Spellvirkjunum hossað á kostnað björgunarsveitarinnar

Sá Fréttablaðið í morgun, þökk sé nágranna mínum Ragnari. Í sjálfu sér væri mér nokkuð sama þó ég sæi ekki það blað en þegar það er komið inn um lúguna les maður það auðvitað.

Þar segir í frétt að stuðningur við Ríkisstjórnina sé kominn niður í 43%, að  fylgi við Sjálfstæðisflokkinn aukist, að fylgi  Vinstri Græna fari dvínandi en aðrir flokkar haldi sjó. Þetta er mjög merkileg frétt og sýnir og sannar að minni háttvirtra þjóðfélagsþegna nær ákaflega skammt.

Æði margir virðast ýmist vera búnir að gleyma því, eða einfaldlega hafa aldrei gert sér grein fyrir því, að það  var Sjálfstæðisflokkurinn sem ber höfuðábyrgð á hruninu mikla haustið 2008 enda búinn að vera í ríkisstjórn samfellt í 18 ár.

Vissulega naut Sjálfstæðisflokkurinn dyggilegs stuðnings Framsóknarflokksins við að teppaleggja brautina fyrir fjárglæframennina sem því miður hafa fengið það allt of virðulega heiti "útrásarvíkingar". Þeir tveir menn sem þeim óhappaverkum stýrðu voru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson. Halldór var síðan gerður skaðlaus og sendur úr landi en Davíð Oddsson aldeilis ekki. Honum var lyft til æðstu valda í Seðlabanka Íslands til að gæta hagsmuna þjóðarinnar ásamt Heimdellingi nokkrum Jónasi Fr. sem stýrði Fjármálaeftirlitinu.

Og allir vita hvernig fór!

Ríkisstjórnin núverandi vinnum hörðum höndum við að bjarga landi og þjóð út úr ógöngum þeim sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur komu okkur við. Það er ekki auðvelt verk. Ég get hins vegar ekki séð neina tvo aðra einstaklinga til að leiða það verk en þau Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon. Auðvitað verða þau að grípa til margra óvinsælla ráðstafana. Við mig persónulega kemur það sér mjög illa að hámark tekjutengingar eldri borgara var lækkað úr 1.300.00 í 480.000. En samt sem áður styð ég þessa ríkisstjórn, hvað annað eigum við að gera?

Eigum við að leiða spellvirkjaflokkinn Sjálfstæðisflokk aftur til valda og áhrifa í íslensku þjóðfélagi?


Sjónvarpið er að verð vonlaus fjölmiðill

Eru þeir sem ráða dagskrá Sjónvarpsins gengnir af göflunum? Ég lagði það á mig í kvöld að horfa á langan þátt um Elísabetu Bretadrottningu dragnast með Pusa mann sinn í heimsókn til Bush og Láru meðan þau bjuggu enn í Hvíta húsinu (en sem betur fer eru þau farin þaðan), Ekki nóg með það að sýndur hafi verið langur þrautleiðinlegur þáttur um breska drottningarslektið heldur stendur það svar á hvítu í dagskrárdálki Morgunblaðsins að það eigi eftir

að koma fimm þættir í viðbót næstu fimm mánudaga!!!

Hverjir hafa ánægju af slíkum þáttum? það væri fróðlegt að þeir gefi sig fram því ég hygg að það verði ekki langur listi.

Í gærkvöldi var að sjálfsögðu bíómynd sunnudagskvöldsins. Þar var tilkynntur til leiks einn af mínum uppáhaldsleikurum, Jeremy Irons. En þrátt fyrir að honum brigði fyrir gafst ég upp enda engin leið að botna hið minnsta í framvindunni. Sjónvarpið hefur haft það fyrir reglu að sýna furðulegar eða sorglegar myndir á sunnudagskvöldum. Margir eru haldnir verkkvíða fyrir komandi vinnuviku, væri ekki rétt að hressa fólk við á sunnudagskvöldum með hressilegum og skemmtilegum myndum.

En það væri ekki réttlátt að minnast ekki á einstaka góða þætti. Þættirnir um sólkerfi okkar og sérdeilis um jörðina eru stuttir, hnitmiðaðir og fróðlegir.

En aftur í það neikvæða. Hverjir hafa áhuga á Dönum sem elta uppi aðra Dani víðsvegar um veröldina og láta líta út sem þeir komi á óvart með sjaldséðan ættingja. Dapurleg amerísk fyrirmynd.

 

 


Má bjóða þér drullu í dós?

Þrátt fyrir allar tímabundnar þrengingar þá búum við Íslendingar enn við, og vonandi um ókomna framtíð, að fá alla þá heilbrigðu fæðu sem við þurfum á að halda. Gamall maður eins og ég man að það var ekki hægt að fá ávexti nema örlítið fyrir jólin og grænmeti var af skornum skammti, helst voru það auðvitað kartöflur og margir reyndu að rækta svolítið af gulrófum. Nýmeti var sjaldgæft til sveita nema helst í sláturtíðinni á haustin en þeir sem bjuggu við sjávarsíðuna fengu oftast nýja soðningu.

Éttu og drekktu "fæðubótaefni" er dagskipunin

Já, það er með ólíkindum að þá fyrst þegar við höfum fjölbreytt fæðuval lætur fólk, og aðallega unga fólkið, tæla sig til að kaupa alls kyns sull í flöskum og dósum sem "fæðubótaefni". Sú var tíðin að fyrir rúmri öld fóru ugluspeglar um sveitir og seldu fáfróðu fólki sull á flöskum sem bar nafnið "kínalífselixír. Þetta átti að vera allsherjarlyf sem læknaði allan krankleik hvernig sem hann birtist. Vísir menn sáu auðvitað í gegn um falsarana og voru þeir gerðir brottrækir úr öllum sveitum. Lengi á eftir var gert stólpagrín að þeim sem létu glepjast og keyptu og drukku sullið. En nú er öldin önnur. Nú eru fjölmargar verslanir með herskara sölumanna sem selur fáráðlingum alls kyns fæðubótaefni.Óþverri

Eyðileggur lifrina eins og alkóhól

Í fréttum sjónvarpsins í kvöld var sagt frá uppgötvun Finna. Skorpulifur er ekki einungis afleiðing af drykkjuskap og ofneyslu áfengis. Jafn slæmt, ef ekki verra eru öll þessi drulla sem fávís ungdómur (og raunar þeir sem eldri eru einnig) lætur ginna sig til að kaupa og drekka sem "fæðubótaefni"..

Hér til hliðar er mynd af flösku með einni tegund af þessu eitursulli. Nú er nóg komið af vitleysunni.

 


Vanhugsuð tillaga um hækkun aldurs til bílprófs

Þá er komin fram einhver vanhugsaðasta tillaga, og raunar óréttlátasta, sem lengi hefur komið frá stjórnvöldum. Nú skal hækka aldur þeirra sem taka  bílpróf úr 17 árum í 18 ár.

Hvers vegna er þetta vanhugsuð tillaga?

Hún er fyrst og fremst óréttlát og jaðrar við það að standast ekki jafnræðisreglu, en sú regla á að vera leiðarljós stjórnvalda í öllum málum og er raunar lögvernduð. 

Forsendan fyrir því að hækka bilprófsaldurinn er sú að sagt er að 17 ára bílstjórar séu valdir að fleiri umferðabrotum en aðrir aldursflokkar. Hins vegar eru það aðeins fáir einstaklingar sem fremja brot í þessum aldursflokki en eigi að síður skal refsa öllum aldursflokknum fyrir afbrot fárra. 

Stenst þetta jafnræðisreglu?

Það má líkja þessari tillögu við ákvörðun veitingamanns í Austurstræti sem setti alla þeldökka menn í bann á sínum veitingastað vegna þess að þeldökkur maður hafði sýnt hvítri konu áreitni við barinn. Hann var spurður að því hvort hvítir karlmenn sýndu aldrei slíka hegðun og viðurkenndi hann að slíkt hefði komið fyrir. Hann var spurður að því af hverju hann setti þá ekki bann á alla hvíta karlmenn. Svar við þeirri spurningu kom aldrei.

Fáránlegar tillögur

Það á líka að lögfesta að ungir 18 ára ökumenn megi ekki hafa í bílum sínum nema takmarkaðan farþegafjölda. Hver á að framfylgja þeim lögum? Á lögreglan að gera það? Á sama tíma og lögreglan er í fjárhagslegri spennitreyju þá á að leggja meiri skyldur á þá fáu lögreglumenn sem eru á vakt hverju sinni. Þetta er einkenni íslenskra stjórnvalda; að setja lög og reglur sem vitað er fyrirfram að ekki er hægt að framfylgja. Er þetta ekki eitthvað svipað og bannið við að tala í gemsa undir akstri? Vissulega er það algjör óþarfi að tala í síma undir stýri og auðvitað hættulegt, athæfi sem hver maður ætti að venja sig af. En það breytir ekki því að það er ekki bæði hægt að skera lögregluna niður við trog og leggja svo á hennar herðar meiri og meiri skyldur.

Hverjar verða afleiðingarnar?

Mjög líklega munu fleiri ungmenni stelast til að aka próflaus en áður. Það er ekki nema von að það kraumi reiði í mörgum þeirra sem eru að verða 17 ára og höfðu hlakkað til að fá  réttindi til að aka bíl. Við skulum ekki gleyma því að langflest 17 ára ungmenni haga sér vel í umferðinni, að refsa öllum fyrir afbrot fárra  stenst ekki.

Hvað er skynsamlegast að gera?

Efla kennsluna, ekki síst sálfræðilega. Það verður að efla starf ökukennara, það er eins og samfélagið hafi litið á ökukennslu sem eitthvað formsatriði, þetta nám hefur aldrei notið þeirrar viðurkenningar sem það á skilið. Akstur á vegum er dauðans alvara, um það höfum við óræk dæmi. Þess vegna á ekki að nálgast þetta vandamál með refsigleði heldur nákvæmlega því gagnstæða, með kennslu og upplýsingu um þær hættur sem bíða okkar allra á þjóðvegum og strætum.


Vofa Don Kíkóti (Don Quixote) gengur laus á G-8 fundi

Þá hafa valdamenn átta stærstu og mestu iðnríkja heims gert samþykkt sem mun síðar meir verða að athlægi og verður framvegis þekkt dæmi um heimsku og hroka, samþykkt sem nálgast að vera álíka og gjörð Kaþólsku kirkjunnar fyrr á öldum þegar hún samþykkti af miklum þunga að jörðin væri flöt og Galileo mátti þakka fyrir að ganga út frá réttarhöldum með höfuðið á búknum, sökin var að halda því fram að jörðin væri hnöttótt.

Samþykkt karlanna sjö og Angelu var hvorki meira né minna en þessi:

Hiti á hnetti okkar skal ekki hækka um meira en 2°C fram til ársins 2050!!!

Mannskepnan er vissulega orðin ráðvillt en einnig hefur hún greinilega ofmetnast, telur sig nú hafa náð svo langt að hún geti ráðið lofslagi og hitastigi heimsins. Sem betur fer er langt frá því að svo sé, maðurinn hefur engin teljandi áhrif á hitastig jarðar. Það hefur aldrei verið sannað að CO2 koltvísýringur í andrúmslofti sé að hækka hita á jörðinni. Hins vegar er CO2 ein af þeim gastegundum sem halda hita á jörðinni, án þeirrar virkni væri meðalhiti á jörðinni ekki plús 15°C heldur  mínus 18°C, jörðin væri óbyggileg. Þessu "markmiði" G-áttmenninganna skal ná með því að stöðva sem mest kolefnisbruna og til þess á að verja óheyrilegum fjárhæðum. Þetta á að gera á sama tíma og börn og fullorðnir deyja úr sulti, malaríu og öðrum sjúkdómum, á meðan stór hluti mannkyns fær ekki ómengað drykkjarvatn og fátækt eykst og milljónir manna eru á flótta vegna styrjalda.

Eru engin takmörk fyrir heimsku mannanna?


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Júlí 2009
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 114273

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband