Flatur niðurskurður á skuldum fasteignaeiganda er feigðarflan

Svo virðist sem Ríkisstjórnin sé að missa staðfestuna og láta undan þeim sem hæst hafa látið og heimtað flatan niðurskurð á skuldum fasteignaeigenda. Þar láta hæst minnihlutaflokkar á Alþingi með Framsóknarmenn í broddi fylkingar og ekki stendur á Hreyfingunni , Þór Saari og Margréti Tryggvadóttur (Birgitta er úti á túni að lemja tunnur), að fylgja þeirri forystu, svolítið hik virðist vera á Sjálfstæðismönnum. Hagsmunasamtök heimilanna fylgja málinu eindregið og nú er búið að festa hugsanlegan flatan niðurskurð skulda heimilanna við 18%. Satt best að segja get ég ekki skilið Hagsmunasamtök heimilanna  styðji slíkar aðgerðir því þær munu  að lokum kosta skattgreiðendur fúlgur fjár og leysa lítinn vanda.

Ég hef fyrir framan mig töflu frá Fjármálaráðuneytinu, sem ég dreg ekki í efa, að 20412 einstaklingar skuldi meira en 100% í sínum fasteignum og það kann að vera að þar bætist fleiri í hópinn ef fasteignaverð lækkar umtalsvert.

En þennan hóp má alls ekki setja í eina rétt og ganga síðan til verks þannig að skuldir allra séu færðar niður um 18% því aðstæður innan þessa hóps eru ákaflega misjafnar og það liggur í augum uppi að það verður ekki öllum bjargað. Ég undrast stórlega orð  bankastjóra Landsbankans í Sjónvarpinu í gærkvöldi að það ætti að einbeita sér að því að bjarga þeim sem eru verst settir.

Ef það verður gert verður engum bjargað.

Þarna eru 1360 einstaklingar sem skulda meira en 200% af verðgildi sinna fasteigna. Það liggur í augum uppi að þessum hópi verður ekki bjargað þó bankastjóri Landsbankans vilji einbeita sér að því. Með 18% flötum niðurskurði fær þessi hópur háar afskriftir af sínum skuldum en mér finnst liggja í augum uppi að það dugi engan veginn til að bjarga þeim frá því að missa  eignir sínar.

Það sem hefði átt að gera fyrir löngu er að greina þá sem skulda yfir 100% af sínum heimilum og sannreyna hvern og einn, hvernig er hægt að hjálpa þeim sem geta orðið bjargálna. Ef markið er sett sem hámark við þá sem skulda alt að 150% þá eru það 16433 einstaklingar.

Þetta er hópurinn sem á að einbeita sér að því að bjarga. Þeir sem eru yfir þessum mörkum eru 3979 einstaklingar og þeirra mál ber að sjálfsögu að skoða einnig. En þetta er sá hópur sem þarf mesta fjármuni til að bjarga og í þessum hópi eru þeir sem höguðu sér óskynsamlegast. Það er ekki vafi að margir þar voru í allt og dýru húsnæði og stóru og ekki ólíklegt að á heimreiðinni hafi staðið tveir jeppar, jafnvel sportbíll einnig og í einum bílskúrnum mótorhjólið, snjósleðinn og fjórhjólið. Ég veit að þessi orð geta orðið mér dýrkeypt en mér er nokkuð sama. Þetta eru þau orð sem hafa verið "tabú" í allri umræðunni, ég hika ekki við að brjóta það "tabú".

Satt best að segja líst mér ekkert á hvernig þessi mál þróast nú og spurning hvort hið fornkveðna "því verr gefast heimskra manna ráð því fleiri sem koma saman" á ekki orðið við um hvert stefnir.

 


Bloggfærslur 14. október 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband