14.4.2009 | 14:12
Það vantar almanna og hlutlausa umræðu um loftslagsmál
Það er ógnvekjandi hve sáralítil þekking er á hugtökum og efnum sem helst eru nefnd í umræðu um þetta mikilvæga mál. Það er sífellt verið að nefna gróðurhúsalofttegundir, gróðurhúsahjálm og koltvísýring CO2. Það er engin furða þó það sé orðin útbreidd skoðun, eða jafnvel trú, að þetta þrennt sé einungis af hinu illa, eitthvað nýtilkomið sem ógni framtíð okkar hér á jörðu.
Eigum við að skoða þessi þrjú hugtök aðeins nánar?
Gróðurhúsalofttegundir
Fjórir ráðherrar í sænsku ríkisstjórninni voru nýlega spurðir hvað væri ríkjandi gas eða efni í hinum svonefnda gróðurhúsahjálmi. Einn svaraði ekki, hinir þrír voru ekki í vafa; það væri að sjálfsögðu koltvísýringur CO2.
Er það svo?
Fjarri því, það efni sem er þar ríkjandi er vatnsgufa, hún er 95% af gróðurhúsahjálminum, önnur efni má nefna svo sem metan og óson. En hvað þá um CO2, er það ekki þarna einnig og alltaf að aukast?
Koltvísýringur CO2 er aðeins 0,039% af því sem nefnist gróðurhúsalofttegundir í gufuhvolfi jarðar, þetta gas hefur aukist nokkuð frá því mælingar á því hófust árið 1958. Síðan geta menn deilt um það hvort þessi litla aukning sé af manna völdum eða ekki. Eitt er víst; magn þessa gass hefur oft verið miklu meira fyrr á árum og öldum og það meira að segja áður en maðurinn fór að ganga uppréttur. Slíkar upplýsingar hafa fengist úr borkjörnum á Grænlandsjökli og Suðurskautinu og ekki síður úr setlögum á botni Atlantshafs.
Svo geta menn dregið sínar ályktanir af því hvað áhrif svona örstærð, 0,039%, getur haft á veðurfar heimsins.
Gróðurhúsahjálmur
Það eru margir farnir að líta á þetta náttúrufyrirbrigði sem óvin lífs á jörðinni, jafnvel að grípa þurfi til aðgerða. Með orðinu gróðurhúsahjálmur er átt við það sem á ensku nefnistgreenhouse effect sem er samansafn efna í gufuhvolfinu sem hafa þann eiginleika að halda á okkur hita. Sólargeislarnir eru svo sterkir að þeir fara auðveldlega í gegnum þessi efni og til jarðar sem betur fer. En við vitum að eftir sólríkan dag og með heiðan himinn töpum við miklum varma aftur til baka. En þá vinnur gróðurhúsahjálmurinn sitt verk; hann hamlar miklu af þessu varmaútstreymi og þar er komin enn ein forsenda þess að það er líf á jörðinni.
Það er erfitt að meta hver er meðalhiti á jörðinni en hann er talinn nálægt +14°C. Ef enginn gróðurhúsahjálmur væri til og ekkert hindraði þar með endurkast varma frá jörðinni væri meðalhiti á jörðinni ekki +14°C heldur -18°C, með öðrum orðum það væri hér 18 stiga frost sem meðalhiti.
Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það að þá væri lífið erfitt á jarðkúlunni eða jafnvel útilokað.
Koltvísýringur CO2
Því miður virðast fjölmargir vera komnir með þann skilning að koltvísýringur CO2 sé hættulegasta mengun heimsins í dag og það er farið að verja gífurlegum fjárhæðum í að binda þetta gas og loka það niður í berglögum svo það vinni ekki meintan skaða. Meira að segja er Orkuveita Reykjavíkur farin að föndra við það á Hellisheiði. En eru menn að gleyma því að koltvísýringur CO2 er ein af undirstöðum lífs á jörðinni? Það er einn helsti og nauðsynlegasti vaxtarhvati allra jurta og við þá vinnslu verður súrefnið eins konar aukaafurð, lofttegundin sem flestar dýrategundir, ekki aðeins maðurinn, verða að hafa til að lifa. Það er velþekkt hjá garðyrkjubændum að auka vaxtarhraða gróðurs með því að fá koltvísýring CO2 á tönkum og auka magn hans inni í gróðurhúsum. Þær raddir hafa heyrst að CO2 í andrúmslofti mætti gjarnan vera þrisvar sinnum meira en er staðreynd til að tryggja öruggan vöxt jarðargróðurs sem víðast.
Það má því halda því fram með fullum rökum að með því að berjast gegn og hefta myndun koltvísýrings CO2 sé unnið skemmdarverk gegn náttúrunni, gegn gróðrinum. Allir þekkja þetta gas í kolsýrðum drykkjum og þar kemur ýmislegt fróðlegt í ljós svo sem að ekki er hægt að kolsýra vökva nema hann sé undir +5°C.
Þetta gas er bundið í miklu magni í höfunum og það þarf ekki mikla hækkun sjávarhita til að losun koltvísýrings CO2 aukist. Er aukning CO2 í andrúmslofti kannski alleiðing af hækkandi sjávarhita en ekki orsök hitnunar? Hvað er eggið og hvað er hænan?
Okkur er sagt að yfirborð sjávar sé að hækka vegna bráðnunar íss, látum það liggja milli hluta. En það er eðli flestra vökva að rúmmál þeirra eykst ef hitastig þeirra hækkar, að sjálfsögðu gerist það í höfunum einnig. Það er mögulegt að sjávarborð hækki þó enginn ís sé að bráðna umfram það sem gerist árlega.
Skemmtileg spurning; hvað mundi yfirborð sjávar hækka ef allur ís á Norðurskautinu bráðnaði?
Svari nú hver fyrir sig.
Vegna þess hve einhliða fréttir í fjölmiðlum um meinta hlýnun jarðar er og að hún sé af manna völdum er rétt að benda á slóðina sem Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur heldur úti, þar er samankominn mikill fróðleikur, settur fram á skiljanlegu máli og af hlutleysi.
http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/#entry-787046+
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 14:01
Nú er lag, Kristján Möller
Allt er til endurskoðunar eftir fall frjálshyggjunnar, við verðurm að velta hverri krónu fyrir okkur til að brjótast upp úr því fjárhagslega dýki sem þjóðin er fallin í og hófst með einkavæðingu bankanna til fjármálamanna og fjárglæframanna tveggja stjórnmálaflokka, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og svo kom hin skelfilega útrás í kjölfarið.
Það er líklega eins og að skvetta olíu á eld að leyfa sér að taka enn upp þráðinn; er ekki hægt að fara skynsamlegri leiðir í endurbyggingu Suðurlandsvegar en þá misráðnu leið sem valin hefur verið? Fjölmargir Sunnlendingar eru haldnir þeirri áráttu að sjá ekkert annað er 2+2 lausnina þó það sé kristalstært að sú leið er að minnsta kosti helmingi dýrari en 2+1, jafnvel þrisvar sinnum.
Allur aðdragandi að ákvarðanatöku um endurbyggingu Suðurlandsvegar var flumbrugangur þegar þjóðin var enn á fjármála- og útrásarfylliríi. Skítt með hvað hlutirnir kostuðu, allt átti að vara fínt og flott, helst eins flott og í henni Ameríku þar sem 2+2 vegir liggja þvers og kruss yfir það mikla meginland. En á þeim tíma, sem þær ákvarðanir voru teknar, voru Evrópuþjóðir farnar að hugsa sinn gang, jafnvel að fleygja ekki peningum í óþarfa eða flottræfilshátt. Nú er svo komið að Ameríkanar eru orðnir lærisveinar Svía í að velja frekar 2+1 lausn í vegamálum, nýta fjármagnið betur og tryggja hámarksöryggi á nýjum vegum.
Það verður a segja það eins og er; ákvörðun um lagningu 2+2 vegar milli Reykjavíkur og Selfoss er ekkert annað en flottræfilsháttur. Á umferðarþingi, sem haldið var í Reykjavík á síðasta ári, var einn af fremstu umferðafræðingum heims furðu lostinn yfir þessari ákvörðun. Sagði að þar sem menn hugsuðu af skynsemi þyrfti umferðin að vera tvöfalt meiri en nú er á Suðurlandsvegi til að svo mikið sem til greina kæmi að leggja 2+2 veg, bætti því svo við að reynslan sýndi að 2+1 vegur væri ekki aðeins helmingi ódýrari heldur jafnvel öruggari.
En ákvörðunin um endurbyggingu Suðulandsvegar var tekin í flaustri að pólitíkusum sem völtuðu yfir Vegagerðina og alla sérfræðinga í vegamálum, létu undan múgsefjun og háværum hrópendum hér austan fjalls. Aðeins tvennt kom til greina; í fyrsta lagi að elta gamla vegastæðið eins og það liggur yfir veðravítið Hellisheiði og blása á allt sem hét hagsýni í peningamálum.
Nú vill svo til að lykilmaðurinn í öllum þessum ákvörðunum er enn á sínum stað, Kristján Möller er ennþá samgönguráðherra.
Ég skora hér með á Kristján Möller að taka allt málið til endurskoðunar, bæði val á vegastæði og hugsa svolítið meira um fjárhagslega hagkæmni, ekki veitir af eða hvað?
Tökum upp aftur þá hugmynd að Suðurlandsvegur verði lagður um Þrengsli en ekki Hellisheiði. Vegurinn verði síðan lagður þvert yfir Ölfus frá Þrengslum að Ölfusá og nýja brúin yfir Ölfusá komi fyrir sunnan Selfoss, en ekki norðan. Suðurlandsvegurinn verði síðan tengdur við núverandi Suðurlandsveg við Gaulverjabæjarveg eða á þeim slóðum austan við Selfoss. Vegurinn yfir Hellisheiði verði á sínum stað og haldið við, endurbættur í 2+1 þar sem þörf þykir, það endar hvort sem er með því að það verða boruð göng undir Hellisheið þegar við komumst upp úr fjárhagslega dýkinu. Um Hellisheiði færu Hvergerðingar og íbúar í efri hluta Árnessýslu ásamt öllum sumarhúsaeigendum sem eiga bústaði á því svæði. Með þessu er létt miklli umferð af efra Ölfusi, þar er að þéttast byggð og það er mikið glapræði að leggja Suðurlandsveginn, sem þjónar ekki aðeins Suðurlandi heldur einnig Austfjörðum, um það svæði.
Kjarninn í þessum hugmyndum, sem eru engan veginn nýjar af nálinni, er að kljúfa umferðina í sundur við gatanmótin í Svínahrauni, þar velja vegfarendur þá leið sem þeim hentar best. Þessar hugmyndir gera einnig hinn rándýra 2+2 veg með öllu óþarfan og ég veit, eða vona, að allir gera sér grein fyrir að nú þarf að nýta fjármuni sem allra, allra best.
Kristján Möller samgönguráðherra,nú er lag.
Þessi grein er búinað liggja lengi hjá héraðsfréttablaðinu "Dafskráin" á Selfossi án birtingar. En svo virðist sem Magnús Hlynur ritstjóri og útgefendur hugsi ekkert um annað en að græða á auglýsingum eftir að héraðsfréttablaðið "Glugginn" lagði upp laupana. Það væri kannski ráð að endurvekja "Gluggann"?
Sigurður Grétar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.4.2009 | 11:22
Lagnafréttir: Er þetta heiðarleg ráðgjöf?
Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan hófst merkileg þróun. Þá hófst fyrir alvöru lögn snjóbræðslukerfa hérlendis. Þá höfðu Svíar um nokkur ár þróað snjóbræðslukerfi sem þeir nefndu Meltaway, lögðu talsverða fjármuni í þetta verkefni, framleiðslu á snjóbræðslurörum, val á öðrum búnaði og rannsökuðu hvað þyrfti mikla orku til að hitun gangstíga, gatna og torga kæmi að gagni. En einmitt fyrir um þrjátíu og fimm árum kom áfall sem síðan hefur verið nefnt olíukreppan, olíuverð rauk upp í svimandi hæðir. Þetta varð til þess að snjóbræðslur urðu sjaldséðar í Svíþjóð þar sem borga þurfti fyrir hverja hitaeiningu sem fór til hitunar.
En eins dauði er annars brauð og þarna fengu Íslendingar kjörið tækifæri. Hérlendis var í hverju húsi kastað talsverðum varma með afrennsli frá hitakerfum. Þá var unnið að hitaveitulögnum víðs vegar um land, Reykjavík var öll hituð upp með jarðvarma, Kópavogur samdi við Hitaveitu Reykjavíkur um lögn hitaveitu um kaupstaðinn, síðan komu flestir nágrannar Reykjavíkur í kjölfarið.
Það var sænska Meltaway kerfið sem varð grundvöllur þróunar snjóbræðslukerfa hérlendis, en það kerfi hentaði ekki að öllu leyti okkar góðu aðstæðum. Þess vegna varð að laga það að íslenskum aðstæðum, fyrst og fremst hvernig hægt væri að beisla og nota þann ókeypis varma sem rann fram að því beint í skólpkerfið engum til gagns.
Það sem haft var að leiðarljósi við þá aðlögun var að þróa einfalda, örugga og eins ódýra tengigrind og unnt var. Þetta tókst það vel að síðan hafa verið lögð og tengd þúsundir snjóbræðslukerfa eftir þessari fyrstu forsögn. Þessi kerfi hafa unnið sitt verk og skilað því sem til var ætlast; að halda gangstígum, bílastæðum og götum hálkulausum, að nýta svo sem unnt var afgangsvatnið frá hverju húsi, stundum með svolítilli viðbót sem ekki kom nema sáralítið við pyngjuna.
En nú er kominn markviss áróður frá lagnaverslunum að þessa einföldu og öruggu leið, sem hefur ótvírætt sannað gildi sitt, sé ekki hægt að fara lengur. Nú verði hver sá sem vill kallast maður með mönnum að kaupa innflutta stöð sem samanstendur af öllum þeim ónauðsynlegu tækjum sem hægt er að koma fyrir í einum slíkum grip. Þar verði að vera auk hefðbundins stýribúnaðar varmaskiptir, þensluker, dæla o. fl. Þá verði einnig að setja frostlög á öll kerfi, hina góðu reynslu af því að nota afrennslisvatnið beint sé úrelt tækni. Meðfylgjandi er sýnd auglýsing frá einni lagnaverslun, gæti verið frá hverri sem er, það er sami rassinn undir þeim öllum hvað þetta varðar. Í auglýsingunni stendur svart á hvítu að nú sé tíminn til að ráðast í snjóbræðslulögn, rörin séu ódýr og hin gjörsamlega óþarfa stöð hafi verið lækkuð í verði og kosti nú ekki nema röskar 153.000 kr. Svo er klykkt út með það að starfsmenn verslunarinnar veiti viðskiptamönnum ráðgjöf varðandi snjóbræðslukerfi.
Þarna er verið að reyna að lokka saklausa viðskiptamenn til að kasta á glæ á annað hundrað þúsund krónum, verið að beina þeim inn á þá braut að hafna áratuga reynslu til þess að fleiri krónur komi á kassann hjá versluninni.
Er þetta heiðarleg ráðgjöf?
Góð reynsla Þetta er ódýr og einföld tenging á snjóbræðslukerfi við fjölbýlishús í Reykjavík. Þar var lagt mat á í hve stórt svæði afrennslið frá hitakerfinu mundi duga. Lagt var snjóbræðslukerfi í gangstétt meðfram þremur stigahúsum, í tröppur og akbraut meðfram bílastæðum. Þetta kerfi er eingöngu hitað upp með afrennslinu, engin viðbót, hefur gengið áfallalaust í 20 ár.
Grímulaus sölumennska Þessi auglýsing frá lagnaverslun reynir að sannfæra viðskiptamanninn um að kaupa stöð með ónauðsynlegum búnaði, reynt að lokka hann til að leggja á annað hundrað þúsund krónur að nauðsynjalausu í kassann hjá seljandanum.
Þetta er pistillinn "Lagnafréttir" sem dæmdur var óhæfur til birtingar í Fasteignablaði Morgunblaðsins. Mér finnst ástæða til að birta hann nú þegar vorverkin eru að hefjast.
Sigurður Grétar Guðmundsson
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggfærslur 14. apríl 2009
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar