Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Svandís á að segja af sér, lögbrjótur á ekki að sitja í ráðherrastóli

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmd fyrir lögbrot. Hún neitaði að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps, ástæðan sú að Landsvirkjun hafði kostað skipulagsvinnuna að hluta. Þarna hljóp Svandís illilega á sig og það af pólitískum ástæðum. Þó hún sé á móti virkjunum í neðri Þjórsá mátti hún ekki að brjóta lög til að koma í veg fyrir það. Úrskurður hennar um aðalskipulag Flóahrepps hefur verið felldur úr gildi enda var hann lögbrot.

Svandís á að sjá sóma sinn í að biðjast lausnar sem Umhverfisráðherra

 


Ég hef átt samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld

Fyrst þegar ég fór að venja komu mína til Hitaveitu Reykjavíkur var skrifstofa og afgreiðsla Hitaveitunnar  í íbúðarhverfi, nánar til tekið við Drápuhlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Jóhannes Zoega var þá forstjóri Hitaveitunnar og kynntumst við Jóhannes vel og leyfi ég mér að segja að öll okkar kynni voru hin bestu. Jóhannes stjórnaði þeirri miklu uppbyggingu Hitaveitunnar sem hófst um 1960 þegar Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri.

Hitaveita Reykjavíkur vann það grettistak að leggja hitaveitu í alla Reykjavík innan Hringbrautar á stríðsárunum, nokkur hús höfðu áður átt kost á heitu vatni úr Laugardal en eftir það átak varð alger stöðnun, ekkert frekar gert í útvíkkun hitaveitunnar fyrr en þeir Geir og Jóhannes komu til skjalanna. Ég var einn af þeim bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Kópavogs sem vildi taka þá stefnu að semja við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan legði hitaveitu um allan Kópavog án nokkurra fjárútláta af hálfu Kópavogs en vissulega voru þau sjónarmið á lofti að stofna eigin hitaveitu í Kópavogi, leita eftir vatni í bæjarlandinu og leggja síðan hitaveitu með stórfelldum lántökum. Þessi stefna varð undir sem betur fer en hafði það í för með sér að þáverandi meirihluti í Bæjarstjórn sprakk en stefnan um samninga við Hitaveitu Reykjavíkur varð ofan á. Þannig var Kópavogsbúum forðað frá því að taka á sig drápsklyfjar af skuldum sem langan tíma hefði tekið að komast út úr. Síðan fóru Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur að okkar dæmi og þannig urðu allir íbúar höfuðborgarsvæðisins aðnjótandi þessara mestu gæða sem Ísland á; að hita upp hús sín með jarðvarma, orkugjafa án allrar mengunar.

Eftir að Jóhannes lét af stjórn sem forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur tók Gunnar Kristinsson við, mætur maður sem ég átti hin bestu samskipti við. Síðan byggði Hitaveita Reykjavíkur aðalstöðvar sínar við Grensásveg, þar var rúmt um alla starfsemi og ég held að allir hafi unað glaðir við sitt. Þessir heiðursmenn, Jóhannes Zoega og Gunnar Kristinsson er báðir látnir.

Svo kom að því að hitaveitan, vatnsveitan og holræsakerfið í Reykjavík voru sameinað undir einn hatt. Guðmundur Þóroddsson vatnsveitustjóri tók við stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki. Allan þann tíma frá því hin stórfellda uppbygging og útbreiðsla hitaveitunnar hófst var Hitaveita Reykjavíkur og síðan hið sameinaða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, mjólkurkú sem skilaði eiganda sínum umtalsverðum arði.

En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls.

Hvað gerðist?

Vissulega var farið í nýjar stórframkvæmdir. Nesjavallavirkjun byggð sem framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn, virkjun sem var hagkvæm í alla staði og er búin að borga sig. Síðan kemur Hellisheiðarvirkjun sem enn sem komið er framleiðir aðeins rafmagn, ekki heitt vatn einnig, nýtir aðeins 15% af jarðorkunni í stað 85% eins og Nesjavallavirkjun. Þá voru tekin mikil útlend lán og síðan kom hrunið.

Er það eina skýringin á slæmri stöðu OR, útlendu lánin?

Þau eru þyngst en því verður ekki á móti mælt að hjá OR hófst flottræfilsháttur í rekstri sem ekki mátti síður rekja til pólitíkusa en stjórnenda OR. Skýrasta dæmið um það er hið skelfilega hússkrímsli við Bæjarháls. Ekki veit ég hvað það er stórt en þó tekið sé tillit til að hitaveita, vatnsveita og holræsakerfi hafi verið sameinuð í eitt,  er ekki lítil þensla í húsnæði og mannafla frá Drápuhlíð til Bæjarháls. Bruðlið við byggingu hússins við Bæjarháls var með eindæmum, að bruðla þar endalaust með fjármuni almennings er ófyrirgefanlegt og afurðin er einhver ljótasta og óhagkvæmasta bygging sem risið hefur hér á landi á undanförnum árum.

Síðasta kjörtímabil var eitthvert svartasta tímabilið í pólitískri sögu Reykjavíkur frá upphafi. Forystuna um þá niðurlægingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn. Til að reyna að hreinsa sig völdu kjörnir fulltrúar að gera  Guðmund Þóroddsson forstjóra að blóraböggli og hann rekinn og Hjörleifur Kvaran ráðinn í staðin, hafði áður verið lögfræðingur fyrirtækisins og þar áður Reykjavíkurborgar. Nú hefur Hjörleifur verið látinn taka pokann sinn, en hverju breytir það, er verið að finna nýjan blóraböggul?

Alla starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Leitun mun á fyrirtæki á Íslandi sem hefur eins tryggan rekstrargrundvöll, hefur nánast einkarétt á að reka hitaveitur á Suð-vesturlandi nema á Reykjanesi.

Um langan aldur mun skrímslið við Bæjarháls verða minnismerki um hvernig kjörnum fulltrúum, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, tókst að klúðra málum gersamlega með bruðli og gífurlegri skuldsetningu.

Megi "Skrímslið" verða öllum viðvörun um aldur og ævi.


Samfylkingin í Hafnarfirði skýtur sig í fótinn

Það er engin furða þó andstæðingar Samfylkingarinnar í Hafnarfirði noti klúður hennar í pólitískum tilgangi. Það er í sjálfu sér ekkert við því að segja að Samfylkingin og Vinstri grænir myndu meirihluta í Bæjarstjórn Hafnarfjarðar, samanlagt hafa þessir tveir flokkar afl til þess. Ég hef áður bent á að hvergi í stjórnskipunarlögum ríkis eða sveitarfélaga er orð um að meirihlutar skuli myndaðir, en upp á þessu mjög svo lýðræðislega fjandsamlega ferli fundu einhverjir pólitískir pótintátar, líklega fóru þar fremstir Sjálfstæðismenn í Reykjavík sem löngum réðu lögum og lofum þar í borg.

En þar með er ekki öll sagan sögð í Hafnarfirði. Sá mæti maður Lúðvík Geirsson hefur fallið í þann fúla pytt eins og margir aðrir (t. d. Gunnar Birgisson í Kópavogi) að þekkja ekki sinn vitjunartíma. Menn sem haf verið lengi í forystu, og ráðið þar öllu sem þeir vildu ráða, virðast skerðast illa á eigin dómgreind og ekki finna sjálfir hvenær þeir eiga að draga sig í hlé. Lúðvík tók þá djörfu ákvörðun að taka baráttusæti í framboði Samfylkingarinnar en fékk ekki stuðning og náði ekki kjöri. Það er dapurlegt að Lúðvík falli í þá gryfju að álita sjálfan sig ómissandi og að hann verði að vera bæjarstjóri áfram.

En Samfylkingin og Vinstri grænir í Hafnarfirði virðast vera nokkuð samstíga í dómgreindarleysinu og fara þá leið sem ekki er hægt að segja um annað en að sé rotin spilling. Þessir meirihlutaflokkar virðast fyrst og fremst hugsa um að  forystumenn flokkanna fái vegtyllur og þá er farin sú ógeðfellda leið að þeir skuli báðir fá að verma sæti bæjarstjórans á kjörtímabilinu, Samfylkingin í tvö fyrstu árin og Vinstri grænir síðan í þau tvö seinni. Þarna er ekki verið að hugsa um hag bæjarfélagsins heldur um rassinn á forystumönnunum. Þetta er ekkert annað en spilling, þetta var gert á Akureyri á síðasta kjörtímabili og allir ættu að muna sirkusinn í Reykjavík og ég hef ekki orku til að rifja það upp. Selfoss og Grindavík urðu einnig fórnarlömb slíkrar þróunar og greinilegt er að almenningur kann ekki að meta slíkt; að pólitíkusar noti bæjarfélögin í loddaraleik.

Mér finnst líklegt að Samfylkingin og Vinstri grænir eigi eftir að súpa seiðið að ráðsmennski sinni í Hafnarfirði, sá tími á að vera liðinn að flokkar og forystumenn geti notað það sem þeim er trúað fyrir í pólitískum loddaraleik.


Jón Gnarr fer með rangt mál

Ekki var hún björguleg fyrsta gangan hjá Jóni Gnarr eftir að ákveðið var að hann yrði borgarstjóri í Reykjavík. Hann fékk þar gullið tækifæri til að draga til baka fáránlega hugmynd sína um að koma ísbirni fyrir í Húsdýragarðinum í Laugardal. Gat einfaldlega sagt að hann hefði verið að "djóka" eins og honum er tamt. Jón hélt hinsvegar ísbjarnarblús sínum til streitu og það sem verra var fór með rangt mál til að rökstyðja mál sitt.

Hann fullyrti að ísbirnir væru í útrýmingarhættu!!!

Ekki veit ég hvort heldur er að Jón sé svona einfaldur og trúgjarn eða hann ætli sér framvegis að láta lönd og leið það sem sannara reynist. Fyrir hálfri öld voru ísbirnir veiddir grimmt af frumbyggjum á norðurhveli. Þá var stofninn 5.000 dýr. Þá var settur kvóti á veiðarnar og þær stórlega takmarkaðar, líklega um of. Núna hálfri öld síðar hefur stofninn nær fimmfaldast, er á milli 23.000 og 25.000 dýr. Ísbirnir eru einfarar og koma aðeins saman í hópi um fengitímann. Hver ísbjörn helgar sé mikið veiðisvæði og ekki er ólíklegt að fjöldinn sé orðinn og mikill, norðurhvelið beri ekki þennan fjölda. Ekki er ólíklegt að flækingarnir sem syntu til Íslands séu skepnur sem verða að leita út í kanta lífsvæðisins og þvældust því  til íslands þar sem þeir sem betur fer voru skotnir að Norðlendingum sem gerðu sér fulla grein fyrir hættunni sem af ísbjörnunum stafaði.

En ef Jón Gnarr vill engan veginn virða staðreyndir málsins þá getur hann fengið ágætan ráðgjafa sem er honum eflaust að fullu sammál í bullinu. Það er Þórunn Sveinbjarnardóttur fyrrverandi umhverfisráðherra.

Að lokum vil ég benda Jóni Gnarr á að það er misjafnt hvernig dýr þola vist í dýragörðum. Líklega er ekkert dýr sem þolir hana jafn illa og ísbirnir, þeirra kjörsvæði er pólarsvæðið þar sem frosthörkur verða miklar. Það er mikil misþyrming þessum dýrum að geyma þau í þröngum svæðum við plúshita og hann oft æði háan.


Úr einum öfgum í aðra

Þetta var fyrst skrifað sem athugasemd við bloggTryggva Gíslasonar fyrrum skólameistara, sem flestir ættu að lesa það sem hann skrifar um þetta efni.

Í grundvallaratriðum er ég sammála þér um flest sem þú segir hér að framan. Við Íslendingar erum gjarnir á að fara öfganna á milli, nú eru stjórnmálflokkar réttdræpir og mér finnst miður að flokksforingi minn, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, kvað upp dauðadóm yfir flokkakerfinu. Ég tel hins vegar að allir flokkar hafi villst af leið sem kemur greinilegast fram í hinu gjörspillta kerfi prófkjöranna. Þegar ég tók fyrst þátt í prófkjöri fyrir bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi 1970 fyrir 40 árum síðan, þá var ég mikill talsmaður fyrir prófkjör, taldi að þau mundu efla lýðræði innan og utan flokka. Við í Kópavogi héldum prófkjör allra flokka sameiginlega fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1970, þá voru okkar áhyggjur að flokkar færu að læða sér inn í prófkjör annarra eða allra flokka, við höfðum engar áhyggjur af fjármálum í sambandi við prófkjörin enda datt okkur ekki í hug að nota fjármuni til að pota okkur áfram. Sumir munu eflaust þá þegar hafa notað símann óspart, ég var þá svo bláeygur að mér datt ekki slíkt athæfi í hug.

En því miður hafa prófkjör fyrir kosningar, hvort sem er til Alþingis eða sveitarstjórna, orðið eitt versta spillingarbæli sem stjórnmálamenn hafa fallið í.

Það er nokkuð einfeldningslegt að halda að fyrir utan Alþingi og sveitarstjórnir séu flokkur manna sem sé með öllu óspilltur og geti kippt öllu í liðinn. Það séu aðeins þeir kjörnu sem hafi verið kosnir til trúnaðarstarfa sem séu gjörspilltir. Við höfum dæmið fyrir okkur; Borgaraflokkurinn sprakk um leið og hann hafði fengið fulltrúa á Alþingi, ég sé ekki að í Hreyfingunni sé mikill akkur til endurnýjunar.

Við munum áfram hafa þörf fyrir stjórnmálaflokka, en þeir þurfa nýjan grundvöll sem aðeins verður lagður með nýrri stjórnarskrá sem unnin verði á Stjórnlagaþingi þar sem fulltrúar verða kjörnir beinni kosningu af öllum þeim sem kosningarétt hafa. Það er greinilegt að það er andstaða innan Alþingis og stjórnmálaflokka  við Stjórnlagaþing. Þar verður almenningur að vera fastur fyrir og láta ekki þá sem, sumir hverjir a. m. k., hafa orðið berir að spillingu, aðallega í prófkjörum


Froðufellandi bloggarar ryðja úr sér hroða og bulli, Sigmundur Davíð endanlega fallinn á prófinu

Ég hef satt best að segja hikað við að blogga um kosningarnar og þá útkomu sem stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn fengu. Hef reyndar verið að velta því fyrir mér mér að hætta að blogga; þannig líst mér á marga þá sem þar eru á ferðinni, marga sem ekki hafa minnstu rök fram að færa en froðufella af innri sálarkreppu. Ég ætla að láta það vera að nefna nöfn að þessu sinni. En það er sláandi að þeir sem hæst láta og nota eingöngu illmælgi og aldrei rökum virðast vera í sérstöku uppáhaldi bloggstjóra, fá að trjóna hæst á toppi nánast hvenær sem þeir láta hroðann vella.

Það er ekki nokkur vafi á því að þessar kosningar eru hrikalegur áfellisdómur yfir öllum stjórnmálaflokkum og flestum stjórnmálamönnum. Það ætti að vera lýðum ljóst að stjórnmálamenn og stjórnmálflokkar þurfa að skoða sín innri mál og ekki síst að komast upp úr hjólförum skotgrafanna þar sem menn liggja og nota gamlar og úreltar aðferðir til að klekkja á andstæðingum, þar er enginn undanskilin. Í sjónvarpsumræðu foringja stjórnmálflokkanna í gær tókst þeim að halda sér á mottunni að einum undanskildum. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hinn ungi formaður Framsóknarflokksins. Enginn maður hefur fengið annað eins tækifæri og hann í íslenskum stjórnmálum hin síðari ár til að efla sinn flokk og ná því að verða virtur og öflugur stjórnmálamaður. En hann missti af því tækifæri fyrir eigin tilverknað. Sigmundur Davíð var víðs fjarri þegar allt sukkið byrjaði, hann (að ég held) kom ekki nálægt stuldinum á ríkisbönkunum þremur, hann ber því (að ég held) enga ábyrgð á þeim gegndarlausu mistökum og afbrotum sem gerðu það að verkum að bankarnir fóru allir á hausinn og stjórnendur þeirra létu greipar sópa um fjárhirslurnar, þurftu ekki byssur, lambhúshettur eð skóflur til að grafa göng eða dýnamít til að sprengja upp peningahirslur. Þeir gengu um með hvíta flibba, í nýjum jakkafötum og notuðu tölvurnar, þær fluttu peninga á brott miklu hraðar og öruggar en einhverjir stolnir bílar á fölskum númerum.

Ef einhver maður fékk gullið tækifæri til að lyfta íslenskum stjórnmálum á hærra plan var það Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. Ég satt að segja trúði vart mínum eigin augum og eyrum fyrst þegar þessi ungi foringi lét í sér heyra. Í stað yfirvegaðrar umræðu og skarprar greiningar á ástandinu kom  þessi nýi foringi fram í gömlum lörfum gamallar rifrildispólitíkur sem fór langt fram (eða aftur) fyrir alla þá sem voru á hinu pólitíska sviði. Hann fékk fljótlega ströng skilaboð frá þreyttum íslenskum almenningi; svona vinnubrögðum erum við orðin dauðþreytt á. Framsóknarflokkurinn fór niður hvarvetna í öllum skoðanakönnunum og arfur Rannveigar Þorsteinsdóttur frá því fyrir rúmum 60 árum, konunnar sem vann það afrek að vinna sæti í Borgarstjórn Reykjavíkur í sjálfu hreiðri íhaldsins fyrir Framsóknarflokkinn, það afrek var nú þurrkað út og það geta Framsóknarmenn þakkað þeim sem þeir kusu sem sinn forystumann, hann heitir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Ég hef beðið eftir því að einhverjir innan Framsóknarflokksins segðu; hingað og ekki lengra. Og loksins gerðist það. Einhverstaðar fyrr í mínu bloggi spáði ég því að Guðmundur Steingrímsson mundi rísa upp og mótmæla lítilmótlegum vinnubrögðum og orðfæri þessa nýja formanns. Og nú er stundin runnin upp. Hver ætti frekar að gera það en hann, hver ætti frekar að taka upp merki föður síns Steingríms eða afa síns, Hermanns Jónasonar. 

Og auðvitað létu þeir sem glefsa ekki lengi bíða eftir sér. Einhver stuttbuxnadeild í Húnaþingi rís upp gegn Guðmundi og vill ekkert annað en staglið sem Sigmundur Davíð innleiddi, láta sem mest í sér heyra, láta rök og sanngirni lönd og leið.

Það var dapurlegt að einn flokksforinginn sem fór niður í "skotgrafirnar" í umræðunni í Sjónvarpinu í gær. Sigmundur Davíð lét svo ummælt að minnihlutastjórn Jóhönnu og Steingríms hefði ekki gert eins og hún" átti aðgera", líklega ætlaði Sigmundur Davíða að fjarstýra henni því vissulega átti hann stóran þátt í því að sú stjórn var mynduð. Og klikkti út með það að núverandi Ríkisstjórn "hefði ekki gert neitt". Þá var Steingrími J. nóg boðið og bað Sigmund Davíð að koma upp á skurðbakkann.

Ég hef ekki trú á þangað komist hann nokkurn tíma, hanns kjörlendi er  að liggja í skotgröfunum.

  


Steinunn Valdís segir af sér, lágkúrulegar skoðanir Þórunnar Sveinbjarnarddótur

Þá kom að því. Steinunn Valdís segir af sé þingmennsku fyrir að hafa þegið hátt í 13 milljónir í styrki frá bönkum og bröskurum til handa sjálfri sér til að pota sér fremst í prófkjöri síns flokks; sem sagt til að geta tranað sér fram fyrir samherja sína, til að geta troðið þeim aftur fyrir sig. Ég sé enga ástæðu til að mæra þessa ákvörðun Steinunnar Valdísar, hún átti fyrir löngu að vera búin að sjá að með gjörðum sínum í síðustu prófkjörum Samfylkingarinnar sýndi hún mikinn siðferðisbrest. Það er engin afsökun að peningasníkjur hafi verið viðtekin venja. Hún var líka stórtækust í sníkjunum innan síns flokks en vissulega eru þar innan dyra fleiri sem ættu að skoða sína framgöngu. Ég hef margsinnis sagt að ég er í Samfylkingunni og geri þess vegna meiri kröfur til þeirra sem eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum og á Alþingi fyrir Samfylkinguna en annarra flokka manna.

Ég lýsi því einnig yfir að viðbrögð Þórunnar Sveinbjörnsdóttur við þessum tíðindum, að Steinunn Valdís segði af sér, voru lágkúruleg svo ekki sé meira sagt. Hún hrósaði Steinunni Valdísi og tók sérstaklega fram að afsögn hennar væri fyrst og fremst til að styrkjar flokkinn, Samfylkinguna. En hvað með Alþingi, Borgarstjórn Reykjavíkur, hvað með þjóðina? Þarna birtist nákvæmlega það sama og kom fram hjá Þorgerði Katrínu þegar hún dró sig í hlé frá þingmennsku. Gjörðin var fyrst og fremst til að styrkja flokkinn hennar, Sjálfstæðisflokkinn, annað virtist ekki skipta máli.

Flokksræðishugsun þeirra sem nú eru í valdastöðum í þjóðfélaginu er orðið mein sem þessir sömu eru nú að súpa seiðið af.

En hvað um aðra stórbetlara í öðrum flokkum, ætla þeir að sitja sem fastast? Hvað um Guðlaug Þór, ekki var Steinunn Valdís hálfdrættingur á við hann í styrkjum til að knésetja félaga sína. Hvað um alla hina?. Steinunn Valdís hefur sýnt fordæmi sem stillir mörgum öðrum stjórnmálamönnum upp við vegg.

Þeirra er valið, er þeirra innri spilling á svo háu stigi að þeir sjá ekkert athugavert við eigin gjörðir?

Svo kemur næsta vandamálið. Um leið og einhver segir af sér kemur varamaður inn. Ég held að  margir séu stöðugt með hroll eftir að Óli Björn Kárason, holdgervingur óheftrar frjálshyggju, maður sem skuldaði í bönkunum hálfan milljarð (ekki hann sjálfur, félag sem hann átti, kom honum ekki við, ekki ber klárinn það sem ég ber eins og karlinn sagði) tók sæti hennar á Alþingi. 

Varamaður Steinunnar Valdísar kemur inn, það er Mörður Árnason. Ekki veit ég neitt um hvort Mörður hefur þegið styrki eða farið í sníkjur, tel samt nauðsynlegt að hann geri hreint fyrir sínum dyrum.


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 113832

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband