Björk er stórkostlegur listamaður en skilningsvana aftuhaldssinni í þjóðmálum

Björk Guðmundsdóttir hefur stofnað til átaks til að berja í gegn að kaup Kanadamannsins á Magma Energi á Suðurnesjum verið ógilt og þá líklega á þann hátt að Ríkið yfirtaki kaupin, eða er ekki svo?. Ekki veit ég hvaðan okkar févana ríkissjóður á að fá peninga til að snara út fyrir Magma Energi eða er einhver ástæða til að ógilda þessi kaup? Ég held að Björk og hennar meðreiðarsinnar ættu í fyrsta lagi að lesa það sem dr. Jón Ágúst Þorsteinsson forstjóri Marorku segir í Fréttablaðinu í gær og það sem Magnús Orri Schram alþingismaður segir í Fréttablaðinu í dag. Báðir benda á dökkar hliðar þess að rifta samningum við Magma Energi þar sem það hefði hrikalegar afleiðingar og mundu svipta okkur trausti á erlendum vettvangi, trausti sem við þurfum svo sárlega á að halda nú.

Ég held að það sé engin stórhætta á ferðum þó Kanadamaðurinn hafi eignast Magma Energi, tel jafnvel að það tryggi góðan rekstur fyrirtækisins og örugga afbendinu orku á ekki verri kjörum en hingað til fyrir Suðurnesjamenn. Þarna er um að ræða lítinn hluta af orkuframleiðslu þjóðarinnar og sú bábilja virðist hafa komist inn í mörg höfuð að þarna séum við að fórna auðlind en því fer víðs fjarri. Þarna fær fyrirtæki einkarétt á að framleiða orku í 65 ár og það er nákvæmlega það sama og Landvirkjun fær rétt til: að nýta okkar sameiginlegu orkuauðlindir í fallvötnunum, Orkuveita Reykjavíkur fær sama rétt á Hengilsvæðinu. 

Gægist ekki þarna fram þessi gamla óvild og ótti við útlendinga? 

Björk hefur ekkert sagt um hrikalegasta ránið á auðlindum okkar þjóðar, það virðist ekki hafa haldið vöku fyrir henni að fiskimiðin og fiskurinn í sjónum er ekki lengur í eigu þjóðarinnar heldur í eigu klíku sem nefnist Landsamband íslenskra útvegsmanna. Aldrei hefur annað eins skemmdarverk verið unnið á eigum þjóðarinnar eins og þegar örfáum mönnum, eða fjölskyldum, var afhent þessi auðlind endurgjaldslaust. 

Björk, ertu efins um að ég fari með rétt mál?

Er það ekki rétt að allur fiskur úr sjó er veiddur af þeim sem eiga hann, þeir eru búnir að bókfæra þessi réttindi sem sína eign, þeir selja hann hver öðrum, leigja  hver öðrum og kaupa  hverjir af öðrum. 

Og hvað koma útlendingar að þessu? Eru þetta ekki allt Íslendingar, það er nú eitthvað annað ef okkar eigin þjóðbræður hirða af okkur auðlindirnar. En það er ekki svo vel. Íslenskur sjávarútvegur er skuldum hlaðinn vegna þess að þegar einhver hættir í greininni selur hann öðrum sem eiga skip og gera út "réttinn" fyrir fúlgur fjár og festa það fé i allt öðrum greinum eða eyða þessum peningum í lúxuslíf í með öðrum landeyðum á sólarströndum.

Já, en hvað með útlendinga, er þetta ekki alt í lagi meðan aðeins Íslendingar hirða af þjóðinni auðlindir hafsins? En svo er aldeilis ekki. Flestir útgerðarmenn eru búnir að veðsetja þessa sameign þjóðarinnar upp í topp, ekki aðeins hérlendis heldur einnig í útlendum bönkum og lánastofnunum. Hvað gerist ef illa fer í rekstrinum, fara þá ekki auðlindir hafsins beint til útlendinga, til útlendra banka?

Björk, þú ætlar að bjarga okkur frá Kanadamanninum sem kom með vel þegna fjármuni inn í íslenskt efnahagslíf og ætlar að framleiða orku á Suðurnesjum í 65 ár landi  þjóðinni  til hagsældar. Hann eignast enga íslenska auðlind með því, ekki tekur hann hana með sér að nýtingartíma liðnum. Þú hugsar ekkert um það hvað skaða það mundi hafa í för með sér að rifta samningunum um Magma Energi. Og þú hefur líklega aldrei leitt hugann að því botnlausa sukki sem átt hefur sér stað með auðlindir hafsins.

Hvað var að gerast í Sjávarútvegsráðuneytinu í gær?

Þar mætti öll útgerðarmafía , allt forystulið Landsambands íslenskra útvegsmanna og vel það.

Hver var ástæðan?

Að Jón Bjarnason sjávarútvegsráðherra gaf veiðar á úthafsrækju frjálsar. Það var verið að taka spón úr aski þeirrar klíku sem í dag telja sig eiga allan fisk í íslenskri landhelgi og utan eins og sjá má. Þetta gæti kostað það að einhverjir utan klíkunnar færu að veiða úthafsrækju.

Og það verður að koma í veg fyrir það með öllum ráðum, þetta minnir svolítið á vissa athafnamann sem áttu ákveðin hverfi í stórborgum Bandaríkjanna og Ítalíu, einkarétt þar að eigin áliti til "athafna".

Björg, ég hef alltaf haldið upp á þig allar götur frá því þú varst að sniglast með mömmu þinni barn að aldri hjá Leikfélagi Kópavogs forðum daga. En umfram allt; hugsaðu og kynntu þér mál áður en þú talar og grípur til aðgerða. 


Bloggfærslur 20. júlí 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband