14.11.2009 | 14:55
Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar
Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.
Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.
En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir, fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni. En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.
En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.
Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.
Sá tilgangur er augljós.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.
En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.
Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun. Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.
Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem áttu í fullu tré við hann.
Það munu verða endalok Morgunblaðsins.
14.11.2009 | 11:55
Hversvegna ekki taka skattinn strax við inngreiðslur í lífeyrissjóði?
Einn bloggari fór mikinn í morgun uppfullur af hneykslun á því að það eigi að skattleggja lífeyrissjóðina.
Það hefur ekki nokkrum manni dottið í hug.
Hinsvegar eru allar greiðslur manna í lífeyrissjóði, bæði frá sjóðfélaganum og mótframlag atvinnurekandans, skattlögð. Í dag eru þær skattlagðar við útgreiðslu, allir sem fá greitt úr lífeyrissjóði verða að greiða skatt af þeim greiðslum. Þetta er ekki skattlagning á lífeyrissjóðina heldur á þær greiðslur sem sjóðfélaginn fær.
Þó ég sé Samfylkingarmaður og eindreginn stuðningsmaður núverandi Ríkisstjórnar á finnst mér að það þurfi að skýra það betur fyrir almenningi af hverju tillaga Sjálfstæðismanna um að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslur er ófær leið, á endanum verður þetta skattlagt og er ekki nema eðlilegt.
Einhverstaðar var kippt í spottann og Sjálfstæðismenn voru ekki staðfastari en það að þeir fylgdu málinu ekki eftir. Ég sá einhversstaðar sagt að þetta gæfi Ríkissjóði 40 milljarða árlega, það væri ekki svo lítið upp í hið margumrædda fjárlagagat og mundi lina stórlega þá þungu skattbyrði sem verið er að leggja nú á þjóðina.
Fullyrðingar Steingríms fjármálaráðherra að með skattlagningu á inngreiðslur sé verið að taka frá framtíðinni og afkomendum okkar skil ég ekki, lífeyrisþeginn fær sitt, hann tapar engu og sem eldri borgari væri það sálrænt jákvæðara að fá þá litlu greiðslu sem ég fæ úr lífeyrissjóði að fullu, skatturinn afgreiddur fyrir löngu.
Hinsvegar verða vaxtatekjur lífeyrissjóðanna lægri og veltan minni við skattlagningu á inngreiðslur, þeir fá ekki tækifæri til að ráðskast með skattpeninga þjóðarinnar ártugum saman og eyða í yfirgengilegan rekstrarkostað og bruðl við stjórnun lífeyrissjóðanna.
En Steingrímur, mig vantar skýringar á orðum þínum og afstöðu.14.11.2009 | 11:21
"Marteinn" með því ömurlegasta sem sést hefur í Sjónvarpinu
Sat heima í gærkvöldi og horfði á sjónvarpið öðru hvoru. Hafði ekki séð fyrsta þáttinn af "Marteini" gamanþætti sem tekinn er skv. amerískum staðli, áhorfendur eru viðstaddir upptökur, í gamanþætti er þá treyst á að ekki þurfi að nota niðursoðin viðbrögð eða hlátur, það á að eftirláta hverjum og einum áhorfanda að ákveða viðbrögðin.
Það er skemmst frá því að segja að þarna var á ferðinni "gamanleikur" sem var bara alls ekkert gaman að horfa á. Ekki vantaði góða leikkrafta en eins og ég sagði í umfjöllun (og lofi) um "Hamarin", kvikmyndir og sjónvarpsleikrit standa og falla með góðu handriti. Í "Marteini" var reynt að raða saman aulabröndurum og fyrirmyndin var svo amerísk að útidyrnar eru í stofunni, nokkuð sem er óþekkt fyrirbrigði á Íslandi.
Bloggfærslur 14. nóvember 2009
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.8.): 4
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 114282
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar