Mér er spurn; getur ráðherra setið áfram í sínu embætti eftir að á hann hefur verið lýst vantrausti af flokksstjórn síns stjórnmálaflokks?
Ég mun ná þeim háa aldri að verða 76 ára á þessu ári. Það er sárt að verða vitni að því að sá maður sem Samfylkingin, minn flokkur, hefur sýnt það traust að gegna starfi félagsmálaráðherra í Ríkisstjórn Íslands skuli ítrekað ráðast á kjör okkar eldri borgara, þú veist það full vel Árni Páll að þetta eru ekki staðlausir stafir. Þessi ríkistjórn hefur að vísu verið nokkuð samstillt í því að taka réttindi og möguleika af eldri borgurum til að sjá sér farborða. Ég fagnaði því mjög þegar afnumið var það niðurlægjandi ákvæði, sem minnti á framfærsluskyldu fyrri ára, að tekjur maka hefðu áhrif á lífeyri hins í hjónabandi og vissulega bjó ég nokkur ár við það óréttlæti og ekki kenni ég Árna Páli um það, hann hefur nóg að bera samt. Ég fagnaði því eindregið þegar frítekjumark lífeyrisþega var hækkað hressilega upp í 1.300.200 kr. á ári
Ég er einn af þeim sem starfaði lengst af ævi minnar sem sjálfstætt starfandi pípulagningameistari og því miður höfum við margir sem þannig er ástatt um sárlitlar tekjur úr lífeyrissjóðum. En þrátt fyrir aldur og veikindaáföll sá ég nokkurn möguleika á að reyna að afla mér tekna sem ráðgjafi í mínu fagi, margt er gott sem gamlir kveða. En núverandi Ríkisstjórn, sem ég hef stutt með ráðum og dáð, lét það verða eitt að sínum fyrstu verkum að lækka frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.
Hvernig í ósköpunum sá nokkur ráðherra eða fræðingur að það mundi auka tekjur Ríkissjóðs eða spara útgjöld hans? Ég vildi gjarnan sjá þann rökstuðning sé hann til á blaði, eða var þetta einungis geðþóttaákvörðun?
En nú ert þú Árni Páll orðinn eins og naut í glervörubúð þar sem þú virðist sjá það sem þitt aðalhlutverk að vega að smásálarlegum lífeyri eldri borgara þessa lands. Það vill oft fara svo að þeir sem hafa vel til hnífs og skeiðar hafa ekki minnsta skilning á kjörum þeirra sem lægst eru settir hvað tekjur varðar. Þitt síðasta verk var að berjast fyrir því að lífeyri okkar gamlingjanna væri frystur svo tryggt yrði að við fengjum engan ábata af því litla launaskriði sem mögulega verður hér á landi á komandi tímum.
Ég skoraði á Steinunni Valdísi flokkssystur okkar að segja af sér þingmennsku vegna fjármálbralls í prófkjörum. Steinunn Valdís mat sína stöðu rétt og sagði af sér. Ráherra sem hefur ekki traust síns flokks og flokksfélaga á að segja af sér.
Það átt þú að gera Árni Páll!
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Dægurmál, Kjaramál, Vinir og fjölskylda | Facebook
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hvers vegna lýsirðu ekki vantrausti á Samfylkinguna í stað þess að hamast á "sólskinsbarninu" Árna Páli? Hann hefur ekkert komið að stefnumótun um lífeyrismál, sem heitið getur. Saknarðu þess ekki að skylduaðild að lífeyrissjóðum skuli ekki hafa verið tekin fyrr upp? Þá hefði í öllu falli verið hægt að hóta þér því að selja ofan af þér íbúðarhúsnæðið, svo þér gæti liðið vel í ellinni. Annars er ég alveg sammála þér um það að kjör eldri borgara eru snautleg og enginn skilningur á því í samfélaginu hvílík breyting það er tekjulega, þegar menn hætta að mæta til daglegra starfa vegna aldurs. Trúlega verða sjálfstæðismennirnir að leiðrétta þetta óréttlæti, því ekki mun hengirúmakynslóð íslenskra stjórnmálaflokka gera það, allra síst sú sem er til vinstri.
Gústaf Níelsson, 1.7.2010 kl. 22:14
Sigurður, þetta er kallað að fá nasaþefinn af ESB.
Lýstu vantrausti á ríkisstjórnina. Prestsonurinn úr Kópavogi er ekki mikið verri en kollegar hans.
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 2.7.2010 kl. 07:17
Sæll minn kæri.
Í þessum pistli hefur þú mig og fulltrúa flokksins í ríkisstjórn fyrir rangri sök. Staðreynd er að okkur var falið að ná hér jafnvægi í ríkisfjármálum - loka fjárlagagatinu - eftir óstjórn undanfarinna ára. Það vantaði í upphafi þessarar vegferðar tvær krónur af hverjum fimm. Útgjöld ríkisins til almannatrygginga og atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofs er rétt um fimmtungur ríkisútgjalda - þessi útgjöld og launaútgjöldin samanlögð eru um helmingur ríkisútgjalda.
Augljóst er að ekki verður ráðið við svona stórt gat í ríkisfjármálum án þess að taka heiftarlega á. Það höfum við gert. Ég hef frekar verið gagnrýndur í umræðu fyrir að leggja til of mikinn sparnað, fremur en hitt. Ástæðan er einföld: Ég vil allt til vinna til að unnt sé að forða fækkun starfsfólks í þjónustu við aldraða og fatlaða eða skerðingu á kjörum lifeyrisþega.
Í fyrra gripum við til afmarkaðra skerðinga, til að mæta aðhaldskröfu. Tekjuskerðingarmörk voru færð til þess sem þau voru árið 2006, en samt tókst okkur að sleppa því að taka upp makatengingarnar illræmdu. Skerðingarnar bitna alfarið á betur stæðum lífeyrisþegum, en grunnfjárhæð lágmarksframfærslutryggingarinnar helst óbreytt. Sú fjárhæð hefur hækkað um 42% frá því að við tókum við stjórnartaumunum í félags- og tryggingamálum árið 2007. Okkur er því að takast að verja 42% hækkun á lægsta lífeyri á mestu samdráttartímum sem við höfum gengið í gegnum í 80 ár. Það tel ég ótrúlegan árangur. Fátækt meðal lífeyrisþega mælist nú minni en bæði 2004 og 2007. Lífeyrisþegar með lágmarksframfærslutrygginginu hafa aldrei í sögu landsins fengið hærra hlutfall vinnulauna. Eftir stendur auðvitað að tekjuskerðingarmörk eru of lág - bæði atvinnutekna, eins og þú nefnir og ekkert síður fjármagnstekna og lífeyristekna. Við höfum markað skýra stefnu um að þegar hagur vænkast leggjum við höfuðáherslu á að hækka þau mörk. Vert er líka að minna á að síðasta sumar komum við á 10.000 króna frítekjumarki á lífeyristekjur. Það er líka hollt fyrir eldri borgara að muna að allar kjarabætur til þeirra hafa komið á vakt Samfylkingarinnar og Sjálfstæðismenn lögðu til strax árið 2008 að samdrætti yrði mætt með mun umfangsmeiri skerðingum á lífeyrisþega en við höfum enn talið okkur þörf á að grípa til. Þeir lögðu t.d. til endurupptöku makatenginganna strax í lok árs 2008.
Ég vildi bara koma þessum staðreyndum á framfæri. Nú blasir við að skera fjárlög niður um ca. 9%. Eins og ég nefndi eru lífeyrisútgjöld og launaútgjöld helmingur ríkisútgjalda. Ef þeir liðir hreyfast ekki verður ærið verkefni að ná 18% niðurskurði úr því sem eftir stendur. En það ætlum við okkur og munum ekki hvika frá því erfiða verkefni sem okkur var falið. Ekki frekar en þú og þínir félagar vikuð frá erfiðum verkefnum í þágu jafnaðar og félagshyggju í bæjarstjórn Kópavogs hér á árum fyrr. Það er ekki allt sem gert er í dag til vinsælda fallið og fáir munu verða til að fagna árangri í þessari varnarbaráttu. En við höldum áfram í vissu þess að við erum að verja kjör þeirra sem minnst hafa eins og nokkur kostur er.
Með bestu kveðju,
Árni Páll
Árni Páll Árnason (IP-tala skráð) 2.7.2010 kl. 10:29
Heill og sæll Árni Páll
Þakka þér fyrir þitt yfirgripsmikla svar sem vissulega skýrir ýmislegt en mér finnst ekki koma samt að kjarna málsins. Ég hefði viljað að þú svaraðir því af hverju frítekjumark okkar gamlingjanna var lækkað úr 1.300.200 kr niður í 480.000 kr. á ári. Þá eru þær tekjur sem við megum afla okkur á mánuði 40.000 kr. án þess að það skerði lífeyri frá TR. Hvaða sparnaður er það fyrir Ríkissjóð að lækka þetta frítekjumark? Hvers vegna mega aldraðir sem eru við góða heilsu ekki vera áfram á vinnumarkaði og afla nokkurra tekna sem síðan gefa því opinbera tekjur í tekjuskatti og útsvari og í mörgum tilfellum eins og mínu, einnig tryggingargjaldi.
Mér þætti vænt um að þú skýrðir það fyrir mér hvernig í ósköpunum þessi hrikalega lækkun frítekjumarksins skilar auknum tekjum til hins opinbera!
Ég veit vel að það hefur ýmislegt sem varðar kjör okkar aldraðra verið að egna mitt geð að undanförnu og svo kemur að því að mikið skap tekur í gikkinn og það varðst þú sem varst skotmarkið með réttu eða röngu.
Það sem mér hefur alla tíð gramist frá því að ég náði þeim virðulega aldri 67 ára er algjört skilningsleysi allra sem um mál okkar fjalla og í þeim hópi ert þú. Það er hægt að segja sem svo að ýmislegt séu tímabundnar skerðingar, þetta verði lagað eftir nokkur ár. Ef þetta varðar þá sem eru á aldrinum 20 - 40 ára þá er mjög líklegt að þeir njóti þess þegar betur árar. En sá sem er 75 ár getur engan veginn búist við því að njóta einhvers sem batnar eftir 4 - 5 ár. Það er þetta algjöra skilningsleysi ykkar yngra fólksins á því að þið eruð að ráðslaga með kjör þeirra sem eiga ekki langa framtíð hérna megin grafar. Það má allt eins búast við því að sá sem er 75 ára verði orðinn aska í krukku upp á hilli eftir 5 ár eða svo. Þannig getur einnig farið fyrir þeim fertuga en tölfræðin segir okkur að þeir sem eru á þeim aldri muni enn um nokkuð langan aldur komast hjá krukkunni á hillunni, flestir fá í þeim hópi að njóta leiðréttinganna þegar þær koma, ég og mínir jafnaldrar hafa engan tíma til að bíða.
En við vitum báðir og það ættu flestir landsmenn að vita, að það eru geysimiklar skatttekjur sem Ríkið fær ekki fyrr en eftir dúk og disk og ef Ríkisstjórnin og Alþingi hefðu kjark til að innheimta þá skattpeninga þá þyrfti ekki að skerða kjör aldraðra, frekar að bæta þau.
Þar á ég við gífurlegu skatta sem lífeyrissjóðir fá að leika sér með, gambla með á mörkuðum og og veita uppáhaldforstjórunum ómælt í laun, ofurjeppa og auðvitað ókeypis olíu á tryllitækin. Lífeyrisgreiðslur er EKKI skattlagðar þegar skattstofninn verður til heldur þegar lífeyrinn er greiddur út eftir áratugi í mörgum tilfellum. Samt á það að vera meginregla að skattar til hins opinbera eiga að greiðast til síns rétta eiganda um leið og skattstofninn og skatturinn verður til. Ég veit að Sjálfstæðismen á þingi tóku þetta mál upp. Í fyrstu var hugmyndin að innheimta skattinn strax af öllum innborguðum lífeyrisgjöldum strax, síðan var hörfað í séreignasparnað og að lokum þögnuðu lömbin endanlega og ekkert heyrist lengur úr þeim herbúðum.
Ég geri mér fulla grein fyrir því sem þú segir Árni Páll um að þú stendur frammi fyrir kröfu um hrikalegan niðurskurð og þess vegna kemur þú fram með þá tillögu að "frysta" lífeyri aldraðra um einhvern ákveðinn tíma, svo komi að því að rétta þetta af; hins vegar veit ég ekki hvert þú átt þá að senda mér leiðréttinguna, kannski verð ég á jarðkringlunni enn eða í öðrum heimum eins og prestarnir segja. Hér á blogginu er ég oftlega nefndur "kommadindill" eða álíka nöfnum til niðurlægingar og samkvæmt því sem hinir sannkristnu álíta fer ég víst á heita staðinn, þú lætur þá leiðréttinguna "síga". (Sérfræðingur í hitakerfum fær víst ekki mikið við að dunda þar).
En aftur að skatttekjunum sem lífeyrissjóðirnir "gambla" með. Ég geri mer ljóst að líklega er ekki hægt að breyta því með einu pennastriki að söðla um og innheimta skattinn strax. Þess vegna þarf að byrja á þessari breytingu strax, það þarf einhvern umþóttunartíma en þarna eru geysimiklar skatttekjur sem ríkið á að fara að innheimta að hluta til a. m. k. strax.
Við eldri borgarar erum víst stöðugt að verða stærri hluti af heildinni og það leggur þyngri byrðar á Ríkið vegna lífeyris. Ekki veit ég hvað langur tími er þar til að þetta kerfi verður sjálfbært en það hlýtur að koma að því. Þá á hver maður á sinni vinnuævi að hafa lagt fyrir til elliáranna með því að greiða í lífeyrissjóði og þá hverfur lífeyri frá Ríkinu nema í undantekningatilfellum, alltaf verða einhverjir ófærir um að vinna og afla tekna strax á unga aldri.
En eigum við ekki að fara að sækja réttmæta eign ríkisins til lífeyrissjóðanna, hver greiðsla í lífeyrissjóð er ekki aðeins framlag til elliáranna heldur einnig skattstofn fyrir það opinbera. Og skatta á að greiða strax og skattstofn verður til, það á að sjálfsögu að vera ófrávíkjanlega regla.
En af hverju þögnuðuð "lömbin", hvaða öfl voru svo kröftug að kaffæra þessa umræðu í fæðingunni?
Þetta urðu að vísu miklu lengri pælingar en ég ætlaði í fyrstu Árni Páll. En ég krefst þess að þið allir ráðmenn breytið ykkar hugsunarhætti varðandi málefni aldraðra. Og ég vil einnig fá á því greinargóðar skýringar hvers vegna Ríkið má ekki sækja sínar óumdeildu skatttekjur.
Hafðu það svo sem allra best Árni Páll hvort sem þú verður utan eða innan Ríkistjórnar.
Sigurður Grétar
Sigurður Grétar Guðmundsson, 3.7.2010 kl. 11:47
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.