Nokkur orð til Ármanns Einarssonar útgerðarmanns í Auðbjörgu ehf. í Þorlákshöfn frá landkrabba
eftir Sigurð Grétar Guðmundsson
Ármann virðist taka það illa upp að ég bað hann, ef hann legði í að svara mér, að vera málefnalegur. Ég get ekki annað en birt málsgrein úr hugarheimi hans sem sýnir svolítið annað:
Sigurður Grétar talar eins og sönnum vinstrimanni sæmir sem vill að ríkið sé með puttana í allt og öllu eins og gafst svo vel í ráðstjórnarríkjunum gömlu. Hann vill líka fara að fordæmi Mugabe í Zimbabwe og gera eignaréttinn að engu með tilheyrandi upplausn í samfélaginu.
Ef Ármann veit það ekki þá er það skjalfest og þekkt um alla heimsbyggðina að stjórnarstefnan í Ráðstjórnarríkjunum var alla tíð glötuð enda hrundi þetta alræðisríki nánast til grunna á einni nóttu og sá hlýtur að vera rakalítill sem þarft að líkja mér við geðsjúkan þjóðarleiðtoga í Afríku sem er búinn að rústa blómlegasta landbúnaðarlandi í þeirri álfu.
Þetta kemur ekki við mig á nokkurn hátt en mikið er hægt að lúta lágt til að koma ímynduðu höggi á viðmælandann.
Orð sem eru gulls ígildi
En þá ætla ég að vitna orðrétt í grein Ármanns þar sem hann staðfestir í örfáum orðum það sem ég gagnrýndi í minni fyrri grein þegar hann segir:
Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni).
Ég þakka fyrir þessa hreinskilni sem er kannski óvart fram sett. Þarna er viðurkennt að þessi grein atvinnulífsins, sjávarútvegur, er ofurseld því að verða að kaupa menn út úr greininni og þá vil ég spyrja. Hve mikið er búið að blóðmjólka íslenskan sjávarútveg til þeirra sem eru að selja ykkur réttindi sem þeir eiga ekkert í og þið hefðuð aldrei þurft að kaupa?
Nú skulum við hverfa aftur til þess tíma þegar kvóti í sjávarútvegi var settur á af illri nauðsyn. Útgerðarmenn fengu úthlutaðan kvóta eftir veiðireynslu og þeir voru ekki rukkaðir um eina einustu krónu fyrir það. Ég er þeirrar skoðunar að á þeim tíma hafi verið rétt að setja kvóta á veiðarnar, það hafði fljótlega þau áhrif að fiskiskipum fækkaði og ég veit ekki betur en að hið illa ríkisvald hafi stuðlað að því með því að leggja til fjármagn til að úrelda skip. Förum síðan allt til dagsins í dag. Setjum svo að þannig hefði kvótakerfið verið alla tíð, hið skelfilega framsal, sala, kaup og leiga hefði aldrei komið til. Ég er þess fullviss að útgerðarfyrirtæki svo sem Auðbjörg ehf. hefði ekki minni kvóta í dag en raunin er. Stóri munurinn er sá að það fyrirtæki hefði aldrei þurft að kaupa kvóta, ekki heldur aðrir útgerðarmenn. Þeir sem hefðu farið út úr greininni hefðu einfaldlega hætt eins og í öllum öðrum greinum atvinnulífsins, þeir hefðu engar greiðslur fengið frá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, menn gátu jafnvel selt sín skip eða fengið opinbera aðstoð við að úrelda þau.
Ekki veit ég hve háar fjárhæðir hafa verið dregnar út úr íslenskum sjávarútvegi síðan frjálsa framsalið var sett á.
Er það rétt að þar sé um hundruðir milljarða að ræða? Væri ekki greinin betur sett ef þessir fjármunir væru í vel reknum útgerðarfyrirtækjum eins og Auðbjörgu og fleirum, í stað þess að verða að afhenda þá til einstaklinga, sem sumir hverjir fjárfesta skynsamlega í alls óskyldum atvinnurekstri, en aðrir hafa sannarlega lifað í lúxus meðan þið sem eftir eruð í greininni berjist fyrir tilveru ykkar.
Engin svör komu í grein Ármanns við nokkrum sláandi dæmum sem ég kom með í fyrri grein. Hvað um Eskju á Eskifirði, hvað um erfingja Alla ríka sem nú velta sér í allsnægtum í útlöndum, hvað um Vestmannaeyinginn sem lifir góðu lífi á því að eiga skip bundið við bryggju og leigja kvótann? Ef kvótinn hefði alla tíð verið í sama formi og upphaflega var hugsað hefði þessi útgerðarmaður einfaldlega orðið að skila kvótanum og einhver sem rak sitt útgerðarfyrirtæki vel hefði fengið hann.
Fyrirtækin keyrð í þrot?
Það er mikið til í því að ég hef takmarkað vit á sjávarútvegi. En ég skil fullkomlega hversu eitraður bikar frjálsa framsalið, kaupin, salan og leigan er fyrir ykkur sem viljið stunda fiskveiðar og vinnslu og gera það vel. Ykkur var afhentur þessi réttur, framsalið, og mér er slétt sama hvar þeir menn voru í pólitík og flokkum sem það gerðu, söm var þeirra gerðin. Þið gleyptuð við þessu og síðan hófst braskið og blóðugast af öllu er það sem ég hef vitnað til í þinni grein, ég ætla að birta þá tilvitnun aftur:
Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni).
Ég spurði í minni fyrri grein hvernig það gæti gert öll útgerðarfyrirtæki gjaldþrota ef kvótinn yrði innkallaður á tuttugu árum, svarið er einmitt í tilvitnuninni. Ég svaraði mér reyndar sjálfur. Útgerðarmenn eru búnir að slá eign sinni á kvótann. Þeir eru búnir að bókfæra sameiginlega eign allrar þjóðarinnar og það sem er alvarlegast af öllu; veðsetja hana hérlendis sem erlendis upp í topp.
Er þetta ekki rétt?
Kvótinn verður aftur sameign þjóðarinar
Það verður kvótinn á nákvæmlega sama hátt og fiskurinn í sjónum, útgerðarmenn eiga hann ekki fyrr en þeir hafa veitt hann og komið með hann að landi. Ég ætla að vona að þið losnið úr herkví íhaldshugsunarinnar og sjáið að það er búið að leiða íslenskan sjávarútveg í skelfilegar ógöngur. Þegar réttindi, sem öll þjóðin á, geta gert ykkur gjaldþrota með því einu að afturkalla 5% kvótans árlega þá er eitthvað rotið. Ykkur verður mjög líklega aftur afhentur þessi sami kvóti sem réttindi frá þjóðinni, það verður að veiða fiskinn, það höfum við gert alla tíð og sjávarútvegur verður enn um langan aldur ein af styrkustu stoðum þjóðarbúsins.
En þið eruð búnir að flækja ykkur í skelfilegt fjárhættuspil sem er kvótabraskið. Það verður að finna leið til að styrkja ykkur og aðstoða til að komast út úr því þegar kvótinn verður aftur gerður að þjóðareign.
Ármann er óánægður með að ég skuli kalla hann íhald. Í sjálfu sér er það ekkert skammaryrði í mínum huga, lýsir aðeins hugsunhætti ýmissa einstaklinga. Ég minni á að annar af forgönguflokkum Sjálfstæðisflokksins hét reyndar Íhaldsflokkur. Þeir sem fá nafnbótina íhald í dag eru einmitt þeir sem vilja engu breyta, sitja í sama stól, ganga sömu sporin og áður. Það viljð þið útgerðarmenn flestir gera, þó hef ég grun um að sumir hverjir í ykkar röðum séu farnir að efast um ágæti þvermóðskunnar og íhaldsstefnunnar í kvótasukkinu.
Væri ekki nær að koma að þessu máli með opinn huga og finna skynsamlegar lausnir. Er það ekki besta gjöfin sem þið getið gefið arftökum ykkar; að losa þá undan þeirri kvöð sem lýst er svo ágætlega í þinni grein, ég hef þá tilvitnun sem mín lokaorð:
Langstærsti hluti af skuldum sjávarútvegsins er til kominn vegna kvótakaupa (það er verið að kaupa aðila út úr greininni).
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Lífstíll, Trúmál og siðferði, Viðskipti og fjármál | Facebook
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sammála mjög þinni röksemdafærslu og útleggingum, Sigurður. Útgerðarmenn eru líka sumir hverjir farnir að vakna upp við vondan draum og sjá að sjávarútvegurinn er í blindgötu sem hann þarf að losna út úr.
Kveðja, LÁ
Lýður Árnason, 7.5.2010 kl. 03:10
Þakka fyrir hógværa og rétta lýsingu á þessu kvóta svínaríi.
Karl Jens (IP-tala skráð) 7.5.2010 kl. 16:29
Takk fyrir þessa færslu Sigurður, og mikið rétt, bara svona til að minna á að Halldór nokkur Blöndal og fleiri norðanmenn beittu sér fyrir því að skiptstjórar fengju líka veiðiheimildir, vegna þess að Samherji átti ekki næga veiðireinslu, það má ekki gleymast heldur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 9.5.2010 kl. 10:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.