Drullusokkar og dusilmenni

Brauðið er komið í vélina og hún er byrjuð að marra. Það er aðeins hlé þangað til mitt gamla félag, Breiðablik, hefur baráttuna um bikarinn í annað sinn. Man en snjókornin sem féllu á Meðalvellinum þegar Breiðablik barðist við Víking og varð að játa sig sigrað 1971. Og svo eru það stelpurnar á morgun.

En fyrirsögnin þessa pistils getur tæplega átt við þessar hugleiðingar um brauðbakstur og Breiðablik, nei aldeilis ekki.

Kveikjan að þessum orðum "drullusokkar og dusilmenni" kviknaði í mínum kolli við hlustun hádegisfrétta. Þar var enn sagt frá "drullusokkum og dusilmennum" sem læðast um í náttmyrkri og ausa málningu og þaðan af hættulegri efnum á saklaus hús sem kannski hýsa ekki saklausa einstaklinga. Það nýjasta er að ausa eitri yfir bíla til að eyðileggja á þeim lakkið. Þetta á víst að vera myndbirting þeirrar reiði sem eðlilega grasserar í þjóðfélaginu.

En er það svo?

Langt frá því. Hér eru á ferðinni hugsjónalaus dusilmenni og drullusokkar sem notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu til að fá útrás fyrir sjúklegar hvatir. Það er ráðist á þá sem eru mest í umfjöllun fjölmiðla, svokallaða útrásarvíkinga. En þeir teygja sig lengra. Hjörleifur Kvaran forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Rannveig Rist forstjóri Álversins í Straumsvík stýra hvort fyrir sig þjóðþrifafyrirtækjum sem hafa á undanförnum árum skapað þjóðarbúinu miklar tekjur. En þau eru áberandi í umræðunni, þess vegna verða þau fyrir barðinu á dusilmennum og drullusokkum sem druslast um í náttmyrkri með sjúkan hug.

Auðvitað eru þessar árásir allar óþolandi en mér finnst jafnvel ennþá alvarlegri afstað fjöldans til þessara mála. Það er sama afstaðan og kom sterkt fram í "búsáhaldabyltingunni". Þar var lagt að jöfnu sterk ávörp á Austurvelli og árásir á lögregluna, skemmdarverk á húsum svo sem Alþingishúsinu og Stjórnarráðshúsinu. Jafnvel Alþingismenn mæltu þeim drullusokkum og dusilmennum bót sem réðust inn á Hótel Borg á gamlársdag, eyðilögðu útsendingarbúnað og börðu þannig niður málfrelsi og réttinn til að tjá sig.

Nú er kominn tími til að kosta nokkru til að hafa hendur í hári drullusokka og dusilmenna þeirra sem nú eru komnir á þá ystu brún að verða hættulegir lífi og limum alsaklauss fólks.

Því miður virðist það vera ríkt í íslenskri þjóðarsál að viðurkenna möglunarlaust ýmislegt sem er ekkert annað en ræfildómur og hræsni. Það er nóg að segjast vera kristinn, þá er það tekið gott og gilt hvaða endemisboðskapur sem fluttur er, allir sem mættu á Austurvöll voru teknir gagnrýnislaust í hópinn af pottlokafólki og fjölmiðlum, skipti ekki máli þó þeir gengu svo langt að skaða einstaklinga í lögreglunni sem voru á yfirvegaðan hátt að sinna skyldustörfum.

En þetta gengur ekki lengur, brauðinu líður vel en Breiðablik er að hefja baráttan um BIKARINN.

Nú verða þeir að vinna!!! 


Varasamar skotgrafir

Eftirfarandi athugasemd gerði ég við skrif Eyþórs Arnalds foringja Sjálfstæðismanna í Árborg. Ég nota sömu fyrirsögn og hann og vona að hann og aðrir Sjálfstæðismenn fari nú að líta í eigin barm, gangast við sínum verkum og biðjast afsökunar. Ég get einnig bætt því við að fjölmargir Sjálfstæðismenn hafa verið miklu svæsnari,  óbilgjarnari og orðljótari en Eyþór.

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif.

 Þetta segir þú Eyþór Arnalds að framan og engan hittir það jafn rækilega fyrir og sjálfan þig. Frá því flokkur þinn, Sjálfstæðisflokkurinn, hrökklaðist frá völdum eftir langt valdatímabil þar sem þessum sama flokki tókst að leggja grundvöllinn að hruninu mikla með einkavinavæðingu bankanna og nýfrjálshyggju þá hefur þú og fjölmargir flokksfélagar þínir meira farið eftir þessu mottói sem ég vitna í:

Persónulegar árásir einkenna umræðu og skrif. 

Í stað þess að sýna auðmýkt og biðja Íslenska þjóð afsökunar á framferði ykkar stundið þið einmitt að sem þú segir. Þið fiskið í gruggugu vatni í öllum málum, haldið að það sé leiðin til að komast aftur til valda.

Er almenningur svo skyni skroppinn að hann láti glepjast?

Þið Sjálfstæðismenn hafið sloppið ótrúlega vel. Þið er ráðist á núverandi Ríkisstjórn vegna ICESAVE en hverjir bjuggu þann óskapnað til? Það voru þeir sem Sjálfstæðisflokkurinn rétti Landsbankann á silfurfati (þar með talinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins) og þessir útvöldu óreiðumenn  áttu ekki einu sinni fyrir útborguninni, slógu lán í Búnaðarbankanum og  ætlast nú til að eftirstöðvarnar verði afskrifaðar!!!

Við skulum ekki gleyma því að það var núverandi ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum Seðlabankastjóri sem kom þeim banka, sem átti að var bakhjarl íslensks fjármálalífs, á svo kaldan klaka að hann varð gjaldþrota. Ríkisstjórnin neyddist til að byggja Seðlabankann aftur upp með 300 milljarða kr. framlagi, það var og er skelfileg blóðtaka sem við öll súpum seiðið af.

Og þennan mann vörðuð þið með kjafti og klóm og gerið enn og nú hefur hann yfirtekið Morgunblaðið til að gera það að málpípu harðasta kjarnans úr Sjálfstæðisflokknum sem ábyrgð ber á hruninu.


Bloggfærslur 3. október 2009

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband