Veggjöld eða ekki veggjöld?

Eru veggjöld ætíð af hinu illa? Svo mætti ætla ef tekið er mið af vanstilltum bloggurum eða samskonar greinarhöfundum í öðrum fjölmiðlum. Það virðist vera nokkuð sama hvaða róttækar tilögur koma fram; þá hefst mikið ramakvein hjá þeim sem alltaf eru fúlir á móti. Þar má benda á hugmyndir Árna Páls Árnasonar félagsmálaráðherra um að frysta laun opinberra stafsmanna næstu þrjú árin. Líklega er engin leið betri til að tryggja opinberum stafsmönnum störf áfram, en opinberir starfsmönnum fjölgaði gífurlega í bólutíðinni og er víst að fjölga ennþá. Tillögur Jóns Steinssonar um að hafa eina virðisaukaskattsprósentu á alla selda vöru og þjónustu fékk sömu móttökur hjá öskuröpunum, bakgrunnurinn ekkert skoðaður. Það er sérstakt að þeir sem hæst hafa látið og öskra stöðugt um að Ríkisstjórnin geri ekki neitt og heimta aðgerðir, umhverfast algjörlega ef fram koma róttækar tillögur sem vert er að skoða.

Ég hef hér að framan nefnt þrjár róttækar tillögur sem berja á niður strax í fæðingu án nokkurrar skoðunar. Það sem ég nefndi fyrst eru vegtollar, aðferð sem gæti hleypt miklu lífi í opinberar framkvæmdir, fjármögnun þeirra og mundi draga talsvert úr viðvarandi atvinnuleysi. Við skulum ekki gleyma því að slíkar framkvæmdir hafa mikil jákvæð áhrif, vegaframkvæmdir sem byggjast á að kostnaður verði endurgreiddur með vegatollum mun örva atvinnulífið umtalsvert vegna afleiddra starfa einnig.

Kristján Möller samgönguráðherra lýsti því nýlega í viðtali að það er hægt að innheimta vegagjöld rafrænt það er óþarfi að menn sitji í búrum og heimti peninga af öllum sem framhjá búrunum fara. Þannig mundu vega tollar á engan hátt hamla umferð, en þær framkvæmdir sem kalla á vegtolla skapa betri umferðaræðar, gera umferðina öruggari og draga úr umferðarslysum, greiða götu allra sem um vegina fara.

Ég minnist þess að hafa komið til höfuðborgar eins vestræns ríkis fyrir nokkrum árum þar sem til var mikið net þar sem vegatollar voru innheimtir. Þannig hafði þessi borg getað lagt mikið af jarðgöngum sem gjörsamlega endurnýjaði umferðarnetið. Þetta var í höfuðborg ríkasta lands heims, Noregs, þetta var í Oslo. Meira að segja ríkasta land í heimi notaði vegatolla til að standa undir vega- og gangagerð.

Ég hef hér að framan nefnt þrjár athyglisverðar tillögur, róttækar tillögur; a) veggjöld sem leggur grundvöll að umtalsverðum vegaframkvæmdum b) tillögur Árna Páls Árnasonar um að frysta laun opinberra starfsmann í 3 ár, sem mun ekki síst koma opinberum starfsmönnum til góða c) hugmynd Jóns Steinssonar um eina % virðisaukaskatts, sem mun einfalda alla slíka skattheimtu og ekki síst; tryggja að ábatinn af skattheimtunni skili sér til ríkisins og okkar allra, flestum ætti að vera í fersku minni að þegar % á matvæli var lækkuð hvarf ábatinn að mestu í fjárhirslur verslunar og þjónustu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Það eru nokkur atriði varðandi vegatolla sem þarf að athuga: 

1. óvíða er eldsneyti dýrara en hér á landi miðað við laun, ef það er nokkurn staðar . 

2. það er óvíða jafn handónýtar almenningssamgöngur og hér á landi, sem dæmi má nefna að til að ég komist úr Kópavogi í miðbæ Reykjavíkur fyrir kl. 08:00 að morgni, verð ég að leggja af stað kl. 06:57 eða það tekur mig rúman klukkutíma að komast til vinnu og sama gildir um heimleið, leggi ég af stað kl. 16:00 er ég kominn heim kl. 17:07, þar eru farnir rúmir tveir tímar af deginum í að komast í og úr vinnu, við þessar aðstæður er ekki verjandi að hækka kostnað við akstur í og úr vinnu, það yrði þér og dýrt að sækja vinnu á höfuðborgarsvæðið. 

3.  Það væri um algjöra mismunun eftir búsetu að ræða, íbúar höfuðborgarsvæðis kæmust ekki að heiman í sunnudagsbíltúr án þess að þurfa að greiða vegtoll á meðan nánast allir aðrir íbúar landsins komast að heiman án auka kostnaðar hafi þeir vit á að þvælast ekki til Reykjavíkur.

4. síðast en ekki síst er þessi hugmynd samgönguráðherra um innheimtu vegatolla byggður á persónunjósnatæki, þ.e. tæki sem sett er í bílinn þinn, hvort sem þú vilt það eða ekki sem fylgist með öllum þínum ferðum, þetta minnir að mínu mati full mikið á gömlu sovétríkin, e.t.v. er hugur ráðherrans ennþá þar. 

Liður B.  tillögur velferðarráðherra eru líka út í hött. Það er búið að rýra laun jafnt ríkisstarfsmanna sem og annarra launþega í landinu um líklega 40% á síðustu 3 árum, ég get ekki séð að lágt launaðir ríkisstarfsmenn geti lifað næstu 3 árin ef ekki verður eitthvað gert í launakjörum þeirra.  Það er miklu mannúðlegra að reka umfram starfsmenn, en að svelta þá alla í hel. Það hefur verið gert í öðrum greinum, s.s. bankamenn, liðlega þriðjungur þeirra var látinn taka pokann sinn eftir hrun, talan er eins og þú sennilega veist mun hærri meðal iðnaðarmanna, byggingaiðnaður nánast aflagður og verslun í dauðateygjum með tilheyrandi uppsögnum.  Má þar kenna skattpíningu m.a. um því kaupmáttur almennings í landinu nær lítið lengra en til nauðþurfta og það lifir hvorki verslun né önnur atvinnustarfsemi án viðskipta, einnig á þar sennilega hlut í máli vaxtastefna Seðlabanka.

Liður C.  Eins og kemur fram í lið B þola íslensk heimili, þar sem grátlega stór hluti byggir afkomu sína á matargjöfum hjálparstofnana, ekki að matvara verði hækkuð um 17,3%, ég verð líka að vera ósammála þér í því að heimilin hafi ekki fundið fyrir lækkun Vsk. á matvælum úr rúmlega 14% í 7%. Mitt heimili fann verulega fyrir því, og kæmi til með að finna mun meira og verr fyrir því ef þessi asna tillaga um hækkun virðisauka í 25,5% á matvæli. það lengdist þá sennilega röð hungraðra við vikulega úthlutun hjálparstofnana á matvælum.

 það verður að finna aðrar leiðir til endurreisnar Íslands.  Það mætti t.d. lækka vexti Seðlabanka Íslands niður í 0,5, til 1%, þannig að það væri hagkvæmara fyrir bankana að lána fé til uppbyggingar atvinnuvega en að leggja þá í Seðlabanka og láta skattgreiðendur standa undir milljarða vaxtatekjum.  Það getur ekki verið hollt þjóðarhag að í Seðlabanka safnist peningar sem enginn notar og þarf bara að borga af vexti. 

Ég er ekki hissa á því að þetta fólk sem þú kallar öskurapa skuli láta í sér heyra þegar það eina sem kemur frá þessari "ríkisstjórn" sem þóttist ætla að bæta lífskjör í landinu eru tillögur um skattahækkanir, vegatolla og launalækkanir.

Pistlarnir þínir eru yfirleitt skemmtilegir aflestrar og mikið til í því sem þú segir, en þessi  kom mér algjörlega úr jafnvægi, ég gat ekki látið honum ósvarað 

Kjartan Sigurgeirsson, 9.6.2010 kl. 10:59

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það er þörf á róttækum tillögum núna og það er fínt að Árni Páll þorir að leggja fram valkosti sem eru það skýrir að menn kippast við og skilja fyrr en skellur í tönnum. Það er betra en þessir almennu frasar sem koma frá stjórnmálamönnum en taka aldrei til ákveðinna atriða og því óræðanleg manna á milli.

Varðandi ríkisstarfsmenn þá hafa ALLIR ekki bara þeir lækkað í launum. Verðgildi krónunnar er mesta áfallið. Engin prósentuhækkun launa mun bæta okkur þann skaða. Valið stendur um að FÆKKA ríkisstarfsmönnum gríðarlega og lækka laun þeirra líka. Það verður samt að byrja á uppsögnum í stjórnunargeiranum og með sameiningu opinberra stofnana. Hagræðingin verður að byrja þar.

Þegar upp kemur spurningin hvað gera eigi í samgöngumálum kemur í ljós að það blasir við algert hrun í bifreiðaeign landsmanna. Aukning bifreiðaeignar landsmanna varð að bólu sem þjóðfélagið getur ekki staðið undir og það sem meira er VILL ekki standa undir lengur. Það er því tapað stríð að halda að þar geti maður unnið með lausnir gærdagsins. Bensínverð á ekki að miða við launatekjur landsmanna svo einhver viðmiðun sé tekin. Við verðum að miða verð bensíns við kostnaðinn af því að halda uppi vegakerfi landsins. Bensínverð átti að standa undir því og gerir það að langmestu leyti. Bensínverð er notkunarskattur og sem slíkt kannski of lágt eftir því hversu miklar kröfur við gerum.

Vegatollar eru hvimleiðir og flestir vilja vera lausir við þá og GPS eftirlit með akstri er líka afar umdeilanleg aðferð sérstaklega þegar maður er á móti stórabróðurs-samfélaginu.

Allt þetta þarf þó að ræða og því fyrr og meir þvi betra.

Varðandi enduruppbyggingu samfélagsins þá verður hún ekki gerð með aukinni skattheimtu. Það er takmarkað hægt að kreista peninga úr vösum alþýðu. Miklu álitlegra er að setja meiri gjöld á neyslu og sparnað ríka fólksins. Það er hægt einsog ástandið er í dag með gjaldeyrishöftum og þar með viðskiftahömlum, þessi leið verður hins vegar ekki fær þegar krónunni verður aftur fleytt á heimsmarkað og frjálst flæði peninga getur aftur fært fé ríkra úr landinu. Þar eigum við smælingjarnir ekki sama möguleika.

Stjórn landsins er því ekkert smá vandamál og allt tal um einfaldar lausnir og sanngjarnar gagnvart smælingjunum eru útí hött.

Það er einsgott að átta sig á því strax og gleyma því ekki jafnfljótt að hér hefur orðið hrun og það eru enn steinar að velta úr yfirbyggingunni og hafa enn ekki náð að stöðvast og það mun vera raunverulegt fólk og heimili þess sem verður fyrir þessu hruni.

Gísli Ingvarsson, 9.6.2010 kl. 13:17

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Ég þakka ykkur báðum Kjartan og Gísli fyrir málefnalegar undirtektir. Það greinlegt að, sérstaklega Kjartan, er mér ósammála og orðið "öskurapar" fer greinilega fyrir brjóstið á honum og þessu orði hefði ég getað sleppt. En þar á ég við þá sem oftast koma fram á mbl. blogginu og þeim virðist talsvert hampað þar, eru venjulega efstu sætum. Þetta er hópur manna sem rakkar allt niður sem gert  og sjá allt í svart/hvítu. En maður á auðvitað ekki að láta þá fara í taugarnar á sér, þetta er eins og hver önnur óværa sem maður á að hrista af sér. En þegar komið er  fram róttækar tilögur um breytingar þá er ekki nægilegt að horfa aðeins á frumtillöguna. T. d. tillag Árna Páls um frystingu launa opinberra starfsmann. Það er ekki nóg að hafna henni eingöngu heldur verðum við, eins og Gísli greinir svo vel, að sjá hvað  annað er mögulegt? Ég er sammála því að skatthækkanir gefa ekkert, það sjáum við best hvernig tókst til um hækkun áfengisgjalds.

Ég held að róttækar tillögur eigi allar að skoða. Að færa allan virðisaukaskatt upp í sömu prósentu gengur ekki ef ekki væri fleira í þeirri hugmyndafæði sem það vissulega er, við verðum í hverju tilfelli að skoða málið í heild ekki aðeins fyrstu setninguna

Sigurður Grétar Guðmundsson, 9.6.2010 kl. 14:59

4 Smámynd: Óskar Þorkelsson

í noregi eru vegatollar.. en þar eru líka almenningsamgöngur sem virka.. oftast nær :)  lestir og strætó.. það vantar á íslandi áður en farið er út í að skattpína almenning meira en orðið er..

Ef leggja á vegtolla þá ætti að leggja af vegagjöld og skatta á eldsneyti á móti..  eða koma á almennilegu tilboði til þeirra sem fara í og úr vinnu daglega..

Óskar Þorkelsson, 9.6.2010 kl. 17:02

5 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Það er ljóst að ríkisstjórnin þarf að taka margar erfiðar ákvarðanir hér eftir sem hingað til. Ég held að landslýður ætti auðveldara með að sætta sig við hugmyndir um allskyns aðhald og niðurskurð, þ.m.t. frystingu launa og vegatollum út um allar trissur, ef heimilunum væri hjálpað í raun og Skjaldborg ríkisstjórnarinnar margumtalaða væri ekki gagnslaus, rifin og löskuð. Ríkisstjórnin mun ekkert frekar aðhafast til hjálpar heimilunum í landinu og Jóhanna stagglast á 50 atriða minnislista sem á að róa fólkið. Þúsundir manna sem frömdu þann glæp að kaupa sér húsnæði á árnunum 2005-2008 ekki geta nýtt úrræði eins og greiðsluaðlögun o.fl. úrræði eru að horfa upp á bæði verðtryggingarlán og myntkörfulán éta upp eignarmyndunina án þess að neitt sé að gert. Jóhanna og Steingrímur fylgjast með og horfa á úr fílabeinsturni. Ríkisstjórn jafnaðarmanna og græningja tókst þó að koma fjármálastofnunum í skjól!!!

Guðmundur St Ragnarsson, 9.6.2010 kl. 18:34

6 identicon

Þið gleimið einu bíleigandin verður að kaupa tækið sjálfur ríkið skaffar það ekki og það mun kost tugi þúsunda kaupa það setja í bílin

Mathías H (IP-tala skráð) 10.6.2010 kl. 02:25

7 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Það eru greinilega skiptar skoðanir í þessu máli Sigurður, hlýtur að vera gaman að hitta á málefni sem þjóðin telur sig varða.  Það þarf eitthvað að gera býst ég við að allir geti verið sammála um, en hvað um það er ekki eining.  Samanburður á vegtollum í Noregi og hér er óraunhæfur, nema við tökum inn í jöfnuna laun í löndunum.  Ég hef ekki komið til Noregs í rúmt ár, en þá velti ég fyrir mér háu eldsneytisverði, það kostaði í júní 2009 sem samsvaraði 240 íkr. Þegar betur var að gáð, kom í ljós að laun voru u.þ.b. tvöföld í Noregi miðað við Ísland fyrir sambærileg störf.  Það þarf sennilega líka að taka í dæmið aðra skattlagningu, ég hef ekki trú á að þar sé munur verulegur, alla vega ekki lengur, þökk sé norrænni velferðarstjórn.

Það sem mér finnst ógeðfelldast í þessu er að vegtollur verður notaður sem skálkaskjól fyrir persónunjósnir, með því að setja njósnaflögu í bílana fylgist "Stóri bróðir" með öllum okkar hreyfingum, þáttur í þessu máli sem fólk virðist ekki leiða hugann að, væri ef til vill  rétt af ráðherranum að bera málið undir persónuvernd áður en eytt er tíma og fé í þetta bull. 

Ef þörf ríkisins er svo brýn fyrir fjármagn að það þurfi að skattleggja samgöngur enn frekar væri mun sanngjarnara að setja akstursmæla á alla bíla og láta greiða þungaskatt af eknum kílómetrum eins og var á díselbílum hér fyrir nokkrum árum.  Mun sanngjarnari skattheimta og hægt að stýra með gjaldtöku þungaumferð um landið, þannig að sú kvöð verði tekin af okkur íbúum suðvesturhornsins að greiða stórlega niður vöruflutninga um landið, því 40 tonna vöruflutningabíll greiðir ekki nema lítinn hluta þess slits sem hann veldur á vegakerfi landsins.   

Hvað varðar virðisauka af matvælum, væri hækkun sennilega réttlætanleg, ef farin yrði Ameríska leiðin, en hún er þannig að láglauna fólk getur skilað inn strimlum úr kössum matvöruverslana og fengið endurgreiddan hluta virðisaukaskatts í einhverju hlutfalli við tekjur og þyngd framfærslu.  Einu vandræðin við það eru að skattsvikarar fá þar greitt fyrir að svíkja undan skatti.  Ekki getur það verið á óskalista okkar.

En mín skoðun er sú að ef ekki verður eitthvað róttækt gert og það strax í gær varðandi uppbyggingu atvinnuvega er alveg sama til hvaða ráða ríkisstjórnin grípur við spólum bara í gömlu hjólförunum.  Ef til vill ættu ráðamenn að fara að lesa bloggið þar gætu leynst tillögur sem hjálpa til við að leysa vandann.

Kjartan Sigurgeirsson, 10.6.2010 kl. 08:56

8 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Ég verð reyndar að taka undir með Guðmundi að sjálfvirk uppfærsla höfuðstóls í formi verðtryggingarákvæða er þvílikt grundvallarvandamál að það verður að leysa. Samfylkingin vill bíða eftir Evru. Ég get ekki séð að við getum beðið áratug ennþá. Verði þessu ákvæði ekki breytt þannig að lifandi sé með því verða allar aðgerðir til einskis. Þá er alveg eins gott að láta skeika að sköpuðu og "láta markaðinn sjá um leiðréttingu skuldavandans" einsog frjálshyggjumenn leggja til. 20% Niðurfelling höfuðstóls er tekinn aftur í formi verðrtyggingar á stuttum tíma vegna verðbólgu. Lánin verður að greiða á löngum tíma. Það er því borin von að þetta skili sér nema sem kák.

Gísli Ingvarsson, 10.6.2010 kl. 08:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband