Ánægjuleg og fróðleg heimsókn í Háskólann í Reykjavík

Það fyrsta sem mætir manni við komuna í ný húsakynni Háskólans í Reykjavík er gott skipulag bygginganna, ég tala um þau í fleirtölu því þannig er skólinn uppbyggður, sjálfstæðar álmur út frá sterkri miðju, Sólinni.

Ég fór í heimsókn í HR laugard. 31. okt sl. með því gamla fornfræga félagi, Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík. Þar tók á móti okkur Gunnar Guðni Tómasson sem ég held að ég megi titla sem deildarstjóra tækni- og raungreina ásamt meðkennara sínum. Það kom ýmislegt á óvart. Háskólinn Í Reykjavík er í rauninni afsprengi Verslunarskólans og þar mætti einnig nefna Viðskiptaráð sem er kannski ekki í dag uppáhald allra. Ég hef alltaf litið á HR fyrst og fremst sem háskóla sem sinnir viðskiptalífinu, ég hélt áður en ég kom í þessa heimsókn að þar væru einkum menntaðir viðskiptafræðingar, endurskoðendur og hagfræðingar. En þarna kom annað í ljós og kannski hefði ég átt að muna eftir því að ein af undurstöðunum, sem skólinn byggði strax á við stofnun, var þáverandi Tækniskóli. 

En hvað kom mest á óvart?

Að öflugasta deild skólans er tækni- og raungreinadeild og þar er boðið nám sem aldraður maður kynnti sér opinmynntur, aldraður maður sem reyndi að finna sér frekara nám fyrir meira en hálfri öld eftir sveinspróf í pípulögnum en það var ekkert slíkt nám í boði á Íslandi þá.

Ég sannfærðist um það að enginn háskóli á Íslandi leggur jafn ríka áherslu á tækni- og raungreinar og Háskólinn í Reykjavík. Ég nefni fyrst Iðnfræðimenntun og að sjálfsögðu varð aldinn pípulagningamaður með 52 áragamalt sveinspróf stoltur og glaður þegar í ljós kom að HR gefur engan afslátt frá því að þeir sem hefja iðnfræðinám séu með sveinspróf í fögum sem eru undirstöður þeirrar menntunar. Þó varð ég fyrst undrandi þegar Gunnar Guðni kynnti okkur of sýndi tæknibúnað skólans, vinnustofur þar sem nemendur geta sannreynt það sem hugir þeirra hafa skapað og er tilbúið á skjánum. Þetta er að sjálfsögðu ómetanlegt því það þekkja flestir að góð hugmynd eða hönnun fær ekki eldskírn sína fyrr en hún er fullsköpuð og vinnsluhæf.

En svo kom gamla íslenska áráttan í ljós þegar okkur var kynntur þessi alltumlykjandi niðurskurður sem er afleiðingin af gersamlega  brjáluðu ástandi sem kollvelti fjármálum þjóðarinnar á haustdögum 2008. Það verða víst fáar stofnanir eða skólar sem ekki verða að taka á sig skerðingu. En Háskólanum í Reykjavík er skammtaður niðurskurðurinn, hann kemur ekki í einni og sömu skál heldur er rækilega búið að skammta í askana af stjórnvöldum.

Og úr hvaða aski skyldi mest vera tekið, svo mikið að það glittir í botn?

Gamla áráttan að taka mest af tækni- og raungreinum, þessum myndarlegasta vaxtasprota Háskólans í Reykjavík.

Ég er hér með þessum pistli mínum að halda áfram umfjöllun minni um auðlindir Íslands. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ein helsta auðlindin er hugarorkan, hana verðum við að rækta. Við höfum orðið fyrir miklu áfalli af völdum þeirra sem menntuðu sig og tóku sæti við, að þeir héldu, við allsnægtaborð fjármagnsins, fjármagnið skyldi öllu bjarga. Er það ekki þversögn að hlífa þeim greinum sem framleiddu því miður flesta af mestu óþurftarmönnum sem uppi hafa verið á Íslandi frá Sturlungaöld? Hvers vegna í ósköpunum koma stjórnvöld ekki auga á að vaxtarsproti okkar í framtíðinni er ekki síst í tækni- og raungreinum.

Í gærkvöldi var viðtal í Sjónvarpinu við framkvæmdastjóra hugbúnaðarfyrirtækisins Marorka.

Hver eru helstu vandamál Marorki?

Skortur á starfsmönnum, rímar það við að engir vilji fjölga starfsmönnum, allt sé í doða?

Nei. engan veginn. En eru stjórnvöld ekki að raða vitlaust í askana, eru það ekki einmitt starfskraftar þeirra sem afla sér menntunar í raungreinum sem sjáanlega er skortur á í dag?

Áður en lengra er haldið vil ég taka það fram að við höfum mikla þörf fyrir hugverkahópinn og vissulega var það litill minnihluti úr þeim hópi sem reyndist rotin epli. En við höfum menntað mikinn fjölda t. d. viðskiptafræðinga sem eru að vinna mörg nytsamleg verk. En vorum við ekki farin að mennta of marga í hugverkagreinum? Er ekki kominn tími til að við skiljum þörfina fyrir tækni- og raungreinafólkið. er ekki í þeim falin ein af okkar auðlindum?

Ég ætla að vona að við lokafrágang Fjárlaga nái sá skilningur inn hjá Alþingi og stjórnvöldum að í tækni- og raungreinamenntun liggur einn okkar öflugasti sproti í baráttunni við að komast upp úr dýinu sem við mörrum í eftir Hrunið mikla.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Trúir þú öllu sem sagt er? Ef þú auglýsir eftir starfsmanni með mjög sérstæða/sérhæfða menntun og starfsreynslu, er engin vandi að benda á að í öllu atvinnuleysinu fannst enginn "últrasúpersérfræðigúrú" nema maður frá Californíu sem vildi ekki starfið af því að aðrir buðu betur. Marorku maðurinn var að fara með villutexta frá Samtökum atvinnulífsins. Atvinnuleysi kemur misjafnlega niður á störfum og starfsgreinum eins og þú veist af gamalli reynslu. Svona tal hjálpar ekki og er af annarlegum hvötum.

XO (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 12:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband