Færsluflokkur: Bækur
"Listamenn geta fengið sér venjulega vinnu" segir Ásbjörn og vill afnema öll listamannalaun. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem slíkar kröfur koma fram á Alþingi, en listamannalaun eru miklu eldri en núverandi lög um launin. Vissulega gerðist ýmislegt rammpólitískt fyrrum svo sem þegar Halldór Laxnes var sviptur þeim launum, sem Alþingi hafði samþykkt honum til handa, fyrir hið eftirminnilega ljóð "Unglingurinn i skóginum".
En nefndur Ásbjörn Óttarsson á sér nokkuð eftirminnilega sögu eftir að hann kom á þing. Hann er útgerðarmaður af Snæfellsnesi og eflaust einn af þeim sem vilja standa fast á þeim "stuldi" á auðlind sem er fiskurinn í sjónum. Að vísu var sá "stuldur" studdur lögum frá Alþingi svo það má víst heimfæra hin fleygu ummæli Vilmundar Gylfasonar um þann verknað að hann sé" löglegur en siðlaus". En eins og flestir útgerðarmenn vill Ásbjörn gera tvennt í einu; skuldsetja útgerðina upp í rjáfur en fá samt góð laun auk ríkulegs arðs út úr sömu útgerð. Eitt árið gekk ekki vel svo hann, auk launa, tók aðeins um 20 milljónir í arð og er þó hans útgerð ekki nema einn bátur. En þar skriplaði hann á skötunni, þetta ár var bókhaldslegt tap á útgerð hans og skattmann þurfti endilega að skipta sér af. Fyrirtæki sem er rekið með bókhaldslegu tapi má ekki greiða eiganda sínum arð!
Þar fór í verra, Ásbjörn einfaldlega endurgreiddi 20 milljónirnar og sagðist ekkert hafa vitað um að hann mætti ekki taka að vild peninga úr sinni eigin útgerð. En næsta árið var reksturinn með bókhaldlegan hagnað og að sjálfsögðu fór Ásbjörn í sjóði félagsins og greiddi sér arð auk launa.
Þá bætti hann sér ríflega upp 20 milljónirnar sem hann varð að skila og tók sér 60 milljónir í arð fyrir eitt ár!
Er nokkur furða að slíkur landstólpi sjái ofsjónum yfir launum til bókabéusa, einhverra gaulara og pensilstrokumanna svo nokkrir hópar séu nefndir sem fá einhverja hungurlús frá því opinbera. Svo hefur nefndur Ásbjörn allt á hornum sér vegna Hörpunnar, tónlistarhússins sem er að rísa við höfnina. Peningarnir, sem til þeirrar byggingar renna, væru eflaust betur komnir í umferðamiðstöð við flugvöll sem er að hverfa, austur á peningum í 2+2 Suðurlandsveg þegar hægt er að fá jafnvel betri veg sem er 1+2 og að minnsta kosti helmingi ódýrari, eða þá að gera aðra tilraun við að byggja "nothæfa" höfn í sandi Suðurstrandar.
En hafa listamenn ekki alltaf verið til óþurftar? Það er ekki eins og listamen séu einhver nútíma uppfinning. Þessi þjóð var ekki búin að vera lengi á Íslandi þegar menn fóru að paufast við að skrifa á kálfskinn í klaustrum og kotbýlum. Hvað mörgum kálfslífum fórnaði Snorri Sturluson til að geta párað á skinnin, þá var að vísu enginn Ásbjörn uppi til að koma í veg fyrir alla kálfaslátrunina. Ef Íslendingar hefðu alla tíð verið harðir gegn allri sóun til manna og kvenna sem telja sig listamenn en ættu í staðinn að vinna ærlega vinni væri öðru vísu umhorfs. Af hverju gátu Einar Jónsson, Ásmundur og Sigurjón ekki unnið sem múrarar í staðinn fyrir að vera að búa til fígúrur sem sem svo er dreift út um borg og bí? Og hvaða vit er í að vera að gera eitt einbýlishús í Mosfellsdalnum að safni til minningar um mann sem páraði nokkrar bækur og sigldi til Svíþjóðar til að ná sér í verðlaun sem sprengjusérfræðingurinn Nóbel stofnaði?
En til að öllu réttlæti sé fullnægt er rétt að geta þess að nefndur Ásbörn hefur beðist afsökunar á orðum sínum um listamannalaun. Ástæðan til að þau hrukku út úr honum eru alls ekki á hans ábyrgð, þau eru á ábyrgð konunnar sem í það skipti sat í forsetstóli á Alþingi. Hún hélt fast við einhver tímamörk þegar Ásbjörn lét gullkornin falla í ræðustóli og lá á því lúalagi að fara að lemja bjöllu. Hvernig átti arðþeginn af Snæfellsnesi að geta hugsað skýrt við slíkar aðstæður og truflanir?
Það er sannað að til eru menn sem geta ekki gengið eftir gangstétt og tuggið tyggigúmmí jafnframt, ráða við annaðhvort; standa kyrrir og tyggja eða ganga og tyggja ekki. Slíkir menn verða að velja sér verk sem þeir ráða við og starfsvettvang eftir hæfileikum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2009 | 10:43
"Út vil ek" sagði Snorri og fór heim til Íslands
Ég er ekki búin að lesa alla grein Þorvarðar Gylfasonar hagfræðings í Fréttablaðinu í dag en hann byrjar grein sína á því að Íslendingar hafi löngum leitað út í heim, farið óhikað til annarra landa og nefnir þar Egil á Borg sem fór æði víða og heimsótti háa sem lága. En hann hrasar svolítið á frægri tilvitnun og er engan veginn sá fyrsti sem gerir það. Hann vitnar í hina frægu setningu sem lögð er Snorra Sturlusyni í munn "út vil ek" og ef hún væri sögð í dag mundi meining hennar eflaust vera sú að sá sem þetta segði vildi til annarra landa.
En þetta sagði Snorri þegar hann sat fastur í Noregi í gíslingu Noregskonungs en sá pótentáti notaði það óspart að taka Íslendinga í gíslingu í baráttu sinni fyrir því að ná völdum á Íslandi.
Þessi setning "út vil ek" á við það að sigla frá Noregi til Íslands, ekki öfugt.
Snorri afréð að hafa farbann Noregskonungs að engu, sagði "út vil ek" og sigldi til Íslands.
Þar með voru örlög Snorra ráðin, þarna undirritaði hann sinn eigin dauðadóm.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar