Pólarísinn er ekki að hverfa, hann eykst

Flatarmál Pólaríss sl. 7 ár:

1. sept. 2002 = 5.810.000 km2             1. maí 2003 = 12.851.094 km2

1. sept. 2003 = 6.218.125 km2     1. maí 2004 = 12.440.156 km2

1. sept. 2004 = 5.893.594 km2             1. maí 2005 = 12.696.406 km2

1. sept. 2005 = 5.649.531 km2             1. maí 2006 = 12.341.250 km2

1. sept. 2006 = 5.993.438 km2             1. maí 2007 = 12.627.813 km2

1. sept. 2007 = 4.610.938 km2      1. maí 2008 = 12.865.156 km2

1. sept. 2008 = 4.957.656 km2           29. apr. 2009 = 13.160.938 km2

 Af þessu má sjá að flatarmál Pólariss hefur aldrei verið meira sl. 7 ár en einmitt nú eins og sjá má af síðustu mælingu. Auk þess kemur fram á mælingum Bandaríska hersins á þykkt íssins að hann er 1 meter þykkari nú við Norðurpólinn, apr. 2009, en hann var í apr. 2008.    

Um hvaða bráðnun er Al Gore að predika í Tromsö?

Heimild: Japan Aeorospace Exploration Agency

Mælingar eru gerðar daglega meðgervihnetti.

Flatarmál


Hef hvorki "verslað" mér spritt eða grímu

Ég var að æsa upp einn ágætan fjölmiðlamann á netinu í dag, nefni engin nöfn. Vil þó endurtaka nokkuð sem ég sagði þar að það er greinilega mismunandi hvernig tala má um eða skamma ýmsar stéttir. Það þykir sjálfsagt að skamma stjórnmálamenn og iðnaðarmenn, stundum ekki að ástæðulausu. En sú stétt sem telur sig hafa veiðileyfi á alla aðra, fjölmiðlafólk, tekur því æði óstinnt upp ef við því er blakað.

Ég hef að sjálfsögðu stritað við að sitja í kvöld og horft og hlustað, fréttir á Stöð 2 og RÚV og síðan Kastljós. Allstaðar kom gusan um svínaflensuna og satt best að segja held ég að svínaflensan sé orðin núll og nix samanborið við hysteríuflensuna sem svo rækilega er kynt undir í öllum fjölmiðlum. Við skjóta því inn í að Helga kona mín ætlar að matreiða ljúffengar svínahnakkasneiðar annað kvöld, við ætlum bæði að sleppa grímum og spritti, ef eitthvað í ætt við spritt kemur á okkar borð þá verður það ilmandi rautt úr flösku.En allir fjölmiðlarnir sögðu skilmerkilega frá því að fólk verslaði sér grímur, það verslaði sér spritt og vildi gjarnan versla sér ýmis flensulyf en því miður hafa hinir voldugu lyfjaframleiðendur ekki enn þá látið sér detta í hug að framleiða lyf við hysteríuflensu. Þar er stór markaður og margir sem þyrftu nauðsynlega að versla sér slíkan kínlífselixír. 

En í þessum texta sem ég var að skrifa fylgi ég vandlega forskrift fjölmiðlafólksins. Mér dettur ekki í að ætla nokkrum manni að "kaupa" eitt eða annað. Samkvæmt einhverri óskilgreindri hljóðlátri fyrirskipun var sögnin "að kaupa" nánast gerð útlæg úr íslensku máli. Allir sem vilja telja sig menn með mönnum kaupa ekki lengur, þeir "versla" sér bíla, þeir "versla" sér mat og þeir jafnvel "versla sér" íbúðir. Enginn fer til útlanda lengur, það er ekki fínt, það fara allir "erlendis", aðallega munu það vera "ástsælir" einstaklingar því öllum vinsælum var útrýmt á einu bretti. Og svo orðið ómissandi, veiðihúsið er ekki á bakka Rangár, það er "staðsett" á bakka Rangár. 

Nú vil ég beina því til allra sem lesa einhvern texta þar sem orðið "staðsett" kemur fyrir að lesa textann aftur of sleppa þessu óþarfasta orði nútímans. Það er ekki ólíklegt að allir, sem á annað borð hafa enn einhverja tilfinningu fyrir móðurmálinu finni hve textinn batnar til muna.


Heimsendaspámaðurinn Al Gore predikar í Tromsö

Það eru ógnvekjandi spádómarnir sem koma frá Al Gore og hans fylgifiskum á ráðstefnu í Tromsö í Noregi. Norðurskautsísinn er að bráðna og búast má við að yfirborð sjávar hækki um 1,5 m á þessari öld!!!. Ég bar fram þá spurningu í bloggi nýlega hvað yfirborð sjávar mundi hækka ef allur ís á Norðurskautinu mundi bráðna. Svo virðist sem enginn treysti sér til að svara svo ég ítreka spurninguna þar sem á blogginu eru þó nokkrir "Al Gore spekingar".

En Bandaríski herinn kannar stöðugt þykkt íssins á Pólsvæðinu. Það gera þeirra vísindamann með því að láta mælistöðvar reka með ísnum og mæla m. a. þykkt hans stöðugt. Samkv. uppl. frá þeim mælistöðvum hefur ísinn við Pólinn þykknað um 1 meter frá síðasta ári.

Þýskir vísindamenn frá Alfred Wegener stofnuninni í Bremen mæla þykkt íssins frá flugvélum. Þeir hafa kannað hann nú í apríl og bjuggust við að hann væri um 2 metrar. Þeim til furðu kom í ljós að hann er á ákveðnum svæðum 4 metrar.

Frétt frá Alfred Wegener


Kolbrún vill vill áfram vera umhverfisráðherra!!!

Þetta er ekki brandari, Kolbrún sagði þetta í hádegisfréttum RÚV. Það er sannarlega kominn tími til að það setjist persóna í stól umhverfisráðherra sem ekki er haldin ofstæki í umhverfismálum. Það er nóg að hafa haft Kolbrúnu þennan stutta tíma en gleymum því ekki að þar áður gegndi Þórunn Sveinbjarnardóttir embættinu og nú er komið nóg. Hvað næst? Árni Finnsson eða Hjörleifur Guttormsson? Áður fyrr sátu menn í þessum stóli sem voru ekki valdir vegna ofstækisfullra skoðana, þar nefni ég Eið Guðnason og Össur Skarphéðinsson. Síðasta verk Kolbrúnar Halldórsdóttur sem umverfisráðherra var að veita Katrínu Pétursdóttur í Lýsi leyfi til 8 ára til að gubba ýldufýlu yfir okkur Þorlákshafnarbúa. Þórunn hafði ekki manndóm þar áður til að stöðva þennan ósóma en hafði heldur ekki þor til að veita leyfið. En það hafði yfirpostuli Vinstri grænna í umhverfismálum, Kolbrún Halldórsdóttir, hún hafði þor til að ganga erinda Katrínar í Lýsi.


Klíkuskapur í fjölmiðlum er staðreynd

Það er æði margt sem rík löngun er til að skrifa um eftir kosningarnar, en hrossaskíturinn bíður þess að verða blandað við moldina og að kartöflurnar verði settar niður, enda er veðrið til þess að m. k. hér í Þorlákshöfn.

En það sem Steingrímur sagði í gærkvöldi og hinn margreyndi fréttamaður Ómar Valdimarsson tekur undir í blogginu í dag er  mér efst í huga. Sá óheyrilegi klíkuskapur sem ríkt hefur hjá fjölmiðlum, þar sem sömu persónurnar koma aftur og aftur á skjáinn eða síðurnar er með öllu óþolandi. Þþetta á bæði við um prentmiðla sem ljósvakamiðla og er áberandi í Kastljóri, Íslandi í dag, Silfri Egils og ekki síður í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Steingrímur J. nefndi þennan klíkuskap að vísu "elítu" en er ekkert annað en rakinn klíkuskapur. Þessi klíkuskapur birtist ekki aðeins í vali á viðmælendum heldur eru ákveðin sjónarmið útilokuð. Ég verð meira að segja að Ástþór Magnússon hefur talsvert til síns máls um mismunun í Ríkisútvarpinu.

Hverjir sátu sitt til hvorrar handar Agli á sjónvarpsskjánum á kosningakvöld, það voru þau Pétur Gunnarsson og Agnes Bragadóttir. Hafa ekki allir séð þau áður í Silfrinu hjá Agli? Og hver var kominn um hádegisbiliðá kjördag  enn hjá Agli. Var það ekki Gunnar Smári Egilsson? Einhvernvegin finnst mér ég hafa séð hann áður. Hvað oft fékk Bjarni Harðarson að koma í Kastljós, hvað oft hefur Agnes Bragadóttir verið þar einnig eða Óli Björn Kárason? Svona mætti lengi telja.

Ég skora á þann vandaða fræðimann Stefán Ólafsson sem stýrir Félagsvísindastofnun HÍ ( vona ég fari rétt með heitið) að gera könnun á því hverjir hafa komið fram í fjölmiðlum sl. 10 ár. Þetta gæti verið þroskandi verkefni fyrir nemendur í félagsvísindum og raunar mjög þörf. Það þarf að sýna fram á þann ótrúlega klíkuskap sem hefur viðgengist í fjölmiðlum 


Hnitmiðuð og vel skrifuð grein eftir Grím Atlason

 Stundum rekst maður á vel skrifaðar og hnitmiðaðar greinar í prentmiðlum, þessi grein Gríms Atlasonar er ein af þeim en hún birtist í Fréttablaðinu í dag. Fréttablaðið sé ég nú einungis á netinu, við hér í Þorlákshöfn fáum nokkur eintök send sem eru horfin fyrir kl 9:00 á morgnana. Þar sem ég tel að þessi ágæta grein Gríms eigi mikið erindi til allra daginn fyrir kjördag og Fréttablaðið virðist á fallandi fæti gerist ég svo djarfur að taka hana traustataki og birta á mínu bloggi. Ef ég man rétt var Grímur bæjarstjóri í Bolungarvík en er nú sveitarstjóri í Dalabyggð (Búðardal) og eins og sést neðst á framboðslista VG. Þessi grein fyllir mig Samfylkingamanninn bjartsýni á að núverandi stjórnarflokkar haldi áfram samstarfi í næstu ríkisstjórn, þá meirihlutastjórn, og sú stjórn sæki þegar um inngöngu í Evrópusambandið. Það er ekki sama og innganga, þá lyftist lokið og við sjáum svart á hvítu hverra kosta við eigum völ. Síðan er það þjóðarinnar að taka afstöðu til þess sem býðst. 

 

Grímur Atlason skrifar um Evrópumál

Við verðum að skipta um gjaldmiðil - það er staðreynd. Kerfið, sem kallað var íslenska efnahagsundrið, bjó hér til loftbóluhagkerfi sem sprakk í andlitið á okkur með hrikalegum afleiðingum. Vaxtamunur og ónýtur gjaldmiðill hafa síðan gert það að verkum að við erum í algjörri pattstöðu. Nú er svo komið að þessi fyrirtæki eru flest farin að pakka niður og ætla sér annað. Við verðum að bregðast við.

Verkefni stjórnvalda eftir þessar kosningar eru eftirfarandi:

1. Setja sér samningsmarkmið og sækja um aðild að Evrópusambandinu og lýsa yfir eindregnum vilja okkar til þess að leggja af krónuna sem gjaldmiðil og taka upp evru.

2. Þjóðnýta kvótann og tryggja þannig að auðlindin haldist hjá þjóðinni og að byggðir landsins geti blómstrað á ný.

3. Ofangreindar aðgerðir ásamt samningum við lánardrottna okkar og jöklabréfaeigendur gerir það að verkum að hægt verður að lækka vexti fljótt og örugglega og verðbólga lækkar í kjölfarið.

4. Menntun menning og aftur menntun og menning eru lykilhugtök uppbyggingarinnar.

5. Styrkja sveitarstjórnarstigið þannig að nærsamfélagið verði starfhæft - en það er lykillinn að uppbyggingu.

6. Veðja á margt smátt í stað þess að veðja á eina patent lausn: Álver og bankar eru ágæt með en bara álver og bara bankar er fullreyndur stígur.

7. Fæðuöryggi þjóðarinnar verður best tryggt með því að hlúa að og styrkja íslenska matvælaframleiðslu - það fer ágætlega saman við inngöngu í Evrópusambandið.

Það er klárt mál að samningsmarkmið okkar eiga að vera skýr þegar kemur að samningum við ESB. Sérstaða íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs liggur fyrir. Við erum eyþjóð og það er klárt að óheftur innflutningur t.d. á hráu kjöti gengur ekki upp. Það er líka rétt að 90% af pakkanum liggur ljós fyrir. En það er ekki eins og það sé slæmt.

Það er ekki stefna ESB að ofveiða fisk. Reglur ESB stuðla að hlutfallslegum stöðugleika og tryggja að íslenskur sjávarútvegur nýtur nálægðarinnar við miðin og hefðarréttar á stofnum sem ekki eru deilistofnar. Innan ESB verðum við ein af þremur stærstu fiskveiðiþjóðum sambandsins og í sterkri stöðu til að hafa mikil áhrif á mótun nýrrar fiskveiðistefnu. Þessu verður að halda til haga fyrir grátkórnum.

Stöðu sveitarfélaga á Íslandi, ekki síst þeirra sem eru á landsbyggðinni, er betur borgið innan Evrópusambandsins. Mýmargar áætlanir sem miða að uppbyggingu á harðbýlum svæðum og köldum hagkerfum innan einstakra landa eru í gangi. Þessar áætlanir hafa skilað umtalsverðum árangri m.a. í Portúgal, Spáni, Svíþjóð, Finnlandi, Slóveníu og Póllandi. Hverfum frá haftastefnunni, hún er vond og mun ekki byggja upp blómlega byggð á Íslandi. Losum bændur, sjómenn og aðra undan klöfum ofurvaxta og einhæfni.

Tökum þátt í samfélagi þjóða og öxlum okkar ábyrgð. Höfum trú á okkur sjálfum og því sem við getum gert fyrir Evrópu. Spyrjum ekki bara; hvað getur Evrópusambandið gert fyrir okkur? Spyrjum líka: Hvað getum við gert fyrir Evrópu? Okkur mun farnast vel sem fullgildum þátttakanda í samfélagi Evrópuríkja. Þess vegna er ég sammála því að gengið verði til aðildarviðræðna við Evrópusambandið strax að loknum kosningum. Ef þú ert sammála skráðu þig þá á www.sammala.is.

Höfundur er í 6. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi.


Er Sjálfstæðisflokkurinn búinn að missa glóruna?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi verið stærsti flokkur þjóðarinnar og átt þó nokkra frambærilega foringja fyrr á áru. Oftast hafa þeir kunnað að haga sínum málflutningi þannig að fólk hefur kosið flokkinn en ég hef á langri ævi ekki orðið vitni að jafn glórulaust vitlausri kosningabaráttu og hjá Sjálfstæðisflokknum nú (ég er ekki að harma það, ég vona dagar þessa flokks séu taldir, það er kominn tími til eftir að hann með tilstyrk Framsóknarflokksins hefur nær sett Ísland á höfuðið).

Fokksþing þeirra lét sægreifana beygja sig frá því að taka skynsamlega stefnu í Evrópumálum og þar komu reyndar skammsýnir bændur einnig að málum. Síðan hrekjast flokkur og frambjóðendur upp að vegg hvað eftir annað, þannig var efsti maður (kona) í Suðurkjördæmi í bullandi vörn á framboðsfundi RÚV á Selfossi. En hún hefur þó "góðan" bakstuðning þó ekki sæist hann á fundinum.  Í 2. sæti listans er Árni Johnsen, manni dettur jafnvel í hug Kári og Björn í Mörk nema hvað vopnfimi Kára virðist horfin út í buskann.

En hinn nýi formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, hefur nú fundið upp lausnina í peningamálum þjóðarinnar; að taka upp evru og láta Alþjóða gjaldeyrissjóðinn koma því í kring. Nú vita allir sem vilja vita að einhliða upptaka annarrar myntar en ísl. krónunnar er óframkvæmanleg og stendur ekki til boða. En þetta sýnir tvennt;

1. Sjálfstæðisflokkurinn er loksins búinn að viðurkenna það að ísl. krónan er handónýt og leiðir Ísland og ísl. þjóðina inn í fátæktargildru um ókomin ár.

2. Sjálfstæðisflokkurinn grípur nú til óraunhæfra örþrifaráða í kosningabaráttunni vitandi það að þeir hafa málað sig út í horn með skelfilegri ráðsmennski sl. 18 ár og niðurstöðum á landsfundi sínum sem voru ruglingskenndar og stefnulausar, allt hefur þetta það í för með sér að frambjóðendur flokksins sitja ráðvilltir fyrir svörum hvar sem þeir koma fram í fjölmiðlum.

3. Og svo bítur formaður Sjálfstæðisflokksins höfuðið af skömminni með því að ráðast dólgslega að hátt settum mönnum hjá Evrópusambandinu með því að segja þeim að skipta sér ekki af því sem hann segir þegar þeir benda kurteislega á að einhliða upptak evru komi ekki til greina og Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hafi ekkert um það að segja frekar en nefndur Bjarni Benediktsson..


Dapurlegt að hlusta á Ragnar Arnalds

Já, svo sannarlega var það dapurlegt að hlusta á minn gamla flokksbróður (eða skoðana- og vopnabróður áður fyrr) Ragnar Arnalds í Kastljósi í gær. Það sem alltaf vantar í umræðuna um hugsamlega inngöngu í Evrópusambandið er; hver verður framtíð Íslenskrar þjóðar ef við göngum ekki í Evrópusambandið og verðum þar með háð gömlu íslensku krónunni um ókomin ár og áratugi. Þessu hefur raunar viðmælandi Ragnars í gærkvöldi, Benedikt Jóhannesson, svarað manna best.

Eitt er víst; við getum ekki tekið upp nokkra aðra mynt en íslensku krónuna ef við göngum ekki í Evrópusambandið, einhliða upptaka annarrar myntar kemur ekki til greina, það skulum við viðurkenna undanbragðalaust.

Ragnar, það er ótrúleg íhaldssemi að telja það útilokað að lyfta lokinu og sjá hvað getur komið út úr umsókn um aðild að ES og þeim viðræðum sem þá fara fram, auðvitað verða niðurstöðurnar lagðar í dóm þjóðarinnar.  Ég verð að segja það eins og það er (þó mér finnist það sárt) að þú fórst með tómt rugl og fleipur þegar þú talar um könnunarviðræður við ES án umsóknar, við vitum það báðir, og það ætti alþjóða vita, að slíkar viðræður standa einfaldlega ekki til boða.

Innganga í ES tekur sinn tíma og það líða jafnvel nokkur ár þar til við gætur tekið upp evru sem mynt í stað íslensu krónunnar. En það eitt að sækja um aðild og hefja sem fyrst aðildarviðræður getur gjörbreytt stöðu Íslands meðal þjóða, aukið traust, skapað aukinn stöðugleika í gengi krónunnar, stuðlað að lækkun vaxta hraðar en annars og losað okkur fyrr en annars út úr hinum skelfilegu gjaldeyrishöftum.

Ég nú svo gamall sem á grönum má sjá (lítið á myndina) og ég man glögglega eftirstríðsárin með sínum gjaldeyrishöftum, skömmtunum á allri vöru, biðraðirnar þar sem menn lágu á gangstéttum með teppi og kaffibrúsa næturlangt og ekki síst þá skelfilegu spillingu og klíkuskap sem þessu fylgdi. Ég vil ekki að börn mín og barnabörn þurfi að upplifa slíka tíma.


Hvers vegna taka íslenskir Háskólar ekki upp upplýsta umræðu um loftslagsmál?



Það eru engin takmörk fyrir því hvað Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna og Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna hafa komið yfirgengilegum ranghugmyndum inn hjá almenningi, aðallega um þann hluta heimsins þar sem fólk telur sig vel upplýst og jafnvel skynsamt. Þetta virðist ekki síst eiga við um ungu kynslóðina í öllum löndum.
Hér fer á eftir grein eftir 5 sænsk ungmenni sem er búið að æra og nánast trylla með vísindalegum fölsunum frá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna og Al Gore fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
Svo fengu þessir loddarar í IPCC og Al Gore Nóbelsverðlaun!!!
Á eftir fer svar frá sænska vísindamanninum Fred Goldberg.

picture_1.png


Stokkhólmur drukknar ef jöklarnir bráðna

Gerðu þér í hugarlund að sum hverfi Stokkhólms fari undir vatn á næstu 10 árum. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, hefur reiknað út að yfirborð sjávar muni hækka vegna bráðnunar jöklanna. Eftir landfræðilegum upplýsingum er reiknað með að yfirborð sjávar muni hækka um 1 meter á næsti 10 árum.  Samkvæmt upplýsingum frá ameríska stjórnmálamanninum Al Gore mun yfirborð sjávar hækka um 6 – 7 metra ef ísinn á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnar. Einnig munu aðrir þættir hafa áhrif á þetta og mikill hluti af Stokkhólmi fer undir vatn. Þau hverfi sem munu sökkva eru m. a. Gamla Stan og Södermalm. Komandi hitnun jarða mun hafa mikil áhrif á okkur Stokkhólsbúa. Það ættum við svo sannarlega að hugsa um. Hvað mundi gerast ef allir á jörðinni notuðu jafn mikið af gæðum eins og við Svíar. Við þurfum ekki að gera svo mikið hvert og eitt, litlu hlutirnir hafa einnig þýðingu.T. d. að slökkva á sjónvarpinu , slökkva ljósið, flokka sorpið, allt þetta getur gert mikið.
Ef ykkur finnst þetta ekki skipta máli í dag hugsið þá um börn ykkar eða barnabörn og með þessum boðskap viljum við fá ykkur til að hugsa um framtíð jarðarinnar:
“Við eigum ekki jörðina, við höfum hana að láni frá börnum okkar”.

Undir þetta skrifa fimm náttúruverndarsinnar í Jensen framhaldskóla, Richard, Jonas, Rebecca, Pernilla og Nathalle

Sigurður  Grétar snaraði apr. 2009

Innskot frá Sigurði Grétari:

Þar sem varmafræði er hluti af mínu fagi þá hef ég slegið á það lauslega að ef hitnun jarðar verði stöðug næstu öld eins og IPCC og Al Gore spá og haldist þannig þá sé nokkuð hægt að sjá hvað Grænlandjökull verður lengi að bráðna. Miðað við þann mikla ísmassa sem jökullinn er þá ætti það að taka
eitt þúsund ár.
Svo framhaldsskólanemendur hvort sem er í Stokkhólmi eða Þorlákshöfn ættu að sofa rólegir.

Af hverju er ungt fólk leitt á villigötur í loftslagsmálum?

eftir Fred Goldberg

Í dagblaði var grein eftir 5 ungmenni frá Jensens framhaldsskólanum í Södra um að Stokkhólmur fari á kaf ef jöklarnir bráðna. Þessi ungmenni upplýsa að ótti þeirra byggi á upplýsingum frá IPCC (Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, Al Gore og ýmsum landfræðilegum upplýsingum (hverjar þessar spennandi landfræðilegu upplýsingar eru fáum við ekki að vita) um að innan 10 ára fari Stokkhólmur meira eða minna undir vatn vegna stígandi yfirborðs sjávar.Ísinn á Suðurskautslandinu og Norðurpólnum bráðni með hraði fullyrða þau. Þau segja að hækkun hitastigs á jörðinni í framtíðinni muni hafa mikil áhrif á okkur íbúa Stokkhólms. Það er vissulega jákvætt að ungt fólk hafa tilfinningu fyrir umhverfi sínu og sem dæmi vilja ekki sóa orku. En að birta grein um Stokkhólmur sé að sökkva án þess að skoða nánar þær fullyrðingar sem byggt er á er alvarlegt og vekur ugg.
Fyrir það fyrsta þá er engin hnattræn hlýnun nú í gangi. Seinustu 7 árin hefur hnattrænt hitastig fallið burt séð frá hvaða mælingaraðferðir eru notaðar og þrátt fyrir að meira hafi verið losað af koltvísýringi CO2.Vísindaleg rannsókn á áhrifum koltvísýrings CO2 sýnir að þau eru svo lítil að þau er ekki hægt að mæla. Það er skýjafar sem stjórnast af sólvindum og breytingar á hafstraumum sem er höfuð ástæðan fyrir breytingum á loftslagi. Á síðasta ári, 2008, voru sett 114 kuldamet í Norður-Ameríku, það er afleiðing af að Kyrrahafsstraumurinn PDO breyti stefnu í apríl 2008.Síðan þá hefur orðið kaldara og jöklar byrjað að aukast. PDO straumurinn breytti stefnum árin 1910, 1940 og 1977. Eftir 1910 var snögg hitnun sem m. a. varð til þess að ís á Norðurpólnum bráðnaði hratt. Árið 1940 breytti PDO straumurinn stefnu og það varð upphafið að kuldaskeiði sem er þekktast fyrir hina köldu vetra á stríðsárunum. Árið 1977 breytti PDO straumurinn n til jákvæðrar stefnu og afleiðingin var heitt tímaskeið. Ísinn á Norðurpólshafsvæðinu minnkaði þegar PDO straumurinn þvingaði mikið magn sjávar í gegnum Beringssund. Þessu er nú lokið og ísinn á Norðurpólssvæðinu eykst hratt. Þá eru jöklar einnig að aukast og það er mjög líklegt að þetta ástand muni halda áfram næstu 25 – 30 árin. Það er líklegt að við fáum nýja “stríðsvetur”.
Að Stokkhólmur “drukkni” vegna ísbráðnunar þurfum við ekki að hafa áhyggjur af.
Því má bæta við að samkvæmt nýjustu bandarískum mælingum á ís Norðurpólssvæðisins þá hefur þykkt íssins aukist um 0,5 m víðast hvar og um 1, 0 m næst Norðurpólnum.

Sigurður Grétar snaraði apr. 2009


Til Jóhönnu forsætisráðherra og forystu Samfylkingarinnar

Það er hávær krafa hjá landsmönnum að stjórnmálaflokkar gefi ákveðnari svör um hvað þeir ætli að gera eftir kosningar, fólk vill eins ákveðna stefnu og unnt er að gefa.

Ég geri þá kröfu til þín Jóhanna og ykkar í forystu Samfylkingarinnar að þið gefið skýlausa yfirlýsingu fyrir kosningar svohljóðandi:

Samfylkingin mun ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi við nokkurn flokk eftir kosningar nema það ákvæði sé sett í stjórnarsáttmálann og því samstundis hrundið í framkvæmd að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.


Næsta síða »

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Apríl 2009
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30    

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband