Athyglisvert viðtal Þórhalls við Björk í Návígi í gærkvöldi

Ég játa strax; viðtalið kom mér mjög á óvart, jákvætt á óvart. Björk sýndi og sannaði að hún er ekki í hópi glamrara, hún hefur greinilega kynnt sér mál auðlindanna og orkugeirans á Íslandi mjög vel.

Það er vissulega hægt að þrasa endalaust um kaup Magma Energy á hluta af HS-Orku á Suðurnesjum. En þær deilur sem þar hafa risið koma ekki síst af því að við höfum ekki markað okkur stefnu í auðlinda- og orkumálum, það er kjarni málsins. Ég held raunar að við ættum að hætta að þrefa um Magma málið og láta það ná fram að ganga, allt annað er rugl. En sé okkur það ekki að skapi eigum við umfram allt að marka stefnuna til framtíðar það vel að við í framtíðinni verðum að finna okkur annað til að þrasa um. En stefnumörkunin er lífsnauðsyn og þá ákalla ég Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra um að ganga hratt til verks, ég trúi henni og treysti til forystu.

Þrennt gladdi mig sérstaklega sem Björk sagði í gær:

Hún benti á það sem og ég hef bent á áður en fengið litla athygli; nýting jarðgufu til orkuframleiðslu er allt annað mál en nýting vatnsafls. Á mínu bloggi er þessi pistill:

Notkun á jarðgufu eingöngu til raforkuframleiðslu er hrikaleg rányrkja á auðlind

Mér til nokkurrar furðu hef ég lítil viðbrögð fengið. En Björg kom réttilega inn á að við gætur ekki borað að vild og sótt endalaust gufu, jarðhitasvæðin eru viðkvæm en nóg um það; þeir sem ekki hafa lesið þennan pistil minn geta blaðað aftur til 8. okt. og þar er hann.

Í annan stað nefndi hún fiskinn í sjónum sem mér finnst fá allt of litla athygli sem auðlind. Auðlindaumræðan hefur eingöngu snúist um auðlindir á og í  landi, þess vegna verður þessi mikli hvellur út af Magma Energy, allt virðist ætla af göflunum að ganga vegna eignarhalds einkaaðila, ekki á auðlindinni heldur á nýtingu hennar. En þeir sem hæst láta þar virðast eingöngu taka við sér ef útlendingar koma með eignaraðild, en láta sér í léttu rúmi liggja þó íslenskir ríkisborgarar sölsi undir sig auðlindir okkar með dyggum stuðningi stjórnmálaafla. Mér liggur við að bera þetta saman við það að við kipptum okkur ekki upp við það að menn færu um rænandi og ruplandi einungis ef þar færu Íslendingar en legðum allt kapp á að góma slíka kóna ef þeir væru útlendingar.

Í þriðja lagi vil ég nefna þá róttæku hugmynd sem Björk setti fram; að breyta stálgrindaskálunum tveimur, sem búið er að reisa fyrir álver, í ylræktarver. Þarna mætist það sem ég hef lagt áherslu á; að ef við öflum gufu til orkuframleiðslu getum við ekki nýtt hana af viti og framsýni nema láta hana fyrst framleiða rafmagn og þar á eftir heitt vatn eða áframhaldandi sem gufu líkt og gert er á Nesjavöllum, Svartsengi og gert verður í Hellisheiðarvirkjun.

Ég benti á Kröfluvirkjun; hversvegna ekki ylræktarver þar?

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll vertu Sigurður Grétar.

Ylræktarverið sem þú minnist á væri heppilegra að staðsetja nærri Reykjanesvirkjun. Við það vinnst þrennt:

- Ekki þarf að leiða heita vatnið sem notað er til upphitunar langa vegu. Miklu ódýrara.

- Ekki þarf að leiða rafmagnið sem notað er fyrir lýsingu langa leið. Það þýðir lægri flutningstöp og ekki þarf að greiða Landsneti fyrir flutning á raforkunni ef ylræktarverið (eða annar iðnaður) er á sömu lóð og orkuverið.

- Nýtnistuðull á jarðvarmanum hækkar úr ca 15% (Carnot cycle) í allt að 85%.

Við Kröfluvirkjun, Hellisheiðarvirkjun og Reykjanesvirkjun væri kjörið að reisa ylræktarver. Tækifærið bíður eftir einhverjum framtakssömum. Allt er til reiðu.

Reyndar verður framleitt heitt vatn á Hellisheiði á næstunni og þá hækkar nýtingarstuðullinn þar.

Í Svartsengi fjölnýtingin þegar líklega sú mesta sem þekkist í heiminum (Framleiðsla á rafmagni og heitu vatni, eldsneytisverksmiðja að rísa, gróðurhús Orf, Bláa lónið, snyrtivöruframleiðsla, Soriasis læknamiðstöð, ...).

Sjá t.d. hér: www.landvernd.is/myndir/albert.pdf

Með kveðju

Ágúst H Bjarnason, 10.11.2010 kl. 17:07

2 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Sæll Ágúst

og þakka þér fyrir þetta ágætis innlegg. Ég vissulega greip þessa hugmynd Bjarkar hvort ekki væri hægt að nota stálgrindur álvers ef aldrei verður fyrir ylræktarver. En auðvitað er það hárrétt hjá þér að hagkvæmast væri að hafa Ylræktarverið sem þéttast við virkjunina til að komast hjá lögnum með stofnkostnaði og varmatapi.

En mig langar að bæta um betur. Ef Ylræktarverið væri nánast sambyggt orkuverinu, eins og gæti verið við Kröflu og Reykjanesvirkjun, þá er hægt að spara ennþá meira í stofnkostnaði. Þá væri hægt að sleppa varmaskiptum þar sem gufan hitar upp vatn og nota gufuna beint sem varmagjafa. Slík hitakerfi voru þó nokkuð algeng fyrir öld eða svo (ekki hér á landi) en ekki eins hagkvæm því þar varð að nota mikla orku (kol) til að hita vatnið yfir suðumark.

Þú bendir mér á góðan punkt sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir; fullnýtingunni viðvið Svartsengi, þetta er tæplega betur gert annarsstaðar. En ég er ánægður með að þú tekur undir varnaðarorð mín um nýtingu jarðvarmaorku einungis til raforkuframleiðslu.

Kveðjur

SGG

Sigurður Grétar Guðmundsson, 10.11.2010 kl. 18:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband