Færsluflokkur: Enski boltinn

Enn seilist ég í athuagasemdir sendar Ómari Ragnarssyni

Ég er greinilega orðin vafasamur að áliti Ómars. Þessi athugasmd mín varð að fara í "síu" og birtist ekki fyrr en Ómar er búinn að meta hana. Þar sem alls óvíst er að hún birtist set ég hana á mitt eigið blogg. 

 Svar þitt er athyglisvert. Ekki vegna  sem þú segir heldur vegna þess sem þú segir ekki. Vissulega hafa einhverjir verið að halda því fram að Nesjavallasvæðið væri ofnýtt og auðvitað ert þú mannlegur eins og við öll og villt frekar taka undir það sem fellur að þínum skoðunum þó ekki séu það staðreyndir. Að halda því fram að orkan á Hellisheiði (Hengli) sé ofnýtt vitum við báðir að stenst ekki. En það er rétt að hafa eitt í huga; jarðgufusvæðið á Nesjavöllum og Hellisheiði, eða á Hengilsvæðinu, hlýtur að vera samtengt. Það er viðurkennt að mikil jarðgufuorka er ónýtt á Hengilsvæðinu og þess vegna er þar ekki um neina ofnýtingu að ræða.

Á Reykjanesi eru allt aðrar aðstæður  og ég get tekið undir það að vissulega þarf að fara þar fram af meiri varfærni en á öðrum jarðhitasvæðum. Það er ekki síst út af áhrifum sjávar inn í hraunið.

En það sem ég tek eftir að þú, ein þekktasti náttúruverndarsinni á landinu, segir ekki orð um  mínar ábendingar um hrikalega sóun á náttúruauðlindum í Þingeyjarsýslum og á þar fyrst og fremst við Kröflu. En ekki síður við þau jarðgufuorkuver sem ætlunin er að reisa í þessum landhluta sem eiga einungis að framleiða rafmagn. Þetta eru fræði sem Jóhannes Zoega benti á í mikilli alvöru og ég tók einmitt undir í einum af pistlum mínum "Lagnafréttum" í Morgunblaðinu undir titlinum "Margt er gott sem gamlir kveða".

Ég tel sjálfsagt að við nýtum okkar orkuauðlindir en það er ekki sama hvernig það er gert. Þessi seinni tíma flokkun á landsmönnum í "virkjunarsinna" eða "virkjunarandstæðinga" er ekkert annað en heimskan einber. Ég hef að framan bent á að að virkjunarsvæðin í Hengli og  Kröflusvæðinu annarsvegar og Reykjanesi hinsvegar eru  eru mjög ólík og þau þarf að nýta samkvæmt því. Ég er fæddur á austurbakka  Þjórsár og man enn vel hvað alla þar fyrir austan dreymdi um að áætlanir Titan félagsins og Einars Benedikssonarum um virkjanir, sérstaklega virkjun Urriðafoss, yrðu að veruleika. En allt er breytingum undirorpið og ýtrustu áætlanir Landvirkjunar um uppistöðulón í byggð finnst mér meira en lítið vafasamar. Ég er engan veginn andstæður uppistöðulóna vegna virkjana, það þekktasta er Elliðavatn austan Kópavogs sem varð til við stífluna í Elliðaánum við núverandi Höfðabrekkubrú. En uppistöðulónin í Þjórsá krefjast mikilla fórna í grænum grundum og jafnvel heilum jörðum. En kannski er hægt að fara þarna bil beggja og nýta orkuna í Þjórsá niður í byggð í viðbót við það sem þetta mesta vatnsfall landsins (lengsta) er stöðugt að skila landmönnum öllum.

 


Landkrabbi svarar útgerðarmanni

Útgerðarmenn þessa lands hafa stimplað sig inn sem eitthvert rammasta afturhald sem uppi hefur verið á landi hér og er þá mikið sagt. Ármann Einarsson útgerðarmaður hér í Þorlákshöfn eys úr skálum reiði sinnar í Bæjarlífi. 2. tbl. þessa árs. Eins og sönnum útgerðarmanni sæmir telur hann núverandi Ríkisstjórn orsök alls hins illa. Þessi sanntrúaði Sjálfstæðismaður lokar augunum fyrir því að það var hans flokkur sem leiddi landstjórnina í 18 ár, það var sá flokkur sem gaf völdum fjárglæframönnum ríkisbankana sem keyrðu sig í þrot á haustdögum árið 2008, og það voru forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem innleiddu allt svínaríið og braskið með frjálsu framsali fiskveiðikvótans. Ármann telur sér sæma að kalla fjármálaráðherra “vitleysing”. Það er öruggt að ekki minnkar Steingrímur við þá nafngift og eins öruggt að ekki verður Ármann hærri í loftinu.

 

 

Fyrningarleiðin, leiðrétting á stuldi aldarinnar

Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um fyrningarleiðina, að þjóðin innkalli sína eign, fiskveiðikvótann, úr klóm útgerðarmanna á 20 árum. Ekki eitt orð af viti hefur komið frá útgerðarmönnum um þetta mál. Stöðugar upphrópanir um að þetta setji alla útgerð og fiskvinnslu á hausinn, aldrei nein rök. Kvótakerfið var upphaflega sett til að við veiddum þann takmarkaða afla, sem við töldum óhætt að veiða, á sem hagkvæmastan hátt. Um það er hægt að hafa mörg orð en segjum að það hafi verið rétt og nauðsynlegt. Óumdeilt var þá að það var þjóðin sem átti fiskinn í sjónum, hlutur minn og hlutur Ármanns voru nákvæmlega jafnstórir.

Útgerðarmönnum var úthlutaður kvóti samkvæmt veiðireynslu, fyrir þessi réttindi þurftu útgerðarmenn ekkert að borga, þeir fengu þessi réttindi á silfurfati.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Sú ólukkuríkisstjórn, sem hafði Davíð Oddssson og Halldór Ásgrímsson sem foringja, lét undan gífurlegum þrýstingi útgerðarmanna og veitti þeim “eignarhald” á því sem þjóðin átti öll. Ef útgerðarmenn sjá kjarna málsins ættu þeir að skilja að þar var þeim réttur baneitraður bikar, en þeir voru svo grunnhyggnir að þeir héldu að þeir væru að detta í lukkupottinn með því að fá í sínar hendur annarra eign til að braska með, til að eiga, til að leigja, til að kaupa, til að selja.

En nú eru blikur á lofti, núverandi ríkisstjórn ætlar á tuttugu árum að afhenda réttum eigendun, þjóðinni, kvótann. En hvað heyrist þá úr hinum rammafturhaldsama kór útgerðarmanna sem ekki má heyra minnst á nokkrar breytingar; ríkisstjórnin er að gera öll útgerðarfyrirtæki á Íslandi gjaldþrota með því að fyrna kvótann á 20 árum.

Ég spyr sem landkrabbi; hvernig getur þessi litla breyting á afturkölluðum kvóta haft svo geigvænleg áhrif? Ekki hefur þetta minnstu áhrif á lausafjárstöðu fyrirtækjanna þetta hefur engin fjárútlát í för með sér. Mér finnst jafnvel koma til greina að vel rekin útgerðarfyrirtæki fái að nýta áfram þennan kvóta, fái hann til afnota frá réttum eigendum, mér finnst jafnvel koma til greina að þeir þurfi ekki að greiða afgjald fyrstu fimm árin.

 

 

Hvað er þá að gerast?

Ætli við ættum ekki að líta á efnahagsreikning útgerðarfyrirtækjanna? Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að bókfæra þessa almannaeign sem einkaeign fyrirtækisins. Það væri ekki úr vegi að líta í veðbækur. Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að veðsetja þessa almannaeign upp í topp. Ekki aðeins hér á landi heldur einnig hjá útlendum lánastofnunum, stofnunum sem samkvæmt íslenskum lögum mega ekki eignast fiskveiðikvóta í íslenskri landhelgi en taka hann samt sem góð og gild veð.

Er ég þarna farinn að nálgast tárakirtlana sem svo óspart eru knúðir hjá langflestum útgerðarmönnum?

Ég sagði hér að framan að með því að þiggja það lögbrot, sem þeir Davíð og Halldór réttu fram, hafi útgerðarmenn bergt á beiskum eiturbikar. Með því að samfélagið hefði áfram átt kvótann og úthlutað honum til vel rekinna fyrirtækja stæði íslenskur sjávarútvegur mun  betur en raunin er í dag. Þá hefði ekki orðið til hið gerspillta brask með kvóta til fiskveiða. Fyrir skömmu heyrði ég frá skilvirkum mönnum í útgerð að 90% af kvóta útgerðarfyrirtækja væri keyptur og hefði jafnvel skipt um hendur margoft. Má ég spyrja; hvar voru þeir peningar teknir sem fóru í kvótakaup? Voru þeir ekki teknir úr íslenskum sjávarútvegi? Ef laust fé var ekki til í fyrirtækjum voru þá ekki slegin lán og oft á tíðum kvótinnn settur sem trygging víðs vegar um heim? Hvað varð um allt þetta fé sem flæddi út úr íslenskum sjávarútvegi?

Því er fljótsvarað. Það fór til ýmissa spekúlanta sem þarna sáu sé leik á borði; hætta þessu amstri og fá fúlgur fjár fyrir gæði sem þeir áttu ekkert í. Hvað skyldu margir slíkir, sem búnir eru að mergsjúga íslenskan sjavarútveg á liðnum árum, sitja í glæsihöllum í London eða sleikja sólina í Karabíska hafinu? Hvernig fór með það gamla góða fyrirtæki Alla ríka á Eskifirði, Eskju. Eru ekki afæturnar einmitt að drekka út andviðri þess eða sólunda því í spilavítum? Samherji á Akureyri var stofnaður af þremur hörkuduglegum fjölskyldum. En svo vildi einn máttarstólpinn fara að lifa hinu ljúfa lífi, hætta í slorinu. Það virtist ekkert mál fyrir Samherja að snara út verðgildi eins þriðja af fyrirtækinu. Það hefði líklega kveðið við annan tón ef þetta hefði verið 5% af kvótanum sem þó hefði ekki kostað fyrirtækið krónu að láta af hendi og fá jafnvel að nýta áfram.

En þá hefði líklega komið ramakveinið, helvítis vinstrimennirnir eru að gera

okkur gjaldþrota!

 

Arðsamasta skipið í Vestmannaeyjum

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég vin minn ágætan í Vestmannaeyjum. Hann ók mér vítt og breytt um þessar fögru eyjar og auðvitað fórun við meðfram höfninni. Hann benti mér á skip eitt í höfninni, líklega togari af minni gerðinni og sagði:

“Þetta er arðsamasta skipið í okkar flota, en hefur þó ekki verið leyst frá bryggju í nokkur ár”.

Þessi gáta var of flókin fyrir mig en lausnin var einföld. Eigandinn hætti að gera út skipið og lifði nú kónga- og letilífi á leigunni af kvótanum!

Því segi ég enn og aftur. Þið útgerðarmenn hafið aldrei sopið af eitraðri bikar en þegar þið supuð á framsalseitrinu úr hendi ykkar ástsælu ráðherra forðum daga.Þið væruð mun betur settir nú ef þið hefðuð hafnað honum og aldrei komist í þá botnlausu spillingu sem kvótaframsalið hefur leitt af sér. Hundruðir milljarða króna hefðu ekki streymt út úr íslenskum sjávarútvegi, væru þar sem orkugjafi fyrirtækjana. Ykkur mundi einnig líða mun betur í dag, ég er ekki í nokkrum vafa um að þið hafið samvisku flestir.

Takið þátt í því að rekja ofan af þessu kvótasvínaríi, hættið að grenja eins og óstýrilátir krakkar og takið hraustlega á til að endureisa réttlætið, það er ykkur sjálfum fyrir bestu.

Að lokum; ef þú skyldir svara mér Ármann, sem ég býst tæplega við að þú leggir út í, þá ætlast ég til að þú talir af rökum og réttsýni, gefir tárakirtlunum frí.

 


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband