Hvert stefnir Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Davíðs Oddssonar?

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins er lokið. Á fundinum bar hæst sú fáránlega tillaga, sem var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta að sagt er, að Ísland dragi umsókn sína um inngöngu í  Evrópusambandið til baka.

Satt best að segja hafði ég það mikið álit á Sjálfstæðisflokknum að mér datt ekki í hug að svo heimskuleg tillaga yrði samþykkt á landsfundi flokksins. En það er líklega enn einu sinni að sannast það sem Hannes Hólmstein sagði "sjálfstæðismenn eru ekkert að hugsa um pólitík, þeir vinna á daginn og grilla á kvöldin".

Ömurlegast er þetta fyrir formann flokksins Bjarna Benediktsson sem var gerður afturreka með hófsamari tillögu "að leggja aðildarumsóknina á hilluna í bili". Þetta afhjúpar tvennt rækilega. Mikill meirihluti landsfundarfulltrúa setur sig ekki á nokkurn hátt inn í mál sem fyrir fundinum liggja, núverandi formaður Bjarni Benediktsson hefur mjög takmörkuð áhrif og völd. Í sjónvarpsfréttum frá landsfundinum brá fyrir gamalkunnu andliti Davíðs Oddssonar sem gekk glaðbeittur milli borða og heilsaði fólki kampakátur. 

Þarna fór sá maður sem öllu ræður í Sjálfstæðisflokknum í dag, hann leggur allar línur og það er eins gott fyrir Bjarna Benediktsson og hans meðstjórnendur að lúta vilja þess sterka, annars munu þeir hafa verra af. Svo virðist eins og megnið af landfundarfulltrúum hafi ekki skilið um hvað var kosið, flestir héldu að það væri verið að kjósa um það hvort Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið eða ekki.

Því fór víðs fjarri. Aðildarviðræður eru til þess að við fáum allir landsmen þau svör sem við verðum að fá til að hægt sé að ljúka þessu máli. Aðildarviðræðurnar leiða í ljós hvaða kosti það hefur fyrir Ísland að ganga í ESB og ekki síður; hvaða fórnir við verðum að færa séu þær einhverjar. Þá fyrst getur þjóðin svarða þeirri spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort við göngum í ESB eða ekki. Ég er hlynntur inngöngu en get engan vegin sagt til um það nú hvort ég munu greiða atkvæði með inngöngu eða hafna. Það get ég ekki fyrr en svörin liggja á borðinu.

Hvers vegna vilja ýmis sterk öfl í þjóðfélaginu allt til vinna til að koma í veg fyrir áframhaldandi aðildarviðræður?

Sterkustu öflin eru Bændasamtökin og Landsamband íslenskra útvegsmanna að ógleymdum ritstjóra Morgunblaðsins Davíð Oddssyni, og þar með því málgagninu sem hann stýrir, Morgunblaðinu. Það er ekki óeðlilegt að ritstjóri ráði mestu um stefnu þess blaðs sem hann stýrir en það háskalega er að enn þann dag í dag ræður Davíð Oddsson ekki aðeins Morgunblaðinu, hann ræður einnig öllu í einum  stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, Sjálfstæðisflokknum. Kjörnir stjórnarmenn flokksins, ekki síst formaðurinn Bjarni Benediktsson formaður eru ekki annað en strengjabrúður í höndum Davíðs Oddssonar og það er enginn í augsýn sem  ógnar hans veldi. Sjálfstæðismenn svo sem Þorsteinn Pálsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Benedikt Jóhannesson og margir fleiri skoðanabræður þeirra fengu viðvörun á landsfundinum. Gegn þeim er spjótinu beint þegar formaður flokksins var gerður afturreka með sína tillögu um aðildarviðræðurnar  að skipan úr Hádegismóum, þannig samþykkt að aðildarviðræður skyldu stöðvaðar skilyrðislaust.

En ég hef ekki svarað því enn hvers vegna þessu sterku afturhaldsöfl sem ég að framan nefndi leggja höfuðáherslu á að stöðva aðildarviðræður?

Það er augljóst mál hver ástæðan er. Það er óttinn við hvaða árangri við náum í aðildarviðræðum það er óttinn við það að þar muni komi í ljós að kostirnir séu yfirgnæfandi af inngöngu, ókostirnir sáralitlir. Það kann að koma í ljós að okkur standi til boða að ráða áfram alfarið yfir fiskinum í sjónum og landhelginni og að sjálfsögðu; óskert yfirráð yfir öllum auðlindum til lands og sjávarbotns eins og öll aðildarríki ESB hafa haldið við inngöngu.

Þessi svör mega ekki sjá dagsins ljós að áliti fyrrnefndra afturhaldafla; reyndar gleymdi ég þar að nefna afturhaldið í Vinstri grænum undir forystu Ögmundar Jónassonar og Ásmundar Daða.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Pétur Pétursson

Það er ekki óeðlilegt né óalgengt að þeir sem að tapi gráti sárann og þurfi að fá útrás reiði sinnar. Þú hljómar einmitt eins og, svo maður noti slæma íslensku, slíkur tapari.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins gekk út á tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, það er að fyrst yrði greitt atkvæði um hvort að það ætti að sækja um og svo þegar aðildiarsamningarnir lægju fyrir þá yrði greitt akvæði um hvort að við gengjum inn í ESB.  Þetta var sáttatillaga milli aðildarsinna og aðildarandstæðinga innan Sjálfstæðisflokksins. En nú er búið að sækja um og því er þessi tillaga sem að var samþykkt síðasta haust fallin um sjálfa sig og því hefði verið óeðlilegt af stjórnmálaafli eins og Sjálfstæðisflokknum að semja ekki nýja tillögu um sama málefni. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að verða leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum þá verður hann að taka afstöðu um málefni ríkjandi stundar. Málefni ríkjandi stundar er það að við erum í dýpstu kreppu síðustu áratuga(ekki láta yfirlýsingu AGS blekkja þig) og 15 þúsund mann hið minnsta atvinnulausir. Samt ætlumst við til þess af stjórnsýslunni að láta af hendi gríðarlega vinnu við umsóknarferli inn í ESB. 

Við skulum líka skoða hver var rökstuðningurinn fyrir því að ganga inn. Jú Evran og hagstjórn Evrópusambandsins átti að tryggja okkur fyrir því að hér yrðu efnahagsleg áföll. Er það sú reynsla sem að við getum dregið af atburðum síðustu missera? Er það reynsla Grikkja? Önnur röksemd var að ESB gæti kastað líflínu til ríkja innan ESB sem að hefðu Evruna og hefði bolmagn til þess að bakka þau upp ef að efnahagsleg áföll yrðu? Er það reynsla Íra? Og að lokum að Evran væri fyrirheitna gjaldmiðillinn sem að allt þyldi og ekkert gæti unnið á? Er Evran mjög sterk í dag? Löngum hafa menn talað um eilífa gjaldmiðla sem að alltaf yrðu traustir og sterkir og má í því sambandi nefna sjálfann dollarann? En allt í einu eins og þruma úr heiðskýru lofti þá tekur Evran við. Þá breyta menn um skoðun og fara að segja það sama um Evruna. Nú blasir veik Evra við og hvað ætla menn að segja þá? Að dollar sé aftur orðinn fyrirheitna gjaldmiðillinn.

Af þessu má sjá að það er full ástæða til þess að staldra við og skoða okkar mál varðandi inngöngu inn í ESB. Og þá blæs ég á þá umræðu að þetta sé once in a lifetime tækifæri til þess að ganga inn. Það er bara þvættingur. Sökum þess að við erum þegar innvinklaðir inn í ESB gegnum EES þá er aðildarferli fyrir Ísland miklu einfaldara og auðveldara. Við getum gengið hvenær sem er inn.

Og allt tal um Davíð Oddsson er bara sárt umtal einhvers sem að hefur orðið undir, ekkert annað. Það er langur vegur frá því að Davíð Oddsson verði einhver stærð í íslenskum stjórnmálum.

Jóhann Pétur Pétursson, 29.6.2010 kl. 14:49

2 Smámynd: Gústaf Níelsson

Ertu ekki bara að skrökva að okkur Sigurður Grétar, þegar þú segist hafa svo "mikið álit á Sjálfstæðisflokknum" að þér dytti "ekki í hug að svo heimskuleg tillaga yrði samþykkt á landsfundi flokksins" að leggja áformin um inngöngu í ESB á hilluna í bili? Ekki er mér kunnungt um það að þú hafir nokkurn tíman tjáð þig um þetta mikla álit þitt á Sjálfstæðisflokknum? Þú kannski leiðréttir mig hafi ég rangt fyrir mér? Einhvern veginn finnst mér eins og þú hafir jafnan horn í síðu Sjálfstæðisflokksins í skrifum þínum. Og hvers á Davíð Oddsson eiginlega að gjalda - það er engu líkara en að sá ágæti maður sé orsakavaldur að vanlíðan fjölmargra stjórnmálaspekúlanta.

Gústaf Níelsson, 29.6.2010 kl. 18:35

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Jóhann Pétur, þessa kveðju fæ ég frá þér að ofan:

"Það er ekki óeðlilegt né óalgengt að þeir sem að tapi gráti sárann og þurfi að fá útrás reiði sinnar. Þú hljómar einmitt eins og, svo maður noti slæma íslensku, slíkur tapari."

Hvar er ég að tapa í dag? Ég hef vissulega "tapað" fjármunum og staðið uppi slyppur og snauður en aldrei orðið gjaldþrota og hef ofan í mig og á í dag. Ég er engu að tapa þó Sjálfstæðisflokkurinn samþykki heimskulegar tillögur, það er Sjálfstæðisflokkurinn sem er taparinn. Ég er í flokknum sem allir virðast óttast í dag, Samfylkingunni, og formaður þess flokks Jóhanna Sigurðardóttir er forsætisráðherra Íslands í dag. Ég býst ekki við að Sjálfstæðismenn (veit ekki hvort þú ert einn af þeim) hafi litið á sig sem tapara árin sem foringi þeirra Davíð Oddsson var forsætisráðherra. 

Ég hef sett fram mín rök í ESB málinu að framan hér blogginu en það kann að vera að ég endurtaki þau hér ef tími vinnst til.

Gústaf, því verður ekki á móti mælt að langtímum saman hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar og hafði vissulega forystu um mörg þjóðþrifamál. En á síðustu veldisárum Davíðs Oddssonar þáverandi formanns flokksins fór allt úr böndum vegna hinnar skelfilegu nýfrjálshyggju eftir kokkabókum Hannesar Hólmsteins. En á þeim árum sem Ólafur Thors var formaður flokksins tók flokkurinn meira mið af jafnaðarmannaflokkum Skandinavíu en hinum römmu litlu íhaldsflokkum sem þar störfuðu enda vildi Ólafur Thors ekki hafa nokkur samskipti við íhaldsflokkana. Sjálfstæðisflokkurinn var með í því að innleiða almannatryggingar og atvinnuleysisbætur, nokkuð sem sannir íhaldsflokkar í Skandinavíu höfðu megnustu skömm á. En hin síðari áratugi hefur Sjálfstæðisflokkurinn farið skelfilega að ráði sínu í samvinnu við Framsóknarflokkinn sem einnig mátti muna fífil sin fegri.

Ég hef aldrei verið ofstækismaður í pólitík og hika ekki við að láta pólitíska andstæðinga njóta sannmælis ef ástæða er til. Ég hef séð þig á blogginu og heyrt þig á Útvarpi Sögu, eftir því að dæma  finnist þér hlálegt að sjá eitthvað nýtilegt í fari þinna pólitísku andstæðinga, þú sérð hlutina svart/hvíta.

Ég skrifa ekki mína pistla út frá reiði heldur málefnum. 

Sigurður Grétar Guðmundsson, 29.6.2010 kl. 21:44

4 Smámynd: Lýður Árnason

Sæll, Sigurður.  Finnst stundum undarlegt í umræðunni að vera hræddur um fiskimið sem þegar er búið að gefa.  Sjálfur fæ ég ekki séð það skipti meginmáli hverjir eigi fiskinn, kvótakallar á Íslandi eða eithvert þing í Evrópu.  Tel hinsvegar inngöngu í ESB varhugaverða sérlega  áður en við klárum viss mál hér heima og þar eru auðlindamálin langstærst.  En sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert með stjórnmál að gera og ekki gert lengi.   Vona hann uppskeri í samræmi við sáningu.

Kveðja, LÁ

Lýður Árnason, 30.6.2010 kl. 03:07

5 identicon

Lýður:

Þér finnst semsagt ekki skipta máli hvort fyrirtæki og sjómenn sem starfa á Íslandi og greiða þar skatta veiða fiskinn eða fyrirtæki og sjómenn annarsstaðar frá sem ekki myndu skila neinu í ríkiskassann hér?

Sigurður Grétar:

Tillagan var samþykkt m.a. vegna þess að menn skynja að það er mjög takmarkaður áhugi á þessu meðal þjóðarinnar, ekki eingögngu sjálfstæðismanna. Burtséð frá þeirri skoðun andstæðinga aðildar að ekki hafi komið fram boðleg rök fyrir henni þá finnst fólki hart að eyða milljörðum í aðildarumsókn sem sennilega verður hafnað.

Atvinnulífið gæti vel verið komið á skrið aftur áður en atkvæðagreiðsla færi fram svo aðildarsinnar ættu ekki að treysta á að neyðin reki þjóðina í faðm ESB.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 09:10

6 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Kjarni málsins er að Davíð Oddson er hinn raunverulegi forystumaður Sjálfsæðisflokksins. Bjarni Ben er handbendi hans á sama hátt og Geir Haarde. Þetta er svo augljóst að meira að segja samflokksmenn nenna ekki að mótmæla því. Það væri betra að DO hefði verið formlega kosinn formaður. Einfaldað umræðuna.

Gísli Ingvarsson, 30.6.2010 kl. 10:05

7 Smámynd: Gústaf Níelsson

Hvers vegna Sigurður Grétar gekkst þú þá ekki í Sjálfstæðisflokk Ólafs Thors, sem studdi almannatryggingar og atvinnuleysisbætur, eins og þú orðar það? Var það ekki almenningur á Íslandi, venjulegir kjósendur sem studdu Davíð Oddsson til valda og áhrifa með eftirminnilegum hætti 1982, þegar Sjálfstæðisflokkurinn endurheimti meirihluta sinn í borgarstjórn Reykjavíkur, og með enn eftirminnilegri hætti átta árum síðar, þegar Sjálfstæðisflokkurinn landaði tíu borgarfulltrúum af fimmtán, sem ekki hafði gerst síðan 1958? Í kjölfarið snéri Davíð sér að landsmálum og var lengur forsætisráðherra en nokkur annar Íslendingur. Þú heldur kannski að einhver undirmálsmaður og óvinur þjóðar sinnar nái slíkum árangri, jafnvel í óþökk almennings? Auðvitað ekki. Og þetta leiðigjarna aulatal um nýfrjálshyggju og einhverjar kokkabækur Hannesar Hólmsteins, sem hafi sett hér allt á hliðina, er bara ekki boðlegt í alvarlegri stjórnmálaumræðu, en nýtilegt auðvitað í pólitískum áróðri. Má kannski segja áróðri nýsósíalista og nýkommúnista?

Gústaf Níelsson, 30.6.2010 kl. 17:47

8 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Sigurður pg Gísli, hvaðan hafið þið þessa vitneskju eruð þið með einhver rök fyrir þessu, svar óskast.

Eyjólfur G Svavarsson, 5.7.2010 kl. 17:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband