Það hvarflar ekki að mér að Ólafur Ragnar muni synja því að staðfesta samþykkt Alþingis um Icesave

Það hefur verið lítil freisting að setjast við tölvuna til að blogga um hásumarið. Garðurinn býður upp á skemmtilega útiveru og vinabæjarmótið sem við 20 Ölfusingar sóttum í Skærbæk í Danmörku fyrstu vikuna í júlí var bráðskemmtilegt og vel skipulagt og stjórnað af Dönum.

En nú er Icesave máið að mestu komið í höfn, það er við hafnarkjaftinn, það á aðeins eftir að leggjast að bryggju og fá landfestar frá forseta vorum Ólafi Ragnari.

Menn hafa verið að gera því skóna, og sumir að krefjast þess, að Ólafur Ragnar synji því að samþykkja þessa afdrifaríku lagasetningu Alþingis. Margir líkja þessu við synjun forsetans á alræmdu frumvarpi Davíðs og Halldórs, hið svokallað fjölmiðjafrumvarp. Slík samlíking er algjörlega út í hött, raunar var fjölmiðlafrumvarpið ekki nema stormur í vatnsglasi miðar við stórviðri og brimskafla Icesave málsins. Ég veit að Ólafur Rafnar forseti er það raunsær maður að hann mun ekki setja þjóðlífið á annan endann með synjun.

En eitt er víst; þeir sem komu okkur Ísendingum í þetta skelfilega Icesave mál eru líklega einhverjir mestu óhappamenn sem finnast á landi hér og það má alveg fara allt aftur í landnám til samanburðar!

Það hefur verið bent á Gamla sáttmála til samanburðar en í raun var hann að sumu leyti ill nauðsyn, landið var að einangrast, loftslag breyttist til hins verra, lífkjör versnuðu, skipum fækkaði. En nóg um Gamla sáttmál.

En gerði ríkisstjórnin mikil mistök í Icesave málinu? Ekki er nokkur vafi á því í mínum huga að við bárum ábyrgð á Icesave reikningum Landsbankans sem óheillakrákan Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri LÍ segir að okkar ábyrgð hafi aldrei verið til. Sigurjón Árnason og hans samverkamenn ættu að skammast sín og láta sem minnst fyrir sér fara. En hvað um ríkistjórnina? Ég var yfir mig undrandi þegar Steingrímur fjármálráðherra skipaði gamlan flokksbróður sinn Svavar Gestsson sendiherra sem formann samninganefndarinnar, það var með eindæmum óheppilegt. Ég tel að samninganefndin um Icesave hafi ekki verið skipuð þeim hæfustu sem finnanlegir voru innanlands og það átti tvímælalaust að fá einnig hæfustu menn í útlöndum til að taka beinan þátt í samningaviðræðum.

En hvað um þátt Alþingis? Þar kemur furðuleg afstaða margra til Alþingis í ljós. Almenningur er orðinn svo vanur að ríkisstjórnin og framkvæmdavaldið í heild valti yfir Alþingi að fjölmargir halda að eitthvað sé bogið við það að Alþingi taki málið í sínar hendur og vinni það án þess að láta ríkisstjórnina segja sér fyrir verkum frá degi til dag.

Þar var Guðbjartur Hannesson form. fjárlaganefndar tvímælalaust fremstur með jafningja og vegur Alþingis hefur tvímælalaust vaxið af þessari glímu.

En svo reyndu sumir að fiska í gruggugu vatni og þar fór Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins fremstur. Ég hafði trú á þessum manni fyrst þegar hann kom inn í pólitíkina en sú trú er löngu gufuð upp. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn undarlegur söfnuður sem virðist ekkert vita hvert á að stefna. Öðru vísi mér áður brá þegar Sjálfstæðisflokkurinn hafði niðurnjörvaða stefnu og fylgdi henni gegn um þykkt og þunnt ekki síst til að hygla sínum mönnum og fyrirtækjum. Bjarni Benediksson virðist ekki ná neinum tökum á stjórn flokksins. Bláa höndin virðist enn stjórna bak við tjöldin. Það sáu það allir sem sjá vildu að það var óheppilegt að gera mann úr innstu elítu flokksins að formanni til að leiða endurreisnina eftir hina fráleitu arfleið Davíðs en Bláa höndin réði ferðinni. Það kom ekki til greina að sækja foringjann út á land, mann sem hafði víðtæka reynslu úr atvinnulífi og sveitarstjórn. En hann var ekki í elítunni eða af Ættunum, því fór sem fór. Ég hef ekki orku til að ræða um garminn hann Ketil, Borgaraflokkinn. 

Þvílíkir rugludallar hafa líklega aldrei sest á Alþingi Íslendinga og hafa þó margir undirmálsmenn náð að smeygja sér þar inn.


Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús

Menn flykktust á Austurvöll eftir hrunið mikla, börðu bumbur og pottlok undir stjórn Harðar Torfasonar, hentu drullu og eggjum í lögregluna, brutu rúður í Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu, réðust inn á Hótel Borg og skemmdu útsendingarbúnað, komu í veg fyrir að "stjórnmálamenn" gætu komið máli sínu til almennings, þannig var málfrelsið á síðasta degi ársins 2008, ársins þegar bankaránin voru framin af þeim sem áttu alla möguleika til þess því þeir höfðu lyklana.

Niður með alla stjórnmálmenn, nýtt blóð, nýjar heilbrigðar persónur taki við!

Þetta var herhvötin, allt í einu var okkur sagt að það væri fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefði gáfur, hæfileika og framtíðarsýn, það þyrfti aðeins kosningar og henda öllu gamla settinu út, inn með nýjar mublur. Vissulega var það uppörvandi að fá að heyra það að meðal pottlokahjarðarinnar á Austurvelli leyndist afburðafólk sem gæti bjargað öllu, fólk sem hefði hugsjónir, fólk sem væri heiðarlegt og ekki síst þeim kostum búið að þekkja og virða lýðræðið, fólk sem gæti unnið af heilindum, fólk sem ætlaði að hlýða vilja "fólksins" í landinu, ef það fengi að taka við yrði allt gott, öll dýrin í skóginum yrðu vinir.

Svo komu kosningar

Nú áttu landsmenn tækifærið og hreinsa til í þeim hópi sem hafði komið  Íslandi á kaldan klaka og kjósa nýja fólkið frá Austurvelli. Þá gerðist nokkuð sérkennilegt:

Tugir þúsunda kusu aftur þá sem höfðu eyðilagt okkar ágæta þjóðfélag, þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, þessa tvo flokka sem höfðu stjórnað allri spillingu á Íslandi svo lengi sem ég man eftir og er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá (lítið á myndina). Þessir tveir flokkar tóku "nýfrjálshyggjunni" opnum örmum, þeir einkavæddu ekki fyrirtækin sem þjóðin átti, þeir "einkavinavæddu" þau flest svo sem bankana, Símann, Íslenska aðalverktaka og svo mætti lengi telja.

En það gerðist einnig í þessum merkilegu kosningum að nýja aflið frá Austurvelli bauð fram til Alþingis albúið til að reisa aftur þjóðarbúið. Að vísu sprungu sumir á limminu strax og gáfust upp eftir nokkra misheppnaða upplýsingafundi. Bjarni bóksali á Selfossi (þessi með rýtinginn í erminni) og sakleysislegur og ágætur klerkur í Hafnarfirði Þórhallur að nafni sögðust ekki nenna þessu, ágæt dómgreind.

En AFLIÐ komst á þing, Borgarahreyfingin. Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn. Satt best að segja hélt ég að Þór og Margrét hefðu eitthvað til brunns að bera, jafnvel Birgitta einnig en ég hafði enga trú á Þráni, þessum ágæta kvikmyndaleikstjóra og rithöfundi með allan sinn húmor. En hvað nú? Eini maðurinn sem ég ber einhverja virðinu fyrir nú er Þráinn, hann er þó  þeirrar náttúru að vera heiðarlegur og vilja standa við sín orð. Um þau hin þrjú ætla ég ekki að eyða fleiri orðum. Og hvar er sá ágæti Hörður Torfason, sem ég held upp á bæði sem trúbador og ekki síður sem eindreginn kjarkmann í mannréttindamálum eins og hann hefur sýnt óumdeilanlega í baráttu samkynhneigðra á liðnum áru. Er hann týndur?

Ég hef enn trú á minni þjóð

Vegna þess að kjarni þessarar þjóðar skynjaði hvar veilan lá. Kjarni þessarar þjóðar bar gæfu til þess að veita tveimur vinstri flokkum ( þetta hugtak er að vísu að verða æði gamaldags en við höfum ekkert betra) Samfylkingunni og Vinstri grænum MEIRIHLUTA Á ALÞINGI. Ég mun ætíð á þeim árum sem ég á eftir verða stoltur af Alþingiskosningunum í apríl 2009. Ef eitthvað verður til þess að bjarga okkur út úr því skelfilega frjálshyggjusukki sem Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi Framsóknarflokksins kom okkur í þá er það þessi ótrúlegu úrslit: AÐ ÞESSIR TVEIR FLOKKAR SKYLDU FÁ MEIRIHLUTA ATKVÆÐISBÆRRA MANNA Í KOSNINGUNUM 2009! Þess vegna er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Ég ætla að ljúka þessum pistli með þökkum til Steingríms J. Sigfússonar fyrir rökfastan og málefnalegan málflutning í Kastljósi í kvöld. 


Hvernig eru hinir útvöldu bloggarar valdir?

Ég er búinn að vera samferða Morgunblaðinu æði lengi; sem áskrifandi, sem pistlahöfundur og nú bloggari um nokkurt skeið. Bloggið er vissulega merkilegt fyrirbæri þó ég hafi ekki séð jafn mikið bull í nokkrum fjölmiðli sem blogginu. En á milli eru ýmsar góðar ábendingar og sumir stunda yfirveguð og nokkuð innihaldsrík skrif.

En þegar slegið er á <blog.is> þá birtist fyrst aðgangur að einhverjum 8 útvöldum sem þá auðvitað verða þeir sem mest eru heimsóttir, þar fyrir neðan ýmsir sem hægt er að velja á mismunandi hátt.

En það sem vekur athygli mína er að þessir 8 útvöldu eru svo sannarlega útvaldir því líklega er þetta ekki nema 20 - 30 manna hópur sem nýtur þeirrar náðar að komast inn í þessa "elítu". Þess vegna koma þarna fyrir aftur og aftur sömu andlitin (eða merkin) og það sem er merkilegra; flestir sem þangað upp komast eru neikvæðir nöldrarar, svo virðist sem jákvæðni og bjartsýni eigi ekki upp á pallborðið þegar í "elítuna" er valið.

Nú kann einhver að spyrja; hefur þú sem þessar línur ritar aldrei komist í "elítuna" og svo er ertu þá ekki bar öfundsjúkur? Ég hef aldrei þangað upp komist, sé örstutt í smettið á mér stundum þegar ég skrifa pistil undir <nýtt blog> en er venjulega horfinn að kveldi eða morgni.

En eftir stendur spurningin: Hver velur og hvernig er "elíta þeirra átta valin"?

Líklega fæ ég aldrei svar við því. 


Víti til varnaðar

Það er víst til lítils að vera að "nöldra" um tvöföldun Suðurlandsvegar. Ég hef í ræðu og riti bent Kristjáni Möller samgönguráðherra á þau gönuhlaup sem hafa verið stöðug í ákvarðanatöku um endurbætur á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss. Kristján, Björgvin Sigurðsson og Árni Matt. voru ótrúlega samstíga í því að henda allri skynsemi og ráðdeild sem lengst í burtu  þegar teknar voru ákvarðanir um endurbætur Suðurlandsvegar

sem allir eru sammála um að er forgangsmál í samgöngumálum á Íslandi.

En þetta var ákveðið:

1. Elta gamla vegastæðið hvað sem það kostaði.

2. Ekki mátti minnast á þá gömlu skynsamlegu hugmynd að leggja veginn um Þrengsli, yfir Ölfusið með brú yfir Ölfusá fyrir sunnan Selfoss.

3. Þrátt fyrir að færustu erlendir sérfræðingar og einnig íslenskir teldu að mörgu leyti 2+1 veg betri endurbót og öruggari en 2+2, var haldið fast við 2+2, "nógir eru andskotans peningarnir sagði kallinn forðum".

4. 2+2 skyldi það vera þó Haraldur Sigþórsson verkfræðingur hjá Línuhönnun sýndi fram á að 2+2 kostar þrefalt meira en sá góði kostur 2+1.

5. Þrátt fyrir að ég hafi reynt að benda á þá staðreynd hverskonar óráðsía það er að leggja 2+2 yfir Hellisheiði því það munu örugglega koma göng undir heiðina síðar, þá fékk það engan hljómgrunn. Á sama tíma hamrar bormeistari Ísland, Kristján Möller, á að göng undir Vaðlaheiði séu forgangsmál. Víkurskarð er þó mun lægri og auðveldari vegur en Hellisheiði syðra.

En vitleysan og gönuhlaupin verða að hafa sinn gang. Það er eins og sumir hafi ekkert lært af "Hruninu mikla".

En eitt er víst, svona á ekki að taka ákvarðanir og það á ekki að henda peningum í vitleysu, vonandi verður þessi ferill víti til varnaðar öllum sem þurfa að taka tæknilegar ákvarðanir og sýsla með opinbert fé, sameign okkar allra.

(Tilefnið þessa pistils er að ég setti athugasemd inn hjá Morten Lange, en taldi svo ekki úr vegi að þetta kæmi inn á mitt blogg)


Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður Jóhönnu forsætisráðherra?

Það er gott framtak hjá Ágústi H. Bjarnasyni að birta mjög umtalaða grein Evu Joly um framkomu útlendinga, ráðandi manna í æðstu stöðum, gagnvart Íslandi, meira að segja á norsku, ensku, frönsku og íslensku. Ég er þegar búinn að senda greinina á norsku til tveggja í Noregi, einnig tveggja í Svíþjóð og svo sendi ég syni mínum í Frakklandi hana auðvitað á frönsku. Mér finnst grein Evu hnitmiðuð og rökföst og hún rifjar upp stutta grein eftir Ólaf Hauksson fjölmiðlatengil um að ekki hafi verið staðið nógu vel að kynningarmálum erlendis á okkar sérstæðu aðstæðum eftir hrunið og reyndar skortir enn á það að nógu vel sé að því staðið innanlands.

En hvað um Hrannar?

Hrannar er aðstoðarmaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Jóhanna valdi hann sjálf til þeirra verka að vera hennar nánasti samverkamaður.  Þess vegna bregður manni illilega þegar persóna í slíkri stöðu veður fram og gagnrýnir hvað er sagt um íslensk málefni eins og Eva Joly gerði í grein sinni. Hrannar mun hafa sagt á heimasíðu sinni að Eva ætti ekki að skipta sér af efnahagsmálum Íslands, það væru aðrir sem færu með þau mál. Er hægt að líta á það öðruvísi en þannig að það sem aðstoðarmaður forsætisráðherra lætur frá sér fara sé bergmál af skoðunum ráðherrans? Í öðru lagi; eiga aðstoðarmenn ráðherra yfirleitt að vera að leggja orð í belg í opinberri umræðu, þeir eru í mjög viðkvæmri og sérstæðri stöðu.

Getur Hrannar verið áfram aðstoðarmaður forsætisráðherra?

Auðvitað verður Jóhanna að ákveða það. En hún verður að gera sér það ljóst að ef engin breyting verður á högum  og störfum Hrannars er hún að taka afstöðu með hans skoðunum sem hann hefur sett fram á ákaflega óheppilegan hátt.

Að mínu áliti á Jóhanna að víkja Hrannari úr starfi.

.

 

 


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2009
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 114274

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband