Ég er ekki svartsýnn en mér verður óglatt af síðustu fréttum úr heimi bankanna

Nágranni minn einn ágætur læðir stundum að mér eldri eintökum af DV. Síðan ég sagði Morgunblaðinu upp hef ég háð baráttu fyrir því að við íbúar Þorlákshafnar fáum kost á Fréttblaðinu og hefur þar verið gerð mikil bragarbót en betur má ef duga skal.

Í  DV var farið yfir hverjir væru helstu "Sturlungar" nútímans, þeir sem fram að þessu hafa verið nefndir "útrásarvíkingar". Ég verð að segja að þessir menn eiga engan rétt á að vera nefndir "víkingar" og þó. Víkingar miðalda fóru vissulega ránshendi um lönd í Vestur-Evrópu og hver sá sem stal mestu góssi, að ógleymdum glæslegum yngismeyjum, var fremstur meðal jafningja. En þessir víkingar rændu ekki í eigin landi, þeir rændu meðal annarra þjóða og komu heim með ránsfenginn hvort sem var eðalmálmar eða íturvaxnar meyjar sem að sjálfsögðu misstu þann titil um leið og þær voru komnar í klærnar á illa þefjandi og lúsugum ránsmönnum, þessum svokölluðu víkingum.

En arftakar þeirra í nútímanum, við skulum gefa þeim nýtt "sæmdarheiti" og nefna þá "tortólalubba". Flestir eru þeir flúnir land, út af fyrir sig er það ágætt og vonandi að þeir komi aldrei til baka. Vonandi tekst okkar ágæta Sérstaka saksóknara og hans fólki að endurheimta sem mest af því sem totólalubbarnir hafa stolið frá þessari fámennu þjóð og grafið í grenjum á Tortóla og víðar.

Ég var farinn að fagna því að totóalubbarnir kæmu aldrei til baka. En þar fagnaði ég of fljótt. Ég ætlaði ekki að trúa mínu augum og eyrum þegar það var kunngjört að Óafur nokkur Ólafsson kenndur við Samskip (sem hann ásamt fleiri fjarglæframönnum Framsóknarflokksins tókst að véla til sín út úr reitum Sambands íslenskra samvinnufélaga) væri kominn til landsins frá Sviss og hvað beið hans hér;

Arionbanki rétti honum á silfurfati þetta fyrirtæki, Samskip, aftur til eignar og ábúðar.

Ég spyr; eru engin takmörk fyrir því hvað á að reka ofan í kok landsmanna með illu eða góðu. Finnur bankastjóri Arionbanka kemur vígreifur á skjáinn og segir kokhraustur gegn betri vitund:

Við afskrifuðum ekki nett!!!

Almenningur stendur agndofa og algjörlega máttvana. Arionbanki hefur verið einkavæddur enda ekki um anað að ræða, kröfuhafarnir hirtu bankann. 

En líklega sýnir þetta okkur hvað er í vændum. Eru fleiri tortúlulubbar en Ólafur Ólafsson á heimleið, þeir ætla líklega ekki að láta sér nægja það fé sem þeir eru búnir að grafa á ýmsum eyjum eins og gamlir sjóræningjar gerðu fyrr á öldum. 

Það eru mikil verðmæti heima á gamla landinu sem þeir léku svo grátt, á gamla landinu þar sem þeir rændu og rupluðu. Siðgæði þeirra er á sama núlli og það var þegar þeir voru að moka fé í milljarðatugum í vildarvini út úr bönkunum á meðan þessir sömu bankar hrundu. Svo létu þeir sig hverfa út í hið alþjóðlega náttmyrkur eins og rónar sem leita skjóls meðan  hellirignir en fara á stjá um leið og upp styttir.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn hjá mér þörf til að berja pottlok, stórt og mikið pottlok.

 


Ég fékk gula spjaldið

Ég hef lítið látið fyrir mér fara hér á blogginu þennan mánuð þó ég hafi lesið það sem þar kemur og satt best að segja hefur umræðan lítið batnað, mikið um innhaldlausar upphrópanir sem fyrr

En ég byrjaði þetta merkilega ár á nokkuð óvæntan hátt, sjónin úr fókus, hægri hendi lömuð og málfarið brenglað. Helgi, okkar ágæti Heilsugæslulæknir hér í Þorlákshöfn reif sig upp og kom til mín samstundis, tveir vaskir sjúkraflutningamenn frá Selfossi fluttu mig á góðum hraða á Borgarspítalann.

Ég minnist sérstaklega á þetta til að þakka öllum þeim ágætu starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum sem liðsinntu mér, við eigum sannarleg hæft fólk í heilbrigðisþjónustunni.

En ég hef verð að dunda við það eftir að heim var komið að vinna að eigin endurhæfingu, lyklaborðið er farið að hlýða mér, lesa upphátt Helgu konu mína hvort sem henni líkar betur eða verr,  lauk þar með við tvær frábærar ævisögur um Snorra Sturluson og Vigdísi Finnbogadóttur okkar fyrrum forseta. Ég held að til þess að fá sem bestan skilning á Snorra sé nauðsynlegt að hafa lesið Sturlungu og það oftar en einu sinni. Satt best að segja læddist að mér kaldur hrollur við lestur ævisögu Sturlu. Höfðingjar þá, flestir, voru ekki að hugsa um þjóðarhag heldur að ota sínum tota og vinna þannig að eigin tortímingu og má þar nefna feðgana Sturlu og föður hans Sighvat Sturluson, bróður Snorra, Þorvald Vatnsfirðing, Gissur Þorvaldsson og ekki var sonur Snorra, Órækja, barnanna bestur. Líklega hefur hann verið mesti ruddinn í þessum hópi. Snorri kom honum til valda á Vestfjörðum og þar máttu menn þola ótrúleg og miskunnarlaus rán og yfirgang Órækju. Í öllum þessum djöfulgangi miðjum sat Snorri og samdi sínar einstæðu bókmenntir, maður friðarins og var fyrir vikið sakaður um að vera bleyða.

Og hver urðu örlög hans?

Tengdasonur hans fyrrverandi, Gissur Þorvaldsson, lét læðast að honum að óvörum og myrða.

Eru einhverjar hliðstæður í nútímanum? Hvernig hafa útrásarvíkingarnir hagað sér, þeir hafa aldeilis ekki verið að hugsa um þjóðarhag eða þá ýmsir pótintátar í pólitíkinni. Hafa sumir hverjir pólitíkusanna ekki hugsað meira um það að kom höggi á núverandi ríkisstjórn sem er að moka flórinn eftir óráðsíu fyrri ára?

Það rifjaðist margt upp fyrir mér við lestur ævisögu Vigdísar og sérstakleg hvað margt var illvígt í kosningabaráttu hennar þegar hún fór fyrst í framboð 1980. Ég var þá formaður kosninganefndar Vigdísar í Kópavogi. Þá kynntist ég því hvað konur geta verið konum verstar. Ég vil eftir þennan langa tíma ekki nefna nein nöfn. En merkar konur sem sumar höfðu markað talsverð spor í  söguna, jafnvel konur sem höfðu verið frumkvöðlar í kvennabaráttu, höfnuðu því alfarið að styðja kjör Vigdísar sem forseta.

En Vigdís vann, það var ógleymanleg stund.

En þessi pistill minn átti að vera stutt æfing á lyklaborðinu en það vill oft fara svo að maður fer út um víðanvöll áður en varir. En lyklaborðið hlýðir mér bara bærilega svo það verður ekki látið friði hér eftir. 


Bloggfærslur 29. janúar 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband