29.4.2010 | 21:04
Enn á ný er þessi forpokaða opinbera og þjóðnýtta stofnun, Þjóðkirkjan, að sýna að öllum landslýð hve mjög hún er úr takti við þjóðlífið
Það er ýmislegt sem við drögnumst með úr fortíðinni og líklega er ekkert eins lífseigt og Íslenska lútherska þjóðkirkjan. Við drögnumst enn með þetta norræna kirkjumunstur, að hver og einn sem fæðist hér á landi, og ekki er þegar tekið fram að eigi ekki að vera í Þjóðkirkjunni, er sjálfkrafa inn í hana skráður, þar er hann skírður ómálga þar sem einhver honum nákominn festir hann á tré Þjókirkjunnar, svo kemur fermingin og mjög líklega giftingin, hjónabandið. Þó er þó sú undantekning að hver sá sem hefur kynferðislegar hvatir til einstaklinga af eigin kyni er úthýst. Um þetta hefur verið deilt enn einu sinni og málið leist á þann aumingjalega hátt að vísa því til nefndar.
Nú gæti einhver sagt sem svo að hér tali enn einn kirkjuhatarinn en ég ber ekki nokkurn kala til trúaðra manna, ég er hins vegar ekki í Þjóðkirkjunni né nokkrum öðrum trúarsöfnuði og það er mér frjálst sem betur fer. Ég vil á sama hátt að hver og einn sé frjáls að því að trúa á hvern þann guð sem hann kýs, nóg er framboðið af guðum í heimi hér.
En það er mín krafa að öll trúarbrögð séu jafn rétthá og að Ríkisvaldið sé ekki að vasast í trúmálum. Það kann að vera að einhver ráðherra í ríkisstjórninni eigi að hafa trúmál almennt á sinni könnu en það á alfarið að útiloka að almennur íslenskur háskóli, ríkisrekinn, sé með trúarbragðakennslu og þá aðeins kennslu í einum trúarbrögðum, kristinni trú.
En hvað er prestastefna að væla um lagfrumvarp frá Alþingi um hjúskap? Ef þessi kirkjudeild væri frjáls og laus við að vera tengd ríkisvaldinu þá einfaldlega tekur hún ákvarðanir á eigin forsendum, líklega þá sem virðist vera ætíð í meirihluta, að banna hjónavígslur tveggja einstaklinga af sama kyni. Ef þessi kirkjudeild væri sjálfstæð hefði hún fullan rétt til þess. Hvað afleiðingar það kynni að hafa fyrir frosnar trúargrillur er annað mál en þeir og þær um það.
Ég hef aðeins heyrt eina snjalla tillögu frá prestastefnunni sem nú situr á rökstólum. Það er tillaga Geirs Waage í Reykholti að vígslurétturinn, rétturinn til að gefa saman hjón, verði tekinn af prestum og þá auðvitað í öllum kirkjudeildum. Héðan í frá ættu það að vera embættismenn ríkisins sem skrásettu hjónabandssáttmálann. Ef trúaðir karlar og konur vilja fá blessun presta eftirá þá það, ekkert því til fyrirstöðu.
Trúarbrögð hafa fylgt mannkyni frá örófi alda og munu líklega gera svo lengi sem menn bjástra við að lifa á þessum hnetti. En trú og trúarbrögð eiga að vera algjörlega frjáls, hlutverk ríkisvaldsins er það eitt að gæta þess að svo sé.
29.4.2010 | 11:27
Smákóngaárátta er undirrótin að baráttunni gegn Iðnaðarmálagjaldinu
Maður er nefndur Vörður og er húsasmíðameistari. Hann hafði sigur gegn Iðnaðarmálagjaldinu fyrir Mannréttindadómstólnum í Strassborg. Ætla mætti að þar færi maður mikilla hugsjóna en sagan er reyndar allt önnur. Samtök iðnaðarins, sem hafa tekið við þessu gjaldi og ráðstafað því til góðra verka, eru samtök flestra þeirra sem reka iðnfyrirtæki þar á meðal flestra meistarafélaga í iðnaði, flestra félaga í byggingariðnaði. Gjaldinu hefur verið varið til uppbyggingar menntunar í iðnaði. Ég er hér fyrir framan mig 6 binda flokk kennslubóka fyrir pípulagnanema sem sækja sína bóklegu menntun í Fjölbrautar- og iðnskóla. Þetta er flokkur kennslubóka, sem ég hafði forgöngu um að var saminn og gefinn út á þeim árum sem ég var starfandi með Samtökum iðnaðarins. Þessi bókaflokkur var að mestu kostaður af þeim fjármunum sem fékkst með Iðnaðarmálagjaldinu, auk þessa fjölmörg önnur framfaramál iðnaðarins í landinu.
En það eru til smákóngar sem ekki vilja styðja heildina og þar eru fremstir forystumenn Meistarafélags húsasmiða, Meistarafélags dúklagningamann og Félag pípulagningameistara. Þeir vilja ekki skipa sér í megin afl sem Samtök iðnaðarins enda augljóst að þar kæmust þeir ekki til fremstu mannaforráða vegna eigin verðleika, þess vegna er betra að hokra í kotinu heldur en eiga heimilisfesti á höfuðbólinu.
En þessir hokrarar sáu ofsjónum yfir Iðnaðarmálagjaldinu sem þeir eins og aðrir iðnrekendur þurftu að borga. Þeir hófu baráttu, ekki að leggja gjaldið niður heldur að þeir fengju hluta af kökunni. Sú barátta stóð lengi en löggjafinn taldi að gjaldið kæmi flestum að bestum notum ef einn, í þessu tilfelli Samtök iðnaðarins, sæju um vörslu þess og ráðstöfun.
Þá gáfust kotbændur upp en hófu nýja baráttu. Fyrst þeir fengju ekkert í sinn vasa skyldi enginn fá neitt. Þannig var stefnunni kúvent og nú hófst mikill málarekstur fyrir Héraðsdómi fyrst og síðan Hæstarétti. Á báðum dómstigum töpuðu kotbændur. Þá var stefnt fyrir Mannréttindadómstólinn þar sem þeir höfði sigur. Ekki að skatturinn væri ólöglegur heldur að eitt hagsmunafélag, Samtök iðnaðarins, fengi hann til umráða og ráðstafaði honum. Ef þessum skatti sem var ráðstafað til eflingar iðnaði í landinu, fyrst og fremst til menntunar og í önnur mikilvæg málefni iðnaðar, og það hefði verið óháður aðili sem hefði stýrt því hefði gjaldið ekki verið dæmt stangast á við mannréttindi.
Það er skaði fyrir allan iðnað á Íslandi að þessi skattstofn og tekjustofn fyrir menntun og þróun iðnaðar skuli þar með verða afnuminn. Mér finnst rétt að sagan komi fram eins og hún er rétt, þeir sem þarna unnu að málum eru ekki réttlætismenn sem höfðu sigur heldur litlir kallar sem af öfundsýki og lítilmennsku börðust fyrir því að skaða íslenskan iðnað og höfðu sigur, því miður.
En það eru fjölmörg önnur samtök á Íslandi sem eru í sömu stöðu og má þar nefna Bændasamtökin og Félag smábátaeigenda. Þess vegna er ég undrandi á því sem Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir (sé það rétt eftir haft) að þó Iðnaðarmálagjaldið verði afnumið verði ekki hreyft við annarri skattheimtu á ýmsar atvinnugreinar þar sem skattheimtan rennur til hagsmunasamtaka.
Nú er um tvennt að velja fyrir stjórnvöld:
1. Afnema iðnaðarmálagjaldið og öll önnur hliðstæð gjöld sem í gildi eru hérlendis.
2. Láta öll þessi gjöld standa en færa þau til óháðra aðila sem ráðstafi þeim til eflingar viðkomandi atvinnugrein. Óháðu aðilarnir gætu einfaldlega verið stjórnir sjóða sem myndast af gjaldinu, þessar stjórnir gætu verið skipaðar af ráðherra þó með tilnefningum að hluta frá helstu hagsmunaaðilum. Þetta yrði ekki ólíkt og stjórnir lífeyrissjóða sem vissulega eru ekki góðar fyrirmyndir.
Eitt er víst; við getum ekki hundsað dóm Mannréttindadómstólsins. En við getum samt með breytingum látið þessa gjaldtöku standa. Það er þörf fyrir hana og þetta gjald hefur á undanförnum árum staðið undir kostnaði við mörg framfaramál iðnaðarins. En það eru samtök hér á landi sem beinlínis líta á þetta gjald sem félagsgjald sinna samtaka og það getur ekki staðist. Ég fullyrði að svo er ekki raunin með Iðnaðarmálagjaldið en íslenskur iðnaður má ekki missa þann slagkraft góðra verka sem þetta gjald stendur undir.
Ég vona að "kotbændurnir" hjá húsasmíðameisturum, dúkagningameisturum og pípulagningameisturum verðir ekki hafnir til skýjanna með geislabaug réttlætis um höfuðið. Þeirra gjörð var í upphafi að skara eld að sinni köku en þegar það tókst ekki var kúvent; fyrst þeir fengju ekkert skyldi enginn fá neitt.
Bloggfærslur 29. apríl 2010
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (16.8.): 0
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar