Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar?

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins er lokið. Á fundinum bar hæst sú fáránlega tillaga, sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að sagt er, að Ísland dragi umsókn sína um inngöngu í  Evrópusambandið til baka.

Satt best að segja hafði ég það mikið álit á Sjálfstæðisflokknum að mér datt ekki í hug að svo heimskuleg tillaga yrði samþykkt á landsfundi flokksins. En það er líklega enn einu sinni að sannast það sem Hannes Hólmstein sagði "sjálfstæðismenn eru ekkert að hugsa um pólitík, þeir vinna á daginn og grilla á kvöldin".

Ömurlegast er þetta fyrir formann flokksins Bjarna Benediktsson sem var gerður afturreka með hófsamari tillögu "að leggja aðildarumsóknina á hilluna í bili". Þetta afhjúpar tvennt rækilega. Mikill meirihluti landsfundarfulltrúa setur sig ekki á nokkurn hátt inn í mál sem fyrir fundinum liggja, núverandi formaður Bjarni Benediktsson hefur mjög takmörkuð áhrif og völd. Í sjónvarpsfréttum frá landsfundinum brá fyrir gamalkunnu andliti Davíðs Oddssonar sem gekk glaðbeittur milli borða og heilsaði fólki kampakátur. 

Þarna fór sá maður sem öllu ræður í Sjálfstæðisflokknum í dag, hann leggur allar línur og það er eins gott fyrir Bjarna Benediktsson og hans meðstjórnendur að lúta vilja þess sterka, annars munu þeir hafa verra af. Svo virðist eins og megnið af landfundarfulltrúum hafi ekki skilið um hvað var kosið, flestir héldu að það væri verið að kjósa um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Því fór víðs fjarri. Aðildarviðræður eru til þess að við fáum allir landsmen þau svör sem við verðum að fá til að hægt sé að ljúka þessu máli. Aðildarviðræðurnar leiða í ljós hvaða kosti það hefur fyrir Ísland að ganga í ESB og ekki síður; hvaða fórnir við verðum að færa séu þær einhverjar. Þá fyrst getur þjóðin svarða þeirri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við göngum í ESB eða ekki. Ég er hlynntur inngöngu en get engan vegin sagt til um það nú hvort ég munu greiða atkvæði með inngöngu eða hafna. Það get ég ekki fyrr en svörin liggja á borðinu.

Hvers vegna vilja ýmis sterk öfl í þjóðfélaginu allt til vinna til að koma í veg fyrir áframhaldandi aðildarviðræður?

Sterkustu öflin eru Bændasamtökin og Landsamband íslenskra útvegsmanna að ógleymdum ritstjóra Morgunblaðsins Davíð Oddssyni, og þar með því málgagninu sem hann stýrir, Morgunblaðinu. Það er ekki óeðlilegt að ritstjóri ráði mestu um stefnu þess blaðs sem hann stýrir en það háskalega er að enn þann dag í dag ræður Davíð Oddsson ekki aðeins Morgunblaðinu, hann ræður einnig öllu í einum  stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum. Kjörnir stjórnarmenn flokksins, ekki síst formaðurinn Bjarni Benediktsson formaður eru ekki annað en strengjabrúður í höndum Davíðs Oddssonar og það er enginn í augsýn sem  ógnar hans veldi. Sjálfstæðismenn svo sem Þorsteinn Pálsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Benedikt Jóhannesson og margir fleiri skoðanabræður þeirra fengu viðvörun á landsfundinum. Gegn þeim er spjótinu beint þegar formaður flokksins var gerður afturreka með sína tillögu um aðildarviðræðurnar  að skipan úr Hádegismóum, þannig samþykkt að aðildarviðræður skyldu stöðvaðar skilyrðislaust.

En ég hef ekki svarað því enn hvers vegna þessu sterku afturhaldsöfl sem ég að framan nefndi leggja höfuðáherslu á að stöðva aðildarviðræður?

Það er augljóst mál hver ástæðan er. Það er óttinn við hvaða árangri við náum í aðildarviðræðum það er óttinn við það að þar muni komi í ljós að kostirnir séu yfirgnæfandi af inngöngu, ókostirnir sáralitlir. Það kann að koma í ljós að okkur standi til boða að ráða áfram alfarið yfir fiskinum í sjónum og landhelginni og að sjálfsögðu; óskert yfirráð yfir öllum auðlindum til lands og sjávarbotns eins og öll aðildarríki ESB hafa haldið við inngöngu.

Þessi svör mega ekki sjá dagsins ljós að áliti fyrrnefndra afturhaldafla; reyndar gleymdi ég þar að nefna afturhaldið í Vinstri grænum undir forystu Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða.

 


Bloggfærslur 29. júní 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband