Landkrabbi svarar útgerðarmanni

Útgerðarmenn þessa lands hafa stimplað sig inn sem eitthvert rammasta afturhald sem uppi hefur verið á landi hér og er þá mikið sagt. Ármann Einarsson útgerðarmaður hér í Þorlákshöfn eys úr skálum reiði sinnar í Bæjarlífi. 2. tbl. þessa árs. Eins og sönnum útgerðarmanni sæmir telur hann núverandi Ríkisstjórn orsök alls hins illa. Þessi sanntrúaði Sjálfstæðismaður lokar augunum fyrir því að það var hans flokkur sem leiddi landstjórnina í 18 ár, það var sá flokkur sem gaf völdum fjárglæframönnum ríkisbankana sem keyrðu sig í þrot á haustdögum árið 2008, og það voru forystumenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem innleiddu allt svínaríið og braskið með frjálsu framsali fiskveiðikvótans. Ármann telur sér sæma að kalla fjármálaráðherra “vitleysing”. Það er öruggt að ekki minnkar Steingrímur við þá nafngift og eins öruggt að ekki verður Ármann hærri í loftinu.

 

 

Fyrningarleiðin, leiðrétting á stuldi aldarinnar

Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um fyrningarleiðina, að þjóðin innkalli sína eign, fiskveiðikvótann, úr klóm útgerðarmanna á 20 árum. Ekki eitt orð af viti hefur komið frá útgerðarmönnum um þetta mál. Stöðugar upphrópanir um að þetta setji alla útgerð og fiskvinnslu á hausinn, aldrei nein rök. Kvótakerfið var upphaflega sett til að við veiddum þann takmarkaða afla, sem við töldum óhætt að veiða, á sem hagkvæmastan hátt. Um það er hægt að hafa mörg orð en segjum að það hafi verið rétt og nauðsynlegt. Óumdeilt var þá að það var þjóðin sem átti fiskinn í sjónum, hlutur minn og hlutur Ármanns voru nákvæmlega jafnstórir.

Útgerðarmönnum var úthlutaður kvóti samkvæmt veiðireynslu, fyrir þessi réttindi þurftu útgerðarmenn ekkert að borga, þeir fengu þessi réttindi á silfurfati.

En Adam var ekki lengi í Paradís. Sú ólukkuríkisstjórn, sem hafði Davíð Oddssson og Halldór Ásgrímsson sem foringja, lét undan gífurlegum þrýstingi útgerðarmanna og veitti þeim “eignarhald” á því sem þjóðin átti öll. Ef útgerðarmenn sjá kjarna málsins ættu þeir að skilja að þar var þeim réttur baneitraður bikar, en þeir voru svo grunnhyggnir að þeir héldu að þeir væru að detta í lukkupottinn með því að fá í sínar hendur annarra eign til að braska með, til að eiga, til að leigja, til að kaupa, til að selja.

En nú eru blikur á lofti, núverandi ríkisstjórn ætlar á tuttugu árum að afhenda réttum eigendun, þjóðinni, kvótann. En hvað heyrist þá úr hinum rammafturhaldsama kór útgerðarmanna sem ekki má heyra minnst á nokkrar breytingar; ríkisstjórnin er að gera öll útgerðarfyrirtæki á Íslandi gjaldþrota með því að fyrna kvótann á 20 árum.

Ég spyr sem landkrabbi; hvernig getur þessi litla breyting á afturkölluðum kvóta haft svo geigvænleg áhrif? Ekki hefur þetta minnstu áhrif á lausafjárstöðu fyrirtækjanna þetta hefur engin fjárútlát í för með sér. Mér finnst jafnvel koma til greina að vel rekin útgerðarfyrirtæki fái að nýta áfram þennan kvóta, fái hann til afnota frá réttum eigendum, mér finnst jafnvel koma til greina að þeir þurfi ekki að greiða afgjald fyrstu fimm árin.

 

 

Hvað er þá að gerast?

Ætli við ættum ekki að líta á efnahagsreikning útgerðarfyrirtækjanna? Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að bókfæra þessa almannaeign sem einkaeign fyrirtækisins. Það væri ekki úr vegi að líta í veðbækur. Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að veðsetja þessa almannaeign upp í topp. Ekki aðeins hér á landi heldur einnig hjá útlendum lánastofnunum, stofnunum sem samkvæmt íslenskum lögum mega ekki eignast fiskveiðikvóta í íslenskri landhelgi en taka hann samt sem góð og gild veð.

Er ég þarna farinn að nálgast tárakirtlana sem svo óspart eru knúðir hjá langflestum útgerðarmönnum?

Ég sagði hér að framan að með því að þiggja það lögbrot, sem þeir Davíð og Halldór réttu fram, hafi útgerðarmenn bergt á beiskum eiturbikar. Með því að samfélagið hefði áfram átt kvótann og úthlutað honum til vel rekinna fyrirtækja stæði íslenskur sjávarútvegur mun  betur en raunin er í dag. Þá hefði ekki orðið til hið gerspillta brask með kvóta til fiskveiða. Fyrir skömmu heyrði ég frá skilvirkum mönnum í útgerð að 90% af kvóta útgerðarfyrirtækja væri keyptur og hefði jafnvel skipt um hendur margoft. Má ég spyrja; hvar voru þeir peningar teknir sem fóru í kvótakaup? Voru þeir ekki teknir úr íslenskum sjávarútvegi? Ef laust fé var ekki til í fyrirtækjum voru þá ekki slegin lán og oft á tíðum kvótinnn settur sem trygging víðs vegar um heim? Hvað varð um allt þetta fé sem flæddi út úr íslenskum sjávarútvegi?

Því er fljótsvarað. Það fór til ýmissa spekúlanta sem þarna sáu sé leik á borði; hætta þessu amstri og fá fúlgur fjár fyrir gæði sem þeir áttu ekkert í. Hvað skyldu margir slíkir, sem búnir eru að mergsjúga íslenskan sjavarútveg á liðnum árum, sitja í glæsihöllum í London eða sleikja sólina í Karabíska hafinu? Hvernig fór með það gamla góða fyrirtæki Alla ríka á Eskifirði, Eskju. Eru ekki afæturnar einmitt að drekka út andviðri þess eða sólunda því í spilavítum? Samherji á Akureyri var stofnaður af þremur hörkuduglegum fjölskyldum. En svo vildi einn máttarstólpinn fara að lifa hinu ljúfa lífi, hætta í slorinu. Það virtist ekkert mál fyrir Samherja að snara út verðgildi eins þriðja af fyrirtækinu. Það hefði líklega kveðið við annan tón ef þetta hefði verið 5% af kvótanum sem þó hefði ekki kostað fyrirtækið krónu að láta af hendi og fá jafnvel að nýta áfram.

En þá hefði líklega komið ramakveinið, helvítis vinstrimennirnir eru að gera

okkur gjaldþrota!

 

Arðsamasta skipið í Vestmannaeyjum

Fyrir nokkrum árum heimsótti ég vin minn ágætan í Vestmannaeyjum. Hann ók mér vítt og breytt um þessar fögru eyjar og auðvitað fórun við meðfram höfninni. Hann benti mér á skip eitt í höfninni, líklega togari af minni gerðinni og sagði:

“Þetta er arðsamasta skipið í okkar flota, en hefur þó ekki verið leyst frá bryggju í nokkur ár”.

Þessi gáta var of flókin fyrir mig en lausnin var einföld. Eigandinn hætti að gera út skipið og lifði nú kónga- og letilífi á leigunni af kvótanum!

Því segi ég enn og aftur. Þið útgerðarmenn hafið aldrei sopið af eitraðri bikar en þegar þið supuð á framsalseitrinu úr hendi ykkar ástsælu ráðherra forðum daga.Þið væruð mun betur settir nú ef þið hefðuð hafnað honum og aldrei komist í þá botnlausu spillingu sem kvótaframsalið hefur leitt af sér. Hundruðir milljarða króna hefðu ekki streymt út úr íslenskum sjávarútvegi, væru þar sem orkugjafi fyrirtækjana. Ykkur mundi einnig líða mun betur í dag, ég er ekki í nokkrum vafa um að þið hafið samvisku flestir.

Takið þátt í því að rekja ofan af þessu kvótasvínaríi, hættið að grenja eins og óstýrilátir krakkar og takið hraustlega á til að endureisa réttlætið, það er ykkur sjálfum fyrir bestu.

Að lokum; ef þú skyldir svara mér Ármann, sem ég býst tæplega við að þú leggir út í, þá ætlast ég til að þú talir af rökum og réttsýni, gefir tárakirtlunum frí.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Axel Jóhann Hallgrímsson

Góður pistill Sigurður.

Axel Jóhann Hallgrímsson, 8.3.2010 kl. 11:21

2 identicon

Heill og sæll; Lagnafrömuður góður !

Axel Jóhann !

Því miður; er þetta afleit grein, hjá Sigurði Grétari. Honum hefir oftlega; tekist betur til, í sínum skrifum.

Sigurður Grétar ! 

Hvorki þú; né þeir ágætu feðgar, Einar Sigurðsson, og Ármann sonur hans, eigið nokkra sök, á tilurð kvótakerfisins, á sínum tíma.

Auðvitað; átti kerfið, frá 1970 - 1975, að halda gildi sínu, óbreytt, enda líkari þeim sjávarháttum, hverjir tíðkast höfðu, allt frá Landnámi.

Mér þykir lakara; að þú skulir hnýta í Ármann, með þeim hætti, sem þú gerir hér að ofan, og ættir að biðja hann afsökunar, á því.

Auðvitað; átt þú ekki að þola tjón þitt bótalaust - fremur en útgerð feðg anna, og annarra, vítt um land, taki skriffinnarnir í ráðuneytinu suður í Reykjavík, að ráðskast með þennan málaflokk - einn ganginn enn.

Fyrir nú utan; að þeir feðgar eru ekki einungis athafna skáld - þeir eru einnig, og menningarvinir vísir, eins og þér mun kunnugt vera, ágæti drengur.

Með beztu kveðjum; úr Hveragerðis og Kotstrandar sóknum /

Óskar Helgi Helgason, fyrrv. Birgðavörður freðfiskjar, hjá Hraðfrystihúsi Stokkseyrar (1983 - 1991) - Sérhæfður fiskvinnzlumaður, (frá 1988), og kaupmaður ýmissa sérverkfæra (í málm greinum) - þessi misserin, þá; færi gefast, í þessu andskotans árferði.

Og er; þjóðfrelsissinni - yst; á hægri brún stjórnmálanna - fyrirlít þar með, íslenzkt gerfi- lýðræði.

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 11:55

3 identicon

Þakka þér fyrir þennann pistil Sigurður.Þetta er hverju orði sannara og á heima sem grein í fréttablaðinu,og ég skora á þig að senda hana þangað.Arðsamasti smábáturinn í bolungarvík var lengi vel leikfang leikskólabarna á staðnum,allavega var hann með kvóta.Hvernig væri nú að rannsaka útgerðarmafíu LÍÚ ofl þar hefur lengi verið sóðaskapur í þessum efnum

Björn Birgisson (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 11:56

4 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heill og sæll Óskar Helgi

Ég segi hvergi að þeir feðgar Einar og Ármann eigi "sök" á kvótakerfinu. Ég segi berum orðum að ég telji að það hafi verið ill nauðsyn að setja kvótann á. Við þurftum að draga úr veiði og fækka skipum.

Ég svara Ármanni mun kurteislegar en ýmislegt sem hann lætur frá sér fara í sinni grein, það var hún sem kveikjan að mínum pistli. Ég mun því ekki biðja Ármenn afsökunar á einu né neinu, hefði viljað að þú svaraðir mér með af meiri rökum en þú gerir. Þú segir að þessi grein mín sé afleit. Ég sé ekki að aðrir sem skrifa athugasemdir séu þér sammála. Ég held að ég lýsi vel ástandi og vandamalum íslensks sjávarútvegs eftir að hann sökk í skuldafenið sem hið frjálsa framsal kvótans orsakaði.

Sigurður Grétar Guðmundsson, 8.3.2010 kl. 12:21

5 identicon

Komið þið sælir, á ný !

Semja við Rússneska bræður okkar; nú þegar - um aukinn aðgang stærri skipanna, að Norður- Íshafi, Sigurður minn - og fjölga smærri bátum, við strendur landsins, ein; minna mörgu hugmynda.

Sigurður Grétar !

Mun fela; frændgarði mínum, niður í Höfn, að nálgast Bæjarlífið - svo skjótt, sem verða mætti, til sjálfsagðs yfirlestrar, að nokkru.

Stend enn; við órofa tiltrú mína, á þátt þeirra feðga, í uppbyggingu ykkar ágæta samfélags - sem ætti fremur; að vera titlað Höfuðstaður Suðurlands, en mont- og sjálfbirgings plássið Selfoss.

Svo mikið; er þó víst, ágæti drengur. 

Með góðum kveðjum - ekki; lakari, hinum fyrri /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 12:32

6 identicon

Fyrningarleidin er algerlega metnadarlaus.  Hrifsa á kvótann strax úr höndum kvótakónga.  Their stjórnmálamenn sem studludu ad og hafa vidhaldid kvótakerfinu eru glaepamenn sem eiga heima í fangelsi.  Skadabaetur eiga ad vera greiddar til thjódarinnar af thessum adiljum.  Kjósendur Skítseidisflokksins og Framsóknarspillingarinnar eiga ad fá ordid BJÁNI húdflúdrad í enni sitt.

Jóhannes í hvalnum (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 15:39

7 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Þetta er vandamál þjóðarinnar í hnotskurn.. LÍÚ. uppspretta hrunsins og allrar ógæfu þessa lands.. grínlaust.   Megi þeir fara á hausinn mín vegna því nýjar útgerðir , reknar af heiðarlegu fólki með það að markmiði að nýta aflann sér og þjóðinni til framdráttar munu fá sénsinn þegar þessar blóðsugur eru farnar til helv.. . 

Óskar Þorkelsson, 8.3.2010 kl. 16:47

8 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég renndi lauslega yfir þessa grein hans Ármanns og sá þar ekkert nýtt eða sem fangaði hugann. Get hinsvegar fullvissað Óskar um að hann Sigurður Grétar hefur ekkert sagt hér sem hann þyrfti að biðjast afsökunar á, aldeilis ekki. Ég á reyndar ekki von á því heldur að Ármann ætlist til þess, hann er ekki viðkvæmur fyrir rispum, eins og sjá má af greininni, umræddu.

En þessi pistill er ekki slæmt framlag landkrabba til þessarar umræðu. Mér finnst hann betra framlag til umræðunnar í dag en tilefnið.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 8.3.2010 kl. 19:56

9 identicon

Komið þið sælir; sem fyrr !

Hljótum; að þakka ábendingar, þeirra Björns - Jóhannesar í hvalnum og Nafna míns Þorkelssonar; þó svo, ég sé ekki sammála þeim, að öllu leyti.

Hafsteinn Viðar !

Vitaskuld; hlakkar mig, til lestrar greinar Ármanns, en miðað við minn Miðalda hraða, ætti ég að sjá hana, nokkru fyrir helgi; jafnvel.

Ármann; og þá feðga, þekki ég, að góðu einu - og Sigurðar Grétars sakna ég, af síðum Mbl. þá; hann úthrópaði sína fróðlegu, og oft; fjörlegu frásögu, þar; um árabil, þó ei hafi ég hitt Sigurð, að ég muni, persónulega, ennþá.

Með beztu kveðjum; enn og aftur /

Óskar Helgi Helgason 

 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 22:15

10 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það er örugglega enginn sem þekkir þá feðga af neinu nema dugnaði og góðu einu, Þetta mál hefur bara ekkert með það að gera Óskar. Sigurði fannst Ármann óþarflega  orðhvatur, það er auðvitað smekksatriði, en ég hygg nú að hann sé ekki einn um það. Ég var hinsvegar ekki sammála neinu í greininni, en það er líka önnur saga...

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 8.3.2010 kl. 22:51

11 identicon

Heilir; á ný !

Hafsteinn Viðar !

Þakka þér; fyrir þína eindrægni - sem og hreinskiptna framsetningu, að vanda.

Hlakka til; næstu kaffistundar, í Aulakaffi (Café au Lait) þeirra Einars Gísla, og Trausta, þá ég ætti leið um.

Löngu tímabært; að fara að hitta þá Olís menn, svo sem.

Með þeim sömu kveðjum; sem áður /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 8.3.2010 kl. 22:59

12 Smámynd: Kristinn Pétursson

Eins ömurlegt og það er - var það vinstri stjórn Seingríms Hermannssonar 1990 sem innleiddi endanlega fullkimið framsal aflaheimilda - eftir það varð ekki aftur snúið hvað það varðar....

Svo er það rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft það ömurlega hlutverk - að viðhalda þessu - án þess að laga alvarlega galla...

Nú er það svo aftur vinstri stjórn - sem er við völd - og ekki virðist mikið ætla að breytast - en það virðist töluvert gert til að reyna að laga - en ekkert gengur...

Orkan fer öll í þetta helvítis Icesave mál.... - sem má alveg bíða

Kristinn Pétursson, 9.3.2010 kl. 01:27

13 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Þetta er auðvitað réttnefnt "kvótakerfi Framsóknar og andskotans" Kristinn. En þessi óskapnaður sem hér er núna á nú kannski ekki svo mikið að gera með upphafið á þessu, sem ég man allt of vel, enda á kafi í þessu rugli uppí eyru, eins og þú sjálfsagt líka. Ég var nú meira á vettvangi kannski, inní Líú "elítunni", enda formaður í mínu útvegsmannafélagi til margra ára, akkúrat þarna, þegar Kristján var að hanna óskapnaðinn, ásamt togaramönnum. Svei því öllu saman. Nú VERÐUR bara að snúa frá þessu.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 9.3.2010 kl. 09:49

14 identicon

Ég sé að menn eru í miklu stuði hér J

Ég held að ég geti talað fyrir munn allra bæði útgerðamanna, landkrabba, bloggara og jafnvel kaffihúsaspekinga, að kvótakerfið er meingallað og langt frá því að vera fullkomið, og bendi jafnframt á að ég er sjálfur langt frá því að vera fullkominn.Finnst mér stundum eins og menn hreinlega viti ekki hvernig kvótakerfið er til komið,eða hreinlega búnir að gleyma því,  jú það er þannig komið til (svona einfaldað) að sjómenn hér áður veiddu eins mikinn fisk og þeir mögulega gátu, og ef veiðin var góð þá var öllu kaffært í landi fiskinum gjarnan sturtað á plönin fyrir utan fiskvinnslunnar, þarna erum við strax farin að gera okkur grein fyrir því að ekki var með þessu verið að fá hæðstu hugsanleg verð fyrir afurðirnar, fyrir utan að verið var að ganga á helstu auðlind sem okkur er afar mikilvæg.Þegar þarna var komið þá sáu menn að eitthvað varð að gera, það var þröngvað skerðingu á útgerðamenn (það er kvótinn), það voru jú þeir sem voru með allar skuldbindingarnar, því á þeim tíma voru verðmætin í skipunum og þeim búnaði sem þurfti til að sækja þetta gull úr greipum Ægis. Menn voru ekki parhrifnir af þessu það var engu að síður staðreynd, það var búið að setja kvóta á fiskveiðar. Þessir menn völdu sér þennan starfsvettvang og tóku þá áhættu sem því fylgdi á meðan aðrir lögðu fyrir sig annað, t.d. pípulagnir. útgerðamenn skiptust í hópa sumir afneituðu því að þetta væri framtíðin, aðrir fóru í að spila með kerfinu og ná fram hagræðingu enn aðrir sáu gróðavon þegar framsalið var orðin staðreynd og seldu allar sínar aflaheimildir, við getum verið sammála um það Hafsteinn að þessir menn sem seldu hafa ansi hátt og úthrópa kvótakerfið ;).Núna erum við búin að missa af þeim sem „seldu sig“ út úr kerfinu. Þeir sömu fóru einhverjir í krókakerfið og seldu líka aflaheimildir þar, og núna gætu þessir sömu menn verið að veiða við hliðina á þeim sem keyptu aflaheimildirnar (og eru með allar skuldbindingar), í skjóli strandveiðikerfisins og safna veiðireynslu. Við viljum réttlæti, afturköllum veiðiheimildir.... svo við getum sett veiðiheimildirnar í hendur þjóðarinnar. Ef ríkisstjórninni er einhver alvara með þessu af hverju í ósköpunum eru þeir að selja fyrirtæki sem þau hafa leyst til sín og þar með aflaheimildir, sem þeir ætla svo að taka til baka aftur, reyndar í áföngum því það er betra að deyja hægum dauðdaga, eins og þegar gálgafresturinn var svo snilldarlega settur á heimilin í landinu sem lentu í greiðsluerfiðleikum eftir hrunið. Svo finnst mér skrítið að fólk skuli segja að kvótakerfið sé orsök fyrir Bankahruninu... halló það voru bankarnir sem fóru á hausinn alveg einir og óstuddir. En þeir eru samt þrátt fyrir allt í lykilstöðu,  af hverju skyldi það vera????

Jón Haraldsson (IP-tala skráð) 9.3.2010 kl. 11:41

15 Smámynd: Árni Gunnarsson

Eru fiskimiðin ekki sú auðlegð sem hefur byggt upp búsetu í þessu landi ásamt með kvikfjárrækt? Hvers vegna settust ekki allir landnámsmenn að í Reykjavík? Eða er Reykjavík þá fiskimannaþorp eftir allt saman? Af hverju verður fiskur verðmætari við það að vera veiddur af einni útgerð en ekki annari? Spurt er vegna þess að því er haldið fram að mikilvægir markaðist tapist ef útgerð A sem seldi inn á markaðinn þurfti að greiða leigu til ríkisins fyrir veiðiheimildina.

Á ekki Jóakim Jóakimsson í Hnífsdal bara að kaupa réttinn til að framleiða pítsur og hamborgara og leigja Tomma réttinn til að selja hamborgara og Pizza Hut réttinn til að framleiða og selja pizzur?

Hvers konar helvítis bull er orðið að þungavigtarumræðu á Íslandi þegar fiskiskip setja met í verðmætaöflun með því að liggja bundin í höfn?

Auðvitað er það rétt að við hegðuðum okkur eins og skrælingjar í umgengni við fiskimið og hráefni. Meðferð á afla um borð í fiskiskipum stökkbreyttist ekki til hins betra með þessu andskotans kvótakerfi, það veit ég manna best því ég var matsmaður á ferkfisk. Meðferðin stökkbreyttist að vísu á svipuðum tíma en það var einfaldlega í beinum tengslum við fiskmarkaðina sem þá voru settir á fót. Þá borgaði sig ekki lengur að koma með skemmdan fisk því hann seldist ekki fyrir kostnaði.

Það er engin réttlætiskrafa með vísan til trilluútgerðar að Jón Jónsson ehf í Austursræti geti keypt 1000 trillubáta og gert þá út víðsvegar um land. Það er réttlætismál að Jónar Jónssynir víðs vegar um land geti keypt sér einn trillubát hver og skapað sér og fjölskyldu sinni lífsviðurværi. Það myndi ekki einu sinni setja neitt stórt útgerðarfyrirtæki á hausinn. Enda verður ekki séð að þessi stóru útgerðarfyrirtæki þurfi neina hjáp við að fara á hausinn.

Árni Gunnarsson, 9.3.2010 kl. 16:00

16 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Hér þarf engu við að bæta Árni, frekar en oft áður þegar þú tekur þig til. Allt sem sett yrði hér til viðbótar mundi bara ekki ná inn hjá þeim sem eru að fimbulfamba um þetta hér.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 9.3.2010 kl. 19:03

17 identicon

Hafsteinn þetta var reynt í Zimbabwe :)er ekki rétt að taka í framhaldinu, ræktunnarland og kvóta af bændum svona í áföngum? Menn fóru að hagræða og fiskmarkaðirnir voru hluti af því , , , þegar menn sáu að úr takmörkuðum afla var að spila, til að fá hærri verð. Ég er algjörlega sammála að það er fáránlegt þegar skip setja met í aflaverðmætum bundin við bryggju, það eru útgerðir sem eru að vinna heiðarlega og þær líða fyrir svona rugl, það er eins í öllum kerfum það er alltaf einhverjir sem misnota þau, það er ekki verið að verja, væri nær að taka aflaheimildir af þeim sem brjóta af sér. það er nóg til af pizzum og hamborgurum, reyndar alltof mikið, þannig að við þurfum ekkert að spá í það.

Jon Haraldsson (IP-tala skráð) 10.3.2010 kl. 09:00

18 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sæll nafni engu hefur enn verið "stolið".

Lögin segja að úthlutunin sé til eins árs og geti aldrei myndað varanlegan rétt.

 Ekki láta handhafa aflaheimilda stýra umræðunni.

Sjávarútvegsráðherra getur skipt um fiskveiðikerfi, hvorki meira né minna, 1. sept næstkomandi.

Tölum um innköllun aflaheimilda en ekki fyrningu.

Sigurður Þórðarson, 10.3.2010 kl. 10:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband