Færsluflokkur: Dægurmál

Hún verslaði sér nærbrækur

 

 

Fyrir nokkru hlustaði ég á unga konu, að ég held á Rás 2,  sem þar var kynnt sem pistlahöfundur sem mundi flytja reglulega pistla í útvarpið.

Vissulega var konan lífleg og flutti sinn pistil vel,  en þar lagði hún út af eigin nærbrókum eða öllu heldur; skorti á þeim nauðsynlegu flíkum.

Pistilinn endaði hún á því að segja að þessum skorti yrði hún að útrýma.

Og hvað gerði hún?

Hún fór í búð og verslaði sér nærbrækur.

Er nokkuð við þetta að athuga, verður ekki hver að bjarga sér? Að sjálfsögðu, en þessi eflaust ágæti pistlahöfundur er greinilega sýktur af þeim sem ráða málþróun hér á landi því fyrir aðeins nokkrum árum hefði hún eflaust sagt að hún hefði keypt sér nærbrækur.

Sama heyrðist frá bóndanum sem kynnti nýtt greiðslukort, sem mig minnir að heiti fjárkort eða eitthvað álíka. Kostirnir við þetta nýja kort voru margir t. d. auðveldar það handhöfum þess að versla sér hótel þegar farið er í ferðalag að sögn bóndans.

Ætlar maðurinn virkilega að fá sér heilt hótel til að dvelja í nokkrar nætur?

Örugglega ekki; hann ætlaði að kaupa sér gistingu, nema hvað.

Á örstuttum tíma er búið að útrýma öllu vinsælu fólki hér á landi en það er ekki hægt að þverfóta fyrir ástsælu fólki. Nú má heyra bílainnflytjendur auglýsa ástsæla bíla svo til að verða ástsæll þarf ekki að vera persóna með sláandi hjarta og sjálfstæða hugsun í kolli.

Ég man vel eftir því þegar ég fór í það mikla ævintýri að fara til útlanda í fyrsta sinni.

En nú fer enginn til útlanda þó það sé miklu auðveldara og ódýrara en fyrir meira en hálfri öld.

Eru þá allir hættir að ferðast?

Ekki aldeilis. En nú fer fólk í stórum hópum erlendis, það dvelur erlendis og flestir koma aftur erlendis frá.

Eitt orð virðist ómissandi í alla texta. Það er þetta hvimleiða orð staðsett.

Ég ætla að biðja lesendur sem rekast á þetta innskotsorð næst í texta að strika yfir það og lesa textann án þess. Er það ekki til bóta?

Hverjir ráða þróun íslensks máls nú?

Fjölmiðlafólk og textasmiðir auglýsinga, þarna eru þeir sem ráða ferðinni. Kemur þeim aldrei til hugar að nota sjálfstæða hugsun eða finnst þeim þægilegra að fljóta með straumnum?      

 

 

 

 

Höfundur er vatnsvirkjameistari & orkuráðgjafi, búsettur í Þorlákshöfn

 


Mikill skellur fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Satt best að segja trúði ég vart mínum eigin augum þegar fyrst fregnir  úr þjóðaratkvæðinu birtust í gærkvöldi. Ég hélt að ofurvald Sjálfstæðisflokksins á sínum fylgismönnum og félögum væri slíkt að þeir mundu flykkjast á á kjörstaði og greiða NEI við öllu á kjörseðlinum nema auðvitað um þjókirkjuna.

En annað kom í ljós.

Það var áhugavert að fylgjast með  beygðum Bjarna Benedikssyni í Silfri Egils í dag, honum var sannarlega brugðið. Sjálfstæðisflokkurinn lét fyrst það boð út ganga hans fólk skyldi hundsa kosningarar en sá svo sit óvænna; skipti um gír og skipaði sínu fólki að mæta á kjörstað og krossa við NEI (nema að sjáldsögðu við spurnningunni um þjóðkirkjuna.

Ég horfði líka á þá sem komu til Egils á eftir stjórnmálaforingjunum. Þar gekk Jón Magnússon fram af mér, hann fullyrti að ALLIR fjölmiðlar hefðu rekið einhliða áróður fyrir því að kjósendur styddu tillögur Stjórnmálaráðs og koms upp með þann málflutning, hvorki Egill né aðrir þátttakendur gerðu athugasemd við þennan fráleita málflutning. Ég sé Morgunblaðið sjaldan en ef svo ber undir þá sé ég einhliða málflutning Sjálfstæðisflokksins í þessu máli og bendi ég þar á greinar eftir Ólöfu Nordal og Einar Guðfinnsson. Í einni geininnu stóð "Ríkisstjórnin mun senda þjóðina aftur í myrkur 18. aldar verði þessar tillögur smþykktar"  og "Afnema kristni sem opinbera trú á Íslandi". 

Og nú er lögfræðingurinn Jon Magnússon búinn að reikna út hér á blogginu að tillögur Stjórnlagaráðs hafi verið kofelldar í kosningunum í gær!!!

Það vantar ekki neitt upp á skaulegan málflutning fylgsmanna Sjálfstæðisflokksins.

 

 


UPPKOSNING, hverskonar orðskrípi er þetta?

Það er með ólíkindum hvernig orðskrípi og orðaleppar allskonar eiga auðvelt með að ná útbreiðslu með leifturhraða. Þeir sem þar vinna að útbreiðslunni eru í fyrsta lagi fjölmiðlamenn og á eftir þeim skríða stjórnmálamenn. Sú mikla umræða sem orðið hefur um hinn fráleit úrskurð Hæstaréttar að kosningarnar til Stjórnlagaþings væru ógildar hafa eðlilega kallað á ýmsar hugmyndir um hvernig við skuli bregðast. Helst var rætt um að Alþingi veldi þá 25 sem kosnir voru að öllu leyti löglegri kosningu til að semja tillögu að nýrri stjórnarskrá. Önnur hugmynd var að endurkjósa, þar yrðu sömu einstaklingar í framboði og við fyrri kosningarnar nema þeir sem hugsanlega mundu draga sig til baka .

En skyndilega var orðið ENDURKOSNING ekki nógu gott og einhver lukkuriddari í útvarpi  fór að tuða um þetta sama undir heitinu UPPKOSNING. Og það var ekki að sökum að spyrja frekar en í fjósinu hjá kúnum, þegar einni varð mál þurftu allar að míga. 

Og nú "míga" allir fjölmiðlamenn og stjórnmálamenn orðinu UPPKOSNING út úr sér.

Er þetta orðskrípi til bóta.


Ótrúlegt hve illa Alþingi heldur á málum t. d. með ákærum á níumenningana

Ég fylgdist með atkvæðagreiðslunni á Alþingi þegar Icesave frumvarpið var afgreitt endanlega. Sem gamall ungmennafélagi, þar sem ég og margir fleiri fengum okkar félagslega uppeldi, fann ég fyrir talsverðum ónotum við forsetastörf Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Mörgum finnst það eflaust fáránlegt að gagnrýna forseta þingsins fyrir hvernig hann skýrir frá úrslitum atkvæðagreiðslu. Í mínu ungdæmi hefði það þótt brot á fundarsköpum að segja að mál hefði verið fellt með 33 atkv.gegn 30. Sú var tíðin að "með" þýddi fortakslaust hve margir greiddu atkvæði með máli, "gegn" þýddi hve margir voru á móti. Þess vegna bar forseta að tilkynna að málið hafi verið fellt með 30 atkv. gegn 33.

Eru reglur og hefðir einskisvirði?

Þetta er nokkuð sama og kemur út úr íþróttafréttamönnum sem rugla þessum hugtökum endalaust saman, ég hef ekki orku til að fara að ræða frekar um þá stétt manna.

En aftur að því sem gerist bak við tjöldin á Alþingi.

Tölva finnst á afviknum stað, tölva sem er virk og tengd inn á tölvukerfi Alþingis. Meðferð starfsmanna og stjórnenda Alþingis á þessu máli er með eindæmum. Tölvunni kippt úr samband án þess að sérfróðir menn séu kallaðir til og síðan er reynt að fara eins leynt með málið og mögulegt er.

Níumenningarnir sem voru með uppsteyt á áheyrendapöllum Alþingis eru ákærðir fyrir uppreisn, að þeir hafi ætlað að kollvarpa Alþingi, við því kann að liggja allt að 16 ára fangelsi. Samúð mín með þessum angurgöpum, sem virðast ekki þurfa að vinna fyrir mat sínum, er ákaflega takmörkuð og ekkert að því að þeir fái áminningu fyrir sitt framferði. En að leggja fram ákæru um að þarna hafi verið á ferðinni gjörð til að kollvarpa valdi Alþingis er aldeilis fráleitt. Að Lára Júlíusdóttir skuli láta draga sig út í að vera saksóknari á þessum grundvelli er fáránlegt og ég hélt að hún væri hæfari í lögfræðinni en svo. Sem betur fer var öllum þessum máltilbúnaði um valdarán hent af dómaranum út í hafsauga en fjórir fengu létta dóma en dóma sem þeir verða að bera. Fáránleikinn í máltilbúnaði Alþingis og saksóknarans hefur gert þetta upphlaupslið að píslarvottum. Það hlægilega í öllu málinu er, ef hægt er að tala um eitthvað hlægilegt, er að í þingsölum situr maður í ráðherrastóli sem afrekaði nákvæmlega sama brotið í sínum unggæðingshætti, að ráðast inn á áheyrendapalla og trufla störf Alþingis.

Engum datt í huga að ákæra hann fyrir óspektir og því síður fyrir tilraun til valdaráns.

Nú höfum við Forseta í lýðveldinu sem gjarnan vill afla sér stuðningsmanna í væntanlegum forsetakosningum að ári. Ég legg til að hann náði þessa fjóra af níumenningunum sem fengu dóma í undirrétti.

Er það ekki hægt, er ekki hægt fyrir forsetann að náða þá sem dóma hafa hlotið?

Varla hafa handhafar forsetans meiri völd en forsetinn sjálfur eða hvað? En voru það ekki þeir þrír, handhafar forsetavalds, sem notuðu tækifærið til að veita Árna Johnsen flokksbróður sínum úr Sjálfstæðisflokknum uppreisn æru þegar Forseti lýðveldisins var kominn enn einu sinnu upp í flugvél til að fara út í heim með útrásarvíkingum bankanna til að votta í útlöndum hve ótrúlega miklir hæfileikamenn væru þar á ferð.

Og þannig gat Árni Johnsen farið aftur í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Suðurkjördæmi og  þar sópaði hann að sér slíku fylgi að senda varð á vettvang kjarnakonu til að taka efsta sæti D listans. Annars hefði Árni orðið efstur og krafist ráðherraembættis ef flokkur hans kæmist í stjórnaðstöðu.

Ekki vafi á að þá hefði Árni Johnsen gert kröfu um að fá embætti dómsmalaráðherra.


Herfileg misnotkun á póstlista frambjóðenda til Stjórnlagaþings

Fyrir kosningarnar til stjórnlagaþings varð til póstlisti hvar á voru póstföng nær allra frambjóðenda. Þetta var þarft framtak þá, frambjóðendur áttu að sjálfsögðu marga sameiginlega hagsmuni þó í samkeppni væru um hilli kjósenda. Nú eru kosningar að baki og meira að segja úrskurðaðar ógildar af hlutdrægum Hæstarétti, en ekki meira um það að sinni.

En nú brennur svo við að einhverjir óprúttnir náungar úr hópi frambjóðenda hafa tekið póstlistann traustataki til að berjast gegn samþykkt Icesave III á Alþingi og að samningurinn verði lagður undir þjóðaratkvæði.

Ég er ekki einn um það að mótmæla slíkri misnotkun á póstlistanum, inn til mín hafa streymt margir póstar þar sem einstaklingar mótmæla þessari misnotkun  og krefjast þess að verða strikaðir út af listanum.

Ég er ekki nógu tölvufróður til að vita hvernig koma á í veg fyrir þessa misnotkun, ég sé að fjölmargir frambjóðendur vilja láta eyða póstlistanum, en er það hægt? Geta óprúttnir einstaklingar látið dynja yfir okkur áróður um alla framtíð?

Spyr sá sem ekki veit.


Það er mjög margt jákvætt að gerast i okkar þjóðfélagi

Það er óvenjulega margt jákvætt í fjölmiðlum á þessum degi. Ég leyfi mér að fullyrða að almenningur er orðinn hundleiður á svartagallsrausi og svívirðingum um þá sem vinna baki brotnu við að endurreisa okkar þjóðfélag eftir þá sem steyptu okkur í Hrunið mikla haustið 2008.

Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð frá eigin brjósti en læt fylgja með hluta af frétt Seðlabankans þegar tilkynnt var að stýrivextir væru lækkaðir um 0,25 prósentustig niður í 4,25 %. Fyrir tveimur árum, þegar Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur tók við, voru stýrivextir Seðlabankans 18%, er þetta ekki dágóður árangur?

Úr yfirlýsingu peningastefnunefndar 2. febrúar 2011:

"Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti
bankans um 0,25 prósentur. Vextir á viðskiptareikningum
innlánsstofnana lækka í 3,25%, hámarksvextir á 28 daga innstæðubréfum
lækka í 4,0%, vextir á lánum gegn veði til sjö daga lækka í 4,25% og
daglánavextir lækka í 5,25%.

Áfram dró úr verðbólgu í desember og janúar. Tólf mánaða verðbólga var
1,8% í janúar eða 1,6% að áhrifum hærri neysluskatta frátöldum. Hún er
því nokkuð undir 2½% verðbólgumarkmiði bankans. Tilfallandi
verðlækkanir bættust við árstíðarbundna lækkun vísitölu neysluverðs í
janúar. Sem fyrr stuðla hagstæð gengisþróun undanfarið ár, lækkandi
verðbólgu­væntingar og slaki í þjóðarbúskapnum að lítilli og stöðugri
verðbólgu.

Samkvæmt spánni sem birt er í Peningamálum í dag, verður
efnahagsbatinn heldur meiri í ár en Seðlabankinn spáði í nóvember.
Spáð er 2,8% hagvexti í ár og liðlega 3% vexti á árunum 2012 og 2013.
Verðbólga hefur verið heldur minni en fólst í nóvemberspánni, aðallega
vegna einskiptisáhrifa breytinga á opinberum gjöldum, og er því spáð
að hún verði eitthvað undir verðbólgumarkmiðinu nánast til loka
spátímans."


Ástráður Haraldsson var geysilega rökfastur í Kastljósi í gærkvöldi

Eins og venjulega setur Helgi Seljan sig í stellingar saksóknara (svona eins og við sjáum þá í Bandarískum hasarmyndum) þegar hann heldur að nú sé fórnarlamb komið á sakabekkinn. En Ástráður Haraldsson fráfarandi formaður Landskjörstjórnar tók forystuna í þeirra átökum fyrir "réttinum" og satt að segja varð ég mjög með að þrautreyndur lögmaður flutti af sannfæringu þau rök sem ég hef áður sett fram um að Hæstiréttur hafi með úrskurði sínum túlkað lögin eftir strangasta bókstaf en algjörlega horft framhjá anda laganna og þar höfðaði Ástráður til þeirra laga og hefða sem hérlendis hafa gilt um kosningar almennt. Enn og aftur vil ég leiðrétta sjálfan mig og fjölmarga aðra; Hæstiréttur kvað ekki upp dóm heldur úrskurð og það bar honum að gera samkvæmt lögunum um kosningar til Stjórnlagaþings, honum hafði verið falið það illu heilli. Þarna tókust ekki á sækjendur né verjendur, sexmenningarnir hlustuðu ekki á neina nema hver á annan og nú skilaði Jón Steinar ekki sératkvæði enda var enginn í sakleysi sínu að opna útidyr með haglabyssu af því hann vildi endilega ná tali af húsráðanda.

En fullvissan um að Hæstiréttur hafi alltaf rétt fyrir sér birtist víða. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur fer mikinn á vísi.is en þar er hann fastur pistlahöfundur. Ég rakst á pistil hans og þar segir hann m. a:

Þegar almennar kosningar eru dæmdar ógildar af sjálfum Hæstarétti landsins jafngildir það yfirlýsingu um að viðkomandi þjóð sé fákunnandi um lýðræði.

Hvernig rithöfundurinn kemst að þessari niðurstöðu er mér hulið. Kosningarnar voru engan veginn "dæmdar" ógildar heldur "úrskurðaðar" ógildar og á þessu er reginmunur. Það sem brást í kosningunum til Stjórnlagaþings var aðallega tvennt. Alþingi vann sitt löggjafarstarf ekki nógu vel þegar lögin um kosningarnar voru sett. Það var enginn vandi að girða fyrir það að dómarar, sem áttu að úrskurða um lögmæti kosninganna, gætu ekki fundið króka til að kveða upp hlutdrægan og pólitískan úrskurð og ég hef ekki heyrt betri rökstuðning fyrir því en hjá Ástráði Haraldssyni lögfræðingi í gærkvöldi. Hið síðara var að kjósendur brugðust og þá fyrst og fremst sjálfum sér. Krafan um beint og milliliðalaust lýðræði hefur verið hávær frá Hruninu í okt. 2008. Þeir eru eflaust fáir ofar moldu sem  fengu tækifærið í lýðveldiskosningunum 1944. Þegar á reyndi lögðu 2/3 hlutar kjósenda ekki á sig að taka þátt, stór huti af þeim reknir til heimasetu af Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni.

Guðmundur Andri sagði margt fleira í þeim pistli hans sem ég hef minnst á og vitnað í. Guðmundi Andra yrði fagnað ef hann sækti um aðild að Sjálfstæðisflokknum, hann þyrfti ekki að útfylla umsókn, pistillinn yrð tvímælalasut tekinn gildur til inngöngu í flokkinn í Valhöll. 

 

 





 

 


Hvað skal gera eftir hinn fráleita úrskurð Hæstaréttar?

Það er mikil ólga víða í þjóðfélaginu eftir úrskurð Hæstaréttar; að ógilda kosningarnar til Stjórnlagaþings og það ríkir mikil Þórðargleði í sumum slotum. Mörum finnst það harður dómur hjá mér að segja fullum fetum að úrskurður Hæstaréttar sé pólitískur. En á er mér spurn, hvers vegna kætast svo geysilega frammámenn og fylgjendur eins stjórnmálaflokks, Sjálfstæðisflokksins, öðrum fremur?

En hvað er til ráða, kosningarnar ógildar, það stendur. Aðallega er rætt um þrjár leiðir eftir úrskurðinn: a) hætta við Stjórnlagaþing, þá situr stjórnarskrármálið í sömu hjólförunum og sl. 56 ár b) endurtaka kosningarnar c) Alþingi samþykki að áður kjörnir fulltrúar á Stjórnlagaþing fái umboð til að starfa á Stjórnlagaþingi og semja uppkast að nýrri stjórnarskrá og ég leyfi mér að bæta við; uppkastið verði lagt fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu ÁÐUR en Alþingi fær það til endanlegrar lagalegra afgreiðslu. Það á við jafnt þó að kjörnir yrðu nýir (eða gamlir) fulltrúar á Stjórnlagaþing.

Og hvað finnst mér sjálfum skynsamlegast að gera?

Það kemur ekki til greina að gefast upp og hætta við allt saman. Þá fer allt í gömlu hjólförin, málið komið til Alþingis án þess að nokkrir fulltrúar þjóðarinnar fái að fjalla um það beint. Þá hef ég afgreitt lið a).

Efna til nýrra kosninga? Það mun kosta vænan skilding en er þó réttlætanlegt ef almennt er talið að um þær kosningar verði sæmilegur friður. En því miður, um þær kosningar verður enginn friður, þau sterku öfl sem eyðilögðu kosningarnar sem Hæstiréttur úrskurðaði ógildar munu fara hamförum til að eyðileggja kosningarnar. Það þarf ekki annað en vitna í Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur í Silfri Egils í dag þar sem hún áréttaði með þunga andstöðu Sjálfstæðisflokksins við þessa málsmeðferð; að kjósa fulltrúa og halda Stjórnlagaþing. Það má búast við að margir af þeim sem kusu í góðri trú telji sig svikna og mæti ekki aftur á kjörstað. Margir af frambjóðendum munu jafnvel neita að taka þátt aftur og þá óttast ég að það verði ýmsir sem fengur er að sem frambjóðendum, frekar að þeir sem minna erindi áttu sitji sem fastast. Hættan er sú að nýjar kosningar til Sjórnlagaþings verði dæmdar til að mistakast, kosningaþáttaka hrapi og þeir sem þar verða kjörnir sitji með mjög vafasamt umboð.

Alþingi veiti þegar kjörnum fulltrúum fullt umboð til að sitja á Stjórnlagþingi sem til þess kjörnir af Alþingi. Þetta er eina færa leiðin, verður vissulega mjög umdeild en er þó miklu vænlegri til árangurs en að efna til nýrra kosninga.

Það sem þarf að gerast á Alþingi er að þetta þarf að fá meira fylgi en fylgi stjórnarflokkanna (sem að sumu leyti er vafasamt). Í Silfri Egils í dag áréttaði Eygló Harðardóttir þingmaður Framsónarflokksins þá afstöðu síns flokks að hann hefði í rauninni átt upphafið að hugmyndinni að Stjórnlagaþingi. Ég tek mark á því sem Eygló segir, því mér finnst hun vera vaxandi þingmaður sem ræðir oftast málefnalega.

Ef það tækist að meirihlutaflokkarnir með tilstyrk Framsóknarflokksins og jafnvel Hreyfingarinnar stæðu að því að veita kjörnum fulltrúum á Stjórnlagaþings lögformlegt umboð til starfa á Stjórnlagaþingi yrði það mikill sigur fyrir lýðræðið í landinu.

Einu skulum við ekki gleyma, einu sem mér finnst að hafi alveg gleymst í umræðunni eftir hinn fráleyta úrskurð Hæstaréttar.

Það er réttur þeirra sem kjörnir voru á Stjórnlagaþing. Þeir hafa eflasut allir búið sig rækilega undir störf á þiginu, þeir eiga skilið að Alþingi sýni þeim þann trúnað og virðingu að þeir fái að taka að sér þá ábyrgð og störf sem þeir voru réttilega kjörnir til.

Þannig getur Alþingi leiðrétt þann óréttláta úrskurð sem Hæstiréttur kvað upp og verður honum til ævarandi minnkunar.


Svandís umhverfisráðherra er ekki "framandi" en svo sannarlega "ágeng"

Ekki veit ég hvar ráðsmennska Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra endar, barátta hennar gegn flóru landsins er orðinn slík þjóðremba að engu tali tekur. Það er nánast verið að gera allar helstu skógræktartegundir útlægar af því þær séu "framandi" eða með öðrum orðum að stofni til uppsprottin að fræjum sem safnað hefur verið á norðlægum slóðum þar sem aðstæður eru svipaðar og á Íslandi enda hafa þær margar hverjar staðið sig afburða vel til skógræktar hérlendis. Fjandskapurinn við lúpínuna er eitt, fjandskapur við þessa harðgerðu og duglegu uppgræðsluplöntu sem fer á undan öðrum gróðri, undirbýr jarðveginn fyrir annan gróður sem vel að merkja er með íslenskt ríkisfang, hefur verið hér frá landnámsöld.

Enn sem komið er hefur Svandís ekki fengið ísbjarnarmál til úrlausnar en það yrði sannarleg spennandi að fylgjast með hvernig hún mundi höndla slíka uppákomu. Ekki ólíklegt að henni tækist að fara fram úr allri vitleysunni sem Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sýndi við hennar "ísbjarnarmál". 

En Svandís á einn möguleika ef ísbjörn gengur á land. Sá er að fá Jón Gnarr með sér til Norðurlands (því þar mun ísbjörn eflaust ganga á land ef hann kemur á annað borð). Saman geta þau klappað bangsa og boðið hann velkominn til Íslands í von um að hann hvorki klóri þau né bíti. Síðan taka þau hann með sér í flugvél, auðvitað fær bangsi besta sætið suður. Síðan verði honum smíðuð fullkomin "svíta" í Húsdýragarði Reykjavíkurborgar, þá verður uppfyllt það eina af kosningaloforðum Jóns Gnarr sem hann lofaði aldrei að svíkja.

En nú skulum við staldra við. Er ekki ísbjörn "framandi" í íslenskri náttúru? Flokkast ísbjörn ekki undir sömu lögmál og lerki til skógræktar eða lúpína til jarðvegsbóta? Er ekki borin von að Jón Gnarr fái sína heitustu ósk uppfyllta um ísbjörn í Húsdýragarðinn meðan Svandís er umhverfisráðherra?

Ætli þau yrðu ekki að taka gjörólíka stefnu með bangsa eftir að þau Svandís og Jón verða búin að  klappa honum þeirri von að sá hvíti éti þau ekki?

Og hvert skal þá halda?

Ætli það sé ekki öruggast að fara með hann alla leið á Norðurpólinn og skilja hann þar eftir, kannski verður hann þá orðinn svo elskur að þeim tveimur að hann vilji engan veginn skilja við þessa tvo Íslendinga sem hafa sýnt honum slíka vináttu. Kannski fá þau Svandís og Jón ekki af sér að yfirgefa þennan nýja vin sinn. Blátt bann Svandísar við "framandi" dýrum og plöntum á Íslandi verður líkleg til þess að bangsi verður kyrrsettur þar norðurfrá.

Spurningin er hvort þau skötuhjúin Svandís og Jón kjósa ekki frelsið þar líka. Á Norðurpólnum er eitt öruggt. Þar eru allar plöntur "framandi", þar þarf ekkert að flokka.


Félagsráðgjafi Hjálparstofnunar kirkjunnar sýndi djörfung og raunsæi þegar hún sagði álit sitt á biðröðunum margumtöluðu

Ég hef svo sannlega haft ákveðnar skoðanir á því hörmulega skipulagi á "neyðarhjálp" að fólk komi til hjálparstofnana til að fá matvæli og standi þar tímunum saman í biðröðum. Ekki er nokkur vafi á að þar eru þeir sem af neyð leita eftir hjálp, en það er ekki minni vafi á því að þar slæðast margir með sem ekki eru í neyð. Það er sama hvaða hjálp er boðin, ef hún er jafn stjórnlaus og hún er í dag hjá Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálpinni þá er ekki nokkur vafi á að hjálpin er misnotuð af einhverjum hluta þeirra sem þangað leita. Viðbrögð forstöðukonu Fjölskylduhjálparinnar voru með eindæmum. Í stað þess að viðurkenna að allt þetta starf þyrfti að endurmeta réðst hún að félagsráðgjafa Hjálparstofnunar kirkjunnar og sakaði hana um lítilsvirðingu við þá sem hjálpar leita. Bætti við að sú hugmynd félagsráðgjafans, að upplýsa og hjálpa fólki að fara rétt með það fjármagn sem það hefur, væri fáránleg, fólk sem hefði enga peninga þyrfti ekki á slíkri ráðgjöf að halda. Líklega er ástandið ekki það slæmt að í biðröðunum séu margir sem enga peninga eiga, en það eru eflaust margir sem hafa peninga af skornum skammti, þeim þarf að hjálpa til að forgangsraða.

Það er athyglisvert að Hjálparstofnun kirkjunnar vinnur allt öðru vísi en hinar stofnanirnar. Þar fær hver og einn sem þangað leitar persónulega hjálp, það getur ekki hver sem er komið án þess að gera grein fyrir sér og rogast burt með poka með matvælum. Svo virðast sem a. m. k. Fjölskylduhjálpin vilji halda í óbreytt ástand og þá hlýtur maður að spyrja:  Er hjálpin farin að nærast á því að geta aflað sem mestra gæða hjá framleiðendum og verslunum til að úthluta til Péturs og Páls án þess að kanna á nokkurn hátt þörf hvers einstaklings. Vill Fjölskylduhjálpin hafa biðraðirnar og óbreytt ástand til að forstöðukonan geti síðan baðað sig í fjölmiðlum og barið sér þar á brjóst og sagt; Sjá hér er ég, miskunnsami Samverjinn.

Sveitarfélögin verða að taka sér tak og kortleggja þörfina. Neyðarhjálp á ekki að vera úthlutun matarpoka til fólks í biðröðum, biðraðirnar eiga að hverfa. 

Mér sýnist að sú skarpa sýn sem Hjálparstofnun kirkjunnar hefur á vandamálinu geti orðið leiðandi í því starfi að kortleggja vandann, skilgreina hverjir þurfa neyðarhjálp og hverjir þurfa framfærslu. Sveitarfélögin virðast vera steinsofandi og ekki gera sér grein fyrir skyldum sínum. En hver veit nema þau fari að rumska, þarna verða sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að rumska fyrst og taka hraustlega á vandamálinu.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 113797

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband