Færsluflokkur: Löggæsla
3.10.2009 | 13:49
Drullusokkar og dusilmenni
Brauðið er komið í vélina og hún er byrjuð að marra. Það er aðeins hlé þangað til mitt gamla félag, Breiðablik, hefur baráttuna um bikarinn í annað sinn. Man en snjókornin sem féllu á Meðalvellinum þegar Breiðablik barðist við Víking og varð að játa sig sigrað 1971. Og svo eru það stelpurnar á morgun.
En fyrirsögnin þessa pistils getur tæplega átt við þessar hugleiðingar um brauðbakstur og Breiðablik, nei aldeilis ekki.
Kveikjan að þessum orðum "drullusokkar og dusilmenni" kviknaði í mínum kolli við hlustun hádegisfrétta. Þar var enn sagt frá "drullusokkum og dusilmennum" sem læðast um í náttmyrkri og ausa málningu og þaðan af hættulegri efnum á saklaus hús sem kannski hýsa ekki saklausa einstaklinga. Það nýjasta er að ausa eitri yfir bíla til að eyðileggja á þeim lakkið. Þetta á víst að vera myndbirting þeirrar reiði sem eðlilega grasserar í þjóðfélaginu.
En er það svo?
Langt frá því. Hér eru á ferðinni hugsjónalaus dusilmenni og drullusokkar sem notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu til að fá útrás fyrir sjúklegar hvatir. Það er ráðist á þá sem eru mest í umfjöllun fjölmiðla, svokallaða útrásarvíkinga. En þeir teygja sig lengra. Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Rannveig Rist forstjóri Álversins í Straumsvík stýra hvort fyrir sig þjóðþrifafyrirtækjum sem hafa á undanförnum árum skapað þjóðarbúinu miklar tekjur. En þau eru áberandi í umræðunni, þess vegna verða þau fyrir barðinu á dusilmennum og drullusokkum sem druslast um í náttmyrkri með sjúkan hug.
Auðvitað eru þessar árásir allar óþolandi en mér finnst jafnvel ennþá alvarlegri afstað fjöldans til þessara mála. Það er sama afstaðan og kom sterkt fram í "búsáhaldabyltingunni". Þar var lagt að jöfnu sterk ávörp á Austurvelli og árásir á lögregluna, skemmdarverk á húsum svo sem Alþingishúsinu og Stjórnarráðshúsinu. Jafnvel Alþingismenn mæltu þeim drullusokkum og dusilmennum bót sem réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag, eyðilögðu útsendingarbúnað og börðu þannig niður málfrelsi og réttinn til að tjá sig.
Nú er kominn tími til að kosta nokkru til að hafa hendur í hári drullusokka og dusilmenna þeirra sem nú eru komnir á þá ystu brún að verða hættulegir lífi og limum alsaklauss fólks.
Því miður virðist það vera ríkt í íslenskri þjóðarsál að viðurkenna möglunarlaust ýmislegt sem er ekkert annað en ræfildómur og hræsni. Það er nóg að segjast vera kristinn, þá er það tekið gott og gilt hvaða endemisboðskapur sem fluttur er, allir sem mættu á Austurvöll voru teknir gagnrýnislaust í hópinn af pottlokafólki og fjölmiðlum, skipti ekki máli þó þeir gengu svo langt að skaða einstaklinga í lögreglunni sem voru á yfirvegaðan hátt að sinna skyldustörfum.
En þetta gengur ekki lengur, brauðinu líður vel en Breiðablik er að hefja baráttan um BIKARINN.
Nú verða þeir að vinna!!!
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2009 | 13:02
Hvað varð um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?
Þegar Donald Rumsfield ákvað að leggja niður herstöðina á Keflavíkurflugvelli góðu heilli tæmdust allar byggingar herstöðvarinnar á augabragði. Þessar byggingar hafa síðan fengið ný hlutverk og komið að góðum notum margar hverjar.
En svo stór herstöð sem sú sem var á Miðnesheiði hlýtur að hafa rekið stórt og mikið fangelsi, í öllum herstöðvum Bandríkjanna eru rekin fangelsi og þau mörg hver notuð til voðaverka og mannréttindabrota.
Í fréttum RÚV í hádeginu var við tal við Rögnu Árnadóttur dómsmálaráðherra um þá furðulegu stöðu sem upp er komin í fangelsismálum hérlendis; brotamenn ganga lausir svo hundruðum skiptir vegna þess að fangelsi landsins eru yfirfull. Ráðherrann sagði að nú ætti að auglýsa eftir húsnæði fyrir fangelsi og auðvitað mun það kalla á mikil fjárútlát að innrétta leiguhúsnæði svo það verði fangelsi.
- En ég spyr; er ekki til það fangelsi sem Kanarnir ráku á Keflavíkurflugvelli, er það ekki lengur til? Ef það er enn til hvers vegna er það þá ekki notað til að koma lögum yfir eitthvað af þeim brotamönnum sem ganga lausir? Meira að segja dæmdir brotamenn eiga kröfu á að mannréttindi séu ekki brotin. Ef dæmdur maður getur ekki afplánað og verður jafnvel að bíða árum saman vegna "húsnæðisskorts" þá er í raun verið að þyngja refsingu hans umfram það sem dómsstólar ákváðu.
Hvað um fangelsið á Keflavíkurflugvelli?
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.7.2009 | 10:06
Vanhugsuð tillaga um hækkun aldurs til bílprófs
Þá er komin fram einhver vanhugsaðasta tillaga, og raunar óréttlátasta, sem lengi hefur komið frá stjórnvöldum. Nú skal hækka aldur þeirra sem taka bílpróf úr 17 árum í 18 ár.
Hvers vegna er þetta vanhugsuð tillaga?
Hún er fyrst og fremst óréttlát og jaðrar við það að standast ekki jafnræðisreglu, en sú regla á að vera leiðarljós stjórnvalda í öllum málum og er raunar lögvernduð.
Forsendan fyrir því að hækka bilprófsaldurinn er sú að sagt er að 17 ára bílstjórar séu valdir að fleiri umferðabrotum en aðrir aldursflokkar. Hins vegar eru það aðeins fáir einstaklingar sem fremja brot í þessum aldursflokki en eigi að síður skal refsa öllum aldursflokknum fyrir afbrot fárra.
Stenst þetta jafnræðisreglu?
Það má líkja þessari tillögu við ákvörðun veitingamanns í Austurstræti sem setti alla þeldökka menn í bann á sínum veitingastað vegna þess að þeldökkur maður hafði sýnt hvítri konu áreitni við barinn. Hann var spurður að því hvort hvítir karlmenn sýndu aldrei slíka hegðun og viðurkenndi hann að slíkt hefði komið fyrir. Hann var spurður að því af hverju hann setti þá ekki bann á alla hvíta karlmenn. Svar við þeirri spurningu kom aldrei.
Fáránlegar tillögur
Það á líka að lögfesta að ungir 18 ára ökumenn megi ekki hafa í bílum sínum nema takmarkaðan farþegafjölda. Hver á að framfylgja þeim lögum? Á lögreglan að gera það? Á sama tíma og lögreglan er í fjárhagslegri spennitreyju þá á að leggja meiri skyldur á þá fáu lögreglumenn sem eru á vakt hverju sinni. Þetta er einkenni íslenskra stjórnvalda; að setja lög og reglur sem vitað er fyrirfram að ekki er hægt að framfylgja. Er þetta ekki eitthvað svipað og bannið við að tala í gemsa undir akstri? Vissulega er það algjör óþarfi að tala í síma undir stýri og auðvitað hættulegt, athæfi sem hver maður ætti að venja sig af. En það breytir ekki því að það er ekki bæði hægt að skera lögregluna niður við trog og leggja svo á hennar herðar meiri og meiri skyldur.
Hverjar verða afleiðingarnar?
Mjög líklega munu fleiri ungmenni stelast til að aka próflaus en áður. Það er ekki nema von að það kraumi reiði í mörgum þeirra sem eru að verða 17 ára og höfðu hlakkað til að fá réttindi til að aka bíl. Við skulum ekki gleyma því að langflest 17 ára ungmenni haga sér vel í umferðinni, að refsa öllum fyrir afbrot fárra stenst ekki.
Hvað er skynsamlegast að gera?
Efla kennsluna, ekki síst sálfræðilega. Það verður að efla starf ökukennara, það er eins og samfélagið hafi litið á ökukennslu sem eitthvað formsatriði, þetta nám hefur aldrei notið þeirrar viðurkenningar sem það á skilið. Akstur á vegum er dauðans alvara, um það höfum við óræk dæmi. Þess vegna á ekki að nálgast þetta vandamál með refsigleði heldur nákvæmlega því gagnstæða, með kennslu og upplýsingu um þær hættur sem bíða okkar allra á þjóðvegum og strætum.
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar