Borða geitur með hníf og gaffli?

Það var ágætt viðtal við fróða konu um geitur í Ríkisútvarpinu í morgun. En því miður féll konan í þan fúla málfarspytt að tala um að skepnur borði.

Orðið að "éta" var lengi ráðandi í íslensku máli en svo fannst einhverjum það ekki nógu virðulegt orð og þá varð til orðið að "borða". Hún er dregin af borðinu sem setið er við þegar menn éta. Hins vegar lifir þetta góða gamla orð góðu lífi í norrænum málum, enn tala Svíar um að "eta" mat og skammast sín ekki fyrir.

Ég get engan veginn fellt mig við að nota orðið að "borða" um þann verknað þegar dýr éta. Pempíuhátturinn sækir á, afar sjaldan er umræða um æti fiska eða fugla, það er auðvitað miklu virðulegra að tala um að fæðu dýra.


Það er samstaða um að auðlindir Íslands skuli vera í eigu þjóðarinar

Svo hefur ekki alltaf verið en baráttan um Gullfoss opnaði augu manna fyrir því  að ekki væri alltaf hægt að meta náttúruperlur einungis með peningalegum sjónarmiðum. Ýmsir gerðust talsmenn þessara sjónarmiða, m. a. sá umdeildi en sterki stjórnmálamaður Jónas frá Hriflu. Ekki má gleyma Sigríði í Brattholti og baráttu hennar fyrir fyrir verndun Gullfoss sem var í túnfæti hennar.

Þetta ættum við að hafa í huga í fárinu sem nú stendur um kaup Magma Energiy á meirihluta á HS-orku.

Það sem við verðum að gera er að muna að AUÐLIND er eitt en NÝTING hennar annað. Margir stjórnmálmenn gera sig seka um hreinar falsanir, rugla vísvitandi saman þessu tvennu. Verra er þó að fölmiðlar eru engu betri. Það er dapurlegt að fylgjast með Fréttastofu Ríkisútvarpsins taka þátt í þessum hráskinnaleik. Þessi fjölmiðill  átti löngum mitt traust en ímynd hans hefur laskast illilega. Eina ljósið þeim bæ var oft á tíðum gagnmerkar fréttaskýringar í "SPEGLINUM" sem var á dagskrá eftir kvöldfréttir, en til þessa þáttar hefur ekki heyrst í langan tíma.

En ég segi enn og aftur: Þeir sem hæst láta um eign Magma Energi í ORKUFYRIRTÆKINU HS-orku hafa ekki sagt orð um að örfáar fjölskyldur skuli hafa sölsað undir sig eina helstu AUÐLIND Íslands, fiskinn í sjónum og réttinn til að veiða hann.

Er í lagi að allt velti á því að þeir sem sölsa undir sig AUÐLINDIR séu Íslendingar, en að allt verði vitlaust ef útlendingar leggja fram fjármagn í ORKUFYRIRTÆKI?


Dapurlega framganga Árna Páls félagsmálaráðherra þegar hann skipar Runólf Ágústson sem umboðsmann skuldara

Það var (og er vonandi enn) yfirlýst stefna núverandi Ríkisstjórnar að gera allar stjórnarathafnir gagnsæjar, ekki síst við skipanir í embætti. Því dapurlegra er að sjá Árna Pál félagsmálaráðherra skipa Runólf Ágústsson flokksbróður okkar beggja í embætti umboðsmanns skuldara. Runólfur á skrautlegan feril að baki, vann eflaust  gott verk í byrjun sem skólameistari á Bifröst en hrökklaðist að lokum úr embætti vegna brests í siðferðilegum efnum sem og stjórnunarlegum. En Runólfur var ekki einn í heiminum, hann kom að þegar góss ameríska hersins á Keflavíkurflugvelli komst í hendur Íslendinga. En því miður stundaði hann fjármálbrask eins og hver annar útrásartortúlalubbi og skilur eftir sig skuldaslóð, skuldir sem aldrei verða greiddar.

Hverskonar dómgreindarleysi er það hjá Árna Páli félagsmálaráðherra að skipa Runólf Ágústsson sem umboðsmann skuldara? Ætlar Árni Páll að láta þessa skipun í embættið standa, eða getur hann e. t. v. ekki breytt neinu?

Blaðið DV hefur ekki það orð á sér að vera áreiðanlegasti fjölmiðill landsins en oft ratast kjöftugum satt á munn. DV fjallar um ráðningu Runólfs og kemst að þeirri réttu niðurstöðu að hún sé fyrir neðan allar hellur. 

Eru núverandi stjórnvöld að falla í hinn fúla pytt vinavæðingar, er það mikilvægara að vera flokksbróðir ráðherrans sem í stöðuna skipar heldur en að hafa flekklausan feril að baki?


Bloggfærslur 29. júlí 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband