Færsluflokkur: Kjaramál

Þórhallur fer vel af stað með framtíðarþátt sinn um Ísland í Sjónvarpinu, en fyrsti þátturinn var helmingi of langur

Ég held að þessi t Þórhalls lofi nokkuð góðu. En Þórhallur þarf að muna það að þessir umræðuþættir mega ekki vera of háfleygir og á mannamáli. Það tekur nokkuð á að fylgjast með umræðu um félags- og framfærslumáleins eins og annað sem þar bar á góma. Þess vegna átti Þórhallur að efna til umræðu um heilbrigðismálin í örðum þætti, þarna var allt of mikið efni sett fram í einu og ég óttast að það hafi í för með sér að áheyrandi/áhorfandi nái ekki að fanga allt sem þar kemur fram.

Eðlilega urðu miklar umræður um kjör öryrkja og einnig um kjör einstæðra foreldra sem í flestum tilfellum eru konur, þær sjá oftast um börnin eftir skilnað og sumar hafa misst maka sinn, en einstæðir feður eru einnig til. Það sem mér fannst athyglisverðast í umræðunni var sú hugmynd um að snúa mati á öryrkjum við, meta þá út frá færni en út frá vöntun á færni. Einnig að það gengur ekki lengur að flokka ákveðna þjóðfélagshópa eftir einu og sama lögmálinu, þarna er hópur sem er eins misjafn og aðrir hópar þjóðfélagsins að möguleikum og aðstöðu. Þarna þarf að skoða mál sérhvers einstaklings, þá kann að koma í ljós að sá hópur sem býr við hreina neyð er ekki eins stór og ætla mætti.

Það var nánast ekkert minnst á eldri borgar í þessum þætti frekar en annarstaðar í þjóðfélaginu. Aðeins Stefán Ólafsson ræddi um eldri borgara í sínu innslagi og benti einnig á að þar þyrfti að endurskipuleggja það flókna kerfi lífeyris sem klambrað hefur verið saman. Eldri borgarar eru ekki einsleitur hópur, þar er mannflóran mjög fjölbreytt. Þar eru margir sem ekki eiga til hnífs og skeiðar en þar er sem betur fer allgóður hópur sem á eignir og hefur góðar tekjur, þarna er ekki síðri þörf á að skoða mál einstakslingins, ég held að það sé engan veginn eins mikið verk og ætla mætti.

Enn og aftur segi ég að ég hef aldrei skilið þá gjörð Árna Páls flokksbróður míns, þáverandi félagsmálaráðherra, þegar hann lækkaði frítekjumark eldri borgara úr 1.300.200 kr niður í 480.000 á ári, fyrr mátti nú rota en dauðrota. Hvað halda ráðmenn að Ríkið græði á þessari gjörð? Ekki nokkurn skapaðan hlut en þetta sviptir margan mann möguleikanum á að afla sér nokkurra aukatekna og án vafa safnar það nokkrum krónum í skattpeningum í kassa ríkisins. Það ætti Árni Pál og aðrir unggæðingar að vita að ekkert er eins gefandi og gefa öldruðum kost á að vera á vinnumarkaði eins lengi og kostur er og miðla sérþekkingu sinni til samborgaranna.

Það þýðir lítið að segja við hálf áttræðan mann að þetta verði leiðrétt eftir tíu ár eða svo. 

Veit Árni Páll hvert á að senda leiðréttinguna til mín, á húna að fara í körina, eða þá upp eða niður?


Ólafur Ragnar fyrir ári: Stöndum við skuldbindingar okkar


Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands sagði í viðtali við sjónvarpsstöðina Bloomberg TV Europe í morgun að allsendis væri óvíst hvort Íslendingar skulduðu Bretum og Hollendingum neitt vegna Icesave.
 
Fyrir rúmu ári – skömmu eftir að hann synjaði lögum um Icesave staðfestingar í fyrra skipti – sagði forsetinn þetta í viðtali við sömu sjónvarpsstöð: „Ég vil segja þetta alveg skýrt: Íslendingar eru ekki að hlaupast undan skuldbindingum sínum. Lögin sem ég skrifaði undir í september [2009] og eru í gildi byggjast á þeirri meginreglu að Íslendingar viðurkenna ábyrgð sína og skuldbindingar sínar, samkvæmt samkomulagi við Breta og Hollendinga.“
 
Fréttakonan spurði þá: „Fá Bretar og Hollendingar endurgreitt að fullu?“ og forsetinn svaraði:
„Að sjálfsögðu. Eins og ég sagði þá byggjast núgildandi lög á samningi milli landanna. [...] Íslendingar eru á engan hátt að hlaupast undan þeim skuldbindingum.“

Það er mjög margt jákvætt að gerast i okkar þjóðfélagi

Það er óvenjulega margt jákvætt í fjölmiðlum á þessum degi. Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur er orðinn hundleiður á svartagallsrausi og svívirðingum um þá sem vinna baki brotnu við að endurreisa okkar þjóðfélag eftir þá sem steyptu okkur í Hrunið mikla haustið 2008.

Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð frá eigin brjósti en læt fylgja með hluta af frétt Seðlabankans þegar tilkynnt var að stýrivextir væru lækkaðir um 0,25 prósentustig niður í 4,25 %. Fyrir tveimur árum, þegar Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við, voru stýrivextir Seðlabankans 18%, er þetta ekki dágóður árangur?

Úr yfirlýsingu peningastefnunefndar 2. febrúar 2011:

"Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti
bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum
innlánsstofnana lækka í 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum
lækka í 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 4,25% og
daglánavextir lækka í 5,25%.

Áfram dró úr verðbólgu í desember og janúar. Tólf mánaða verðbólga var
1,8% í janúar eða 1,6% að áhrifum hærri neysluskatta frátöldum. Hún er
því nokkuð undir 2½% verðbólgumarkmiði bankans. Tilfallandi
verðlækkanir bættust við árstíðarbundna lækkun vísitölu neysluverðs í
janúar. Sem fyrr stuðla hagstæð gengisþróun undanfarið ár, lækkandi
verðbólgu­væntingar og slaki í þjóðarbúskapnum að lítilli og stöðugri
verðbólgu.

Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður
efnahagsbatinn heldur meiri í ár en Seðlabankinn spáði í nóvember.
Spáð er 2,8% hagvexti í ár og liðlega 3% vexti á árunum 2012 og 2013.
Verðbólga hefur verið heldur minni en fólst í nóvemberspánni, aðallega
vegna einskiptisáhrifa breytinga á opinberum gjöldum, og er því spáð
að hún verði eitthvað undir verðbólgumarkmiðinu nánast til loka
spátímans."


Ætlar Jóhanna að láta uppvöðslusaman kyrjukór draga sig inn í ruglið?

Mér brá ónotalega þegar Jóhanna forsætisráðherra bauð Björku og kyrjukór hennar l inn að fundarborði í Stjórnarráðinu, sem í sjálfu sér var allt í lagi, mér brá  vegna viðbragða hennar. Sjálfsagt að taka á móti fólki sem kemur fram af kurteisi jafnvel þó það sem það leggur fram sé tóm vitleysa.

Því miður lýsti Jóhanna því yfir að  hún vildi gjarnan standa með kyrjukórnum og taka hlut Magma-Energy í HS-Orki eignarnámi, þetta væri í samræmi við stefnu Ríkistjórnarinnar!

Hvernig dettur Jóhönnu önnur eins vitleysa í hug og hversvegna kalla ég það vitleysu að láta sér til hugar koma að fara út í eignarnám?

Vegna þess að Magma-Energy á ekki nokkurn einasta part í íslenskri auðlind. Magma-Energy á ráðandi hlut í orkuvinnslufyrirtæki og hver hættan við það? Ég sé hana ekki, ég hef áður bent á hvort að sé ekki ráðlegra að fá útlendinga til að hætta fjármagni hérlendis og að þeir fái af því nokkurn arð, en að taka lán endalaust hjá útlendum lánastofnunum til að reisa orkuver og borga fyrir það vænar fúlgur úr landi sem vexti.

Hvaða skilaboð er Ríkisstjórnin að senda umheiminum ef hún ræðst að eina útlendingnum sem hefur viljað hætta sinu fé hérlendis eftir Hrun? Er ekki þessi sama Ríkisstjórn sí og æ að boða  að það þurfi að laða að útlenda fjárfesta til að koma með áhættufé inn í landið?

Hvar ætlar Jóhanna að grípa upp 15 milljarða til að staðgreiða eignarnámið? Er hægt að réttlæta hækkandi skatta ef það á að henda gífurlegum fjárhæðum í svona vitleysu eins og þetta hugsanlega eignarnám?

Er rugluliðið í Vinstri grænum farið að smita frá sér inn í Samfylkinguna og getur það verið að forsætisráðherrann og formaður Samfylkingarinnar sé  þar veikastur fyrir?

Ég vona að þeir sem hugsa rökrétt innan Samfylkingarinnar komi vitinu fyrir Jóhönnu svo hún láti ekki framar svona rökleysur frá sér fara.


Félagsráðgjafi Hjálparstofnunar kirkjunnar sýndi djörfung og raunsæi þegar hún sagði álit sitt á biðröðunum margumtöluðu

Ég hef svo sannlega haft ákveðnar skoðanir á því hörmulega skipulagi á "neyðarhjálp" að fólk komi til hjálparstofnana til að fá matvæli og standi þar tímunum saman í biðröðum. Ekki er nokkur vafi á að þar eru þeir sem af neyð leita eftir hjálp, en það er ekki minni vafi á því að þar slæðast margir með sem ekki eru í neyð. Það er sama hvaða hjálp er boðin, ef hún er jafn stjórnlaus og hún er í dag hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni þá er ekki nokkur vafi á að hjálpin er misnotuð af einhverjum hluta þeirra sem þangað leita. Viðbrögð forstöðukonu Fjölskylduhjálparinnar voru með eindæmum. Í stað þess að viðurkenna að allt þetta starf þyrfti að endurmeta réðst hún að félagsráðgjafa Hjálparstofnunar kirkjunnar og sakaði hana um lítilsvirðingu við þá sem hjálpar leita. Bætti við að sú hugmynd félagsráðgjafans, að upplýsa og hjálpa fólki að fara rétt með það fjármagn sem það hefur, væri fáránleg, fólk sem hefði enga peninga þyrfti ekki á slíkri ráðgjöf að halda. Líklega er ástandið ekki það slæmt að í biðröðunum séu margir sem enga peninga eiga, en það eru eflaust margir sem hafa peninga af skornum skammti, þeim þarf að hjálpa til að forgangsraða.

Það er athyglisvert að Hjálparstofnun kirkjunnar vinnur allt öðru vísi en hinar stofnanirnar. Þar fær hver og einn sem þangað leitar persónulega hjálp, það getur ekki hver sem er komið án þess að gera grein fyrir sér og rogast burt með poka með matvælum. Svo virðast sem a. m. k. Fjölskylduhjálpin vilji halda í óbreytt ástand og þá hlýtur maður að spyrja:  Er hjálpin farin að nærast á því að geta aflað sem mestra gæða hjá framleiðendum og verslunum til að úthluta til Péturs og Páls án þess að kanna á nokkurn hátt þörf hvers einstaklings. Vill Fjölskylduhjálpin hafa biðraðirnar og óbreytt ástand til að forstöðukonan geti síðan baðað sig í fjölmiðlum og barið sér þar á brjóst og sagt; Sjá hér er ég, miskunnsami Samverjinn.

Sveitarfélögin verða að taka sér tak og kortleggja þörfina. Neyðarhjálp á ekki að vera úthlutun matarpoka til fólks í biðröðum, biðraðirnar eiga að hverfa. 

Mér sýnist að sú skarpa sýn sem Hjálparstofnun kirkjunnar hefur á vandamálinu geti orðið leiðandi í því starfi að kortleggja vandann, skilgreina hverjir þurfa neyðarhjálp og hverjir þurfa framfærslu. Sveitarfélögin virðast vera steinsofandi og ekki gera sér grein fyrir skyldum sínum. En hver veit nema þau fari að rumska, þarna verða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að rumska fyrst og taka hraustlega á vandamálinu.


Þjóðin ætti að taka sér Reyni Pétur sem fyrirmynd og líta bjartari augum á framtíðina

Það var einstök mynd sem við fengum að sjá í Sjónvarpinu þar sem bjartsýnismaðurinn  Reynir Pétur á Sólheimum birtist. Óneitanlega hvarflaði hugurinn að andstæðunni, sumum bloggurum sem aldrei sjá annað en dauðann og djöfulinn í hverju skoti og velta sér endalaust upp úr svartsýni og hlutdrægni

Reynir Pétur varð þjóðþekktur þegar hann gekk hringveginn fyrir 25 árum, það var svo sannarlega ástæða til að rifja það afrek upp því nú er að vaxa úr grasi heil kynslóð sem var ófædd eða nýfædd þegar gangan mikla var farin. Reynir Pétur á að varða veginn fyrir þjóðina og kenna henni að leggja bölmóðinn alfarið niður og eigna sér bjartari framtíðarsýn.

Ég finn að nú byrja svartagallsrausararnir að segja "það er allt að fara norður og niður, það gerist ekkert jákvætt".

Er það svo?

Lítum á nokkur jákvæð atriði:


Stýrivextir lækkaðir um eitt prósentustig - eru nú 4.5%, það er ekki langt síðan þeir voru 18%?

Laun hækkuðu um 2,0% frá fyrri ársfjórðungi

New York Times: Iceland Emerged From Recession in 3rd Quarter

1,2% hagvöxtur á milli ársfjórðunga

Einkaneysla jókst um 3,8% á þriðja ársfjórðungi

Vöruskiptin hagstæð um 10,4 milljarða í nóvember

Erlend skuldastaða þjóðarbúsins ekki betri í áratugi

Ríkistjórnin bætir við sig um 6%  skv. þjóðarpúlsi Capacent, 36% styðja rikisstjórnina

Atvinnuleitendur fá desemberuppbót

Landinn orðinn léttari í lundu - væntingavísitala hækkar um helming

Vöruskiptajöfnuður hagstæðari í ár en í fyrra 

Aflaverðmæti jókst um 14 milljarða 


Ráðstafir Ríkisstjórnar og fjármálfyrirtækja vegna skulda heimilanna fara fyrir brjóstið á öfgasinnuðum bloggurum og ákveðnum öflum í þjóðfélaginu

Það samkomulag sem gert var ætti að sýna öllum að það var ekki létt verk að ná saman þeim sem þar þurftu að koma að. Vissulega er búið að gera margt í bönkunum til að koma til móts við þá sem eru illa komnir vegna Hrunsins og afleiðingunum af falli krónunnar. En sá punktur sem settur var í gær var bráðnauðsynlegur  vegna þess að það hefur verið mikil tregða hjá þeim sem illa eru staddir til að leita sér aðstoðar; þar kemur til hávær yfirboð ákveðinna afla í þjóðfélaginu sem Guðmundur Guðmundsson formaður Rafiðnaðarsambandsins lýsti vel í Kastljósinu þegar Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar hélt enn eina ruglingsræðu um hvernig ætti að bjarga öllum, því miður verður það aldrei hægt. En þeir sem barist hafa við skuldabaggann hafa látið glepjast af þessum fagurgala og þess vegna haldið að sér höndum í von um eitthvað miklu, miklu betra sem aldrei var nema tálsýn.

En það er fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum ýmissa einstaklinga svo sem bloggaranna sem alltaf eru "fúlir á móti". En ég nenni ekki að eltast við þá enda eru þar þó nokkur hópur sem ekki er hægt að eiga orðastað við.

En viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru því athyglisverðari og þar vil ég fyrst nefna Bjarna Benediktsson og flokk hans, Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ekki ólíklegt að Bjarna hafi brugðið illilega þegar hann sá að stjórnarandstaðan hafði í skoðanakönum 16% traust þjóðarinnar og þar í hlýtur hlutur stærsta stjórnarandstöðufokksins, Sjálfstæðisflokksins, að vega þungt. Oftast hefur stjórnarandstaðan talað einni röddu, verið á móti öllu og rakkað allt niður sem frá Ríkisstjórninni hefur komið. Það skyldi þó ekki vera að augu Bjarna hafi opnast og hann séð það skýrt að þessi ómálefnalega og einskisnýta þjösnabarátta stjórnarandstöðunnar gengur ekki lengur. Bjarni stökk frá borði stjórnarandstöðunnar í gær og virtist vera að sjá að málefnaleg umræða um mál, hvaðan sem þau koma, er það sem almenningur vill sjá og heyra. Bjarni hefur sem sagt skyndilega skilið að fólk er ekki fífl sem láta bjóða sér hvað sem er. Ekki ólíklegt að þetta verði örlítill plús eftirleiðis fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

En Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins er samur við sig, þó mátti sjá að öryggi hrópandans fúll á móti var ekki það sama óg áður Þegar hann kom fram í Kastljósi. Auðvitað þurfti hann að tæta gerðir Ríkistjórnarinnar í sig en gat þó ekki annað en verið örlítið jákvæður.

En svo komum við að ósköpunum sem kallast Hreyfingin og átti að vera hin mikla endurnýjun, komin fram eftir ákalli fólksins eins og þeir segja. Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar leyfir sér í Fréttablaðinu í dag að segja að þær ráðstafanir sem kynntar voru í gær væru "Ölmusupólitík og aumingjavæðing". Er Margrét með þessu að segja að öll þau heimili sem fá hjálp, líklega 60.000 heimili og þeir sem þar búa, séu ölmusufólk og aumingjar, liggur það ekki í hennar orðum? Það er litlu við að bæta eftir þá hirtingu sem Þór Saari þingmaður Hreyfingarinnar fékk hjá Guðmundi Gunnarssyni í Kastljósi. Þór hefur aldrei svo ég hafi orðið var við annað gert en vera á móti öllu og rakkað allt niður sem fá Ríkisstjórninni kemur, hann er fyrir löngu búinn að gera sig að slíkum ómerkingi að á hann verður ekki hlustað meir. Það dapurlegast er samt að grasrótarhreyfing eins og Hagsmunasamtök heimilanna, sem hefur alla tíð predikað þá vitlausu leið flatan niðurskurð, hefur alla tíð njörvað sig við Hreyfinguna eins og þar fari deild í þeim ólukkuflokki. 

Mér varð það á í síðasta pistli að fara rangt með föðurnafn Halldórs Ásgrímssonar, sagði hann Ingólfsson. En einhverjir kunna að hafa tekið þetta sem styttingu og samsetningu nafnanna Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson. Það finnst mér hið besta mál, samhentari menn voru tæpast til þegar hinum feysknu stoðum Hrunsins var hróflað upp, þar unnu þeir sem ein persóna. 


Kvikmynd Gunnars Sigurðssonar um Hrunið var geysilega góð og hlýtur að hafa hrisst upp í mörgum.

Sjónvarpið sýndi mynd Gunnars sunnudagskvöldið síðasta, daginn eftir kosningarnar til Stjórnlagaþings. Ég hefði gjarnan viljað fá þessa mynd á Skjáinn svo sem viku fyrir kosningar. Ég er ekki frá því að það hefði orðið til þess að adrenalínið hefði aukist hjá mörgum, það hefði jafnvel geta orðið til þess að fleiri hefðu komið á kjörstað og kosið til Stjórnlagaþings. Gunnar rekur í mynd sinni vel aðdragandann að Hruninu, þennan aðdraganda sem á einhvern furðulegan hátt hefur tekist að svæfa. Skammtímaminni manna virðist vera með eindæmum lélegt. Grein eftir grein, blogg eftir blogg kemur þetta minnisleysi mjög sterkt fram. Hrunið er skráð á þær Ríkisstjórnir sem sátu við völd þegar Hrunið varð og þær sem hafa barist við afleiðingar þess. Hvergi er minnst á gerendurna.

Miðað við framlag Sjónvarpsins fyrir kosningarnar til Stjórnlagaþings kæmi mér ekki á óvart þó það hafi verið yfirveguð ákvörðun stjórnenda RÚV að sýna ekki mynd Gunnars fyrr en EFTIR kosningarnar. Svo rækilega tók Sjónvarpið sér stöðu við hlið Morgunblaðsins að hundsa kosningarnar og kynna þær í engu.

En aftur að skammtímaminni okkar borgara þessa lands. Það hefur tekist að festa nafnið "Hrunstjórn" við Ríkisstjórn Geir Haarde, Þingvallastjórnina sem tók við stjórnartaumunum á miðju ári 2007. Þetta er stórmerkilegt hvernig tekist hefur að kenna þeim sem voru með stjórnartaumana eftir að skaðinn var skeður en enginn svo mikið sem nefnir þá sem byggðu upp Hrunið. Man enginn lengur eftir spillingunni og sukkinu við sölu ríkisbankanna? Man enginn eftir því að Björgólfsfeðgar fengu Landsbankann á spottprís og með öllu því listasafni sem þar var innanstokks, það "gleymdist" víst að minnast á þau verðmæti! Það "gleymdist" víst einnig að aflétta ríkisábyrgð af fjárskuldbindingum sem fóru frá ríkisbanka til einkabanka. Hefur fólk ekki tekið eftir því að nú er Ríkisjóður að blæða tvöfaldri þeirri upphæð sem feðgarnir borguðu fyrir bankann , tæplega 12 milljarðar, nú skal Ríkissjóður standa skil á 24 milljörðum vegna ábyrgða.

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Búnaðarbankinn fór til alikálfa Framsóknarflokksins Finns Ingólfssonar, Ólafs i Samskipum og fleiri. Og með hverju borguðu þeir bankann? Með fjármunum sem þeir höfðu komist yfir frá Samvinnutryggingum sem reyndar áttu að renna til  viðskiptavina  félagsins í hlutfalli við fyrri viðskipti. 

Ætlar einhver að segja að þarna hafi ekki verið á ferðinni sukk og spilling?

Hvers vegna vildi ég að Sjónvarpið hefði sýnt mynd Gunnars viku fyrir en ekki daginn eftir kosninga?

Vegna þess að þá hefðu eflaust margir risið upp úr hægindi sínu og sagt: Ég kýs til Stjórnlagaþings því þar byrjum við að leggja grundvöllinn að nýju Íslandi, við getum ekki leyft að spilltir stjórnmálamenn eins og Davíð Oddsson og Halldór Ingólfsson, arkitektar Hrunsins mikla, fái aftur að leika lausum hala og eyðileggja okkar þjóðfélag. Okkur ber skylda til þess að vernda börnin okkar fyrir spilltum stjórnmálamönnum sem ekki aðeins eyðilögðu þjóðfélagið, innleiddu siðleysi á hæsta stigi heldur skuldbundu þeir Ísland til að fylgja ofstækisfullum og yfirrugluðum forseta Bandaríkjanna í verst glæp síðari ára, Íraksstríðið.

Mér hefur að framan orðið tíðrætt um sölu bankanna og þá spillingu sem þar ríkti. Sala bankanna er hluti af því sem Hruninu olli, þar kom vissuleg margt fleira til en bankasalan var þar mikill áhrifavaldur.


Það verður að endurheimta eignarétt þjóðarinnar á auðlindum hafsins, ætlum við að gefast upp fyrir afturhaldsaflinu LÍÚ?

Mér er minnisstæð heimsókn til góðs vinar í Vestmannaeyjum. Hann ók mér um alla Heimaey, upp á nýja hraunið og að lokum umhverfis höfnina. Þar lágu reisuleg fiskiskip við festar. Hann benti mér á nýlegan togara af minni gerðinni og sagði "Þarna er arðsamasta skip flotans hér í Eyjum, það hefur þó ekki farið úr höfn síðustu árin". Ég varð eitt spurningamerki og skildi ekki neitt. "Einfalt mál, eigandinn nennti ekki að standa í þessu útgerðarströggli, fór í land og leigði kvótann. Hann lifir nú góðu lífi á þessum ágætu tekjum".

Ef eitthvað sýnir í hnotskurn það skelfilega sukk og spillingu sem íslenskur sjávarútvegur er sokkinn í þá er þessi litla saga efst í mínum huga.

Sú var tíðin að allir gátu róið til fiskjar og fiskað eins og hver vildi. Einkennilegt finnst mér samt að það var á þeim árum sem útlendingar, einkum Bretar, gátu fiskað eins og þeir vildu á íslenskum miðum. En með órofa samstöðu (slíkri sem okkur sárvantar nú í þjóðmálum í heild) var ekki látið staðar numið fyrr en við höfðum fengið lögsögu yfir 200 mílna belti umhverfis landið frá grunnlínupunktum. Þvílík breyting frá því að lögsaga okkar var einungis 3 mílur frá strandlengju.

En svo einkennilega bregður við að eftir að við leiðum vísindi inn í fiskveiðarnar og rekum alla útlendinga frá okkar fiskmiðum þá dregst afli saman. Þá er kvótakerfið innleitt, ekki hægt að komast hjá því segja menn. En eins og alltaf verður þegar gæði eru takmörkuð þá heldur spillingin innreið sína. Útgerðarmann sóttu fast á að fá kvótann eignfærðan og misvitrir stjórnmálamenn létu undan þrýstingnum enda áttu sumir þeirra beinna hagsmuna að gæta í sjávarútvegi. Fyrir tuttugu árum var kvótinn í rauninni gefinn útgerðarmönnum, hann gerður að braskvöru, keyptur, seldur og leigður.

Kvótinn er orðinn eign útgerðarmanna á ólöglegan hátt eins og dómar hafa staðfest. Þar með eru útgerðarmenn komnir með dýrmæta eign sem ekki aðeins má kaupa, selja eða leigja. Þess eign má ekki síður veðsetja og fá peninga í kassann, þá drukku útgerðarmenn eiturbikarinn í botn.

Ég átti í nokkrum skoðanaskiptum við útgerðarmann hér í Þorlákshöfn ekki fyrir löngu og hann viðurkenndi tvennt alveg óvænt. Í fyrsta lagi að íslenskur sjávarútvegur væri búinn að veðsetja sig upp í rjáfur, ekki aðeins í íslenskum lánastofnunum heldur einn í útlendum bönkum og í öðru lagi að skuldsetningin kæmi fyrst og fremst af þeim skelfilegu peningaútlátum greinarinnar til að kaupa þá, sem hættu útgerð, út úr greininni. Þannig hafa þeir sem hætt hafa mergsogið greinina, horfið á braut með mikið fjármagn sem þeir hafa ýmist braskað með í öðrum greinum eða notað til að lifa hinu ljúfa lífi í heimsborgum eða flatmaga á sólarströndum.

Það hefur aldrei staðið til að rústa íslenskri útgerð með því að vinda ofan af þessu skelfilega kerfi. Það er undarlegt að útgerðarmann sjálfir sjái ekki að það er verið að rétta þeim hjálparhönd til að draga þá upp ur því kviksyndi sem þeir eru sokknir í. Sú samningaleið sem þeir eru að þvinga fram er ekkert annað en framlenging á sukkinu og spillingunni, þessu verður að linna.

Ég fer inn á Stjórnlagaþing með opinn huga tilbúinn til að hlusta á allar góðar hugmyndir og tillögur sem þar koma fram. En ef ekki verður tekið á auðlind hafsins og hún færð aftur í þjóðareign þá sé ég ekki að til mikil sé barist.

Þarna verður að skera upp, þarna verður að grípa til róttækra aðgerða.

Þessu 


Það getur ekki verið hagkvæmt að reka allan þennan fjölda af lífeyrirsjóðum hér á landi

Ragnar Ingólfsson stjórnarmaður í VR var gestur í Silfri Egils sl. sunnudag. Þar gagnrýndi hann hinn mikla rekstrarkostnað lífeyrissjóðanna. Ég hef löngum undrast hvaða þörf er fyir allan þennan fjölda. Sumir lífeyrisþegar lífeyrissjóðanna hafa fengið þunga skelli í töpuðum lífeyri vegna rýrnunar hjá nokkrum minni lífeyrissjóðunum, ýmist af röngum fjárfestinga stjórnendanna, en það hefur einnig komið fyrir að þeir sem þá áttu að annast þá hafa látið greipar sópa í sjóðunum og sumir jafnvel síðan hlaupist af landi brott.

En stjórnendur lífeyrissjóðanna eru í algjörri afneitun. Hrafn Magnússon framkvæmdastjóri Sambands lífeyrissjóða, Helgi Magnússon formaður Samtaka iðnaðarins og Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ljúka upp einum rómi um að hjá lífeyrisjóðunum sé allt í blóma, hagkvæmni mikil og lágur rekstrarkostnaður. Ég held að það verði ekki hjá því komist að gerð verði úttekt á sjóðunum, þessir forystumenn falla í sama afturhaldpyttinn og LÍÚ, Þjóðkirkjan og Bændasamtökin, það má engu breyta, allt er eins og það á að vera.

En er það svo? Íslenskur hagfræðingur í framhaldsnámi í útlöndum sagði framtíðarhorfur lífeyrissjóðanna mjög dökkar og ekki langt í að þeir getir ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Ætla forystumenn lífeyrissjóðanna að hundsa með ölu þessa gagnrýni? Hvað mælir gegn því að á Íslandi starfi einn hagkvæmur lífeyrissjóður og þannig verði sparaðar hundruðir milljarða í rekstrarkostnað?                                                                        


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband