Góðir gestir í Þorlákshöfn og hvað gerist ef Alþingi fellir samninginn um Icesave?

Þau Björgvin G. Sigurðsson og Valgerður Bjarnadóttir alþingismenn komu í heimsókn til Þorlákshafnar sl. fimmtudag. Því miður voru allt of fáir mættir til að fagna góðum gestum en eigi að síður var þetta upplýsandi fundur um ástandið í þjóðmálunum. Að sjálfsögðu var rætt um Icesave samninginn sem vissulega liggur eins og mara á þjóðinni. Ég hef ætíð bent á þegar rætt er um þetta skelfilega mál að það er lítil yfirvegun í því að segja að það eigi einfaldlega að fella samninginn á Alþingi að þá verði hver og einn að reyna að gera sér grein fyrir hvað þá taki við. Ég er handviss um það að hugleiðingar um annan og betri samning er hreinlega bull, ef við fellum þennan samning erum við endanlega komin í skammarkrók þjóðanna, svo hrikalegt er málið. Ég spurði þingmennina um hvort eitthvað ákvæði væri í samningnum um hámarksgreiðslur okkar ef svo illa færi að eignir Landsbankans reyndust  minna virði en áætlað er t. d. eitthvað viðmið við landsframleiðslu, það gæti tæplega verið nokkur akkur í því fyrir Evrópuþjóðir að við yrðum rúin inn að skinni og yrðum beiningafólk næstu öldina. Valgerður Bjarnadóttir svaraði þessu, engin ákvæði eru um viðmið þjóðarframleiðslu en það er ákvæði í samningum að ef ljóst verður þegar greiðslur á Icesave skuldbindingunum hefjast eftir 7 ár  að forsendur hafa þróast okkur í óhag að það er hægt að taka samninginn til endurskoðunar.

Það fer að styttast í það að samningurinn verði lagður fyrir Alþingi og það er augljóst að Framsóknarflokkur og Borgarahreyfing ætla að taka fullkomlega óábyrga afstöðu.Fátt kemur mér á óvart héðan í frá hvað kemur úr herbúðum Framsóknarmanna, hinn nýi formaður virðist gjörsamlega heillum horfinn og honum fylgja tryggilega nokkrir nýir þingmenn sérstaklega hefur Vigdís Hauksdóttir valið sér það hlutskipt að senda pólitískum andstæðingum skammir og svívirðingar. Þau skötuhjúin ættu að muna hver ábyrgð Framsóknarflokksins er á þeim hörmungum sem yfir þjóðina hafa gengið en þau virðast heldur vilja leika sér algjörlega óábyrgt með vinnubrögðum sem voru góð og gild á Hriflutímanum. Borgarahreyfingin varð til í pottaglamrinu á Austurvelli og enn sannast það að það er auðvelt að vera hávær mótmælandi en erfiðara að vera ábyrgur trúnaðarmaður, kjörinn að sinni þjóð. Það er með ólíkindum að annað eins bull komi frá þingmanni eins og  hagfræðingnum Þór Sari sem lysti því yfir að allar tillögur frá ríkisstjórninni væru della og vitleysa, þar væri byrjað á öfugum enda. Það hefði átt að láta allt bíða en einbeita sér að því að innheimta eða endurheimta það þá fjármuni sem útrásarvíkingarnir hefðu komið undan. Veit hagfræðingurinn og alþingismaðurinn Þór Sari ekki að slíkt getur tekið mörg ár? Veit hann ekki að sú vinna er hafin að rekja slóðir fjárglæframannanna, átti á láta allt reka á reiðanum í efnahagsmaálum á meðan? Birgitta Jónsdóttir þingkona Borgarahreyfingarinnar hefur endurvarpað skoðanir ÞS og segist ekkert vita hvaða afstöðu hún taki til Icesave samningsins. Og hvar er Þráinn Bertelsson, maðurinn sem taldi sig geta bjargað öllu fyrir kosningar en er týndur og tröllum gefinn eftir að hann fékk umboð þjóðarinnar til að ganga í björgunarflokkinn og fara í rústabjörgun?

Það er skelfilegt ábyrgðarleysi ef Alþingi fellir Icesave samninginn en miðað við þær skoðanir sem ýmsir hafa viðrað getur svo farið. Bjarni Benediktsson hinn nýi formaður  Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því yfir að mjög ólíklegt sé að flokkur hans styðji það á þingi að Icesave samningurinn taki gildi. Enn þá uggvænlegra er að það er vafasamt að sumir þingmenn Vinstri grænna styðji málið. 

Icesave málið er skelfilegt mál fyrir land og þjóð. En við eigum ekki annan kost betri en gangast undir okið og samþykkja samninginn. Ég segi enn og aftur: Ef við gerum það ekki þá erum við komin í skammarkrók þjóðanna og verðum næstu áratugi að súpa seyðið af því, lifa sjálfsþurftarbúskap á landi hér, það er að segja þeir sem ekki koma sér burtu. 

Þetta er skelfileg spá en er hún óraunsæ?

 


Samfylkingarmaður telur að skoða eigi tillögu Sjálfstæðismanna rækilega

Horfði á Kastljós í kvöld þar sem þeir Tryggvi Þór Herbertsson alþingismaður og Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður tókust á um tillögu Sjálfstæðismanna um að skattleggja greiðslur í lífeyrissjóði um leið og greiðslur eiga sér stað en ekki um leið og lífeyrisgreiðslur eru greiddar út sem lífeyrir. Það var athyglisvert að þarna tókust á tveir Sjálfstæðismenn en voru þó algjörlega ósammál. Líklega er Tryggvi Þór aðal hugmyndasmiðurinn að þessari skattalegu breytingu sem myndi, eftir því sem Sjálfstæðismenn segja, gefa Ríkissjóði miklar tekjur strax og ekki veitir af, nú er leitað í hverri smugu eftir fjármunum til að fylla upp í þann rosalega fjárlagahalla sem verður viðvarandi næstu árin.

Það er skemmst frá því að segja að ég fékk þó nokkurn áhuga á þessari hugmynd Sjálfstæðismanna. Þórarinn gerði sig sekan um rökleysu þegar hann hélt því fram a þetta myndi svipta ríkið skatttekjum síðar meir en þann málflutning skil ég ekki. Almenningur mun halda áfram að greiða í lífeyrissjóði um ókomin ár og þar með mun alltaf myndast skattstofn. Það má líkja þessari breytingu við það þegar við tókum upp staðgreiðslu skatta sem ekki nokkur maður í dag efast um að var mikið heillaspor. Þar var breytt um innheimtu skatta. Fyrir breytinguna var skattur greiddur að tekjum síðasta árs (skattur greiddur að lífeyrisgreiðslum við útborgun) en eftir að staðgreiðslan var tekin upp var skattur greiddur af tekjunum um leið og þær mynduðust (skattur greiddur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóði).

Eflaust er það rétt hjá Tryggva Þór að á þessari hugmynd eru magrir agnúar en eins og hann sagði það á að finna leiðir til að sníða þá af og einnig að það er lítil framsýni að skjóta hugmynd í kaf um leið og einhver agnnúi sést. Þórarinn sagði reyndar að ef skattur yrði tekinn af lífeyrisgreiðslum strax í upphafi væri stofninn sem ber vaxtatekjur minni framvegis og það er eflaust rétt.

En væri ekki hægt að mæta því að nokkru með því að "skera ofan af kökunni". Rekstur lífeyrissjóða er óheyrilega fjármagnsfrekur og er ekki hægt að hagræða með því að fækka lífeyrissjóðum. Hvað eru margir lífeyrissjóðir reknir hjá þessari 320.000 manna þjóð?

Ég skora á þau Jóhönnu forsætisráðherra og Steinrím fjármálaráðherra að skoða þessa tillögu Sjálfstæðismanna vandlega.


Viðbrögð fólks við rústabjörgun ríkisstjórnarinnar oft með ólíkindum

Það var æpt hátt á Austurvelli í vetur og raunar víða um land. Yfirþyrmandi reiði gegn útrásarvíkingunum, mönnunum sem eru örugglega búnir að koma undan stórum summum í skattaskjól víðsvegar um heim, og á tímabili að minnsta kosti gegn þeim stjórnmálmönnum, embættismönnum og stofnunum sem létu þetta viðgangast. En minnið virðist æði skammvinnt, það virðist sem svo að það sé að líða fólki úr minni hvernig allt þetta byrjaði. Það er ekki nokkur vafi á að ófarirnar byrjuðu með einkavinavæðingu bankanna þriggja, Landsbanka, Kaupþings og Glitnis. Mikill meirihluti þjóðarinnar var fylgjandi því að einkavæða bankana, það væri skárri kostur en að þeir væru ríkisreknir með tilheyrandi spillingu, hyglun vina og ættmenna og tök stjórnmálaflokkanna í gegnum bankaráðin og pólitísku bankastjóranna.

En hverjir voru það sem leiddu og stóðu fyrir einkavæðingu bankanna? Er það virkilega að gleymast að það voru þeir sem þá sátu í ríkisstjórn, það var samstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem réttu einkavinum sínum bankana á spottprís, Björgólfum, Ólafi í Samskipum og Finni Ingólfsyni svo nokkrir séu nefndir. Svo tóku glæframenn úr viðskiptalífinu fullan þátt í þessu, sérstaklega var það áberandi í Kaupþingi. En það var heitt í kolunum í vetur of ekki að undra.

En við fórum í gegnum kosningar í vor og út úr þeim kosningum kom afgerandi um boð til þeirra tveggja flokka sem þá þegar voru komnir í rústabjörgun, minna fór fyrir hinum háværu pottalemjurum, þó varð til lítill flokkur Borgarahreyfingin með fjóra þingmenn og þeirra framganga virðist æði brottgeng.

En síðan rústabjörgunin hófst undir forystu Jóhönnu og Steingríms virðist hafa myndast tvenns konar hávær öfl sem ekkert gera nema æpa og öskra svo sem fyrrum. Það eru annarsvegar mjög óábyrgir stjórnmálamenn í stjórnarandstöðu á þingi og þar fer fremstur í flokki hinn nýi formaður Framsóknarflokksins Sigmundur Davíð og hefur sér til fulltingis tvær þingkonur, þær nefnst Vigdísi og Eygló. Þessi þríeining er ný á þingi og það er dapurlegt að þetta tiltölulega unga fólk virðist halda að það veki best á sér athygli með upphrópunum og ábyrgðarleysi. Þetta eru engir venjulegir tímar og þó þau séu ný á Alþingi þá bera þau ábyrgð á fortíð og afglöpum Framsóknarflokksins, þau ættu þess vegna ekki að hreykja sér hátt með óábyrgum upphlaupum, þjóðin er búin að fá nóg af slíku. Hins vegar eru ýmsir sjálfkjörnir einstaklingar sem stöðugt gera hróp að þeim sem í rústabjörguninni standa. Lengi hefur verið æpt á strætum og gatnamótum og auðvitað í fjölmiðlum "að ekkert sé gert" meira að segja ljósastauraökumaðurinn Eyþór Arnalds (sem DV gaf út sérstakt Suðurlandblað honum til heiður með forsíðumynd) "að landið sé stjórnlaust". Hann er aðeins einn af stórum hópi sem slíku hefur haldið fram þó allir viti bornir menn ættu að sjá og skilja að flórinn eftir Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn verður ekki mokaður á einum degi, einum mánuði eða einu ár, það mun taka mörg ár.Það hefur verið unnið hörðum höndum af ríkisstjórn, öllum stofnunum ríkisins, samtökum atvinnurekenda og launþega að finna leiðir út úr þessum hrikalega vanda eftir að þessir tver flokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkar, eyðilögðu undirstöður samfélagsins. Hefði þeir staðið sig betur í rústabjörguninni´ Og í dag heyrir maður að Hörður Torfason er kominn aftur á Austurvöll og veit nákvæmlega að allt sem nú er verið að gera til björgunar sé rangt. Ef þessi maður vissi nákvæmlega á sl. vetri hvað gera skyldi til bjargar, hvers vegna bauð hann ekki fram krafta sína og bauð sig fram til þings? Hörður Torfason er persónugervingur allir þeirra áábyrgu einstaklinga sem hafa ekkert fram að leggja annað en skammir, niðurrif og upphrópanir.

Við höfum þörf á öðru núna á þessum svo sannarlega síðustu og verstu tímum


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Júní 2009
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband