Vanhugsuð tillaga um hækkun aldurs til bílprófs

Þá er komin fram einhver vanhugsaðasta tillaga, og raunar óréttlátasta, sem lengi hefur komið frá stjórnvöldum. Nú skal hækka aldur þeirra sem taka  bílpróf úr 17 árum í 18 ár.

Hvers vegna er þetta vanhugsuð tillaga?

Hún er fyrst og fremst óréttlát og jaðrar við það að standast ekki jafnræðisreglu, en sú regla á að vera leiðarljós stjórnvalda í öllum málum og er raunar lögvernduð. 

Forsendan fyrir því að hækka bilprófsaldurinn er sú að sagt er að 17 ára bílstjórar séu valdir að fleiri umferðabrotum en aðrir aldursflokkar. Hins vegar eru það aðeins fáir einstaklingar sem fremja brot í þessum aldursflokki en eigi að síður skal refsa öllum aldursflokknum fyrir afbrot fárra. 

Stenst þetta jafnræðisreglu?

Það má líkja þessari tillögu við ákvörðun veitingamanns í Austurstræti sem setti alla þeldökka menn í bann á sínum veitingastað vegna þess að þeldökkur maður hafði sýnt hvítri konu áreitni við barinn. Hann var spurður að því hvort hvítir karlmenn sýndu aldrei slíka hegðun og viðurkenndi hann að slíkt hefði komið fyrir. Hann var spurður að því af hverju hann setti þá ekki bann á alla hvíta karlmenn. Svar við þeirri spurningu kom aldrei.

Fáránlegar tillögur

Það á líka að lögfesta að ungir 18 ára ökumenn megi ekki hafa í bílum sínum nema takmarkaðan farþegafjölda. Hver á að framfylgja þeim lögum? Á lögreglan að gera það? Á sama tíma og lögreglan er í fjárhagslegri spennitreyju þá á að leggja meiri skyldur á þá fáu lögreglumenn sem eru á vakt hverju sinni. Þetta er einkenni íslenskra stjórnvalda; að setja lög og reglur sem vitað er fyrirfram að ekki er hægt að framfylgja. Er þetta ekki eitthvað svipað og bannið við að tala í gemsa undir akstri? Vissulega er það algjör óþarfi að tala í síma undir stýri og auðvitað hættulegt, athæfi sem hver maður ætti að venja sig af. En það breytir ekki því að það er ekki bæði hægt að skera lögregluna niður við trog og leggja svo á hennar herðar meiri og meiri skyldur.

Hverjar verða afleiðingarnar?

Mjög líklega munu fleiri ungmenni stelast til að aka próflaus en áður. Það er ekki nema von að það kraumi reiði í mörgum þeirra sem eru að verða 17 ára og höfðu hlakkað til að fá  réttindi til að aka bíl. Við skulum ekki gleyma því að langflest 17 ára ungmenni haga sér vel í umferðinni, að refsa öllum fyrir afbrot fárra  stenst ekki.

Hvað er skynsamlegast að gera?

Efla kennsluna, ekki síst sálfræðilega. Það verður að efla starf ökukennara, það er eins og samfélagið hafi litið á ökukennslu sem eitthvað formsatriði, þetta nám hefur aldrei notið þeirrar viðurkenningar sem það á skilið. Akstur á vegum er dauðans alvara, um það höfum við óræk dæmi. Þess vegna á ekki að nálgast þetta vandamál með refsigleði heldur nákvæmlega því gagnstæða, með kennslu og upplýsingu um þær hættur sem bíða okkar allra á þjóðvegum og strætum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst að það mætti þrengja  ökuréttindi 17 ára unglinga t.d. vera með takmarkaðum  ökutíma t.d.milli kl. 7-22 og ekki án farþega nema yfir 25 ára.Erfitt að framfylgja þessu en gott að unglingarnir fái þjálfun en kannski ekki með jafnöldrunum um miðja nótt.

Hörður Halld. (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 21:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband