Hversvegna hefur verið einblínt svona á orkugjafa sem hina einu sönnu auðlind Íslands?

Mér fannst síðasti pistill minn um auðlindir landsins orðinn langhundur svo skynsamlegra væri að skrifa fleiri og styttri. Það eru miklar tilfinningar í gangi þegar umræða hefst um orkuauðlindir Íslands og mér finnst stundum að þar fari sumir út um víðan völl.

Orkuauðlindir Íslands eru aðallega af tvennum toga þegar skoðaðar eru þær virkjanir sem framleiða fyrir okkur orku. Það eru vatnsaflsvirkjanir og jarðgufuvirkjanir. Sú furðulega flokkun hefur orðið til hér á landi að skilja menn í tvo flokka; virkjunarsinna og virkjunarandstæðinga. Ég held að þessi flokkun eigi ekki nokkurn rétt á sér, það er eðlilegt að sitt sýnist hverjum hvar og hvað eigi að virkja. Líklega, miðað við hvað ég hef látið frá mér fara í rituðu máli,  er ég l flokkaður virkjunarsinni sem á þó engan rétt á sér. Þekktur umhverfissinni, nafni minn,  sendi frá sér blogg nýlega þar sem hann lýsti sig andsnúinn vatnsaflsvirkjunum, frekar ætti að snúa sér að jarðgufuvirkjunum, það hefði Einar Benediksson gert ef sú tækni í beislun jarðgufu hefði verið komin fram á hans dögum. Ég gerði athugasemd við þessa skoðun, veit ekki hvort nafni minn hefur svarað, hef ekki fundið það.

Ég hef sett fram harða gagnrýni á þá stefnu að virkja meira og meira af gufuafli til raforkuframleiðslu eingöngu og ekki hikað við að segja að þar erum við að fara í hrikalega rányrkju á auðlind okkar. Hvað vit er í því að bora og bora eftir gufu sem síðan knýr aðeins túrbínur sem framleiða rafmagn. Þar nýtum við aðeins um 14% af því afli sem í gufunni býr. Gufuforði í iðrum Íslands er ekki óþrjótandi og ferillinn frá því vatn fer niður í hin heitu jarðlög og er síðan tekið upp aftur sem gufuafl er mjög langur.

Er vit í því að stunda rányrkju á auðlind til að framleiða rafmagn sem síðan er selt til orkufrekasta iðnaðar sem fyrirfinnst, málmbræðslu í okkar tilfelli álbræðslu?

Á Nesjavöllum er framleitt rafmagn með gufuafli sem síðan er notað til að hita kalt vatn upp í hátt í 90°C. Þar með nýtum við gufuaflið 85%, komumst tæplega hærra. Með þessu vatni eru öll hús í Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði og Álftanesi hituð upp

En það er eftir að ræða um eignarhaldið á þessari auðlind, orkuauðlindunum, vatnsföllum og gufuafli.

Þar gagnrýni ég hvað umræðan um þessar auðlindir hefur orðið ómarkviss og ruglingsleg. Ég vil sterklega undirstrika að eignarhald á auðlind er eitt, beislun og nýting annað. Við eigum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að auðlindirnar séu í eigu þjóðarinnar, segi það beint út; þær eiga að vera þjóðnýttar, sem er alls ekki svo í dag. Hvort sem við reisum Kröfluvirkjun eða minni virkjanir veður að semja um land g nýtingu við fjölmarga aðila. Nýting er allt annar handleggur. Við erum vön því að fá og öflug íslensk fyrirtæki hafa aðallega nýtt orkuauðlindir. Þar er Landsvirkjun langstærst en fleiri koma þar við sögu svo sem Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða, Hitaveita Akureyrar og margar fleiri hitaveitur.

Ég hef verið spurður að því hvaða afstöðu ég taki til einkarafstöðva, einkahitaveitna frá einni borholu til lítilla byggða svo eitthvað sé nefnt. Ekki dettur mér í hug að farið verði að þjóðnýta litlar heimilisstöðvar í bæjarlækjum þar sem þær finnast. Framtaksamir menn hafa borað eftir heitu vatni í sinni jörð og fundið þó nokkuð af heitu vatni. Er það vatn þeirra einkaeign? Við höfum fram að þessu litið svo á þó þar sé allt annað að gerast en virkjun bæjarlækjarins. Vatn sem kemur upp í borholu á einni jörð kann að koma úr miklu stærra forðabúri og sprunguneti en því sem aðeins er undir jörð viðkomandi. Þess vegna gæti það gerst ef nágrannarnir bora líka að þá  minnki rennslið hjá þeim sem fyrstur fann heita vantið.

Þarna geta vaknað margar gagnrýnar spurningar


Hverjar eru auðlindir Íslands, hver á að eiga þær, hverjir eiga að nýta þær?

Sá sem hefur boðið sig fram til Stjórnlagaþings verður að svara þeim spurningum sem koma fram í fyrirsögn pistilsins.

Fyrst vil ég gera stutta grein fyrir hverjar eru auðlindir Íslands. Að undanförnu hefur verið einblínt á orkugjafann, vatnsorku og jarðvarmaorku. Að sjálfsögðu hárrétt, þarna er hluti af auðlindum landsins en aðeins hluti. Það fer ekki á milli mála að nú stendur yfir landsfundur Landsambands íslenskra útvegsmanna, boðskapurinn sem þaðan kom er þessi; þið skuluð ekki voga ykkur að hrófla við núverandi kvótakerfi, þetta er okkar eign, við höfum keypt réttinn til að veiða fiskinn í sjónum dýru verði og það er vissulega rétt, margir haf gert það. En sú furðulega staða að tilfinningar og pólitík tröllríður umræðunni um auðlindir á landi, einkum orkugjafana, þá virðist auðlindin í hafinu, lífríkið í hafinu lítið hreyfa við þeim sem hæst hafa um vatnsaflsvirkjanir eð jarðvarmavirkjanir.

Við gerðum þau reginmistök fyrir um það bil 20 árum að rétta útgerðarmönnum eignarétt á fiskinum í sjónum, þeir fengi ekki aðeins eignarréttinn heldur rétt til að selja og leigja þessa mikilvægu "eign". Aldrei frá upphafi Íslandsbyggðar hefur einum hagsmunahópi verið afhent endurgjaldslaust önnur eins verðmæti, auðlindina miklu í hafinu sem örðum fremur hefur á undanförnum öldum haldið lífinu í Íslendingum og staðið undir velferð okkar.

En ég hef átt í nokkrum orðaskiptum við útgerðamann hér í Þorlákshöfn í litlu þorpsblaði. Þar viðurkenndi hann að íslenskur sjávarútvegur, sjávarútvegsfyrirtæki, eru skuldum vafin og kvótinn veðsettur innanlands og utan. Ekki nóg með það, hann viðurkenndi einnig hvernig þessar himinháu skuldir höfðu hrannast upp þrátt fyrir að þessi hagsmunahópur, útgerðarmenn, fengu auðlindina án nokkurs endurgjalds. Hann staðfesti að skuldirnar eru að mestu tilkomnar vegna kaupa á kvóta þeirra sem eru að hætta útgerð.

Hérlendis sem erlendis sitja fjölmargir fyrrverandi útgerðarmenn og lifa kóngalífi á þeim fjármunum sem þeir fengu fyrir sölu á kvóta til  þeirra sem áfram basla. 

Gera menn sér grein fyrir hve gífurlegir fjármunir hafa sogast út úr þessari atvinnugrein, fiskveiðum og útgerð, á þennan hátt? Gera útgerðarmenn sér ekki grein fyrir hve eitraður bikar það var sem að þeim var réttur með því að gefa þeim kvótann, með frjálsa framsalinu, með leigunni á kvótanum, með því að verða að kaupa út úr greininni með geysilegum fjármunum þá sem hætta ?

Það var sett á laggirnar nefnd til að endurskoða kvótakerfið og ég gerði mér miklar vonir um að sú endurskoðun mundi skila okkur, almenningi og þjóðinni allri, eignaréttinn og nýtingarréttinn yfir auðlindum hafsins, yfir nýtingu þeirra fiskistofna sem eru innan okkar 200 mílna lögsögu. Út úr starfi endurskoðunarnefndarinnar kom ekkert sem hönd er á festandi, loðmulla sem LÍÚ samdi og kallast samningaleið; sem sagt óbreytt ástand.

LÍÚ hefur með hræðsluáróðri tekist að halda í þennan "eignarétt" sinna fyrirtækja. Slíku verður að breyta og ný Stjórnarskrá verður að taka af skarið:

Auðlindir hafsins eru eign þjóðarinnar, engan afslátt frá því!


Bloggfærslur 29. október 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband