Það eru engin takmörk fyrir því hvað Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna og Al Gore, fyrrum varaforseti Bandaríkjanna hafa komið yfirgengilegum ranghugmyndum inn hjá almenningi, aðallega um þann hluta heimsins þar sem fólk telur sig vel upplýst og jafnvel skynsamt. Þetta virðist ekki síst eiga við um ungu kynslóðina í öllum löndum.
Hér fer á eftir grein eftir 5 sænsk ungmenni sem er búið að æra og nánast trylla með vísindalegum fölsunum frá IPCC, loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna og Al Gore fyrrum varaforseta Bandaríkjanna.
Svo fengu þessir loddarar í IPCC og Al Gore Nóbelsverðlaun!!!
Á eftir fer svar frá sænska vísindamanninum Fred Goldberg.
Stokkhólmur drukknar ef jöklarnir bráðna
Gerðu þér í hugarlund að sum hverfi Stokkhólms fari undir vatn á næstu 10 árum. Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, hefur reiknað út að yfirborð sjávar muni hækka vegna bráðnunar jöklanna. Eftir landfræðilegum upplýsingum er reiknað með að yfirborð sjávar muni hækka um 1 meter á næsti 10 árum. Samkvæmt upplýsingum frá ameríska stjórnmálamanninum Al Gore mun yfirborð sjávar hækka um 6 7 metra ef ísinn á Suðurskautslandinu og Grænlandi bráðnar. Einnig munu aðrir þættir hafa áhrif á þetta og mikill hluti af Stokkhólmi fer undir vatn. Þau hverfi sem munu sökkva eru m. a. Gamla Stan og Södermalm. Komandi hitnun jarða mun hafa mikil áhrif á okkur Stokkhólsbúa. Það ættum við svo sannarlega að hugsa um. Hvað mundi gerast ef allir á jörðinni notuðu jafn mikið af gæðum eins og við Svíar. Við þurfum ekki að gera svo mikið hvert og eitt, litlu hlutirnir hafa einnig þýðingu.T. d. að slökkva á sjónvarpinu , slökkva ljósið, flokka sorpið, allt þetta getur gert mikið.
Ef ykkur finnst þetta ekki skipta máli í dag hugsið þá um börn ykkar eða barnabörn og með þessum boðskap viljum við fá ykkur til að hugsa um framtíð jarðarinnar:
Við eigum ekki jörðina, við höfum hana að láni frá börnum okkar.
Undir þetta skrifa fimm náttúruverndarsinnar í Jensen framhaldskóla, Richard, Jonas, Rebecca, Pernilla og Nathalle
Sigurður Grétar snaraði apr. 2009
Innskot frá Sigurði Grétari:
Þar sem varmafræði er hluti af mínu fagi þá hef ég slegið á það lauslega að ef hitnun jarðar verði stöðug næstu öld eins og IPCC og Al Gore spá og haldist þannig þá sé nokkuð hægt að sjá hvað Grænlandjökull verður lengi að bráðna. Miðað við þann mikla ísmassa sem jökullinn er þá ætti það að taka
eitt þúsund ár.
Svo framhaldsskólanemendur hvort sem er í Stokkhólmi eða Þorlákshöfn ættu að sofa rólegir.
Af hverju er ungt fólk leitt á villigötur í loftslagsmálum?
eftir Fred Goldberg
Í dagblaði var grein eftir 5 ungmenni frá Jensens framhaldsskólanum í Södra um að Stokkhólmur fari á kaf ef jöklarnir bráðna. Þessi ungmenni upplýsa að ótti þeirra byggi á upplýsingum frá IPCC (Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, Al Gore og ýmsum landfræðilegum upplýsingum (hverjar þessar spennandi landfræðilegu upplýsingar eru fáum við ekki að vita) um að innan 10 ára fari Stokkhólmur meira eða minna undir vatn vegna stígandi yfirborðs sjávar.Ísinn á Suðurskautslandinu og Norðurpólnum bráðni með hraði fullyrða þau. Þau segja að hækkun hitastigs á jörðinni í framtíðinni muni hafa mikil áhrif á okkur íbúa Stokkhólms. Það er vissulega jákvætt að ungt fólk hafa tilfinningu fyrir umhverfi sínu og sem dæmi vilja ekki sóa orku. En að birta grein um Stokkhólmur sé að sökkva án þess að skoða nánar þær fullyrðingar sem byggt er á er alvarlegt og vekur ugg.
Fyrir það fyrsta þá er engin hnattræn hlýnun nú í gangi. Seinustu 7 árin hefur hnattrænt hitastig fallið burt séð frá hvaða mælingaraðferðir eru notaðar og þrátt fyrir að meira hafi verið losað af koltvísýringi CO2.Vísindaleg rannsókn á áhrifum koltvísýrings CO2 sýnir að þau eru svo lítil að þau er ekki hægt að mæla. Það er skýjafar sem stjórnast af sólvindum og breytingar á hafstraumum sem er höfuð ástæðan fyrir breytingum á loftslagi. Á síðasta ári, 2008, voru sett 114 kuldamet í Norður-Ameríku, það er afleiðing af að Kyrrahafsstraumurinn PDO breyti stefnu í apríl 2008.Síðan þá hefur orðið kaldara og jöklar byrjað að aukast. PDO straumurinn breytti stefnum árin 1910, 1940 og 1977. Eftir 1910 var snögg hitnun sem m. a. varð til þess að ís á Norðurpólnum bráðnaði hratt. Árið 1940 breytti PDO straumurinn stefnu og það varð upphafið að kuldaskeiði sem er þekktast fyrir hina köldu vetra á stríðsárunum. Árið 1977 breytti PDO straumurinn n til jákvæðrar stefnu og afleiðingin var heitt tímaskeið. Ísinn á Norðurpólshafsvæðinu minnkaði þegar PDO straumurinn þvingaði mikið magn sjávar í gegnum Beringssund. Þessu er nú lokið og ísinn á Norðurpólssvæðinu eykst hratt. Þá eru jöklar einnig að aukast og það er mjög líklegt að þetta ástand muni halda áfram næstu 25 30 árin. Það er líklegt að við fáum nýja stríðsvetur.
Að Stokkhólmur drukkni vegna ísbráðnunar þurfum við ekki að hafa áhyggjur af.
Því má bæta við að samkvæmt nýjustu bandarískum mælingum á ís Norðurpólssvæðisins þá hefur þykkt íssins aukist um 0,5 m víðast hvar og um 1, 0 m næst Norðurpólnum.
Sigurður Grétar snaraði apr. 2009
19.4.2009 | 14:50
Til Jóhönnu forsætisráðherra og forystu Samfylkingarinnar
Það er hávær krafa hjá landsmönnum að stjórnmálaflokkar gefi ákveðnari svör um hvað þeir ætli að gera eftir kosningar, fólk vill eins ákveðna stefnu og unnt er að gefa.
Ég geri þá kröfu til þín Jóhanna og ykkar í forystu Samfylkingarinnar að þið gefið skýlausa yfirlýsingu fyrir kosningar svohljóðandi:
Samfylkingin mun ekki taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfi við nokkurn flokk eftir kosningar nema það ákvæði sé sett í stjórnarsáttmálann og því samstundis hrundið í framkvæmd að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.
19.4.2009 | 14:42
Djókarinn í Minnisóda
Silfri Egils var að ljúka. Að venju sátu fjórir viðmælendur hjá Agli og reyndar bættist sá fimmti við í lokin. Satt best að segja var maður nokkuð siginn í sæti þegar þeirri umræðu lauk; svartagallsrausið var yfirgnæfandi að venju. Ég er orðinn talsvert þreyttur á þessari sömu tuggu; að það sé ekkert verið að gera til að bjarga landi og þjóð, öllu sé leynt og ekkert sé gert til að rannsaka þá mjög svo alvarlegu og afdrifaríku hluti sem gerðust sl. haust. Þetta er alls ekki rétt og kannski get ég bent á að minn banki, Íslandsbanki, er að koma mér til hjálpar og að létta mína greiðslubyrði. Er það ekki aðstoð við heimili? Ég er einnig orðinn þreyttur á tuggunni um "fjórflokkinn" allir stjórnmálaflokkar séu eins, það sé sami rassinn undir öllum stjórnmálamönnum, það þurfi nýja og hæfileikaríka einstaklinga til að bjargi landi og þjóð. Þetta er krafan sem hæst lét í búsáhaldabyltingunni en því miður er það ferskasta sem sú bylting ól af sér Ástþór Magnússon!
En Egill er skrítinn fugl. Hann lét unga íslenska konu búsetta í Minnisóda vestra lesa yfir okkur dauðann og djöfulinn hvernig enginn hérlendis gerði nokkuð af viti og sagði að íslensk stjórnsýsla væri "djók" á sinni tæru íslensku. Ég skora hér með á Egil að flytaja konuna þegar inn til að bjarga okkur. Það hlýtur hann að geta þrátt fyir gjaldeyrishöftin.
En búsáhaldabyltingin kom með kröfur sem áttu fullan rétt á sér og allir héldu að næði fram a ganga; aukið lýðræði. Þessu var reynt að mæta á Alþingi en hvað gerðist. Flokkurinn sem á langmesta sök á falli lands og þjóðar, Sjálfstæðisflokkurinn, barðist gegn þessu með oddi og egg og endalausu málþófi. Eins og málþóf á Alþingi væri það sem við hefðum mesta þörf fyrir nú.
En eftir að málfundi lauk hjá Agli í Silfrinu komu tveir ferskir vindar. Fyrst sá gamli jöfur Sverrir Hermannsson sem hefur opnað heimasíðu með sínum gömu greinum, aðallega úr Mbl. Hann var heldur ekki að skafa utan af því að hann sæi enga aðra leið til að koma okkur í samfélag þjóðanna aftur en að ganga í Evrópusambandið. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að Sverrir væri kominn á þá skoðun.
Síðan kom Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur og útgefandi. Ég átti í nokkrum brösum við þann fallna Framsóknarmann Bjarna Harðarson fyrir nokkru, en hann hefur lýst því fjálglega hvers konar þrælakista bíði okkar ef við göngum í Evrópusambandið. Ég bað hann að nota spádómsgáfu sína á hinn veginn; lýsa fyrir okkur kjörum og möguleikum í framtíðinni á Íslandi ef við gengjum ekki í Evrópusambandið. Þessu lofaði Bjarni en hefur ekki staðið við það. Nú ætla ég að losa Bjarna undan þeirri kvöð að svara mér. Ég bendi Bjarna og öllum Íslendingum á að lesa hina hnitmiðuðu grein Benedikts Jóhannessonar í Mbl. fimmtud. 16. apríl á bls. 23: "Stefna stjórnmálaflokkarnir að nýju hruni?" Kjarnann í þessari ágætu grein endursagði Benedikt hjá Agli og það sem mér finnst að hver maður ætti að hugsa um vandlega er viðvörun hans um að nýtt hrun geti verið framundan nema gripið sé til þeirra einu ráðstafana sem kunna að duga:
Að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu strax eftir kosningar.
19.4.2009 | 12:10
Fylgst með framboðsfundum
Hvað er minnisstæðast frá þeim framboðs- eða umræðufundum sem Ríkissjónvarpið hefur sýnt okkur?
Það hafa svo sem engir farið á kostum en fyrir norðan voru þeir rökfastir og ágætir þeir Kristján Möller og Steingrímur. Það lá við að maður væri farinn að hafa samúð með Kristjáni Þór, hann var nánast kominn upp að vegg. Þó er Kristján Þór enginn undirmálsmaður í stjórnmálumræðu. Sem eindreginn andstæðingur Sjálfstæðisflokksins er ég þó þeim flokki þakklátur fyrir að kjósa EKKI Kristján Þór sem formann en hann eða Þorgerður Katrín hefðu svo sannarlega verið bestu kostirnir fyrir flokkinn í þeirri "endurreisn" sem er framundan. Á öðrum fundum minnist ég helst Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra, það er ekki nokkur vafi á því að hún er framtíðarleiðtogi. Mínum fyrrum samborgar Árni Páli vildi ég gefa það góða ráð að kúpla sig niður í lægri gír, hann er ágætlega máli farin og rökfastur en fer svolítið að tafsa þegar ákafinn tekur völdin.
En það eitt sem stendur upp úr á þessum fundum.
Það er hversu vonlaust og allt að því brjóstumkennanlegt fólk það er sem er afrakstur pottabyltingarinnar, þar kemur ekki fram nokkur heil hugsun og við mættum svo sannarlega biðja alla góða vætti að vernda land og þjóð ef þeir Þráinn Bertelsson, Gunnar Sig. og að sjálfsögðu Ástþór Magnússon yrðu leiðandi afl í landmálum. Meira að segja verð ég að viðurkenna að ég er hundrað prósent sammála Agnesi Bragadóttur (sem er þó ekki minn augasteinn) þar sem hún lýsir Ástþóri Magnússyni í grein sinni í Morgunblaðinu í morgun (sunnud. 19. apr.). En eins og Agnes segir (er ég nú farinn að vitna í Agnesi!) þá er þetta sú byrði sem við verðum að þola til að búa við lýðræði.
En þá að Sjálfstæðisflokknum.
Það er mikið til í því sem Hannes Hólmsreinn sagði í viðtali við Sigmund Erni að sjálfstæðismenn, eða almennir fylgjendur flokksins, séu ekkert að hugsa um pólitík, þeir vilji græða á daginn og grilla á kvöldin. Það virðist nákvæmlega sama hvað Flokkurinn gerir, sama hversu rækilega hann gerir í bólið, þá er ákveðinn hópur sem mun kjósa hann endalaust.
Hvað mundi þessi sami hópur segja eða gera er Samfylkingin væri búin að stjórna þjóðarskútunni sl. 18 ár, þingmenn úr hennar röðum verið með öll helstu ráðherraembættin, nánast samfellt öll þessi ár með ráðuneyti forsætis og fjármála (og stjórnað Seðlabankanum) og ástandið í þjóðfélaginu væri eins og það er í dag. Mundi þessi jarmandi hópur í Sjálfstæðisflokknum ekki kenna ríkjandi flokki í sl. 18 ár um ástandið?
Munið eftir að lesa grein Eiríks Brynjólfssonar kennara í Morgunblaðinu í morgun (sunnud. 19. apr.) um Hannes Hólmstein.
18.4.2009 | 10:32
Katrín í Lýsi er Pétursdóttir
Hafa skal það sem sannara reynist og þó Katrín eigi litlum vinsældum að fagna hjá mér þá er sjálfsagt að biðjast afsökunar á því að fara rangt með hennar föðurnafn.
Ég nota þó tækifærið til að skora á þær stöllur, Kolbrúnu Halldórsdóttur umhverfisráðherra og Katrínu Pétursdóttur forstjóra Lýsis og þar með ýldulyktarverksmiðjunnar hér í bæ, að koma austur í Þorlákshöfn og standa fyrir máli sínu. Við íbúar Þorlákshafnar eigum rétt á því að á okkur sé hlustað.
Ég ætla að bæta örlitu við það sem ég sendi Kolbrúnu ráðherra í gær: Þú hefur talið þig eina fremstu náttúruverndarpersónu landsins. Þú hefur barist gegn virkjunum og stóriðju og ert núna einmitt í baráttu gegn hugsanlegum virkjunum í neðri Þjórsá. En eins og maðurinn sagði "það er fleira matur en feitt kjöt" á sama hátt er fleira náttúruvernd en það sem að framan er talið og þú hefur tileinkað þér sem baráttuvettvang. Það er ekki minni ástæða til að vernda andrúmsloftið sem umlykur okkur og það hefur þú talið í þínum verkahring ef minnsta mengun gæti hugsanlega komið frá álverum og annarri stóriðju. En það virðist ekki vera í þínum verkahring að vernda fólk fyrir mengandi fyrirtækjum ef mengunin kemur frá gömlu og úldnu sjávarfangi eða eru einhverjar aðrar annarlegar ástæður fyrir þínu fráleita starfsleyfi til ýlduverksmiðju Katrínar í Þorlákshöfn? Starfsleyfi til 8 ára hvorki meira né minna.
17.4.2009 | 16:45
Kolbrún umhverfisráðherra er hræsnari
Mér varð óglatt þegar ég sá Kolbrúnu umhverfisráðherra kyssa hreindýrskálfinn austur á landi og nánast lofa honum eilífu lífi. Þetta gerði hún si svona eftir "dagsverkið" eða eigum við að segja í aukavinnu.
En hvert var "dagsverkið"?
Það var sú svívirða að gefa drulluverksmiðju Katrínar Ólafsdóttur í Þorlákshöfn starfsleyfi til 8 ára!!!
Ég ætla segja kolbrúnu Þetta. Ég flutti fyrir sex og hálfu ári til Þorlákshafnar eftir 55 ára búsetu í Kópavogi. Þegar við Helga kona mín festum okkur hús í þessu ágæta byggðarlagi vissum við ekki um vágestinn sem hér liggur í leyni, lá í leyni þá fyrir okkur nýfluttum á staðinn. Ég hélt satt að segja að það hefði orðið alvarleg bilun í einhverri fiskvinnslunni hér þegar skyndilega gaus upp megn ýldufýla sem lagði um allt þorpið. En þeir sem höfðu átt lengur heima í Þorlákshöfn en við Helga gátu upplýst okkur um að þetta væri "stöðug bilun" ýldufýlan kæmi frá fyrirtæki sem gefur sig út fyrir að vera næstum því heilsustofnun, fyrirtækinu Lýsi sem stýrt er af margverðlaunuðum kvenmanni að nafni Katrín ólafsdóttir, þykir mikill skörungur í fyrirtækjarekstri. Ég hélt í einfeldni minni að það hlyti að vera hægt að stræka á þetta fyrirtæki og stöðva þessa svívirðilegu mengun en svo var nú aldeilis ekki. Í öll mín sex ár hér hefur þetta fyrirtæki vaðið með viðbjóðslegum yfirgangi yfir íbúana, sama hvað bæjarstjórn, embættismenn okkar og vil sjálf berjumst, alltaf fær þetta mengunarfyrirtæki að vera í friði. Það hefur Heilbrigðisnefnd Suðurlands og starfsmenn þar í vasanum og satt best að segja hefur sá grunur vaknað, að minnsta kosti hjá mér, að þar sé ekki allt með felldu, langt frá því. Men saka aðra um mútuþægni á Alþingi svo það ætla ég að gera líka.
Hvað hefur þessi Heilbrigðisnefnd og starfmann hennar fengið í sinn hlut fyrir að vernda Katrínu og hennar sóðalega fyrirtæki?
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra er æðsti verndari náttúrunnar, lengi sjálfskipuð, en nú með umboð Alþingis hvorki meira né minna. Hún hefur haft skoðun á öllu sem nefnast má mengun og er í krossferð gegn öllu slíki. Eða það hélt ég þangað til í gær.
Þá varð hún sér til skammar með því að veita leyfi fyrir áframhaldandi mengun í Þorlákshöfn og ekki aðeins til nokkurra daga heldur til 8 ára!!! Hvar er nú öll náttúru- og umhverfisnefndin? Er einn hreindýrskálfur á Austurlandi meira virði en lífskilyrði allra íbúa Þorlákshafnar? Ég veit ekki til að Kolbrún hafi haft fyrir því að kynna sér málið, ekki kynnt sér hve alvarlegt málið er. Þeir sem næst búa og vinna nálægt "Ýlduverksmiðjunni" verða hvert kvöld að setja allan þann fatnað, sem þeir hafa notað yfir daginn, í þvottavélina. En það þýðir lítið að hengja út á snúru, þá er ýldufýlan þegar komin aftur í fatnaðinn. Ef gluggar eru hafðir opnir er ýldan inn um alt hús. Ýldan sest í áklæði á bílum og það er engin leið að losna við hana.
Ég get sagt Kolbrúnu umhverfisráðherra það að ef við Helga hefðum verið búin að finna þessa viðbjóðslegu ýldufýlu frá Katrínu og komist að því að hún er "vernduð" af yfirvöldum hefðum við ekki fest kaup á húsi hér í þorpinu og flust hingað. Þú skalt vita það að þetta stendur uppbyggingu hér fyrir þrifum auk þess að angra íbúana dag og nótt.
Ef þú værir einhver bógur kæmirðu hingað austur í Þorlákshöfn og stæðir fyrir máli þínu. En til þess hefurðu örugglaga ekki kjark, þú munt enn nokkra daga sitja í ráðherrastólnum. Vonandi áttu þangað ekki afturkvæmt eftir Alþingiskosningarnar 25 apríl nk.
Sigurður Grétar Guðmundsson
Lýsuberg 6
815 Þorlákshöfn
s. 554 0506 / 895 5672
Netfang: siggigretar@internet.is
14.4.2009 | 14:12
Það vantar almanna og hlutlausa umræðu um loftslagsmál
Það er ógnvekjandi hve sáralítil þekking er á hugtökum og efnum sem helst eru nefnd í umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er sífellt verið að nefna gróðurhúsalofttegundir, gróðurhúsahjálm og koltvísýring CO2. Það er engin furða þó það sé orðin útbreidd skoðun, eða jafnvel trú, að þetta þrennt sé einungis af hinu illa, eitthvað nýtilkomið sem ógni framtíð okkar hér á jörðu.
Eigum við að skoða þessi þrjú hugtök aðeins nánar?
Gróðurhúsalofttegundir
Fjórir ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni voru nýlega spurðir hvað væri ríkjandi gas eða efni í hinum svonefnda gróðurhúsahjálmi. Einn svaraði ekki, hinir þrír voru ekki í vafa; það væri að sjálfsögðu koltvísýringur CO2.
Er það svo?
Fjarri því, það efni sem er þar ríkjandi er vatnsgufa, hún er 95% af gróðurhúsahjálminum, önnur efni má nefna svo sem metan og óson. En hvað þá um CO2, er það ekki þarna einnig og alltaf að aukast?
Koltvísýringur CO2 er aðeins 0,039% af því sem nefnist gróðurhúsalofttegundir í gufuhvolfi jarðar, þetta gas hefur aukist nokkuð frá því mælingar á því hófust árið 1958. Síðan geta menn deilt um það hvort þessi litla aukning sé af manna völdum eða ekki. Eitt er víst; magn þessa gass hefur oft verið miklu meira fyrr á árum og öldum og það meira að segja áður en maðurinn fór að ganga uppréttur. Slíkar upplýsingar hafa fengist úr borkjörnum á Grænlandsjökli og Suðurskautinu og ekki síður úr setlögum á botni Atlantshafs.
Svo geta menn dregið sínar ályktanir af því hvað áhrif svona örstærð, 0,039%, getur haft á veðurfar heimsins.
Gróðurhúsahjálmur
Það eru margir farnir að líta á þetta náttúrufyrirbrigði sem óvin lífs á jörðinni, jafnvel að grípa þurfi til aðgerða. Með orðinu gróðurhúsahjálmur er átt við það sem á ensku nefnistgreenhouse effect sem er samansafn efna í gufuhvolfinu sem hafa þann eiginleika að halda á okkur hita. Sólargeislarnir eru svo sterkir að þeir fara auðveldlega í gegnum þessi efni og til jarðar sem betur fer. En við vitum að eftir sólríkan dag og með heiðan himinn töpum við miklum varma aftur til baka. En þá vinnur gróðurhúsahjálmurinn sitt verk; hann hamlar miklu af þessu varmaútstreymi og þar er komin enn ein forsenda þess að það er líf á jörðinni.
Það er erfitt að meta hver er meðalhiti á jörðinni en hann er talinn nálægt +14°C. Ef enginn gróðurhúsahjálmur væri til og ekkert hindraði þar með endurkast varma frá jörðinni væri meðalhiti á jörðinni ekki +14°C heldur -18°C, með öðrum orðum það væri hér 18 stiga frost sem meðalhiti.
Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það að þá væri lífið erfitt á jarðkúlunni eða jafnvel útilokað.
Koltvísýringur CO2
Því miður virðast fjölmargir vera komnir með þann skilning að koltvísýringur CO2 sé hættulegasta mengun heimsins í dag og það er farið að verja gífurlegum fjárhæðum í að binda þetta gas og loka það niður í berglögum svo það vinni ekki meintan skaða. Meira að segja er Orkuveita Reykjavíkur farin að föndra við það á Hellisheiði. En eru menn að gleyma því að koltvísýringur CO2 er ein af undirstöðum lífs á jörðinni? Það er einn helsti og nauðsynlegasti vaxtarhvati allra jurta og við þá vinnslu verður súrefnið eins konar aukaafurð, lofttegundin sem flestar dýrategundir, ekki aðeins maðurinn, verða að hafa til að lifa. Það er velþekkt hjá garðyrkjubændum að auka vaxtarhraða gróðurs með því að fá koltvísýring CO2 á tönkum og auka magn hans inni í gróðurhúsum. Þær raddir hafa heyrst að CO2 í andrúmslofti mætti gjarnan vera þrisvar sinnum meira en er staðreynd til að tryggja öruggan vöxt jarðargróðurs sem víðast.
Það má því halda því fram með fullum rökum að með því að berjast gegn og hefta myndun koltvísýrings CO2 sé unnið skemmdarverk gegn náttúrunni, gegn gróðrinum. Allir þekkja þetta gas í kolsýrðum drykkjum og þar kemur ýmislegt fróðlegt í ljós svo sem að ekki er hægt að kolsýra vökva nema hann sé undir +5°C.
Þetta gas er bundið í miklu magni í höfunum og það þarf ekki mikla hækkun sjávarhita til að losun koltvísýrings CO2 aukist. Er aukning CO2 í andrúmslofti kannski alleiðing af hækkandi sjávarhita en ekki orsök hitnunar? Hvað er eggið og hvað er hænan?
Okkur er sagt að yfirborð sjávar sé að hækka vegna bráðnunar íss, látum það liggja milli hluta. En það er eðli flestra vökva að rúmmál þeirra eykst ef hitastig þeirra hækkar, að sjálfsögðu gerist það í höfunum einnig. Það er mögulegt að sjávarborð hækki þó enginn ís sé að bráðna umfram það sem gerist árlega.
Skemmtileg spurning; hvað mundi yfirborð sjávar hækka ef allur ís á Norðurskautinu bráðnaði?
Svari nú hver fyrir sig.
Vegna þess hve einhliða fréttir í fjölmiðlum um meinta hlýnun jarðar er og að hún sé af manna völdum er rétt að benda á slóðina sem Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur heldur úti, þar er samankominn mikill fróðleikur, settur fram á skiljanlegu máli og af hlutleysi.
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/#entry-787046+
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 14:01
Nú er lag, Kristján Möller
Allt er til endurskoðunar eftir fall frjálshyggjunnar, við verðurm að velta hverri krónu fyrir okkur til að brjótast upp úr því fjárhagslega dýki sem þjóðin er fallin í og hófst með einkavæðingu bankanna til fjármálamanna og fjárglæframanna tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og svo kom hin skelfilega útrás í kjölfarið.
Það er líklega eins og að skvetta olíu á eld að leyfa sér að taka enn upp þráðinn; er ekki hægt að fara skynsamlegri leiðir í endurbyggingu Suðurlandsvegar en þá misráðnu leið sem valin hefur verið? Fjölmargir Sunnlendingar eru haldnir þeirri áráttu að sjá ekkert annað er 2+2 lausnina þó það sé kristalstært að sú leið er að minnsta kosti helmingi dýrari en 2+1, jafnvel þrisvar sinnum.
Allur aðdragandi að ákvarðanatöku um endurbyggingu Suðurlandsvegar var flumbrugangur þegar þjóðin var enn á fjármála- og útrásarfylliríi. Skítt með hvað hlutirnir kostuðu, allt átti að vara fínt og flott, helst eins flott og í henni Ameríku þar sem 2+2 vegir liggja þvers og kruss yfir það mikla meginland. En á þeim tíma, sem þær ákvarðanir voru teknar, voru Evrópuþjóðir farnar að hugsa sinn gang, jafnvel að fleygja ekki peningum í óþarfa eða flottræfilshátt. Nú er svo komið að Ameríkanar eru orðnir lærisveinar Svía í að velja frekar 2+1 lausn í vegamálum, nýta fjármagnið betur og tryggja hámarksöryggi á nýjum vegum.
Það verður a segja það eins og er; ákvörðun um lagningu 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er ekkert annað en flottræfilsháttur. Á umferðarþingi, sem haldið var í Reykjavík á síðasta ári, var einn af fremstu umferðafræðingum heims furðu lostinn yfir þessari ákvörðun. Sagði að þar sem menn hugsuðu af skynsemi þyrfti umferðin að vera tvöfalt meiri en nú er á Suðurlandsvegi til að svo mikið sem til greina kæmi að leggja 2+2 veg, bætti því svo við að reynslan sýndi að 2+1 vegur væri ekki aðeins helmingi ódýrari heldur jafnvel öruggari.
En ákvörðunin um endurbyggingu Suðulandsvegar var tekin í flaustri að pólitíkusum sem völtuðu yfir Vegagerðina og alla sérfræðinga í vegamálum, létu undan múgsefjun og háværum hrópendum hér austan fjalls. Aðeins tvennt kom til greina; í fyrsta lagi að elta gamla vegastæðið eins og það liggur yfir veðravítið Hellisheiði og blása á allt sem hét hagsýni í peningamálum.
Nú vill svo til að lykilmaðurinn í öllum þessum ákvörðunum er enn á sínum stað, Kristján Möller er ennþá samgönguráðherra.
Ég skora hér með á Kristján Möller að taka allt málið til endurskoðunar, bæði val á vegastæði og hugsa svolítið meira um fjárhagslega hagkæmni, ekki veitir af eða hvað?
Tökum upp aftur þá hugmynd að Suðurlandsvegur verði lagður um Þrengsli en ekki Hellisheiði. Vegurinn verði síðan lagður þvert yfir Ölfus frá Þrengslum að Ölfusá og nýja brúin yfir Ölfusá komi fyrir sunnan Selfoss, en ekki norðan. Suðurlandsvegurinn verði síðan tengdur við núverandi Suðurlandsveg við Gaulverjabæjarveg eða á þeim slóðum austan við Selfoss. Vegurinn yfir Hellisheiði verði á sínum stað og haldið við, endurbættur í 2+1 þar sem þörf þykir, það endar hvort sem er með því að það verða boruð göng undir Hellisheið þegar við komumst upp úr fjárhagslega dýkinu. Um Hellisheiði færu Hvergerðingar og íbúar í efri hluta Árnessýslu ásamt öllum sumarhúsaeigendum sem eiga bústaði á því svæði. Með þessu er létt miklli umferð af efra Ölfusi, þar er að þéttast byggð og það er mikið glapræði að leggja Suðurlandsveginn, sem þjónar ekki aðeins Suðurlandi heldur einnig Austfjörðum, um það svæði.
Kjarninn í þessum hugmyndum, sem eru engan veginn nýjar af nálinni, er að kljúfa umferðina í sundur við gatanmótin í Svínahrauni, þar velja vegfarendur þá leið sem þeim hentar best. Þessar hugmyndir gera einnig hinn rándýra 2+2 veg með öllu óþarfan og ég veit, eða vona, að allir gera sér grein fyrir að nú þarf að nýta fjármuni sem allra, allra best.
Kristján Möller samgönguráðherra,nú er lag.
Þessi grein er búinað liggja lengi hjá héraðsfréttablaðinu "Dafskráin" á Selfossi án birtingar. En svo virðist sem Magnús Hlynur ritstjóri og útgefendur hugsi ekkert um annað en að græða á auglýsingum eftir að héraðsfréttablaðið "Glugginn" lagði upp laupana. Það væri kannski ráð að endurvekja "Gluggann"?
Sigurður Grétar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 11:22
Lagnafréttir: Er þetta heiðarleg ráðgjöf?
Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan hófst merkileg þróun. Þá hófst fyrir alvöru lögn snjóbræðslukerfa hérlendis. Þá höfðu Svíar um nokkur ár þróað snjóbræðslukerfi sem þeir nefndu Meltaway, lögðu talsverða fjármuni í þetta verkefni, framleiðslu á snjóbræðslurörum, val á öðrum búnaði og rannsökuðu hvað þyrfti mikla orku til að hitun gangstíga, gatna og torga kæmi að gagni. En einmitt fyrir um þrjátíu og fimm árum kom áfall sem síðan hefur verið nefnt olíukreppan, olíuverð rauk upp í svimandi hæðir. Þetta varð til þess að snjóbræðslur urðu sjaldséðar í Svíþjóð þar sem borga þurfti fyrir hverja hitaeiningu sem fór til hitunar.
En eins dauði er annars brauð og þarna fengu Íslendingar kjörið tækifæri. Hérlendis var í hverju húsi kastað talsverðum varma með afrennsli frá hitakerfum. Þá var unnið að hitaveitulögnum víðs vegar um land, Reykjavík var öll hituð upp með jarðvarma, Kópavogur samdi við Hitaveitu Reykjavíkur um lögn hitaveitu um kaupstaðinn, síðan komu flestir nágrannar Reykjavíkur í kjölfarið.
Það var sænska Meltaway kerfið sem varð grundvöllur þróunar snjóbræðslukerfa hérlendis, en það kerfi hentaði ekki að öllu leyti okkar góðu aðstæðum. Þess vegna varð að laga það að íslenskum aðstæðum, fyrst og fremst hvernig hægt væri að beisla og nota þann ókeypis varma sem rann fram að því beint í skólpkerfið engum til gagns.
Það sem haft var að leiðarljósi við þá aðlögun var að þróa einfalda, örugga og eins ódýra tengigrind og unnt var. Þetta tókst það vel að síðan hafa verið lögð og tengd þúsundir snjóbræðslukerfa eftir þessari fyrstu forsögn. Þessi kerfi hafa unnið sitt verk og skilað því sem til var ætlast; að halda gangstígum, bílastæðum og götum hálkulausum, að nýta svo sem unnt var afgangsvatnið frá hverju húsi, stundum með svolítilli viðbót sem ekki kom nema sáralítið við pyngjuna.
En nú er kominn markviss áróður frá lagnaverslunum að þessa einföldu og öruggu leið, sem hefur ótvírætt sannað gildi sitt, sé ekki hægt að fara lengur. Nú verði hver sá sem vill kallast maður með mönnum að kaupa innflutta stöð sem samanstendur af öllum þeim ónauðsynlegu tækjum sem hægt er að koma fyrir í einum slíkum grip. Þar verði að vera auk hefðbundins stýribúnaðar varmaskiptir, þensluker, dæla o. fl. Þá verði einnig að setja frostlög á öll kerfi, hina góðu reynslu af því að nota afrennslisvatnið beint sé úrelt tækni. Meðfylgjandi er sýnd auglýsing frá einni lagnaverslun, gæti verið frá hverri sem er, það er sami rassinn undir þeim öllum hvað þetta varðar. Í auglýsingunni stendur svart á hvítu að nú sé tíminn til að ráðast í snjóbræðslulögn, rörin séu ódýr og hin gjörsamlega óþarfa stöð hafi verið lækkuð í verði og kosti nú ekki nema röskar 153.000 kr. Svo er klykkt út með það að starfsmenn verslunarinnar veiti viðskiptamönnum ráðgjöf varðandi snjóbræðslukerfi.
Þarna er verið að reyna að lokka saklausa viðskiptamenn til að kasta á glæ á annað hundrað þúsund krónum, verið að beina þeim inn á þá braut að hafna áratuga reynslu til þess að fleiri krónur komi á kassann hjá versluninni.
Er þetta heiðarleg ráðgjöf?
Góð reynsla Þetta er ódýr og einföld tenging á snjóbræðslukerfi við fjölbýlishús í Reykjavík. Þar var lagt mat á í hve stórt svæði afrennslið frá hitakerfinu mundi duga. Lagt var snjóbræðslukerfi í gangstétt meðfram þremur stigahúsum, í tröppur og akbraut meðfram bílastæðum. Þetta kerfi er eingöngu hitað upp með afrennslinu, engin viðbót, hefur gengið áfallalaust í 20 ár.
Grímulaus sölumennska Þessi auglýsing frá lagnaverslun reynir að sannfæra viðskiptamanninn um að kaupa stöð með ónauðsynlegum búnaði, reynt að lokka hann til að leggja á annað hundrað þúsund krónur að nauðsynjalausu í kassann hjá seljandanum.
Þetta er pistillinn "Lagnafréttir" sem dæmdur var óhæfur til birtingar í Fasteignablaði Morgunblaðsins. Mér finnst ástæða til að birta hann nú þegar vorverkin eru að hefjast.
Sigurður Grétar Guðmundsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.4.2009 | 14:29
Það er hægt að vera "alki" á margan hátt
Sá sem hefur skrifað pistil í prentmiðil í 16 ár og missir skyndilega þá aðstöðu og á erfitt með að komast inn í prentmiðla, hann sér ekki aðra útleið að að hella sér í bloggið. En um hvað er ætlunin að blogga? Líklega ætlast flestir til að bloggað sé um pólitíkina og vissulega getur það komið til greina, hins vegar virðist vera mikið framboð af spekingum svo það er kannski ekki á það bætandi. En ég ætla örugglega að taka aftur upp þráðinn frá mínum gömlu pistlum "Lagnafréttum" það er ýmislegt í þeim fræðum sem ekki komst á blað. Annað sem ég mun örugglega koma inn á er móðursýkin um loftlagsmál, að maðurinn sé með eigin gjörðum að beina mannkyninu beina leið í glötun. Að vísu eru það þekkt fræði að einhverntíma tekur lífið á þessum hnetti enda, sólin mun kólna og þá er lífið í þessu sólkerfi búið að vera. En okkur er sagt að það sé hlýnun á jörðinni sem sé vandamálið, þetta eru orðin opinber trúarbrögð. Í byrjun mars var fjölmenn ráðstefna vísindamanna í New York,vísindamanna sem ekki haf látið heilaþvo sig og sýna fram á með rökum að þessi hattræna hlýnun er blekking, ísinn á Norðurpólnum, Grænlandi og Suðurskautinu er ekki að minnka, þvert á móti. Sá sem flutti lokaræðuna komst m. a. þannig að orði: "Það er ekkert ósamræmi milli vísinda og trúar svo lengi sem trú hrifsar ekki völdin yfir vísindunum og svo lengi sem vísindi eru ekki gerð að trúarbrögðum". En kannski maður kíki aðeins inn í pólitíkina næst.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar