Skora á þingmenn Samfylkingarinnar að fella tillöguna um að draga fyrrum ráðherra fyrir Landsdóm

Ég hef aldrei dregið dul á mínar pólitísku skoðanir og að ég er flokksbundinn, ég er í Samfylkingunni. Líklega munu margir vilja túlka afstöðu mína sem að ofan greinir sem ákall um að hlífa flokksfélögum mínum.

Það er alrangt, ég hef önnur rök fyrir minni afstöðu og skoðum þau rök sem ég legg fram.

Þegar Ríkisstjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, var mynduð um mitt ár 2007 var skaðinn  skeður, Hrunið var óumflýjanlegt, þannig höfðu samstjórnir Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins stjórnað þjóðarbúinu. Það var á ábyrgð þessara tveggja flokka að einkavæða bankana, að afhenda þá fjárglæframönnum sem ekkert kunni  í  bankastarfsemi og rændu síðan bankana innanfrá, lánuðu sjálfum sér himinháar fúlgur til að kaupa ýmis fyrirtæki á yfirverði og þurftu engar tryggingar að setja fyrir þeim lánum sem þeir pumpuðu út úr bönkunum. Þannig sýndu þeir betri stöðu bankanna og notuðu einkum "óefnislegar eignir" svo sem viðskiptavild til að hækka verðgildi þeirra. Andvirði þessar lána hurfu síðan og álítur Vilhjálmur Bjarnason, sem flestir þekkja, að hvorki meira né minna en 6.000 - 7.000 milljarðar hafi þannig verið sognir út úr bankakerfinu og þjóðarbúinu og séu faldir í skálkaskjólum víða um heim. Ekki má gleyma glæpastarfsemi Landsbankans í Hollandi og Bretlandi þar sem saklausir launamenn m. a. voru lokkaðir til að trúa bankanum fyrir sparifé sínu og það liggur í augum uppi að það stóð aldrei til að skila þessu fé til baka. Hvar liggja þessir fjármunir í dag? Án efa að stórum hluta í skálkaskjólum víða um heim og bíða þess að refirnir komst í forðann.

Þetta eru aðeins helstu ástæður Hrunsins mikla og þó tekið sé tillit til hinnar að alþjóðlegu bankakreppu hefði þetta skelfilega hrun aldrei orðið á Íslandi þó við hefðum engan veginn komist hjá einhverjum skellum vegna þeirra áhrifa.

En fyrir hvað á að ákæra fjóra fyrrum ráðherra úr Þingvallastjórninni? Eftir því sem mér skilst er það ekki síst fyrir vanrækslu þó það liggi í augum uppi að þessi Ríkisstjórn, sem tók við um mitt ár 2007, gat engan veginn komið í veg fyrir Hrunið. Sýndi stjórnin vanrækslu? Vissulega má leiða rök að því þó alltaf sé hægt að vara vitur eftirá. 

Á árinu 2007 var öll þjóðin meðvirk í bankabrjálæðinu eða mikill meirihluti hennar. Enginn hlustaði á örfár varnaðarraddir innanlands og því síður þær sem komu frá útlöndum, Danske bank var ekkert annað en nöldur öfundsjúkra Dana og þannig var öll gagnrýni afgreidd, við vorum nánast öll meðvirk. Á þessum tíma lét einn aðalhöfundur hrunsins, Davíð Oddsson fyrrum forsætisráðherra  og þá Seðlabankastjóri, nánast afnema bindiskyldu fjármagns hjá íslensku bönkum, álíka gjörð og að ausa bensíni á brennandi hús.

Gat Ríkistjórn Geirs Haarde, Þingvallastjórnin, gripið til einhverra ráðstafana til að koma í veg fyrir hluta af skaðanum?

Já það gat hún vissulega. Hún gat gengið fram og skýrt þjóðinni frá því að glæpaklíkur innan bankanna væru að steypa þjóðinni fram af fjárhagslegum hengiflugi, hún gat afhjúpað skelfilega óstjórn í Seðlabankanum sem leiddi til þess að hann varð gjaldþrota og upplýst um að við værum með handónýtt Fjármálaeftirlit.

Hverjar hefðu afleiðingarnar orðið?

Líklegt að þá hefðu Hrunið mikla orðið samstundis, þá hefði fjármálablaðran sprungið ári fyrr eða haustið 2007. Ekki vafi á að þá hefði skaðinn orðið mun minni fyrir þjóðarbúið en samt hefði hann orðið gífurlegur.

Hvernig hefði alþjóð brugðist við?

Ég tel allar líkur á því að Ríkistjórninni hefði verið kennt um, hún hefði með því aða upplýsa um ástandið, sem var þó staðreynd, fellt íslenski bankana og kallað yfir þjóðina skelfilegt hrun. Glæpamennirnir bönkunum hefðu fengið samúð, þessir lúðulakar sem almenningur leit á að væru "snillingar".

En hefði Ríkistjórn, sem var samstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks átt möguleika á að grípa til slíkra verka?

Nei, útilokað. Þarna sátu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þeir Geir Haarde og Árni Mattheisen, menn sem höfðu verið á kafi í því undir forystu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar að "einkavæða" bankana í orðsins fyllstu merkingu, afhenda þá Bjrögólfunum, Ólafi í Samskip og Finni Ingólfssyni og álíka kónum á spottprís og síðan að gera Davíð Oddsson að æðsta manni peningamála hjá þjóðinni, Seðlabankastjóra.

Hver eru þá afglöp ráðherra Samfylkingarinar?

Að reyna ekki að berja fram það ómögulega, að upplýsa þjóðina um ástandið sem aldrei hefði náðst fram í samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn. Hverra kosta átti Samfylkingin þá?

Að slíta stjórnarsamstarfinu, en þá hefði hún orðið að upplýsa um ástandið í banka- og fjármálum landsins með sömu afleiðingum og raktar voru að framan, Hrunið mikla hefði orðið haustið 2007 sem hefði þó sparað þjóðinni mikið tap.

Hverjum hefði verið kennt um Hrunið mikla? Að sjálfsögðu flokknum sem sleit Ríkisstjórninni og upplýstu um hið rétta ástand þjóðarbúsins, Samfylkingunni, gegn henni hefðu öll öfl snúist hvort sem það voru stjórnmálaöfl að ég ekki tali um bankaræningjanna sem með því hefðu líklega ekki getað hreinsað fjárhirslur bankanna endanlega.

En hversvegna er ég þá á móti að ráðherrar séu dregnir fyrir Landsdóm?

Þar til liggur fleira en ein átæða. Það eru aðeins ráðherrar úr Ríkisstjórn Geirs Haarde sem á að ákæra og vissulega eru ráðherrar úr Sjálfstæðsflokknum í þeirri Ríkistjórn Geir Haarde og  Árni Mattheisen sekir um að vera meðhöfundar að Hruninu mikla haustið 2008. En ég held að flestum sé misboðið hvernig staðið er að þessum ákærum þó eflaust sé þar farið að lögum. Að þeir sem þyngsta sökina bera af að hafa undirbyggt Hrunið, Davíð Oddson og Halldór Ásgrímsson, sitji á friðarstóli og að við þeim sé ekki blakað er eins og blaut tuska framan í hvern þjóðfélagsþegn. Það má heldur ekki gleyma þeim Finni Ingólfssyni og Valgerði Sverrisdóttur.

Þið, sem sátuð í þingnefndinni fyrir hönd Samfylkingarinnar, unnuð mjög margt ágætt í þeirri nefnd eins og nefndarmen allir, þið hafið unnið kappsamlega og margt sem frá nefndinni kom er vandað og orð í tíma töluð. En þið hafið látið draga ykkur inn í lævíst samsæri. Það hefur verið massífur áróður fyrir því undir forystu Morgunblaðsins, og allir vita hver ritstýrir því, að kom allri sök af Hruninu mikla á Þingavallastjórnina, í dag eru það aðeins veikar raddir eins og mín sem andæfa og rekja með rökum hverjir eru sekastir af því að Hrunið varð úr hópi stjórnmálamanna.

Ætla menn að það sé tilviljun að útgerðarauðvaldið hafi komist yfir Morgunblaðið og gert höfuðskúrk Hrunsins, Davíð Oddsson, að ritstjóra og einvaldi yfir. Með því vinnst svo margt, það er auðvelt að trylla þjóðina og leiða athyglina frá Davíð, Halldóri og þeirra líkum, það er hægt að ónýta endurbætur á fiskveiðikerfinu og þeir vona einnig að þeim takist að trylla þjóðina enn frekar og eyðileggja umsóknarferil Íslands að Evrópusambandinu.

Allt er þegar þrennt er, Íslands óhamingju virðist verða allt að vopni. 


Bloggfærslur 24. september 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband