13.9.2010 | 17:57
Aðeins ein leið til að bjarga Landeyjahöfn
Verstu hrakspár um Landeyjahöfn hafa ræst. Það ástand sem þar er komið upp er nokkuð sem fjöldi sjómanna og jafnvel landmanna í Rangárþingi óttuðust. Ég man þá tíð þegar ég var að alast upp á Þjórsárbökkum og sækja barnaskóla í Þykkvabæinn að Rangæingar áttu allir sem einn tvær óskir a) að byggð yrði höfn á suðurströndinni b) að Urriðafoss yrði virkjaður samkvæmt áætlunum Títanfélagsins og Einars Benedikssonar. Nú er höfnin orðin staðreynd en því miður má búast við að Landeyjahöfn eigi eftir að valda miklum vonbrigðum.
Um miðja síðustu öld, eftir að Ameríkanar settu upp herstöðina á Keflavíkurflugvelli, hófu þeir mikla könnun á því hvort unnt væri að byggja höfn í sandfjörum Suðurlands. Þá heyri ég það að þeir hefðu komist að þeirri niðurstöðu að vænlegast væri að byggja höfnina suður frá Þykkvabæ, í fjörunni milli Hólsár og Þjórsár. Þar var til örnefni sem ég veit ekki hvort nokkur man lengur, Dyrasandur, og var hluti af fyrrnefndri strönd. Ég held að örnefnið sé svo gagnsætt að það segi meira en mörg orð. En Kanarnir byggðu enga höfn og eru sem betur fer farnir til síns heima eða til að ráðskast með aðrar þjóðir en Íslendinga.
Mér var sagt að Lúðvík Gissurarson, sem rak faðernismál gegn Hermanni Jónassyni fyrrum forsætisráðherra látnum og vann það, hafi nýlega skrifað grein í Mbl. þar sem hann setti fram hugmynd sem reyndar varð mér umhugsunarefni þegar ég heyrði fyrst getið um áætlanir um Landeyjahöfn. Lúðvík leggur til að smálækur verði lagður inn í höfnina til hreinsunar hennar, gæti haft einhver áhrif en ég held að vatnsmagnið sé of lítið.
Landeyjahöfn er á röngum stað, hún átti að vera í minni Markarfljóts eða því sem næst. Þar hefði þurft lokubúnað til að leiða beint til sjávar ísskrið og til að geta stjórnað því hve mikið vatnsmagn ætti að renna í gegnum höfnina. Vatnsmagnið í Markarfljóti er glettilega mikið en eins og í öðrum jökulám mismikið. Þar kemur lokubúnaðurinn til og heldur jöfnu rennsli í gegnum höfnina. Það þyrfti þó að vera það mikið að sandrif næði ekki að myndast í hafnarmynninu eða út frá því. þessi straumur ætti engan veginn að hindra skip í að sigla inn í höfnina. Engin ástæða til að hafa áhyggjur af eldgosaöskunni, streymið í gegnum höfnina verður að vera það mikið og dreift um höfnina að öll askan skili sér til sjávar. en setjist ekki til.
En Landeyjahöfn verður ekki flutt austur að Markarfljóti en fyrir góðan pening er hægt að flytja Markarfljót að höfninni eða hluta þess. Þetta kann að vera dýr framkvæmd en hvað skal gera? Á að láta dýpkunarskip vera 365 daga á ári við að dæla sandi úr höfninni, hvað kostar það?
Ég býst við að fram komi mótrök, að ísskrið í Markarfljóti geri óskunda í höfninni. En til þess er lokubúnaðurinn, hann er til að veita hugsanlegu ísskriði beint til sjávar. Sú tækni er öll til hjá Landsvirkjun enda virðist ekki vanþörf á að fleiri en sérfræðingar Siglingastofnunar komi að björgun Landeyjahafnar, bæði lærðir og leikir.
Er eitthvert vit í því að byggja höfn í ármynni eða sama sem í því, virknin yrði sú sama með því að veita Markarfljóti að hluta til hafnarinnar? Förum í ferðalag í austurátt. Þar hefur risið blómleg byggð við höfn sem er í ármynni, Höfn í Hornafirð. Ég tel harla ólíklegt að sá blómlegi og fallegi bær væri til ef lífgjafann vantaði, Hornafjarðarfljót.
Urðu engar slíkar pælingar til í kollum sérfræðinganna á Siglingastofnun, datt þeim aldrei Hornafjarðarfljót og Höfn í Hornafirði í hug?
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Ferðalög, Samgöngur, Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 114095
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ágætar hugmyndir hjá þér ... svo stutt sem verkfræðiþekking mín nær!
En áhugaverður pistill, sanarlega.
Jón Valur Jensson, 13.9.2010 kl. 19:30
íslenskir verkfræðingar eru enn að reyna að finna upp hjólið og gengur misvel.. þú finnur vart höfn erlendis sem ekki er byggð í ósi einhverrar ár.. þær hafnir sem ekki eru byggðar þannig hafa frá náttúrunnar hendi eitthvað annað skjól.. Landeyjarhöfn hefur hvorugt..
Óskar Þorkelsson, 14.9.2010 kl. 03:46
Sæll Sigurður, nú er of seint að flytja höfnina, gæti ekki frekar verið möguleiki á að flytja fljótið, eða hluta af því inn í höfnina. Spurningin er frekar getur markarfljótið unnið á móti ofurkröftum Atlantshafsins.
Kjartan Sigurgeirsson, 14.9.2010 kl. 09:24
Þakka jákvæðar undirtektir Jón Valur og Óskar, þín athugasemd um hafnir í árósum er að hluta kveikjan að minni hugmynd. Það er ekki víst að almennt skilji menn nafn höfuðborgar Noregs, Oslo. Það þýðir einfaldlega ósar árinnar Lo. Fyrsta höfuðborg okkar eftir Gamla sáttmála hét Niðarós, myndað á sama hátt. Ég held að allar hafnarborgir Þýskalands séu með hafnir í árósum, einnig í Belgíu og Hollandi. Þessar staðreyndir virðast íslenskir verkfræðingar aldrei hafa gert sér grein fyrir þó við höfum árósahöfn í landinu, Höfn í Hornafirði.
Kjartan, það er einmitt í minni hugmynd að færa árósa Markarfljóts í höfnina til að straumur þess hreinsi Landeyjahöfn og hafnarmynnið stöðugt. Allar ár á landinu, sem eitthvað kveður að, sýna hafinu í tvo heimana, mynda straum og rás frá landi, svo er einnig um Markarfljót. Stórfljótin á Suðurlandi fara létt með að ryðjast til sjávar, bendi á Þjórsá og Ölfusá. Í miklum leysingum, þegar árnar eru enn þá gruggugri en venjulega, má sjá framrás þeirra langt út í sjó
Sigurður Grétar Guðmundsson, 14.9.2010 kl. 10:04
Þetta er nú betra en nokkur verkfræðimanna speki. Það ætti ekki að vera mikið mál að hafa hjáveitu og líklega það eina sem getur bjargað málunum. Takk fyrir að minnast á Dyrfjöru en ég hef lengi velt fyrir mér Dyr nafninu Anadyr á austurströnd Síberíu. Það er talið að norrænir hafi verið á þeim slóðum.
Valdimar Samúelsson, 14.9.2010 kl. 11:12
Það má geta þess að við vestur Miklavatn (Lake Superior) er að finna tvær holur sínhvoru megin við á sem bendir til að þar hafi verið skipalægi út frá ánni. Það er talið að holur af þessu tagi séu frá upp úr 1000AD en það er mikið af þeim í Minnisoda og Dakota jafnvel upp við Winnipeg vatn ja og Hudson bay.
Valdimar Samúelsson, 14.9.2010 kl. 11:17
Það þarf nú ekki nema svon eitt eldgos rétt austan við Landeyjahöfnina til að koma þessu í lag. Kemur fyrr eða síðar máttu bóka.
Gísli Ingvarsson, 14.9.2010 kl. 13:03
Athyglisvert
Gunnar Th. Gunnarsson, 14.9.2010 kl. 14:28
Var þetta ekki einmitt hugmynd Lúðvíks Gissurarsonar, að leggja rás úr Markarfljóti í Bakkafjöruhöfn til að ræsa fram úr henni? Enginn smá lækur það. En þetta finnst óverkfróðum athyglisverð hugmynd.
Sigurður Hreiðar, 16.9.2010 kl. 10:01
Ég hef ekki séð hvað Lúðvík sagði í grein sinni Í Morgunblaðinu, sá miðill kemur ekki lengur á mitt heimili, aðeins heyrt um hana og að þar hafi Lúðvík verið með ákveðinn læk í huga. En satt best að segja hef ég verið með þessa ármynnishafnir í huganum allt frá barnæsku. Hugsaði oft um það þegar þetta bar á góma í bernsku að höfn yrði byggð í ármynni Þjórsár, eflaust vegna þess að ég fæddist og ólst upp á bakka Bolafljótsins, sem Guðmundur Daníelsson frá Guttormshaga nefndi svo.
En þegar umræða um að byggja Landeyjahöfn kom fyrst fram hugsaði ég gjarnan til Hornafjarðar, vildi þó ekki vera að trana fram mínum hugmyndum um hafnargerð, þó hef ég fengist við vatn í mörgum myndum í nær 60 ár. En grein Lúðvíks varð til þess að ég setti hugmyndina á bloggið. Ég sendi pistilinn til fréttastofa RÚV og Stöðvar2 en þar er þetta ekki "fréttatækt" það hefði verið brugðist fljótar við ef um hundasýningu hefði verið að ræða. Ég sendi hinum nýja samgönguráðherra, Ögmundi Jónassyni pistilinn. Ég þakka honum fyrir hlý orð til baka þar sem hann þakkar fyrir ábendinguna.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 16.9.2010 kl. 13:59
En er ekki sand og leirburður í íslenskum jökulám, ólíku saman að jafna og í hinum hægfljótandi stórfljótum erlendis?
Gunnar Th. Gunnarsson, 16.9.2010 kl. 14:31
Þetta er ekki ný hugmynd og var rætt á sínum. En ýtt strax út af teikniborðinu. Gallarnir við þessa hugmynd eru að til að halda höfninni opinni með þessum hætti þarf lauslega 150m³/sek þ.e. ca. tvö Markarfljót, 150 Elliðaár. Svo bætist við annað vandamál að með Markarfljóti kemur ca. 1,0 millj. af auri og 150 þ.m³ af botnefni árlega. Þetta efni þyrfti að sía eða fjarlægja eða dýpka annars sest það í höfnina. Vegna Eyjafallagosins þá voru komnar 1,5millj m³ af botnefni 6. ágúst sl. Þar af komu ca. 700þm² með hlaupinu í apríl og síðan þá hefur fljótið mjatlað 800 þ.m³ til viðbótar. Ef Markarfljót hefði farið í gegnum höfnin þá hún hefði algjörlega lokast. Þannig að þrátt fyrir að þetta sé góð hugmynd þá er fátt sem bendir til þess að hún gangi upp.
Sigurður Áss Grétarsson (IP-tala skráð) 17.9.2010 kl. 17:14
sem sagt SÁG.. þetta var dauðadæmt frá upphafi ;)
Óskar Þorkelsson, 17.9.2010 kl. 18:23
Sigurður Áss, hversvegna helst árfarvegur Markarfjóts opinn og veitir stöðugt vatni til sjávar með auri og núna eldfjallaösku. Ef vatni úr Markarfljóti væri veitt um höfnina þá ætti ykkur hjá Siglingastofnum að vera í lófa lagið að hanna þannig að allt fasta efnið efnið, aurinn og eldfjallaskan, rynni til sjávar en settist ekki í höfnina, héldi henni með ákveðnu dýpi og hafnarmynninu stöðugt opnu vegna straumsins sem út úr höfninni liggur. Til þess að það geti gerst þarf vatnsmagnið að vera nægjanlegt og dreifast þannig um höfnina að hún haldist stöðugt hrein.
Það er auðveldast að slá niður allar róttækar hugmyndir, ég skil vel að þið hjá Siglingastofnun haldið fast við hönnun hafnarinnar sem er þegar komið í ljós að er hrikaleg mistök. Ef það á að halda áfram í ófærunni, að fá grunnskreiðari ferju, þá mundi ég ekki fara um borð í slíkt fley nema þegar rjómalogn er að sumarlagi, hálfgerð flatbytna er manndrápsfley í stórsjóum út af Suðurströndinni.
Sigurður Grétar Guðmundsson, 18.9.2010 kl. 11:00
sæll Sigurður , svaraði þér aftur á blogginu mínu . kv .
Georg Eiður Arnarson, 23.9.2010 kl. 11:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.