Fjórða stoð lýðræðis, fjölmiðlar

Í lýðræðisríki gegna fjölmiðlar geysimiklu hlutverki, þeirra þýðing hefur stöðugt aukist undanfarna áratugi. Einn atburður markar þó dýpra spor hérlendis en nokkur annar, stofnun Ríkisútvarpsins árið 1930. Áhrif Ríkisútvarpsins urðu mjög mikil strax eftir stofnun og fjölmörg heimili á landinu lögðu í þá fjárfestingu að kaupa sér útvarpstæki. Ég er orðinn nokkuð aldraður en þó er Ríkisútvarpið nokkru eldra en ég. Ég man ekki eftir örðu en að hafa hlustað á útvarpið og ég held að áhrif þess hafi ekki síst verið fræðslan sem þá seytlaði frá því um allt þjóðlífið. Ég horfði opinmyntur sem barn á þessi merkilegu tæki sem stóðu á hornhillu í baðstofunni sem við kölluðum svo. Bogadregni hátalarinn lengst til hægri, svarti kassinn sem kallaður var lampatækið, á milli þeirra þungur sýrufylltur rafgeymir, þeir voru til tveir og var annar oftast á hleðslu á Urriðafossi hinum megin við Þjórsá. En hann nægði ekki sem orkugjafi, það þurfti einnig heljarmikið þurrbatterí sem keypt var hjá Verslun Friðriks Friðrikssonar í Miðkoti í Þykkvabæ.

Útvarðið sagði fréttir á hverjum degi. Ég var einmitt að komast til vits og ára þegar seinni heimsstyrjöldin hófst og hélt því lengi vel að stríð væri eðlilegt ástand sem væri stöðugt í heiminum og má segja að þar hafi ég skilið ástandið rétt. En ekki síður var það tónlistin sem flæddi frá tækinu og Stefán Íslandi varð heimilisvinur. Bjarni Björnsson lék jólasveininn í barnatíma sjónvarpsins á jóladag. Auðvitað átti ég að trúa því að þetta væri ekta jólasveinn en ég vissi betur en tókst að halda því leyndu. Þess vegna var sorgin mikil þegar sú frétt barst að Bjarni Björnsson hefði dáið langt fyrir aldur fram, mundi enginn jólasveinn koma hér eftir í útvarpið? Það er ekki nokkur vafi á að útvarpið var ein helsta menntastofnun landsins. Leikritin á laugardagskvöldum var nokkuð sem enginn vildi missa af og enn man ég flutning Helga Hjörvar á þekktustu útvarpssögu allra tíma, Bör Börsson eftir norska skáldið Johan Falkberget. Seinna hlotnaðist mér sú ánægja að leika "skúrkinn" Óla í Fitjakoti á sviði hjá Leikfélagi Kópavogs, þá umbreytt í söngleik af Norðmönnunum Harald Tussberg og Egil Monn Iversen.

En nú er ég þó svo sannarlega kominn út um víðan völl því ætlunin var að fjalla um fjölmiðla sem fjórðu stoð lýðræðis í okkar landi. Ég verð að viðurkenna að þá liggur við að mér falla allur ketill í eld. Enn vil ég minnast á Ríkisútvarpið sem vissulega hefur orðið að hopa talsvert eftir að útvarps- og sjónvarprekstur var nær alfarið gefinn frjáls, það var vissulega óhjákvæmilegt. Oftast hlusta ég á gömlu gufuna og læt mér nægja að horfa á Ríkissjónvarpið, ekki eftir neinu að slægjast á öðrum stöðvum. Hvernig veit ég ég það kann einhver að spyrja fyrst þú sérð þær aldrei? Nægjanlegt að lesa sjónvarpsdagskrárnar, á þeim er nánast ekkert annað en amerískt drasl, nóg af því í Sjónvarpinu vissulega. Það er dapurlegt að sjá hvert frelsið hefur leitt einstaka menn eins og ég hef áður bloggað um; Ingvi Hrafn Jónsson fyrrum fréttastjóri Ríkisútvarpsins kófdrukkinn á sjónvarpsstöð sinni að ryðja úr sér svívirðingum og sleggjudómum.

En Ríkisútvarpið og Sjónvarpið á tvímælalaust tilverurétt, hvorutveggja  á að efla eins og ég kem inn á í umsögn minni um viðtalið við Pál Skúlason í þætti Þórhalls Gunnarssonar, Návígi.

En hvað um prentmiðlana, blöðin?

Þar er ástandið ekkert annað en skelfilegt. Hér eru tvö dagblöð gefin út. Morgunblaðið á langa sögu að baki og var lengst af eitt af illvígustu flokksblöðum landsins. En Matthías Johannessen og Styrmir Gunnarson rifu blaðið upp úr lágkúrunni um leið og öll flokksblöð liðu undir lok, þau mátti svo sannarlega missa sig. En það varð mikil breyting á eignarhaldi Morgunblaðsins fyrir fáum árum og þá varð stórslys. Í stað þess að Morgunblaðið kæmist í hendur víðsýnna útgefenda lenti það í höndum samtakanna sem hafa komist yfir eina dýrmætustu auðlind Íslands, fiskinn í sjónum og réttin til að veiða hann. Þeir komust á svipaðan hátt yfir fiskinn og þeir sem eignuðust bankana og rændu þá innanfrá. Landsamband ísl. útvegsmann áttu næga hauka í horni á Alþingi sem réttu þeim auðlindina á silfurfati, þeir þurftu engu að stela en hvað um siðferði þeirra sem réttu fram silfurfatið og þeirra sem tóku við? 

Glórulaus og siðlaus gjörð sem tilreidd var sem lögleg!

Og svo kom reiðarslagið. Fyrrum Forsætisráðherra og Seðlabankastjóri Davíð Oddsson, maðurinn sem ber einna mesta sök á að fjármálkerfið hrundi, var gerður að ritstjóra.

Síðan er blaðið á fallandi fæti, einsýnt og þröngsýnt, málpípa þeirra sem ætla ekki að sleppa því sem þeir hafa komist yfir á hneykslanlegan hátt, auðlindum hafsins. Meira en fjórðungur áskrifenda blaðsins létu ekki bjóða sér þennan óþverra allan og sögðu blaðinu upp. Tap þess á ári er nú talið í milljörðum og skyldi engan undra.

En hve lengi ætlar útgerðarauðvaldið að láta milljarðana renna í taphít blaðsins, ætla menn að endalaust að láta peninga renna í hana?

En hvað um hitt blaðið, Fréttablaðið. Þetta er blaðið sem fyrrnefndur Davíð Oddsson fékk á heilann og, barðist gegn ásamt allri sinni hirð og fékk um það sett eftirminnileg lög sem nefndust Fjölmiðlalögin.

En ólíkindatólið á Bessastöðum greip þá inn í, neitaði að undirskrifa og vísaði Fjölmiðlalögunum til þjóðarinnar. En þá sá Davíð sitt óvænna og dró lögin til baka og ekkert varð úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.

En hver á Fréttablaðið? Er það ekki maðurinn sem hefur gert usla í fjármálum þjóðarinnar, er það ekki maðurinn sem á íbúðir á dýrasta stað í New York, er það ekki maðurinn sem átti (eða á ) skemmtisnekkju sem er á stærð við okkar gamla Gullfoss, nefnist sá maður ekki Jón Ásgeir Jóhannesson?

Hvers vegna er þessi maður að eiga og gefa út dagblað, reka útvarsstöð og sjónvarpsstöð, er það til þess að standa vörð um prentfrelsið og málfrelsið? Lætur hann enn fé af hendi rakna til að halda þessum fjölmiðlum á floti?

Það virðist einsýnt að slíkur karakter sé fyrst og fremst í fjölmiðlun til að hans eigin  fjölmiðlar taki svari hans ef á þarf að halda!

DV hefur sinn sess og ákveðinn lesendahóp,  blað sem á sín systkinu víða um lönd. En líklega er DV eina blaðið á Íslandi sem er ekki læst í helgreipar sérhagsmunaaðila.

Svo er það öll tímaritaflóran. Ekki vantar að tímaritin séu flott, glanspappírinn ekki sparaður og sannarlega merkilegt a þau hafa getað sópað til sín  dýrum auglýsingum þrátt fyrir hrun og kreppu. En öll eru glanstímmaritin á kafi í því að búa til staðalmyndir, einkum ungra stúlna. Þær skulu vera leggjalangar og þvengmjóar. Helstu fyrirmyndir eru sýningarstúlkur í París og öðrum tískuháborgum sem víxla sér fram eftir göngubrettum með smínk á andlitinu sem sóma mundi sér á andliti Djáknans á Myrká.

En hvað um allar bloggsíðurnar? Er þær ekki hluti af íslenskri fjölmiðlum? Vissulega, og í bland eru þar rökræður viðhafðar en þeir eru ekki margir sem þannig tjá sig. Mikið ber á háværum upphrópunum og þar sjást einnig svívirðingar, það er hin dapurlega staðreynd.

Þannig er ástand fjölmiðla á Íslandi í dag!

Ástandið er í einu orðði sagt:

SKELFILEGT!!!

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband