Stefnumið vegna Stjórnlagaþings

 @font-face { font-family: "Times New Roman"; }@font-face { font-family: "Courier New"; }p.MsoNormal, li.MsoNormal, div.MsoNormal { margin: 0cm 0cm 0.0001pt; font-size: 12pt; font-family: "Times New Roman"; }table.MsoNormalTable { font-size: 10pt; font-family: "Times New Roman"; }div.Section1 { page: Section1; }ol { margin-bottom: 0cm; }ul { margin-bottom: 0cm

Þar sem ég hef boðið mig fram til Stjórnlagaþings tel ég rétt að setja fram mín sjónarmið, hvernig ég tel rétt að starfa ef ég næði kjöri og hver eru mín helstu stefnumið:

  • Ég vil taka sæti á Stjórnlagaþingi með opnum huga, þó ég sé búinn að setja mér markmið fer ég á þingið tilbúinn til að hlusta á aðra þingfulltrúa. Þeir sem þar taka sæti mega engan veginn falla í sömu gryfju og Alþingi er í; á Stjórnlagaþingi verður að ræða mál af yfirvegun, með rökum og virðingu fyrir öðrum fulltrúum og sjónarmiðum þeirra.
  • Ég hef áður lýst því að ég hef miklar efasemdir um að gera landið að einu kjördæmi. Ekki verður nær komist algjöru jafnræði í vægi atkvæða, það viðurkenni ég. En með þeirri gjörð óttast ég að flokksræðið aukist, framboðslistar verði ákveðnir í höfuðstöðvum flokka í Reykjavík, þetta gæti minnkað vægi byggða utan höfuðborgarsvæðisins til áhrifa og almennings almennt..
  • Núverandi kjördæmaskipan hefur sýnt nokkuð hvað væri í vændum með landinu sem einu kjördæmi. Þessi stóru kjördæmi hafa dregið fram galla vegna stærðar sinnar.
  • Vissulega mundi það draga úr kjördæmapoti, þingmenn falla oft í freistingu atkvæðapots og vinsældaleitar eins og sjá má um dæmi þegar rætt hefur verið um hinn mikla niðurskurð í heilbrigðisgeiranum á landsbyggðinni.
  • Einmenningskjördæmi eru eflaust þau óréttlátustu sem finnast, en þar er einn kostur; hver frambjóðandi verður að standa undir sjálfum sér, hefur ekki lista til að fljóta með eða meðframbjóðendur til að skýla sér.
  • Mikil krafa hefur verið uppi um meiri áhrif hvers kjósanda á hverjir veljast til framboðs og forystu. Ein hugmynd um slíkt ef landið verur gert að einu kjördæmi: Frambjóðendur mega skipa sér á lista þar sem kjósendur geta raðað í sæti á listanum upp á nýtt en jafnframt geta einstaklingar boðið sig fram á eigin spýtur jafnframt því að lýsa yfir stuðningi við flokka eða verið alfarið óháðir en með skýr markmið.
  • Skýra þarf verk- og valdsvið hinna þriggja stoða lýðveldisins, löggjafarvalds (Alþingi) framkvæmdavald (Ríkisstjórn) og dómsvalds (Dómstólar). Ég tel mikla þörf á að fá fram betri aðskilnað sérstaklega á löggjafarvaldi og framkvæmdavaldi.
  • Við höfum alla tíð frá því að við fengum íslenskan ráðherra búsettan á Íslandi búið við þingræðisstjórn. Hefur það gefist vel eða er það sjálfgefið að það sé það sem við viljum í framtíðinni? Hvernig hefur þetta skipulag gefist? Eitt af því neikvæðasta við þingbundna ríkisstjórn er að kjósandinn veitt ekkert hvaða Ríkisstjórn hann er að kjósa í Alþingiskosningum, hann hefur ekkert að segja um það hvaða Ríkisstjórn verður við völd að loknum kosningum. Er þetta lýðræðislegt?
  • Í núverandi stjórnarskrá er mikil umfjöllun um Forsetaembættið, það er að mörgu leyti dapurlega lesning. Forsetanum eru veitt mikil völd í öðru orðinu en tekin frá honum í því næsta, þannig er Forseti lýðveldisins Íslands nær algerlega valdalaus. Aðeins að einu leyti hefur hann raunveruleg völd; hann  getur neitað að undirrita lög frá Alþingi og vísað þeim til þjóðaratkvæðis.
  • Ég tel að tveir möguleikar séu til að ákvarða framtíð Forsetaembættisins; a) leggja það niður, b) breyta því og efla. Óbreytt Forsetaembætti á enga framtíð.
  • Þarna kemur möguleikinn til að aðskilja frekar löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. Gefum okkur dæmi: Forsetinn er kjörinn í þjóðaratkvæði. Hann skipar forsætisráðherra sem síðan velur menn til að gegna ráherraembættum. Þeir sem veljast til ráðherraembætta ættu síst að vera alþingismenn, ef svo er afsala þeir sér þingmennsku. Ráðherrar sitja ekki á þingi en einstakar þingnefndir geta kallað þá fyrir út af einstökum málum. Á ríkistjórnin að þurfa að fá meirihlutastuðning Alþingis? Á Alþingi að geta lýst vantrausti á Ríkisstjórn? Hve mikill skal meirihlutinn að vera til að vantraust hljóti gildi? Er einfaldur meirihluti alltaf það rétta, gæti ekki þurft 2/3 meðatkvæði til að vantraust verði samþykkt?
  • Alþingi verður eftir þessa breytingu sannarlega Löggjafarþing sem ekki situr og stendur eins og framkvæmdavaldinu þóknast. Vissulega verður Ríkisstjórn hverju sinni að leggja fram lagafrumvörp vegna ýmissa mála, Fjárlagfrumvarp að sjálfsögðu svo nokkuð sé nefnt.
  • Með þessu yrði lagt niður einskisvert karp milli ráðherra og þingmanna sem ekki hvað minnst hefur eyðilagt virðingu Alþingis og er algjör tímasóun.
  • Tel að ekki eigi að fækka þingmönum sem er oft hávær krafa. Til að unnt sé að manna allar starfsnefndir Alþingis eru takmörk fyrir því hve fámennt Alþingi má vera. Krafan um fækkun Alþingismanna virðist oftast koma fram sem krafa um sparnað, ekki tekið tillit til annarra þátta. Á Alþingi ekki að hafa áfram rétt til að rannsaka ýmis álitamál? Það tel ég einsýnt.
  • Er líklegt að ef hið margumrædda karp milli Ráðherra og Alþingismanna lýkur að unnt verði að stytta starfstíma Alþingis? Er möguleiki að hverfa aftur til þess tíma þegar seta á Alþingi var ekki fullt starf? Væri ekki þannig hægt að búast við að Alþingi verði þverskurður þjóðarinnar og loku yrði skotið fyrir að menn verði atvinnustjórnmálmenn sem óttast má að slitni úr sambandi við lífið í landinu?

Læt hér staðar numið að sinni, umsagnir um þessar hugmyndir væru vel þegnar. Vonandi stutt í næsta pistil um Stjórnarskrána.


Málfrelsi er ein af undirstöðum lýðræðis, dapurlegt að sjá hvernig það er misnotað

Ég var að enda við umfjöllun um það sem fram kom hjá Páli Skúlasyni í Sjónvarpinu á gær; um hvernig stjórnmálaumræðan hérlendis er sokkin djúpt í skotgrafir.

En það verður að gera kröfu til fleiri en stjórnmálmanna. Í lýðræðisríki hafa allir þegnar málfrelsi en því miður, nokkur hluti þeirra telur að málfrelsi sé frelsi til að ausa skít yfir náungann, að halda endalaust fram sömu rökleysunum, að tyggja aftur of aftur sömu innihaldslausu frasana. Ég hef stundum verið komin á fremsta hlunn með að hætta hér á blogginu, of margir á því eru ekki viðræðuhæfir og því miður virðist ýmsum ofstækismönnum vera hossað hátt og eru stöðugt í sérstöku úrvali. Þó gagnrýna megi stjórnmálamenn fyrir margt eru takmörk fyrir því þar sem annarsstaðar hve lágt má leggjast í orðbragði og lúalegri framkomu. Líklega hefur enginn fengið jafn margar svívirðingar hér á blogginu og Jóhanna Sigurðardóttur forsætisráðherra, þar virðist einnig blandast inn í karlremba sumra lítilsigldra karla, sem  aldrei geta falið og vilja líklega ekki fela, kvenfyrirlitningu sína.

Ég er satt að segja ekki enn  búinn að ná mér eftir að hafa rekist einhverstaðar á myndband með Ingva Hrafni Jónssyni fyrrum fréttastjóra Sjónvarpsins og núverandi sjónvarpsstjóra á eigin Sjónvarpsstöð. Það var ekki nóg með að aumingja maðurinn væri augljóslega kófdrukkinn, heldur jós hann úr sér svívirðingum aðallega um tvær persónur, Evu Joly og Ólaf Hauksson sérstakan saksóknara. Reyndar voru allir "undir" sem starfa við embætti Sérstaks saksóknara, þetta var að áliti hins kófdrukkna allt undirmálsfólk. Nákvæmnin í málflutningi aumingja mannsins var reyndar engin eins og oft vill verða þegar drukknir menn fara að láta ljós sitt skína. M. a. sagði hann að Eva Joly hefði fengið hundruður þúsunda dollara" í laun og ferðakostnað frá Íslenska ríkinu. Einhverstaðar sá ég að heildarkostnaður viðstörf Evu Joly hérlendis væru um 27 milljónir króna.

En það dapurlegasta er að þó nokkur fjöldi venjulegs fólks virðist njóta illmælginnar sem út úr Ingva Hrafni veltur drukknum sem ódrukknum.


Athyglisvert viðtal við Pál Skúlason í Sjónvarpinu í gær

Þórhallur Gunnarsson er að sækja sig með sinn nýja vikulega viðtalsþátt í Sjónvarpinu og í gærkvöldi kom margt merkilegt fram. Greining Páls Skúlasonar fyrrum Háskólarektors á ástandi stjórnmálumræðunnar á Íslandi var gagnmerk. Það er dapurlegt að flest af því sem hann sagði þar um er rétt ályktað; stjórnmálmenn og stjórnmálumræða á Íslandi er í skotgröfum þar sem hver reynir að komast lengra í "málfundaumræðunni".

Það hefði mátt ætla að Hrunið hefði þjappað stjórnmálamönnum saman um að ræða málefnin með rökum og yfirvegun en það er öðru nær; aldrei hefur Alþingi verið eins lágt metið og nú samkvæmt skoðanakönnunum. Ég ætla ekki að hika við að nefna ákveðna einstaklinga til að sýna fram á hve djúpt er hægt að sökkva. Framsóknarflokkurinn hefur velskt í brimskafli stjórnmálanna frá því að Halldór Ásgrímsson og Finnur Ingólfsson skyldu við flokkinn í rúst eftir fjármálsukkið við einkavæðingu bankanna. Nýr formaður fannst, ungur maður að nafni Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Ekki nokkur maður í stjórnmálflórunni hefur átt önnur eins tækifæri til að lyfta sér og sínum flokki upp úr skotgröfunum.

En það fór á annan veg. Sigmundur Davíð sökk í pytt skotgrafanna á stundinni dyggilega studdur að ungum angurgöpum í flokknum. Þó virðist hann ekki hafa algjöran stuðning. Guðmundur Steingrímsson sýnir að hann vill ekki í pyttinn fara og ekki heyrist mikið frá Siv Friðleifsdóttur. Enginn af nýju þingmönnum Framsóknarflokksins hefur þó valdið eins miklum vonbrigðum og Vigdís Hauksdóttir sem á svipstundu tókst að tileinka sér hernað skotgrafanna eftir að hún komst á þing. Nýjasta ævintýri hennar er að leggja fram tillögu, ásamt ýmsum skoðanasystkinum úr öðrum flokkum, um að þjóðin greiði um það atkvæði þegar kosið verður til Stjórnlagaþings hvort draga skuli umsókn Íslands um inngöngu í ESB til baka. Flumbrugangur hennar og meðflutningsmanna er slíkur að þau voru öll búin að gleyma nýsettum lögum, sem þau tóku þátt í að afgreiða, um að líða skuli minnst 3 mánuðir frá því Alþingi samþykkir þjóðaratkvæði þar til atkvæðagreiðslan fer fram! "Sorry" segir Vigdís, ég flyt bara tillögu um breyta nýsettum lögum um þjóðaratkvæði! Telur Vigdís Hauksdóttir að Alþingi sé sjálfsafgreiðsla þar sem hún og hennar líkar geti valsað um og fengið flýtimeðferð til að þóknast sýniþörf viðkomandi?

Hávær krafa kom fram í búsáhaldabyltingunni um að hreinsa alla sem þá sátu á Alþingi út, burt með þá og reyndar að stjórnmálflokkarnir fykju  líka. Mikil endurnýjun varð hjá flokkunum og nýtt afl kom einn á þing, hét þá Borgarahreyfingin, en hinir nýju þingmenn þessarar hreyfingar voru vart sestir á þing þegar Borgarahreyfingin klofnaði, þrír sátu eftir í nýjum flokki Hreyfingunni og einn, Þráinn, labbaði yfir til Vinstri grænna og hefur síðan staðið sig best að fjórmenningunum, hefur ekki sagt orð. En þrímenningarnir Birgitta, Margrét og Þór haf ekki setið auðum höndum en sokkið djúpt í svað skotgrafanna.

Sjálfstæðisflokkurinn er því miður að mestu á valdi síns gamla foringja Davíðs Oddssonar en stóð þó vel að málum við atkvæðagreiðsluna um Landsdóm, voru sjálfum sér samkvæmir. Ekki verður það sama sagt um þó nokkra af þingmönnum Samfylkingarinnar sem sýndu einhverskonar klæki við atkvæðagreiðsluna, voru ýmist með eða á móti. Sem betur fer var meirihluti þingmanna flokksins staðfastur og greiddi atkvæði á móti Landsdómi.

Hvers vegna tel ég að þeir sem greiddu atkvæði gegn því að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm hafi staðið réttar að málum? Því hef ég lýst áður í pistli hér á blogginu og vísa til þess en skal þó endurtaka tvennt. Í fyrsta lagi næst þar engan veginn til þeirra stjórnmálamanna sem mesta ábyrgð bera á Hruninu í okt. 2008, þeirra Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, í öðru lagi er Landdómur eins og gamalt skrímsli sem er ónothæft með öllu.

En aftur að vitalinu við Pál Skúlason. Hann benti eindregið á þörf fyrir upplýsingu um flest mál sem hið opinbera fjallar um og þar væri Sjónvarpið kjörinn vettvangur sem svo annarlega væri vannýttur til þeirra hluta. Hann lagði til að gerðir yrðu stuttir hnitmiðaðir fræðsluþættir um margvísleg efni, svo sem Stjórnarskrána og komandi Stjórnlagaþing. Ég hef lengi saknað slíkra þátta, vandaðra fréttaskýringa t. d. Í dag eru aðeins tveir þættir sem standa undir nafni þar. Það er "Spegillinn" í Ríkisútvarpinu og "Silfur Egils" í Ríkissjónvarpinu.

Vona að ráðmenn hafi heyrt þessi sjónarmið Páls Skúlasonar og taki þau alvarlega.


Bloggfærslur 20. október 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband