Færsluflokkur: Umhverfismál

Hverjum datt upphaflega í hug sú reginvitleysa að brenna sorp?

Lengi vel hélt ég að Ísfirðingar væru þeir einu hér á landi sem settu upp og ráku SORPBRENNSLU. En þar fór ég villur vegar; sorpbrennslur eru miklu fleiri. Meira að segja er sorpbrennslan á Kirkjubæjarklaustri nánast sambyggð barnaskólanum, enda er varminn frá henni notaður til að hita upp skólahúsið og mun það vera eina sorpbrennslan hérlendis sem hirðir um að nýta þann mikla varma sem verður til við brennsluna.

En hugmyndin að brenna sorp er og hefur ætíð verið algjörlega galin. Svo það ætti engum með sæmilegt vit í hausnum að koma á óvart að sorpbrennsla getur aldrei orðið annað en mikill mengunarvaldur, svo hroðalegur mengunarvaldur að það hefur verið eyðilagður búskapur vestur í Skutulsfirði og nú skal hefja átak til að kanna heilsufar þeirra sem búa í nágrenni eða starfa við sorpbrennslurnar.

Það er hægt að eyða eða vinna sorp á margan annan hátt en að brenna því og þar er auðvitað nærtækast að urða það. 

Það er athyglisvert að langsamlegasta stærsta sorpstöð landsins að magni, SORPA í Reykjavík, sem þjónar öllu höfuðborgarsvæðinu og vel það, hefur aldrei gert minnstu tilraunir til sorpbrennslu. Hins vegar er þar hafið framleiðsla á metangasi sem að sjálfsögðu kemur ekki til greina þar sem sorpbrennslur eru.

Það er vonandi að öllum SORPBRENNSLUSTÖÐVUM landsins verið lokað sem allra fyrst, við næstu áramót verða þær aðeins til í minningunni sem heimskra mann gjörð.

Í framtíðinni verður að gera átak um allt land að allt sorp verði flokkað þar sem það verður til hvort sem það er á heimilum eða fyrirtækjum. Þá verður auðveldara að beina hverjum flokki sorps í réttan farveg og örugglega engu í BRENNSLU.


Íbúar í Landeyjum eiga tæpast undankomuleið ef Kötluhlaup kemur vestur af Mýrdalsjökli

Það er samdóma álit þeirra sem gerst þekkja að það sé ekki spurning um að Katla gjósi, spurningin sé miklu fremur hvenær. Flestir búast við stórhlaupi niður Mýrdalssand, þannig var það í síðasta gosi 1918. En það er ekki útilokað að stórhlaup verði vestur af Mýrdalsjökli  og leggist þá einkum í farveg Markarfljóts sem ekki annar slíku hamfarafljóti heldur muni það leggjast yfir miklu stærra svæði. Svo gæti hlaupið verið öflugt að það færði Landeyjar í kaf, ef svo hörmuleg vildi til þá er fjöldi manns í bráðri lífshættu

Héraðsblaðið "Dagskráin" sem gefin er út á Selfossi birtir ákall frá íbúum Vestur-Landeyja sem við slíkar hamfarir yrðu innikróaðir, þeirra undankomuleið er sú að fara á móti flóðinu og komast yfir brúna á Þverá sunnan Hvolsvallar. Það hljóta allir að sjá að undankomuleið undar holskeflu stórhlaups er að hörfa undan því en ekki öfugt.

Kötluhlaup.jpgMeðfylgjandi kort af , sem fengið er úr "Dagskránni", sýnir hvað þarf að gera til að til að skapa undankomuleið fyrir Vestur-Landeyinga. Við ármót Ytri-Rangá, Hólsár og Þverár verður að byggja brú yfir Hólsá við Djúpós, en Djúpós er sá staður nefndur þar sem Þykkbæingar á sinni tíð hlóðu fyrir vatnsflaum Þverár og Ytri-Rangár sem þá byltist vestur í Þjórsá og Þykkvibær var á rauninni stór hólmi umflotinn vatnselg á alla vegu.

Hugsanleg brú yfir Hólsá er merkt með hring á myndinni.

Með þessari brú er opin og greið leið til vesturs undan hugsanlegri flóðbylgju, þá er komin tenging við Þykkvabæjarlveg og sem liggur upp með Ytri-Rangá að vestan upp að Ægisíðu (gengt Hellu). Önnur mynd úr "Dagskránni" sýnir enn betur hvar hugsanleg leið til vesturs úr Vestur Landeyjum skal koma og þar sést fyrrnefnd ármót þriggja fljótanna

Djúpós.jpg Eflaust vefst þetta fyrir þeim sem ekki eru staðkunnugir en ef áhugi er á að kynna sér þetta betur þá er hægt að taka fram kortið af Mið-Suðurlandi og fá stærri mynd af svæðinu.

En með byggingu brúar yfir Hólsá við Djúpós opnast fleiri möguleikar, þessi brú getur opnað algerleg nýjan veg og orðið hluti af Suðurstrandarvegi sem nú er langt komin með bundnu slitlagi milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Hólsárbrúin tengist beint inn á Þykkvabæjarveg sem er með bundnu slitlagi alla leið í gegnum Þykkvabæ og vestur að Háfi sem stendur á bökkum Þjórsár. Með fyllingu yfir eyrarnar í Þjórsá og brú yfir höfuðálinn vestan Traustholtshólma er komið inn á Flóaveg og þar vantar aðeins að leggja bundið slitlag á 10 km spotta til að tengjast Gauðverjabæjarvegi sem er með bundnu slitlagi. Ef síðan þjóðvegurinn er færður norður fyrir Stokkseyri á sama hátt og hann liggur nú fyrir norðan Eyrabakka er komin nýr þjóðvegur frá Hólsárbrú til Grindavíkur. Síðan má láta gamminn geysa og hugsa sér að Þverárvegur frá Hólsárbrú að Þverárbrú á Suðurlandsvegi verði byggður upp og klæddur bundu slitlagi.

Þetta sýnir að bygging brúar yfir Hólsá við Djúpós er ekki aðeins öryggistenging fyrir íbúa Vestur-Landeyja við hugsanlegar hamfarið, heldur fyrst sporið í áttina að Suðurstrandarvegi frá Grindavík með tenginu í Austur-Landeyjum við Suðurlandsveg.


Svandís umhverfisráðherra er ekki "framandi" en svo sannarlega "ágeng"

Ekki veit ég hvar ráðsmennska Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra endar, barátta hennar gegn flóru landsins er orðinn slík þjóðremba að engu tali tekur. Það er nánast verið að gera allar helstu skógræktartegundir útlægar af því þær séu "framandi" eða með öðrum orðum að stofni til uppsprottin að fræjum sem safnað hefur verið á norðlægum slóðum þar sem aðstæður eru svipaðar og á Íslandi enda hafa þær margar hverjar staðið sig afburða vel til skógræktar hérlendis. Fjandskapurinn við lúpínuna er eitt, fjandskapur við þessa harðgerðu og duglegu uppgræðsluplöntu sem fer á undan öðrum gróðri, undirbýr jarðveginn fyrir annan gróður sem vel að merkja er með íslenskt ríkisfang, hefur verið hér frá landnámsöld.

Enn sem komið er hefur Svandís ekki fengið ísbjarnarmál til úrlausnar en það yrði sannarleg spennandi að fylgjast með hvernig hún mundi höndla slíka uppákomu. Ekki ólíklegt að henni tækist að fara fram úr allri vitleysunni sem Þórunn Sveinbjarnardóttir fyrrum umhverfisráðherra sýndi við hennar "ísbjarnarmál". 

En Svandís á einn möguleika ef ísbjörn gengur á land. Sá er að fá Jón Gnarr með sér til Norðurlands (því þar mun ísbjörn eflaust ganga á land ef hann kemur á annað borð). Saman geta þau klappað bangsa og boðið hann velkominn til Íslands í von um að hann hvorki klóri þau né bíti. Síðan taka þau hann með sér í flugvél, auðvitað fær bangsi besta sætið suður. Síðan verði honum smíðuð fullkomin "svíta" í Húsdýragarði Reykjavíkurborgar, þá verður uppfyllt það eina af kosningaloforðum Jóns Gnarr sem hann lofaði aldrei að svíkja.

En nú skulum við staldra við. Er ekki ísbjörn "framandi" í íslenskri náttúru? Flokkast ísbjörn ekki undir sömu lögmál og lerki til skógræktar eða lúpína til jarðvegsbóta? Er ekki borin von að Jón Gnarr fái sína heitustu ósk uppfyllta um ísbjörn í Húsdýragarðinn meðan Svandís er umhverfisráðherra?

Ætli þau yrðu ekki að taka gjörólíka stefnu með bangsa eftir að þau Svandís og Jón verða búin að  klappa honum þeirri von að sá hvíti éti þau ekki?

Og hvert skal þá halda?

Ætli það sé ekki öruggast að fara með hann alla leið á Norðurpólinn og skilja hann þar eftir, kannski verður hann þá orðinn svo elskur að þeim tveimur að hann vilji engan veginn skilja við þessa tvo Íslendinga sem hafa sýnt honum slíka vináttu. Kannski fá þau Svandís og Jón ekki af sér að yfirgefa þennan nýja vin sinn. Blátt bann Svandísar við "framandi" dýrum og plöntum á Íslandi verður líkleg til þess að bangsi verður kyrrsettur þar norðurfrá.

Spurningin er hvort þau skötuhjúin Svandís og Jón kjósa ekki frelsið þar líka. Á Norðurpólnum er eitt öruggt. Þar eru allar plöntur "framandi", þar þarf ekkert að flokka.


Eiga allar auðlindir, sem tilheyra Íslandi, að vera þjóðareign?

Fáir málaflokkar sem auðlindamálin eru af mörgum drifin áfram af tilfinningum frekar en skynsemi. Fyrir það fyrsta vil ég benda á að þegar rætt er um auðlindir á Íslandi er nær eingöngu rætt um auðlindir á landi og í landi.
Get ég ekki skilyrðislaust skrifað upp á að allar auðlindir á og í landi séu þjóðareign?

Nei, það get ég ekki.

Og hvers vegna spyrja eflaust margir undrandi?
Vegna þess að auðlindir á landi og í landi er mjög flókið mál, miklu flóknara mál en þeir sem drifnir eru áfram af tilfinningum einum átta sig á.
Það eru margvíslegar auðlindir á og í landi sem eru í einkaeign og ekki tel ég að við því eigi að hrófla.
Förum austur í Skaftafellssýslur. Þar hafa margir bændur virkjað bæjarlækinn og svo er reyndar víðar. Á Snæfellsnesi hafa verið byggðar einkarafstöðvar, vatnsaflsstöðvar, sem framleiða mun meira rafmagn en eigandinn hefur þörf fyrir. Þar er umframrafmagnið einfaldlega selt inn á landsdreifikerfið, viljum við þjóðnýta litlu virkjanirnar í bæjarlækjunum eða þessar litlu en þó stærri vatnsaflsvirkjanir?
Ekki er ég tilbúinn að vinna að því.
Ein mikil l auðlind eru fallvötn Íslands með eru í raun gjöful fiskimið. Þar hefur verið staðið vel að þróun mála og þess vandlega gætt að ekki sé gengið á stofnana og ekki nóg með það; mikil ræktun á sér stað víðast hvar þar sem þörf er á.
Vil ég þjóðnýta allar veiðiár landsins til að færa þær í þjóðareign?
Mitt svar er afgerandi nei.
Öll orkuver landsins, bæði þau sem framleiða raforku eða heitt vatn, eru í opinberri eigu, ýmist ríkisins (Landsvirkjun) eða í eigu sveitarfélaga (Orkuveita Reykjavíkur).
En áður en þessir opinberu fyrirtæki hafa getað virkjað, hvort sem það eru vatnsföll, jarðgufa eða heitt vatn sótt með borun, hafa þau orðið að semja við landeigendur og sveitarfélög til að fá vinnsluleyfin.
Þetta rek ég hér til að sýna fram á að það gagnar lítið að hrópa á strætum og gatnamótum að allar auðlindir í og á landi skuli vera þjóðareign. Þeir sem það gera hafa engan veginn krufið málið til mergjar því ef strangasta krafa þeirra sem ákafastir eru næði fram að ganga yrði að fara út í stórfellda þjóðnýtingu.
Vill nokkur í alvöru standa að því?
Ég er eindregið fylgjandi því að öll stærstu orkuver okkar séu í opinberri eigu svo sem er í dag, ég mæli sterkt á móti því að þau verði einkavædd þó ekkert mæli á móti því að þar geti einkaaðilar komið að fjármögnun, eins og ég mæli gegn algjörri þjóðnýtingu auðlinda hversu smár sem þær eru.
Ég ætla að lokum að biðja alla að ræða þessi mál af yfirvegum, án upphrópana byggðum á tilfinningum eingöngu, sem er ágætt að hafa með í bland. En rökhyggja og skynsemi þarf þar einnig að koma að.
Þá vil ég ekki síður biðja alla að gera greinarmun á auðlindum og nýtingu auðlinda. Þessu hefur því miður verið ruglað saman endalaust í opinberri umræðu, þar skulum við gera skil á málum, auðlind er eitt, nýting hennar annað.
Hér hef ég eingöngu rætt um auðlindir í og á landi.
Ég ætla að ræða um auðlindir hafsins í annarri grein.


Hversvegna hefur verið einblínt svona á orkugjafa sem hina einu sönnu auðlind Íslands?

Mér fannst síðasti pistill minn um auðlindir landsins orðinn langhundur svo skynsamlegra væri að skrifa fleiri og styttri. Það eru miklar tilfinningar í gangi þegar umræða hefst um orkuauðlindir Íslands og mér finnst stundum að þar fari sumir út um víðan völl.

Orkuauðlindir Íslands eru aðallega af tvennum toga þegar skoðaðar eru þær virkjanir sem framleiða fyrir okkur orku. Það eru vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir. Sú furðulega flokkun hefur orðið til hér á landi að skilja menn í tvo flokka; virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Ég held að þessi flokkun eigi ekki nokkurn rétt á sér, það er eðlilegt að sitt sýnist hverjum hvar og hvað eigi að virkja. Líklega, miðað við hvað ég hef látið frá mér fara í rituðu máli,  er ég l flokkaður virkjunarsinni sem á þó engan rétt á sér. Þekktur umhverfissinni, nafni minn,  sendi frá sér blogg nýlega þar sem hann lýsti sig andsnúinn vatnsaflsvirkjunum, frekar ætti að snúa sér að jarðgufuvirkjunum, það hefði Einar Benediksson gert ef sú tækni í beislun jarðgufu hefði verið komin fram á hans dögum. Ég gerði athugasemd við þessa skoðun, veit ekki hvort nafni minn hefur svarað, hef ekki fundið það.

Ég hef sett fram harða gagnrýni á þá stefnu að virkja meira og meira af gufuafli til raforkuframleiðslu eingöngu og ekki hikað við að segja að þar erum við að fara í hrikalega rányrkju á auðlind okkar. Hvað vit er í því að bora og bora eftir gufu sem síðan knýr aðeins túrbínur sem framleiða rafmagn. Þar nýtum við aðeins um 14% af því afli sem í gufunni býr. Gufuforði í iðrum Íslands er ekki óþrjótandi og ferillinn frá því vatn fer niður í hin heitu jarðlög og er síðan tekið upp aftur sem gufuafl er mjög langur.

Er vit í því að stunda rányrkju á auðlind til að framleiða rafmagn sem síðan er selt til orkufrekasta iðnaðar sem fyrirfinnst, málmbræðslu í okkar tilfelli álbræðslu?

Á Nesjavöllum er framleitt rafmagn með gufuafli sem síðan er notað til að hita kalt vatn upp í hátt í 90°C. Þar með nýtum við gufuaflið 85%, komumst tæplega hærra. Með þessu vatni eru öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi hituð upp

En það er eftir að ræða um eignarhaldið á þessari auðlind, orkuauðlindunum, vatnsföllum og gufuafli.

Þar gagnrýni ég hvað umræðan um þessar auðlindir hefur orðið ómarkviss og ruglingsleg. Ég vil sterklega undirstrika að eignarhald á auðlind er eitt, beislun og nýting annað. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar, segi það beint út; þær eiga að vera þjóðnýttar, sem er alls ekki svo í dag. Hvort sem við reisum Kröfluvirkjun eða minni virkjanir veður að semja um land g nýtingu við fjölmarga aðila. Nýting er allt annar handleggur. Við erum vön því að fá og öflug íslensk fyrirtæki hafa aðallega nýtt orkuauðlindir. Þar er Landsvirkjun langstærst en fleiri koma þar við sögu svo sem Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða, Hitaveita Akureyrar og margar fleiri hitaveitur.

Ég hef verið spurður að því hvaða afstöðu ég taki til einkarafstöðva, einkahitaveitna frá einni borholu til lítilla byggða svo eitthvað sé nefnt. Ekki dettur mér í hug að farið verði að þjóðnýta litlar heimilisstöðvar í bæjarlækjum þar sem þær finnast. Framtaksamir menn hafa borað eftir heitu vatni í sinni jörð og fundið þó nokkuð af heitu vatni. Er það vatn þeirra einkaeign? Við höfum fram að þessu litið svo á þó þar sé allt annað að gerast en virkjun bæjarlækjarins. Vatn sem kemur upp í borholu á einni jörð kann að koma úr miklu stærra forðabúri og sprunguneti en því sem aðeins er undir jörð viðkomandi. Þess vegna gæti það gerst ef nágrannarnir bora líka að þá  minnki rennslið hjá þeim sem fyrstur fann heita vantið.

Þarna geta vaknað margar gagnrýnar spurningar


Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind

 @font-face { font-family: "Times New Roman"; }p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal { margin: 0cm 0cm 0.0001pt; font-size: 12pt; font-family: "Times New Roman"; }table.MsoNormalTable { font-size: 10pt; font-family: "Times New Roman"; }div.Section1 { page: Section1;Það er merkilegt hvað lítið eða ekkert er rætt um þessa staðreynd. Ég dró fram úr tölvunni gamlan Lagnafréttapistil frá árinu 1992 þar sem ég kom inn á þetta mál og kveikjan að þeim pistli voru ummæli Jóhannesar Zoega fyrrum hitaveitustjóra, en undir hans forystu var Nesjavallavirkjun reist, einhver hagkvæmasta virkjun sem reist hefur verið hérlendis. Athugasemdin frá Jóhannesi var sú að hlutfallið milli framleiðslu á rafmagni og heitu vatni í jarðgufuvirkjun yrði að virða, ef rafmagnsframleiðslan færi yfir viss mörk á kostnað heitavatnsframleiðslu væri verið að ganga á forðann sem við eigum í jörðu niðri og er ekki óþrjótandi eins og ætla mætti af þeim stórkarlalegu virkjunaráætlunum jarðgufu sem nú er rekinn áróður fyrir.

Fullyrðing mín um rányrkju byggist á því að ef jarðgufuvirkjun framleiðir aðeins rafmagn nýtir hún einungis 14% af þeirri orku sem í jarðgufunni býr. Ef virkjunin framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn er nýtingin 85% og lengra verður tæplega komist. Lítum aðeins á hagkvæmustu jarðgufuvirkjun landsins, Nesjavelli við Þingvallavatn. Þegar búið er að nýta jarðgufuna til rafmagnsframleiðslu er hitað upp vatn með sömu gufu og búin er að knýja rafmagnstúrbínurnar og því vatni dælt til höfuðborgarsvæðisins. Það heita vatn nægir til að hita upp öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi. Þannig verður Hellisheiðarvirkjun einnig byggð upp þó tæpast sé ennþá markaður fyrir heita vatnið sem hún mun framleiða, en að því mun koma. Suðurnesjavirkjun mun einnig vera nokkuð hagkvæm, framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn.

En er til virkjun á Íslandi sem sóar svona átakanlega orkunni sem við sækjum í formi gufu í iður jarðar?

Sú virkjun heitir Kröfluvirkjun, hún nýtir aðeins 14% af orkunni sem sótt er niður í jörðina, síðan fer gufan sína leið, hún er meira að segja kæld með töluverðum kostnaði og engum til gagns.

Þetta er rányrkja og ekkert annað.

Stundum hefur hvarflað að mér hvort ekki væri hægt að nýta þessa miklu orku, sem fer til spillis við Kröfluvirkjun, og reisa mikið og gjöfult ylræktarver sem gæti séð landmönnum fyrir miklum hluta þess grænmetis sem við verðum nú að flytja inn og skapaði mikla vinnu í Þingeyjarsýslum. Vissulega nokkur stofnkostnaður en orkan er ókeypis, hún fer í dag út í veður og vind engum til gagns. Og nú eru áætlanir um að reisa álbræðslur við Húsavík og í Helguvík ásamt því að stækka Straumsvík og reisa mörg og mikil gagnaver. Allar eiga þessar áætlanir það sameiginlegt að orkan skal sótt að mestu í iður jarðar í formi jarðgufu. Þeistareykir, Gjástykki, Reykjanes og Hellisheiði, víða skal leitað fanga með rányrkju á náttúruauðlindinni sem er langt frá því að vera óþrjótandi. Það er því miður ekki til nema lítill markaður fyrir heitt vatn frá þessum jarðgufuvirkjunum og þær norðlensku, ef af verður,  hafa engin þéttbýli sem markað.

Við höfum á undanförnum árum deilt ákaft um virkjanir og þá aðallega vatnsaflsvirkjanir. Í þeim er ekki um sóun á orku að ræða, frekar beinist gagnrýnin að umhverfi og náttúru. En meira að segja sú umdeildasta, Kröfluvirkjun, nýtir vatnsafl, vatn sem hvort sem er rynni sína leið til sjávar, afl sem án virkjunar yrði engum til gagns.

Í vatnsaflsvirkjunum er aldrei um samskonar rányrkju á náttúruauðlind að ræða og í flestum jarðgufuvirkjunum ef þær verða staðreynd.

 

 

 

 


Svandís á að segja af sér, lögbrjótur á ekki að sitja í ráðherrastóli

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmd fyrir lögbrot. Hún neitaði að staðfesta aðalskipulag Flóahrepps, ástæðan sú að Landsvirkjun hafði kostað skipulagsvinnuna að hluta. Þarna hljóp Svandís illilega á sig og það af pólitískum ástæðum. Þó hún sé á móti virkjunum í neðri Þjórsá mátti hún ekki að brjóta lög til að koma í veg fyrir það. Úrskurður hennar um aðalskipulag Flóahrepps hefur verið felldur úr gildi enda var hann lögbrot.

Svandís á að sjá sóma sinn í að biðjast lausnar sem Umhverfisráðherra

 


Björn Lomborg gengur í lið skattheimtumanna

Það er víst til lítils að ræða loftslagsmál lengur, svo rækilega er búið að "trylla lýðinn" lesist pólitíkusa heimsins með því endemisbulli að maðurinn sé þess megnugur að hækka hita á hnettinum. Mannskepnan hefur aldrei, sem betur fer, verið fær um slíkt og er þess vegna með öllu ófær um að lækka heimshitann að sjálfsögðu.

Björn Lomborg, danskur hagfræðingur, var lengi einn af þeim sem hélt fram heilbrigðri skynsemi í loftslagsmálum en hefur nú snúist á sveif með "stóra apparatinu", Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, en segist hins vegar ekki hafa skipt um skoðun! En það liggja miklir peningar í  "stóra apparatinu" sem hefur ekki hikað við að falsa vísindaniðurstöður. Þar má nefna Hokkýstafinn sem falsarin Michael Mann skapaði en hefur nú orðið að draga til baka og viðurkenna fölsun sína og sá yfirgengilega fráleiti spádómur að allir jöklar Himalaja verði bráðnaðir 2035 og hundruðir milljóna manna verði vatnslausar á Indlandsskaga! Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur orðið að viðurkenna að þessi kenning er ekkert annað en bull og fals.

Meðalhiti í heiminum hefur á þeim tíma sem þessi hnöttur hefur verið byggilegur ýmist hækkað eða lækkað og orsakirnar eru nær alfarið frá sólinni, þó hefur það áhrif hvar jörðin er í Vetrarbrautinni, hnötturinn er á stöðugri hreyfingu í Vetrarbrautinni, á ekki einhvern fastan punkt þar.

Það eru miklir hlutir að gerast í sólinni núna og þær miklu hræringar munu standa allt fram á árið 2012. Þessar hræringar hafa mikil áhrif á hnettinum, þangað má rekja ójafnvægið; skógarelda á vissum svæðum jarðarinnar en gífurleg flóð á öðrum, fellibylji, eldgos og jarðskjálfta.


Ég hef átt samleið með Hitaveitu Reykjavíkur í meira en hálfa öld

Fyrst þegar ég fór að venja komu mína til Hitaveitu Reykjavíkur var skrifstofa og afgreiðsla Hitaveitunnar  í íbúðarhverfi, nánar til tekið við Drápuhlíð í Hlíðahverfinu í Reykjavík. Jóhannes Zoega var þá forstjóri Hitaveitunnar og kynntumst við Jóhannes vel og leyfi ég mér að segja að öll okkar kynni voru hin bestu. Jóhannes stjórnaði þeirri miklu uppbyggingu Hitaveitunnar sem hófst um 1960 þegar Geir Hallgrímsson varð borgarstjóri.

Hitaveita Reykjavíkur vann það grettistak að leggja hitaveitu í alla Reykjavík innan Hringbrautar á stríðsárunum, nokkur hús höfðu áður átt kost á heitu vatni úr Laugardal en eftir það átak varð alger stöðnun, ekkert frekar gert í útvíkkun hitaveitunnar fyrr en þeir Geir og Jóhannes komu til skjalanna. Ég var einn af þeim bæjarfulltrúum í Bæjarstjórn Kópavogs sem vildi taka þá stefnu að semja við Hitaveitu Reykjavíkur um að Hitaveitan legði hitaveitu um allan Kópavog án nokkurra fjárútláta af hálfu Kópavogs en vissulega voru þau sjónarmið á lofti að stofna eigin hitaveitu í Kópavogi, leita eftir vatni í bæjarlandinu og leggja síðan hitaveitu með stórfelldum lántökum. Þessi stefna varð undir sem betur fer en hafði það í för með sér að þáverandi meirihluti í Bæjarstjórn sprakk en stefnan um samninga við Hitaveitu Reykjavíkur varð ofan á. Þannig var Kópavogsbúum forðað frá því að taka á sig drápsklyfjar af skuldum sem langan tíma hefði tekið að komast út úr. Síðan fóru Garðabær, Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur að okkar dæmi og þannig urðu allir íbúar höfuðborgarsvæðisins aðnjótandi þessara mestu gæða sem Ísland á; að hita upp hús sín með jarðvarma, orkugjafa án allrar mengunar.

Eftir að Jóhannes lét af stjórn sem forstjóri Hitaveitu Reykjavíkur tók Gunnar Kristinsson við, mætur maður sem ég átti hin bestu samskipti við. Síðan byggði Hitaveita Reykjavíkur aðalstöðvar sínar við Grensásveg, þar var rúmt um alla starfsemi og ég held að allir hafi unað glaðir við sitt. Þessir heiðursmenn, Jóhannes Zoega og Gunnar Kristinsson er báðir látnir.

Svo kom að því að hitaveitan, vatnsveitan og holræsakerfið í Reykjavík voru sameinað undir einn hatt. Guðmundur Þóroddsson vatnsveitustjóri tók við stjórn í hinu sameinaða fyrirtæki. Allan þann tíma frá því hin stórfellda uppbygging og útbreiðsla hitaveitunnar hófst var Hitaveita Reykjavíkur og síðan hið sameinaða fyrirtæki, Orkuveita Reykjavíkur, mjólkurkú sem skilaði eiganda sínum umtalsverðum arði.

En nú er öldin önnur, mjólkurkýrin mjólkar ekki lengur, Orkuveita Reykjavikur er skuldum vafið fyrirtæki á barmi greiðslufalls.

Hvað gerðist?

Vissulega var farið í nýjar stórframkvæmdir. Nesjavallavirkjun byggð sem framleiðir bæði rafmagn og heitt vatn, virkjun sem var hagkvæm í alla staði og er búin að borga sig. Síðan kemur Hellisheiðarvirkjun sem enn sem komið er framleiðir aðeins rafmagn, ekki heitt vatn einnig, nýtir aðeins 15% af jarðorkunni í stað 85% eins og Nesjavallavirkjun. Þá voru tekin mikil útlend lán og síðan kom hrunið.

Er það eina skýringin á slæmri stöðu OR, útlendu lánin?

Þau eru þyngst en því verður ekki á móti mælt að hjá OR hófst flottræfilsháttur í rekstri sem ekki mátti síður rekja til pólitíkusa en stjórnenda OR. Skýrasta dæmið um það er hið skelfilega hússkrímsli við Bæjarháls. Ekki veit ég hvað það er stórt en þó tekið sé tillit til að hitaveita, vatnsveita og holræsakerfi hafi verið sameinuð í eitt,  er ekki lítil þensla í húsnæði og mannafla frá Drápuhlíð til Bæjarháls. Bruðlið við byggingu hússins við Bæjarháls var með eindæmum, að bruðla þar endalaust með fjármuni almennings er ófyrirgefanlegt og afurðin er einhver ljótasta og óhagkvæmasta bygging sem risið hefur hér á landi á undanförnum árum.

Síðasta kjörtímabil var eitthvert svartasta tímabilið í pólitískri sögu Reykjavíkur frá upphafi. Forystuna um þá niðurlægingu hafði Sjálfstæðisflokkurinn. Til að reyna að hreinsa sig völdu kjörnir fulltrúar að gera  Guðmund Þóroddsson forstjóra að blóraböggli og hann rekinn og Hjörleifur Kvaran ráðinn í staðin, hafði áður verið lögfræðingur fyrirtækisins og þar áður Reykjavíkurborgar. Nú hefur Hjörleifur verið látinn taka pokann sinn, en hverju breytir það, er verið að finna nýjan blóraböggul?

Alla starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur þarf að taka til gagngerðrar endurskoðunar. Leitun mun á fyrirtæki á Íslandi sem hefur eins tryggan rekstrargrundvöll, hefur nánast einkarétt á að reka hitaveitur á Suð-vesturlandi nema á Reykjanesi.

Um langan aldur mun skrímslið við Bæjarháls verða minnismerki um hvernig kjörnum fulltrúum, sem áttu að gæta hagsmuna almennings, tókst að klúðra málum gersamlega með bruðli og gífurlegri skuldsetningu.

Megi "Skrímslið" verða öllum viðvörun um aldur og ævi.


Jón kemur ekki á óvart en Svandís svo sannarlega

Fjölmargir kalla núverandi Ríkisstjórn "vinstri stjórn" og eftir gömlum viðmiðunarreglum er þetta satt og rétt, eða hvað? Það er því lyginni líkast að einn ráðherra þessarar vinstri stjórnar er eitthvert rammasta afturhald sem sest hefur í ráðherrastól og er þó við marga að etja í þeirri samkeppni.

Maðurinn heitir að sjálfsögðu Jón Bjarnason, fyrrum skólastjóri Bændaskólans á Hólum og þótti standa sig vel í því starfi. En hugur Jóns stóð til frama í pólitík og hann valdi að starfa í Samfylkingunni. Ekki minna en þingsæti kom til greina í framapoti Jóns og hann hellti sér út í prófkjör en varð að lúta í lægra haldi fyrir öðrum núverandi ráðherra, Kristjáni Möller.

En Jón dó ekki ráðalaus, hann snaraði sér yfir landamæri flokka og dúkkaði upp í prófkjöri Vinstri grænna fyrir þá komandi  Alþingiskosningar. Hvað fleyið hét sem Jón sigldi á skipti ekki máli, aðalatriðið var að ná landi við Austurvöll.

Og það tókst, síðan hefur Jón verið þingmaður Vinstri grænna og ekki nóg með það; sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í núverandi Ríkisstjórn. Ekki geri ég mér grein fyrir á hvað vegferð Jón er sem sjávarútvegsráðherra en sem landbúnaðarráðherra er hann líklega að slá met í íhaldssemi og varðhundastöðu. Hann lýsir yfir af tröppum stjórnarráðins að hann standi vörð um Bændasamtökin og alla þá innmúruðu íhaldssemi sem þar þrífst og hefur lifað á miklum styrkjum frá landsmönum öllum, telur alla gagnrýni á eigin íhaldsmennsku árás á íslenska bændastétt.

Íslenskur landbúnaður getur átt góða framtíð, ekki síður innan ESB en utan, og öll viljum við halda landinu sem mest í byggð. En til að svo geti orðið verður að losa bændastéttina við það helsi sem afturhald allra tíma hefur hengt á hana. Margskonar nýjungar hafa sprottið upp hjá sumum bændur í úrvinnslu eigin afurða, er það ekki leiðin ásamt mikilli fjölbreytni í ferðaþjónustu bænda?

En er ekki hinn íhaldssami ráðherra Jón Bjarnason svo upptekinn af verndum gamalla þröngra sjónarmiða að hann er jafnvel tilbúinn til að bregða fæti fyrir vaxtarsprotana?

Konur hafa prýtt sæti Umhverfisráðherra í síðustu Ríkisstjórnum. Allir muna framgöngu Þórunnar Sveinbjarnardóttur í ísbjarnamálunum og sem betur fer sat Kolbrún Halldórsdóttir ekki lengi á stóli. Þá kom til skjalanna hin skelegga Svandís Svavarsdóttir sem hafði staðið vel vaktina sem borgarfulltrúi Vinstri grænna í Reykjavík.

En nú nýverið bárust hrikalegar fréttir frá valdstofnunum sem undir Svandísi heyra svo sem Umhverfisstofnun og Landgræðslu ríkisins. 

Sú óheyrilega gjörð að útrýma lúpínu í Þórsmörk með EITRI hefur tæplega verið gerð án samþykkis þess sem æðstur er í valdapíramídanum, Svandísar Svavarsdóttur ráðherra.

Í hvað veröld lifum við? Á hvaða landi lifum við? Er það ekki á Íslandi þar sem við þurfum lífnauðsynlega á öflugustu landgræðslujurt sem fyrirfinnst, lúpínunni, að halda?

Eitt er að hefta útbreiðslu þessarar þörfu jurtar en að fara út í íslenska náttúru og hefja eyðingu gróðurs með EITRI er ekkert annað en glæpsamlegt athæfi.

Þeir sem bera ábyrgð á slíku  eiga að svara til saka að fullu. 


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband