umfjöllunin gerð án hans vitundar.? Ég ætlast til að hann svari því skilmerkilega.


Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem er heill og óklofinn

"Ekki batnar Birni enn banakringluverkurinn" var sagt forðum og þetta flaug um hug minn eftir að hafa hlustað á viðtöl RÚV við þá Steingrím J. Sigfússon og Ásmund Einar Daðason eftir langan og strangan fund þingflokks Vinstri grænna í gærkvöldi. Sjaldan hef ég heyrt í mönnum sem héldu langar tölur en sögðu ekki neitt en þó svo mikið. Það mátti svo sannarlega skilja að hvorugur gat gefið ákveðin svör við spurningum fréttamanns. Ástandið í þingflokki Vinstri grænna er að þar  greinilega varanlegur klofningur. Þremenningarnir, Lilja, Atli og Ásmundur Einar, ætla að að halda sínu striki, þau er ekki hægt lengur að telja til stuðningsmanna Ríkisstjórnarinnar á þingi sem þar með er einungis með eins atkvæðis meirihluta og það skyldi maður ætla að gengi ekki lengi.

En ekki er allt sem sýnist. Klofningur Vinstri grænna er staðreynd og þess vegna mætti ætla að stjórnarandstaðan á þingi gripi tækifærið feginshendi og flytti vantraust á Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. En það er líklega það sem stjórnarandstaðan vill allra síst hætta sér út í. 

Og hvers vegna?

Vegna þess að stjórnarandstöðuflokkarnir eru allir meira og minna klofnir. Sjálfstæðisflokkurinn lýtur enn forystu Davíðs Oddssonar. Á yfirborðinu er flokkurinn á móti umsókn Íslands að ESB og þeir sem blindastir eru á Davíð Oddsson (Unnur Brá Konráðsdóttir t.d.) eru með tillögu um að stöðva aðildarumsóknina að ESB. Allir vita að fjölmargir Sjálfstæðismenn styðja aðildarumsóknina eindregið og rétt er að árétta að umsóknin og umsóknarferlið þýðir engan veginn að búið sé að ákveða inngöngu. Fyrst verður við að sjá hvað okkur býðst, síðan mun þjóðin ákveða í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort af inngöngu verður eða ekki. Það er einnig langt frá því að allir Sjálfstæðismenn fylgi gallharðri stefnu Davíðs og Morgunblaðsins í kvótamálinu, fjölmargir í þeirra röðum sjá að óbreytt ástand getur ekki gengið. Klofningurinn í Sjálfstæðisflokknum er svo djúpstæður að í bígerð er stofnun nýs hægri flokks sem einmitt ætlar að láta brjóta á ESB málinu, kvótamálinu og að afgreiða Icesave málið í eitt skipti fyrir öll.

Framsóknarflokkurinn er einnig klofinn í sömu málum. Þó ekki sé gamall og þreyttur flokksformaður sem ræður öllu á þeim bæ hefur komið í ljós að flokkurinn var æði seinheppinn með val á formanni. Sigmundur Davíð verður tæpast formaður til langframa, en hver tekur við?  Framsóknarflokkurinn burðast einnig með fyrri hneykslismál eins og Sjálfstæðisflokkurinn, þar vegur þungt allt hneykslið við einkavæðingu bankanna. Arfleifð þeirra Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar er flokknum þung byrði. Finnur Ingólfsson og fleiri Framsóknarmenn hafa látið greipar sópa um þá fjármuni sem ýmis fyrirtæki Sambands ísl. samvinufélaga skildu eftir sig, ekki síst það sem átti að skila aftur til viðskiptamanna Samvinnutrygginga.

Og ekki má gleyma garminum honum Katli. Hreyfingin er þegar klofin og meira að segja margklofin. Þetta var "bjartasta vonin" í augum margra sem fordæmdu alla stjórnmálaflokka og vildu ferska vinda inn á Alþingi. Hvað ferska vinda hefur Hreyfingin haft í farteskinu? Þingmenn hennar hafa dottið í röfl- og hælbítsfarið nákvæmlega eins og Sigmundur Davíð. Það hefur verið nokkur samkeppni milli þingamanna Hreyfingarinnar hver gengur lengst í innantómu þrasinu en sigurvegarinn er ótvírætt Þór Saari.

Sem bloggari fylgist ég að sjálfsögðu gerla með hvað kemur í pistlum þeirra sem þar eru að skrifa. Hjá sumum er hatrið á Samfylkingunni sá þráður sem ætíð er kjarninn. Freistandi væri að nefna með nafni þá helstu en ég ætla að láta það vera að sinni en það kann að koma síðar. Hatrið á Samfylkingunni helgast fyrst og fremst af ótta. Þrátt fyrir að Samfylkingin hafi gert mistök, sem ég segi af fullri alvöru að séu ekki mikil, þá ber allt að sama brunni:

Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn í dag sem er samstilltur og ókofinn. Þetta er merkileg staðreynd því Samfylkingin hefur nú í tvö ár leitt Ríkistjórn Íslands á erfiðustu tímum sem nokkru sinni hafa mætt Íslensku þjóðinni síðan hún hlaut fullveldi. 

Það er kominn tími til að halda þessu til haga. Mér finnst Samfylkingin engan veginn hafa beitt sínum vopnum til að verjast rógberum og hælbítum. Það kann að vera vegna þess að Samfylkingin hefur forystu fyrir endurreisn lands og þjóðar og hefur þess vegna ekki verið að eltast við lágkúruna sem einkennir stjórnarandstöðuna á Alþingi og þá flokka sem hana skipa og eru allir meira og minna klofnir og ráðvilltir.


Þar kom að því, Siv lætur í sér heyra

Ég endurtek það einu sinni enn; enginn maður fékk jafn gullið tækifæri á að hefja sig yfir lágkúrulega pólitíkina og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þegar hann varð formaður Framsóknarflokksins. Hann fékk það tækifæri einnig að hefja flokk sinn upp úr pyttinum sem hann var grafinn í á formannstíð Halldórs Ásgrímssonar.

En hvorugt gerði Sigmundur Davíð, hann sökkti sér á bólakaf í innihaldslaust argaþras pólitísku umræðunnar, fór þar meira að segja oft fremstur í flokki og á nú aðeins einn jafningja í Framsóknarflokknum á þingi; Vigdísi Hauksdóttur.

Þögn Sivjar Friðleifsdóttur er fyrir löngu orðið þannig að eftir var tekið, sama má segja um Guðmund Steingrímsson og fleiri mætti nefna í hópi þingmanna Framsóknarflokksins.

En nú hefur Siv látið í sér heyra. Hún styður ekki Sigmund Davíð, formann flokksins, í hans helstu stefnumálum. Hún styður hvorki myndun þjóðastjórnar né að efnt verði bráðlega til kosninga. Sagði réttilega að kosningar væri það sem þjóðin þyrfti síst á að halda núna.

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um að Ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms væri að bera víurnar í Framsókn  um að koma til liðs við Ríkisstjórnina. Ekki finnst mér það ólíklegt að einhverjar þreifingar eigi sér stað. Það hljóta alir að sjá, ekki síst Steingrímur J. Sigfússon, að þingflokkur Vinstri grænna er ekki lengur með þann styrk að geta veitt Ríkisstjórninni nauðsynlegar stuðning. Að stjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta á Alþingi gengur ekki.

Ég held að Siv komi fram af þessum mikla þunga nú vegna þess að hún skynjar pólitíska ástandið á Alþingi hárrétt.  Ríkisstjórnin getur ekki reitt sig framvegis á stuðning þeirra Lilju, Ásmundar Einars og Atla. Það er ekki endalaust hægt að standa í "kattasmölun", leyfum "köttunum" að fara sín einstigi, þeirra tími er liðinn sem jákvætt afl á Alþingi.

 


Kvikmynd Gunnars Sigurðssonar um Hrunið var geysilega góð og hlýtur að hafa hrisst upp í mörgum.

Sjónvarpið sýndi mynd Gunnars sunnudagskvöldið síðasta, daginn eftir kosningarnar til Stjórnlagaþings. Ég hefði gjarnan viljað fá þessa mynd á Skjáinn svo sem viku fyrir kosningar. Ég er ekki frá því að það hefði orðið til þess að adrenalínið hefði aukist hjá mörgum, það hefði jafnvel geta orðið til þess að fleiri hefðu komið á kjörstað og kosið til Stjórnlagaþings. Gunnar rekur í mynd sinni vel aðdragandann að Hruninu, þennan aðdraganda sem á einhvern furðulegan hátt hefur tekist að svæfa. Skammtímaminni manna virðist vera með eindæmum lélegt. Grein eftir grein, blogg eftir blogg kemur þetta minnisleysi mjög sterkt fram. Hrunið er skráð á þær Ríkisstjórnir sem sátu við völd þegar Hrunið varð og þær sem hafa barist við afleiðingar þess. Hvergi er minnst á gerendurna.

Miðað við framlag Sjónvarpsins fyrir kosningarnar til Stjórnlagaþings kæmi mér ekki á óvart þó það hafi verið yfirveguð ákvörðun stjórnenda RÚV að sýna ekki mynd Gunnars fyrr en EFTIR kosningarnar. Svo rækilega tók Sjónvarpið sér stöðu við hlið Morgunblaðsins að hundsa kosningarnar og kynna þær í engu.

En aftur að skammtímaminni okkar borgara þessa lands. Það hefur tekist að festa nafnið "Hrunstjórn" við Ríkisstjórn Geir Haarde, Þingvallastjórnina sem tók við stjórnartaumunum á miðju ári 2007. Þetta er stórmerkilegt hvernig tekist hefur að kenna þeim sem voru með stjórnartaumana eftir að skaðinn var skeður en enginn svo mikið sem nefnir þá sem byggðu upp Hrunið. Man enginn lengur eftir spillingunni og sukkinu við sölu ríkisbankanna? Man enginn eftir því að Björgólfsfeðgar fengu Landsbankann á spottprís og með öllu því listasafni sem þar var innanstokks, það "gleymdist" víst að minnast á þau verðmæti! Það "gleymdist" víst einnig að aflétta ríkisábyrgð af fjárskuldbindingum sem fóru frá ríkisbanka til einkabanka. Hefur fólk ekki tekið eftir því að nú er Ríkisjóður að blæða tvöfaldri þeirri upphæð sem feðgarnir borguðu fyrir bankann , tæplega 12 milljarðar, nú skal Ríkissjóður standa skil á 24 milljörðum vegna ábyrgða.

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Búnaðarbankinn fór til alikálfa Framsóknarflokksins Finns Ingólfssonar, Ólafs i Samskipum og fleiri. Og með hverju borguðu þeir bankann? Með fjármunum sem þeir höfðu komist yfir frá Samvinnutryggingum sem reyndar áttu að renna til  viðskiptavina  félagsins í hlutfalli við fyrri viðskipti. 

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Hvers vegna vildi ég að Sjónvarpið hefði sýnt mynd Gunnars viku fyrir en ekki daginn eftir kosninga?

Vegna þess að þá hefðu eflaust margir risið upp úr hægindi sínu og sagt: Ég kýs til Stjórnlagaþings því þar byrjum við að leggja grundvöllinn að nýju Íslandi, við getum ekki leyft að spilltir stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson og Halldór Ingólfsson, arkitektar Hrunsins mikla, fái aftur að leika lausum hala og eyðileggja okkar þjóðfélag. Okkur ber skylda til þess að vernda börnin okkar fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem ekki aðeins eyðilögðu þjóðfélagið, innleiddu siðleysi á hæsta stigi heldur skuldbundu þeir Ísland til að fylgja ofstækisfullum og yfirrugluðum forseta Bandaríkjanna í verst glæp síðari ára, Íraksstríðið.

Mér hefur að framan orðið tíðrætt um sölu bankanna og þá spillingu sem þar ríkti. Sala bankanna er hluti af því sem Hruninu olli, þar kom vissuleg margt fleira til en bankasalan var þar mikill áhrifavaldur.


Hvað með málskotsréttinn?

Yfirleitt eru flestir að ræða um Forsetann þegar málskotsrétt ber á góma, þar er jafanan rætt um þann rétt hans, sem enginn hefur beitt nema núverandi Forseti, að skjóta málum til úrskurðar þjóarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

En ég er enn svilítið óákveðinn í hvort við ætlum að hafa Foreta eða ekki, en ef hann verður einn af hornsteinum stjórnskipunar landsins þá tel ég að hann eigi að hafa málskotsrétt.
En það eiga fleiri að hafa, bæði einhver hluti alþingismanna og einnig almenningur þá einhver ákveðim prósenta atkvæðisbærra manna.
En þjóðaratkvæðagreiðslur, um hvaða mál þær eiga að fjalla og hvernig er hægt að krefjast þeirra. Mér finnst að skilyrðin eigi að vera þröng, það gengur ekki að lítill minnihlutahópur geti krafist þjoðaratkvæðis um lítilsverð mál
Svolítið um framkvæmd þjóðaratkvaðagreiðslna. Þær þurfa alls ekki að vera svo dýrar í framkvæmd eins og Alþingiskosningar. Þó ég sé ekki einn af þessum mörgu tölvusnillingum þá sýnist mér að þjóðaratkvæðagreiðslur geti verið rafrænar. Þá geti hver og einn kosið í sínum heimabanka. ég veit að það eru ekki allir með heimabanka, margt eldra fólk er það ekki. Þá er tvennt til í spilunum; fara til nágrannans og kjósa þar eða að einhver miðstöð verði fyir þann fámenna hóp sem ekki á möguleika heima hjá sér eða hjá nágrannanum. Það yrði ekki hægt að kjósa nema einu sinni á hveri kennitölu og hugbúnaðurinn, sem tekur á móti atkvæðunum, hefur úrslitin klár þegar kjörtími er útrunninn.
Ég set þetta hér inn, ekki til að þetta fari í Stjórnarskrá, heldur til að vekja athygl á möuleikum tölvunnar.
Ég heyrði það frá einum frambjóðanda að honum hugnaðist ekki að í núverandi Stjórnarskrá eru þó nokkur ákvæði sem leyfa að um Stjórnarskrárbundin ákvæði megi fjalla á Alþingi til breytinga án þess að það teljist breyting á Stjórnarskrá. Ég tel að slíkt sé í meira lagi vafasamt, Stjórnarskrá verði ekki breytt nema þar sé ótvírætt um Stjórnarskrárbreytingu að ræða og þá verði málsmeðferðin í samræmi við það.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113833

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband