14.4.2009 | 11:22
Lagnafréttir: Er þetta heiðarleg ráðgjöf?
Fyrir þrjátíu og fimm árum síðan hófst merkileg þróun. Þá hófst fyrir alvöru lögn snjóbræðslukerfa hérlendis. Þá höfðu Svíar um nokkur ár þróað snjóbræðslukerfi sem þeir nefndu Meltaway, lögðu talsverða fjármuni í þetta verkefni, framleiðslu á snjóbræðslurörum, val á öðrum búnaði og rannsökuðu hvað þyrfti mikla orku til að hitun gangstíga, gatna og torga kæmi að gagni. En einmitt fyrir um þrjátíu og fimm árum kom áfall sem síðan hefur verið nefnt olíukreppan, olíuverð rauk upp í svimandi hæðir. Þetta varð til þess að snjóbræðslur urðu sjaldséðar í Svíþjóð þar sem borga þurfti fyrir hverja hitaeiningu sem fór til hitunar.
En eins dauði er annars brauð og þarna fengu Íslendingar kjörið tækifæri. Hérlendis var í hverju húsi kastað talsverðum varma með afrennsli frá hitakerfum. Þá var unnið að hitaveitulögnum víðs vegar um land, Reykjavík var öll hituð upp með jarðvarma, Kópavogur samdi við Hitaveitu Reykjavíkur um lögn hitaveitu um kaupstaðinn, síðan komu flestir nágrannar Reykjavíkur í kjölfarið.
Það var sænska Meltaway kerfið sem varð grundvöllur þróunar snjóbræðslukerfa hérlendis, en það kerfi hentaði ekki að öllu leyti okkar góðu aðstæðum. Þess vegna varð að laga það að íslenskum aðstæðum, fyrst og fremst hvernig hægt væri að beisla og nota þann ókeypis varma sem rann fram að því beint í skólpkerfið engum til gagns.
Það sem haft var að leiðarljósi við þá aðlögun var að þróa einfalda, örugga og eins ódýra tengigrind og unnt var. Þetta tókst það vel að síðan hafa verið lögð og tengd þúsundir snjóbræðslukerfa eftir þessari fyrstu forsögn. Þessi kerfi hafa unnið sitt verk og skilað því sem til var ætlast; að halda gangstígum, bílastæðum og götum hálkulausum, að nýta svo sem unnt var afgangsvatnið frá hverju húsi, stundum með svolítilli viðbót sem ekki kom nema sáralítið við pyngjuna.
En nú er kominn markviss áróður frá lagnaverslunum að þessa einföldu og öruggu leið, sem hefur ótvírætt sannað gildi sitt, sé ekki hægt að fara lengur. Nú verði hver sá sem vill kallast maður með mönnum að kaupa innflutta stöð sem samanstendur af öllum þeim ónauðsynlegu tækjum sem hægt er að koma fyrir í einum slíkum grip. Þar verði að vera auk hefðbundins stýribúnaðar varmaskiptir, þensluker, dæla o. fl. Þá verði einnig að setja frostlög á öll kerfi, hina góðu reynslu af því að nota afrennslisvatnið beint sé úrelt tækni. Meðfylgjandi er sýnd auglýsing frá einni lagnaverslun, gæti verið frá hverri sem er, það er sami rassinn undir þeim öllum hvað þetta varðar. Í auglýsingunni stendur svart á hvítu að nú sé tíminn til að ráðast í snjóbræðslulögn, rörin séu ódýr og hin gjörsamlega óþarfa stöð hafi verið lækkuð í verði og kosti nú ekki nema röskar 153.000 kr. Svo er klykkt út með það að starfsmenn verslunarinnar veiti viðskiptamönnum ráðgjöf varðandi snjóbræðslukerfi.
Þarna er verið að reyna að lokka saklausa viðskiptamenn til að kasta á glæ á annað hundrað þúsund krónum, verið að beina þeim inn á þá braut að hafna áratuga reynslu til þess að fleiri krónur komi á kassann hjá versluninni.
Er þetta heiðarleg ráðgjöf?
Góð reynsla Þetta er ódýr og einföld tenging á snjóbræðslukerfi við fjölbýlishús í Reykjavík. Þar var lagt mat á í hve stórt svæði afrennslið frá hitakerfinu mundi duga. Lagt var snjóbræðslukerfi í gangstétt meðfram þremur stigahúsum, í tröppur og akbraut meðfram bílastæðum. Þetta kerfi er eingöngu hitað upp með afrennslinu, engin viðbót, hefur gengið áfallalaust í 20 ár.
Grímulaus sölumennska Þessi auglýsing frá lagnaverslun reynir að sannfæra viðskiptamanninn um að kaupa stöð með ónauðsynlegum búnaði, reynt að lokka hann til að leggja á annað hundrað þúsund krónur að nauðsynjalausu í kassann hjá seljandanum.
Þetta er pistillinn "Lagnafréttir" sem dæmdur var óhæfur til birtingar í Fasteignablaði Morgunblaðsins. Mér finnst ástæða til að birta hann nú þegar vorverkin eru að hefjast.
Sigurður Grétar Guðmundsson
Um bloggið
Sigurður Grétar Guðmundsson
Færsluflokkar
- Bílar og akstur
- Bloggar
- Bækur
- Dægurmál
- Enski boltinn
- Evrópumál
- Ferðalög
- Heimspeki
- Íþróttir
- Kjaramál
- Kvikmyndir
- Lífstíll
- Löggæsla
- Matur og drykkur
- Menning og listir
- Menntun og skóli
- Pepsi-deildin
- Samgöngur
- Sjónvarp
- Spaugilegt
- Spil og leikir
- Stjórnmál og samfélag
- Sveitarstjórnarkosningar
- Tónlist
- Trúmál
- Trúmál og siðferði
- Tölvur og tækni
- Umhverfismál
- Utanríkismál/alþjóðamál
- Vefurinn
- Viðskipti og fjármál
- Vinir og fjölskylda
- Vísindi og fræði
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 114094
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þarfur og góður pistill hjá þér. Það er gott fyrir neytendur að hafa aðgang að góðum og faglegum upplýsingum á "mannamáli" um lagnamál á netinu.
Toni (IP-tala skráð) 14.4.2009 kl. 12:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.