Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús

Menn flykktust á Austurvöll eftir hrunið mikla, börðu bumbur og pottlok undir stjórn Harðar Torfasonar, hentu drullu og eggjum í lögregluna, brutu rúður í Alþingishúsinu og Stjórnarráðinu, réðust inn á Hótel Borg og skemmdu útsendingarbúnað, komu í veg fyrir að "stjórnmálamenn" gætu komið máli sínu til almennings, þannig var málfrelsið á síðasta degi ársins 2008, ársins þegar bankaránin voru framin af þeim sem áttu alla möguleika til þess því þeir höfðu lyklana.

Niður með alla stjórnmálmenn, nýtt blóð, nýjar heilbrigðar persónur taki við!

Þetta var herhvötin, allt í einu var okkur sagt að það væri fullt af fólki í þjóðfélaginu sem hefði gáfur, hæfileika og framtíðarsýn, það þyrfti aðeins kosningar og henda öllu gamla settinu út, inn með nýjar mublur. Vissulega var það uppörvandi að fá að heyra það að meðal pottlokahjarðarinnar á Austurvelli leyndist afburðafólk sem gæti bjargað öllu, fólk sem hefði hugsjónir, fólk sem væri heiðarlegt og ekki síst þeim kostum búið að þekkja og virða lýðræðið, fólk sem gæti unnið af heilindum, fólk sem ætlaði að hlýða vilja "fólksins" í landinu, ef það fengi að taka við yrði allt gott, öll dýrin í skóginum yrðu vinir.

Svo komu kosningar

Nú áttu landsmenn tækifærið og hreinsa til í þeim hópi sem hafði komið  Íslandi á kaldan klaka og kjósa nýja fólkið frá Austurvelli. Þá gerðist nokkuð sérkennilegt:

Tugir þúsunda kusu aftur þá sem höfðu eyðilagt okkar ágæta þjóðfélag, þeir kusu Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, þessa tvo flokka sem höfðu stjórnað allri spillingu á Íslandi svo lengi sem ég man eftir og er ég nú svo gamall sem á grönum má sjá (lítið á myndina). Þessir tveir flokkar tóku "nýfrjálshyggjunni" opnum örmum, þeir einkavæddu ekki fyrirtækin sem þjóðin átti, þeir "einkavinavæddu" þau flest svo sem bankana, Símann, Íslenska aðalverktaka og svo mætti lengi telja.

En það gerðist einnig í þessum merkilegu kosningum að nýja aflið frá Austurvelli bauð fram til Alþingis albúið til að reisa aftur þjóðarbúið. Að vísu sprungu sumir á limminu strax og gáfust upp eftir nokkra misheppnaða upplýsingafundi. Bjarni bóksali á Selfossi (þessi með rýtinginn í erminni) og sakleysislegur og ágætur klerkur í Hafnarfirði Þórhallur að nafni sögðust ekki nenna þessu, ágæt dómgreind.

En AFLIÐ komst á þing, Borgarahreyfingin. Þór, Birgitta, Margrét og Þráinn. Satt best að segja hélt ég að Þór og Margrét hefðu eitthvað til brunns að bera, jafnvel Birgitta einnig en ég hafði enga trú á Þráni, þessum ágæta kvikmyndaleikstjóra og rithöfundi með allan sinn húmor. En hvað nú? Eini maðurinn sem ég ber einhverja virðinu fyrir nú er Þráinn, hann er þó  þeirrar náttúru að vera heiðarlegur og vilja standa við sín orð. Um þau hin þrjú ætla ég ekki að eyða fleiri orðum. Og hvar er sá ágæti Hörður Torfason, sem ég held upp á bæði sem trúbador og ekki síður sem eindreginn kjarkmann í mannréttindamálum eins og hann hefur sýnt óumdeilanlega í baráttu samkynhneigðra á liðnum áru. Er hann týndur?

Ég hef enn trú á minni þjóð

Vegna þess að kjarni þessarar þjóðar skynjaði hvar veilan lá. Kjarni þessarar þjóðar bar gæfu til þess að veita tveimur vinstri flokkum ( þetta hugtak er að vísu að verða æði gamaldags en við höfum ekkert betra) Samfylkingunni og Vinstri grænum MEIRIHLUTA Á ALÞINGI. Ég mun ætíð á þeim árum sem ég á eftir verða stoltur af Alþingiskosningunum í apríl 2009. Ef eitthvað verður til þess að bjarga okkur út úr því skelfilega frjálshyggjusukki sem Sjálfstæðisflokkurinn með stuðningi Framsóknarflokksins kom okkur í þá er það þessi ótrúlegu úrslit: AÐ ÞESSIR TVEIR FLOKKAR SKYLDU FÁ MEIRIHLUTA ATKVÆÐISBÆRRA MANNA Í KOSNINGUNUM 2009! Þess vegna er Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra Íslands og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.

Ég ætla að ljúka þessum pistli með þökkum til Steingríms J. Sigfússonar fyrir rökfastan og málefnalegan málflutning í Kastljósi í kvöld. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill. Sammála hverju orði.

Ína (IP-tala skráð) 7.8.2009 kl. 00:44

2 Smámynd: Himmalingur

Það eina" góða " við alþingiskosningarnar 2009 er, að tveir flokkar með vinstri slagsíðu ( eða svo hélt maður ) fengu meirihluta á alþingi. Eftir það hefur ekkert gott komið frá ríkisstjórn vorri, eða hvað? Eitt er á hreinu: Félagshyggjustjórn er hún ekki!!!

Himmalingur, 7.8.2009 kl. 00:50

3 Smámynd: Eygló

Það er sama hvort prjóna eigi flík, leggja í gólf eða rör í blokk.  Meðan iðnaðarmennirnir (eða prjónakonan) eru að útvega eða útbúa teikningar (mynstur) Kaupa efnið (t.d. garnið/rörin), raða eftir teikningum og/eða í huganum ER EKKERT LAGNAKERFI, ENGIN PEYSA.

Hvað segir sá sem ekki kann verkið, meðan þetta ferli stendur yfir?  Hann/hún hafa EKKERT gert. Þau VITA EKKERT hvað á að gera.

Slíkt getur verktakinn þurft að þola meðan þeir sem fjandakornið hafa ekki verksvit á málinu, dæla yfirlýsingum og vanhæfni, leti, heimsku, aumingjahátt yfir hina, þangað til allt verður "klappað og klárt" og blokkarbúar geta pissað í sín klósett og þvegið sér með heitu vatni.

Þegar hér er komið í sögu, heyrist minna í kvörtunarvælinu. Þótt allt sé sem best verður á kosið, fá þessir verkmenn sjaldan þakkir, ekki einu sinni "hafðu skömm fyrir" (eins og mamma sagði um vanþakkláta)

Sé samlíkingin óskiljanleg, verður bara að hafa það.

Eygló, 7.8.2009 kl. 02:43

4 Smámynd: Billi bilaði

Afskaplega er þetta sorglegt hjá þér.

Billi bilaði, 8.8.2009 kl. 03:07

5 Smámynd: Jón Ólafur Vilhjálmsson

Það er gott að það kom vinstristjórn en hún beitir sömu gömlu íhaldsúrræðunum þannig að það hefur lítið breytist annað en það er komið í ljós að V.G er ekki stjórnmálaflokkur heldur framboð  einstaklinga sem hver hefur sína skoðun og þær eru allar réttar og enginn beygir sig fyrir öðrum og þá endar þessi stjórn í stjórnleysi. Góð tilraun

Jón Ólafur Vilhjálmsson, 9.8.2009 kl. 21:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband