Heita vatnið hækkar umtalsvert frá Orkuveitu Reykjavíkur, nú er lag að fara í endurbætur á hitakerfum

Fyrst skulum við gera okkur ljóst að þeir sem kaupa heitt vatn frá Orkuveitu Reykjavíkur (þar áður Hitaveitu Reykjavíkur) hafa í mörg ár keypt ódýrustu orku til húshitunar sem fáanleg er  sem fáanleg er hvarvetna á byggðu bóli. Heita vatnið hefur meira að segja ekkert hækkað síðustu ár og satt að segja hefur það ekki verið skynsamleg stefna hjá OR að láta ekki verðið á heita vatninu fylgja verðlagi.

En þetta lága orkuverð hefur haft einn leiðan fylgikvilla. Vegna hins lága verðs hafa húseigendur haft litinn áhuga á að endurnýja sín hitakerfi og stýritæki þeirra, allt í lagi þó vatnið renni til muna of heitt út í skólplagnir, allt í lagi þó hitinn í íbúðinni fari upp úr öllu valdi, þá bara að opna alla glugga og svalhurðir upp á gátt. En húseigendur skynja oft ekki að þetta viðhaldsleysi gerir hitakerfin léleg, hiti í húsum ójafn, hitaþægindin engan veginn eins og þau ættu að vera ef viðhald t. d. stýritækja hitakerfa væri í lagi. Svo er gott að muna þetta: Það er ekki verið að kaupa heitt vatn, það er verið að kaupa varma, um að gera að kreista sem flestar hitagráður úr vatninu.

Nú er lag

Endurnýjun stýritækja hitakerfa fylgir auðvitað talsverður kostnaður aðallega vegna þess að það útheimtir talsverða vinnu fagmanna, fagmanna sem vita hvað þeir eru að gera og vita að þeir eiga ekki að fara frá verkinu fyrr en hitakerfið hefur verið stillt (því það þarf ekki síður að gera þó sett séu upp ný stýritæki)  og húseigandi fengið í hendur stuttar leiðbeiningar um hvernig hann á að nýta sér kosti nýrra stýritækja.

Eyðirðu of miklu af heitu vatni?

Það geta flestir húseigendur gert sér grein fyrir með því að fá frá OR upplýsingar um eigin eyðslu, svokallaða "álestrarsögu" hvers kerfis. Það eru til einfalt og gott dæmi um að hver og einn á að geta lesið út úr þeim gögnum hve mikið hann eyðir af heitu vatni, hvort það er eðlileg eyðsla eða bruðl sem kostar ennþá meira hér eftir en hingað til. Þetta er hægt að sjá á nýtingartölunni.

Hana er hægt að finna með einföldu dæmi sem byggist á hlutfallinu milli stærðar hússins í rúmmetrum  og hvað margir rúmmetrar af heitu vatni hafa verið keyptir á 1 ári. Segjum að hús sé 500 rúmmetrar að stærð og hafi keypt 500 rúmmetra af heitu vatni frá OR á ári. Þá er nýtingartalan 1. Slík hitakerfi og hús eru finnanleg en þau eru líklega ekki mörg, lengra verður tæpleg komist í nýtingu á keyptu heitu vatni. Annað dæmi: húsið er jafnstórt eða 500 rúmmetrar  en kaupir og notar 1000 rúmmetra af heitu vatni á ári. Þá er nýtingartalan 2 og þá geturðu verið viss um að það er eitthvað að í hitakerfi hússins, þú eyðir of miklu af heitu vatni.

En hvað er eðlileg notkun á heitu vatni í 500 rúmmetra húsi. Ekki ástæða til að hrökkva við þó notaðir séu 650 rúmmetrar af heitu vatni, þá er nýtingartalan 1,3. En því hærri sem nýtingartalan verður er ennþá meiri ástæða til að fara að huga að lagfæringum sem í mörgum tilfellum þurfa ekki að vera svo kostnaðarsamar.

En það er þörf á sérfræðiþekkingu, það ættu allir að muna.


Vilborg G. Hansen hikar ekki við að fara með rangt mál varðandi viðræður Íslands við Evrópusambandið

Ég veit af fyrri reynslu að það er skörp sía hjá Vilborgu á athugasemdum, þó hefur hún birt athugasemd Sigurðar Grétarssonar þar sem hann leiðréttir rangfærslur hennar sem eru þær sömu og Jón Bjarnason ráðherra setti fram í forsíðuviðtali Morgunblaðsins; að við séum í aðlögunarferli í viðræðunum við ESB. Ég tek mér það bessaleyfi að afrita athugasemd nafna míns og líma hana hér inn. Þetta eru orð í tíma töluð:

Þetta er rangt hjá þér. Hér er aðeins verið að greina hvað þarf að gera til að íslensk stjórnsýsla standist ESB reglur auk þess að gera tímasetta áætlun um  það hvernig henni skuli hrint í framkvæmd fari svo að aðild verði samþykkt. Ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þá verður áætluninni ekki hrint í framkvæmd. Þetta kemur meðal annars skýrt fram í viðtali Kastljóss þann 1. semptember við Stefán Hauk Jóhannesson aðalsamningamann Íslands í samningunum við Evróusambandið. Viðtalið má sjá hér:

http://dagskra.ruv.is/sjonvarpid/4544920/2010/09/01/0/

Í þessu viðtali kemur skýrt fram að samningaferlið og aðlögunarferlið eru sitthvort ferlið. Aðlögunarferlið hefst eftir að búið er að samþykkja aðild Íslands að ESB og getur tekið allt að tvö ár. Það er fyrst eftir að því er lokið, sem við göngum formlega í ESB. Þetta ferli feri hins vegar ekki í gang ef aðild verður ekki samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það að þjóðaratkvæðagreiðslan verði ekki formlega bindandi gefur okkur ekkert tilefni til að óttast að við göngum samt inn í ESB þó aðild verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Í fyrsta lagi þá er mjög ólíklegt að ESB myndi vilj okkur inn ef aðild er hafnað í þjóðaratkvæðagreiðsl og í öðru lagi þá munu væntanlega flokkar með það kosningaloforð að segja okkur aftur úr ESB sigra í næstu þingkosningum þar á eftir ef ESB hefði geð í að taka okkur inn gegn vilja meirihluta þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því fengi ESB einfaldlega úrsögn frá okkur eftir næstu þingkosningar.

 


Athugasemd til Tryggva Gíslasonar sem er færi inn í mitt blogg

Tryggvi, þú ert einn af þeim mönnum sem ég hef fylgst með á minni löngu ævi, allar götur frá því þú varst fréttamaður á góðu gömlu gufunni og alltaf haft dágott álit á þér.

Að ofan kemur þú inn á eitt mikilvægasta hlutverk þeirra sem hafa verið kjörnir til trúnaðarstarfa á Alþingi. Ég veit, og það vitum við öll, að Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir tók við skelfilegasta búi sem nokkur Ríkisstjórn Íslands hefur fengið til úrlausnar. Þessi Ríkisstjórn hefur unnið þrekvirki en eflaust orðið oft á og ekki ráðið við öll verkefnin. Ég ber ómælda virðingu fyrir þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni, það eru þau tvö sem með órofa samstöðu  eru að draga okkur upp úr feni hrunsins. Mér finnst grátlegt að heyra og sjá stjórnarandstöðuna á þingi, þar er engin jákvæð rödd til, aðeins gamaldagsnöldur eins og best þótti á Hriflutímanum. Þó ég taki þannig til orða er ég þar engan veginn að vega að einum framsæknasta stjórnmálamanni Íslands fyrr og síðar, Jónasi frá Hriflu.

En stjórnarandstaðan á Alþingi er sífrandi hjörð vælukjóa sem halda að það eitt sé pólitík minnihlutans að vera sífellt á móti. Þeir eru vissulega samtaka þar Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð formaður Framsóknarflokksins og Þór Saari talsmaður Hreyfingarinnar sem öllu ætlaði að breyta, allt ætlaði að bæta. 

Af hverju hefur Framsóknarflokkurinn ekki bætt við sig nokkru fylgi í skoðanakönnunum?

Af því að maðurinn sem áttu mesta möguleika í íslenskri pólitík til að hefja sig yfir dægurþrasið og gefa íslenskri pólitík nýjan tón, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sökk á kaf í þraspyttinn og lítilmennskuna, hann eyðilagði gjörsamlega möguleika Framsóknarflokksins til að verða endurnýjað afl í íslenskri pólitík og byggja aftur á samvinnuhugsjóninni sem á tvímælalaust að endurreisa á Íslandi. En arftaki Jónasar, Hermanns, Eysteins og Steingríms  kaus í þess stað að verða frosinn þrasbelgur sem hefur ekki bætt neinu við fylgi þess flokks sem kaus hann sinn foringja.

Sjálfstæðisflokkurinn er á algjöru valdi manns sem var eitt sinn glæstur foringi, Davíð Oddsson. Veikindi hans eru staðreynd, hann skilur ekki sinn vitjunartíma og þeir sem gerðu hann að ritstjóra Morgunblaðsins eru óhappamenn Íslands. Landfundur Sjálfstæðisflokksins sat skellihlæjandi undir ömurlegri ræðu Davíðs Oddssonar þegar bæði fyrrum fylgismenn hans og andstæðingar fylgdust með og hugsuðu það sama; hann átti skilið betra en að gera sjálfan sig að trúði

 Og þessi sami landsfundur kaus aftur drenginn úr Garðabæ með silfurskeiðina í munninum sem formann sinn, drenginn sem í dag þorir ekki að kvaka eitt orð nema fá til þess leyfi frá Hádegismóum. Þetta er flokkurinn sem hafði ekki vit á því að kjósa sem foringja sinn þrautreyndan mann til sjós og lands, Kristján Þór Júlíusson fyrrum bæjarstóra og sjómann. Mann með þá reynslu sem er mikilvæg fyrir þann sem tekur að sér forystuhlutverk í íslenskri pólitík.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum á það fámenna lið sem telur sig til Hreyfingarinnar, Þetta ruglulið sem ætlaði öllu að bjarga en eru í dag ekkert annað en innantómir þrasbelgir sem koma ekki fram með eitt einasta jákvætt kvak.

En hvers vegna er ég að harma það að flokkar, sem ég fylgi ekki, hafa  verið svo seinheppnir í að velja sér lélega forystu? Ætti ég ekki að vera ánægður með það að dusilmenni séu í forystu í mínum andstöðuflokkum?

Nei, svo langt frá því. Við þurfum öll á því að halda að hinir víðsýnustu og hæfustu séu í forystu í öllu þeim öflum og flokkum sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er höfuðnauðsyn til að við getum myndað öfluga Ríkisstjórn til að takast á við þau vandamál sem þjóðin glímir við. 

Hinsvegar er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá; mér finnst vandamál íslensku þjóðarinnar i dag ekki vera nema stormur í vatnsglasi miðað við hvaða erfiðleika var við glíma fyrr á árum.

Tryggvi, þetta átti aðeins að vera stutt athugasemd en orðið nokkuð lengri en ég ætlaði. Taktu það ekki illa upp þó ég afriti hana og lími inn í eigið blogg. 


Bloggfærslur 4. september 2010

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband