Eru engin takmörg fyrir því hvað djúpt er hægt að sökkva sér í skotgrafirnar á Alþingi?

Ekki man ég eftir kvöldi í langan tíma þar sem svo margar jákvæðar fréttir hafa komið í fjölmiðlum. Þar á ég ekki síst við þau tímamót sem urðu á Suðurnesjum að frumkvæði Ríkisstjórnarinnar, fundi hennar með forystumönnum allra sveitarfélaga á svæðinu. Þetta er vissulega gleðileg tíðindi, þarna taka höndum saman um að efla atvinnu á svæðinu og uppbyggingu Ríkisstjórn, sem talin er vinstri stjórn, og sveitarstjórnir á Suðurnesjum sem að ég held allar teljist til hægri í pólitík.

Ætla mætti að þessu væri tekið fagnandi í stjórnsýslunni, á Alþingi ekki síst.

En það var öðru nær. Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson ruku í pontu og rökkuðu allt niður sem fram kom í í þessi samkomulagi  og hæddust að öllu þó flokksbræður þeirra á Suðurnesjum gangi fagnandi til verks. 

Líklegt þykir mér að þarna hafi lágkúran á Alþingi komist neðst í leðjuna.

En hvaða samkomulag var gert á Suðurnesjum í dag, er ekki fróðlegt að líta á það?

Hér á eftir fer listi yfir þau verkefni sem ríkisstjórnin samþykki á fundi sínum í morgun að ráðast í nú þegar:

Forsætisráðherra

1. Samráðsvettvangur stjórnvalda og sveitarfélaga á Suðurnesjum

Að myndaður verði formlegur samráðsvettvangur stjórnvalda ríkisins og sveitarfélaga á svæðinu um atvinnu-, mennta- og velferðarmál.

Dómsmála- og mannréttindaráðherra:

1. Flutningur Landhelgisgæslu

Að skoðaðir verði vandlega kostir þess að flytja starfsemi Landhelgisgæslu Íslands á öryggisvæðið á Miðnesheiði á Suðurnesjum og að framkvæmd verði hagkvæmniathugun á þeim kosti.

Fjármálaráðherra:

1. Gagnaver

Að lagt verði fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt er geri samkeppnisstöðu gagnavera hér á landi samkeppnisfæra við gagnaver í löndum innan ESB.

2. Verklegum framkvæmdum á þróunarsvæði Keflavíkurflugvallar verði flýtt

Að til að auka nú þegar möguleika til frekari atvinnuuppbyggingu á þróunarsvæðinu og skapa um leið aukna atvinnu við verklegar framkvæmdir verði 250 m.kr. veitt aukalega til þróunarfélags Keflavíkurflugvallar þannig að félagið geti hraðað þeim verkefnum sem ákvörðun hefur verið tekin um að ráðast í.

3. Kynningar- og markaðsátak á fasteignum á varnarsvæðinu (Kadeco og Fjárfestingarsvið Íslandsstofu)

Að hrundið verði af stað kynningar- og markaðsátaki á fasteignum á varnarsvæðinu en Þróunarfélag Keflavíkur á fjölmargar eignir á gamla varnarsvæðinu sem er nauðsynlegt að komist í notkun.

4. Hersetusafn á Suðurnesjum

Að Þróunarfélagi Keflavíkur verði falið að setja á stofn Hersetusafn á gamla varnarsvæðinu í einu af fjölmörgum húsum félagsins. Safnið myndi kynna merkilega og umdeilda sögu bandarísks herliðs á Íslandi allt frá síðari heimstyrjöld.

Iðnaðarráðherra:

1. Starfshópur um atvinnumál á Suðurnesjum

Að unnið verði með starfshópi um atvinnumál á Suðurnesjum sem iðnaðarráðherra hefur skipað og ný verkefni verði lögð fyrir starfshópinn sem rýnir þau og metur. Jafnframt muni starfshópurinn vinna nýjar tillögur í samstarfi við heimamenn og leggja fyrir ráðherra og stofnanir.

2. Klasasamstarf fyrirtækja á sviði líforku

Að stutt verði við verkefni sem Nýsköpunarmiðstöð hefur verið falið að hefja undirbúning að um klasasamstarf á sviði líforku sem tengist jarðvarmaverum á Reykjanesi.

Félags- og tryggingamálaráðherra

1. Hámarkstímabil atvinnuleysisbóta lengt í 4 ár

Að hámarkstímabil greiðslu bóta úr atvinnuleysistryggingasjóði verði lengt tímabundið úr þremur árum í fjögur ár.

2. Formlegt samstarf sveitarfélaga í velferðarmálum – ráðning verkefnisstjóra.

Ríkisstjórnin leggi fram fjármagn til að ráðinn verði starfsmaður/verkefnisstjóri sem haldi utan formlegt samstarf sveitarfélaganna Reykjanesbæjar, Grindavíkur, Sandgerðis, Garðs og Voga á sviði velferðarmála sveitarfélaganna á svæðinu. Verkefnisstjórn skipuð lykilfólki frá sveitarfélögunum og fulltrúum Vinnumálastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Umboðsmanns skuldara myndar samráðshóp sem vinnur með verkefnisstjóranum. Velferðarvaktin verði verkefnisstjórn og verkefnisstjóra til ráðgjafar og haldi utan um verkefnið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar/félags- og tryggingamálaráðherra. Verkefnið er hugsað sem fyrirmyndarverkefni sem önnur svæði gætu síðar ýtt úr vör.

3. Útibú umboðsmanns skuldara á Suðurnesjum.

Umboðsmaður skuldara fái aðstöðu á Suðurnesjum og taki þar á móti fólki sem þarf á þjónustu embættisins að halda. Til að byrja með þarf að setja tvo starfsmenn í verkið þar sem nauðungasölur eru hlutfallslega mjög margar á Suðurnesjum m.a. tífalt fleiri en á höfuðborgarsvæðinu.

Mennta- og menningarmálaráðherra


1. Þróun á nýju og fjölbreyttara námsframboði.

Rekstrargrundvöllur menntastofnana á Suðurnesjum verði tryggður og samstarf þeirra styrkt með sérstakri fjárveitingu sem svari til greiðslu launa tveggja sérfræðinga í fullu starfi í tvö ár sem fái það verkefni að þróa nýtt og fjölbreyttara námsframboð og styrkja ráðgjöf og hvatningu til þeirra sem minnsta menntun hafa eða eru án atvinnu.

2. Fiskitækniskóli Íslands.

Fisktækniskóla Íslands verði tryggt eitt stöðugildi.

Þetta er það sem þeir alþingismenn Sjálfstæðisflokksins þeir Jón Gunnarsson og Guðlaugur Þór Þórðarson töldu sig hafa stöðu til að rakka niður og hæðast að. Mér segir svo hugur um að ýmsir flokksfélagar þeirra á Alþingi kunni þeim litlar þakkir fyrir.


Ríkissjóður á hundruðir milljarða króna hjá Lífeyrissjóðum landsins, fé sem þeir geta braskað með að vild

Einn ágætur bloggari, líklega einn af þeim gleggri á tölur og peningagildi, velti upp mörgum hliðum þess að lina skuldabyrði almennings sem er ekki einfalt mál. M. a. kom framhjá honum að niðurfærsla fasteignalána gæti orðið Lífeyrissjóðum landsins þung byrði, svo þung að Ríkissjóður yrði jafnvel að hlaupa undir bagga og veita fé í Lífeyrissjóðina. Hann benti jafnframt á að Ríkissjóður ætti að fá teygjuband á þessi fjárframlög, greiða þau á allt að tíu árum.

En er ekki eitt að gleymast? Í allri skattheimtu er það regla að skatt skal greiða um leið og skattstofn verður til, þannig er það bæði um tekjuskatt og fjármagnsskatt og að ég held um alla aðra skatta. 

Nei, það er ein undantekning. Lífeyrisgreiðslur í Lífeyrissjóði eiga að bera skatt en sá skattur er ekki tekin af stofninum um leið og hann verður til. Sá sem fær greiðsluna til varðveislu og ávöxtunar fær einnig að halda skattgreiðslunum árum saman sér til ábata, líklega geta þessir skattpeningar verið í umferð Lífeyrisjóðanna í ártugi, eru fimmtán tugir ára ekki mögulegir?

Ef svo fer að Lífeyrissjóðirnir standa ekki undir þeim afföllum sem skuldaniðurfelling hefur í för með sér þá þarf Ríkissjóður ekki að leggja þeim til  fjármagn beint. Það gæti hins vegar verið í formi þess að Ríkissjóður gæfi eitthvað eftir af hinni miklu skattaskuld Lífeyrissjóðanna, sá sem á stórfé hjá öðrum aðilum getur tæpast þurft að leggja þeim til fé þó tímabundnir erfiðleikar steðji að.


KJördæmaskipun landsins hefur alltaf verið vandræðabarn

Sá sem er í framboði til Stjórnlagaþings er að sjálfsögðu orðinn æði upptekinn að velta fyrir sé málefninu sem bíður; að setja Íslandi nýja Stjórnarskrá.

Eitt af því sem þar bíður að fást við er vægi atkvæða sem oft hefur verið æði misjafnt. Aldrei mun það þó hafa verið jafn slæmt og vægið ójafnara en á 4. ártug síðustu aldar. Svo langt gekk það að Framsóknarflokkurinn bar ægihjálm yfir aðra flokka og atkvæðafylgið  ekki í neinu samræmi við þingmannafjölda flokksins. Margar tilraunir hafa verið gerðar til jöfnunar á vægi atkvæða með breytingum á kjördæmum en oftast riðlast það jafnvægi fljótlega vegna búferlaflutninga.

Það virðist vera nokkuð almenn skoðun landsmanna að eina ráðið til jöfnunar sé að gera Ísland að einu kjördæmi. Það er vissulega rétt að þá hefur náðst algjör jöfnuður.

En hefur Ísland eitt kjördæmi  engar neikvæðar hliðar?

Ég hef alla tíð verið nokkuð gagnrýninn á landið sem eitt kjördæmi og óttast það neikvæða sem fylgir. Það sem ég óttast mest er að með því eflist flokksræðið og finnst víst mörgum að það sé nægilegt fyrir. Við þetta fyrirkomulag, landið eitt kjördæmi, býður hver flokkur fram aðeins einn lista hvort sem það eru gömlu flokkarnir, fjórflokkurinn margumtalaði, eða ef til vill mergð nýrra flokka sem bjóða fram;  framboðslistar yrðu settir saman í höfuðstöðvum flokkanna í Reykjavík.

Yrði þetta ekki lyftistöng fyrir flokksræðið?

Þrátt fyrir Ísland eitt kjördæmi er ekki loku skotið fyrir það að til verði sérframboð og þá einkum á landbyggðinni. Þeir listar gilda að sjálfsögðu sem listar bornir fram á landinu í heild. En á þetta má minnast, Ísland eitt kjördæmi er ekki trygging fyrir að ekki verði landshluta togstreita.

En hvernig er hægt að tryggja að kjósandinn geti jafnvel kosið einstaklinga? Verða þeir þá að vara frambjóðendur á flokkslistum?

Er það gerlegt að einstaklingar geti einnig boðið sig fram til Alþingis í þessu stóra kjördæmi. Íslandi öllu?


Hafa tölur jákvæð eða neikvæð gildi?

Þar sem ég er frambjóðandi til Stjórnlagaþings, 1 af 523, þá hef ég fengið mitt númer sem væntanlegir kjósendur mínir skrá á kjörseðilinn í komandi kosningum.

Mitt númer er 4976

Einn ágætur vinur minn hér í Þorlákshöfn kom að máli við  mig ábúðarmikill í gær og spurði mig þeirrar sérstæðu spurningar hvort ég ætti mér einhverjar happatölur. Ég kvað nei við þó oftar en einu sinni hefði ég fengið ábendingar í einhverju spjalldálkum að ég ætti mér eina slíka, en látum það liggja milli hluta, ég hef ekki tekið mark á slíkum boðskap.

Spyrjandinn varð nú ábúðarmeiri og spurði af mikilli alvöru hvort ég forðaðist ákveðnar tölur eða hvort ég óttaðist að þær boðuðu ógæfu. Mér varð víst nokkur hlátur í hug og svaraði að því síður óttaðist ég neikvæð áhrif nokkurra talna, hvorki einfaldra né samsettra. Vini mínum var greinilega létt og skýrði fyrir mér hver væri grunnurinn að þessari könnum.

Hann hafði skyndilega gert sér grein fyrir því að ef lagðir væru saman tveir fyrstu stafirnir í kjörnúmeri mínu til Stjórnlagaþings kæmi út talan 13 og ekki nóg með það; ef lagðir eru saman tveir seinni tölustafirnir kemur einnig út talan 13.

Ég sagði sem var að aldrei hefði ég haft beyg af tölunni 13 á því yrði engin breyting nú.

Kannski verður talan 13 einmitt mín happatala í komandi kosningum?


Dapurlegt hvernig komið er fyrir Morgunblaðinu

Ég átti góða samleið með Morgunblaðinu í 16 ár, árin sem ég skrifaði pistlana Lagnafréttir. Lengst að var Magnús Sigurðsson umsjónarmaður Fasteignablaðsins sem Lagnafréttir birtust í, við áttum alla tíð hið besta samstarf. Það kom fyrir að Styrmir Gunnarson legði mér lið en þetta var á þeim árum sem hann og Matthías Johannessen voru búnir að endurreisa Morgunblaðið og gera það að víðsýnum fjölmiðli þó ekki kæmist það alfarið hjá því að leggja Sjálfstæðisflokknum lið.

En nú er öldin önnur. Einhverntíma hefði það þótt saga til næsta bæjar að í Morgunblaðinu birtist annar ein leiðari og þar sást í gær. Hann var uppfullur af rætni, hæðni en ekki síst af minnimáttarkennd og öfund. Efni leiðarans var þjóðfundurinn um helgina sem eflaust gefur þeim 25 sem kjörnir verða á Stjórnlagaþingið góðar ábendingar.

Tryggvi Gíslason, sá gagnmerki skólamaður,  hefur svarað þessum leiðara á yfirvegaðan hátt með festu og fengið stuðning minn og fleiri með athugasemdum við sinn pistil.

Að lokum vona ég að Morgunblaðið nái aftur þeirri reisn sem það bar undir stjórn Styrmis og Matthíasar, sökkvi  ekki á kaf í að verða sorapyttur og útrás fyrir geðillsku þess sem finnur að hann er búinn að tapa fyrri tiltrú, grefur þar með sína eigin gröf.


Bloggfærslur 9. nóvember 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband