Silfur Egils er aftur komið á skjá og í loft og það er vel

Fyrsti þáttur af Silfri Egils á þessari vetrardagskrá fór af stað í gær, sunnudag. Ég vil enn og aftur taka það fram að ég tel Silfur Egils mikilvægan hlekk í þjóðmálumræðunni. Vissulega hafa umræður þar oft farið út um víðan völl en það hefur að sjálfsögðu ráðist af viðmælendum Egils og stöku sinnum hefur hann sjálfur orðið helst til ákafur og fastur á meiningum sem nokkuð hefur spillt fyrir honum sem stjórnanda þáttanna.

En þátturinn í gær var upplýsandi og fróðlegur, fyrst og fremst fyrir  framkomu þátttakenda sem allir völdu þann kostinn að ræða málefni líðandi stundar af yfirvegun og raunsæi. Fyrst vil ég þar nefna Svein Aðalsteinsson sem kom beint inn á heitasta umræðuefni dagsins; skuldastöðu heimilanna og hvað þar sé hægt að gera til bjargar. Mér fannst greining Sveins á þeim vanda vera einhverja þá skörpustu sem ég hef heyrt, en hann skýrði vel að aðstaða skuldara er margskonar, þess vegna er ekki hægt að leysa það vandamál með einu allsherjar pennastriki svo sem með því að lækka allar skuldir um 20% eins og Framsóknarmenn og furðulegt nokk: Tryggvi Þór Herbertsson virðist vera Framsóknarmaður að þessu leyti.

Illugi Gunnarsson ræddi vandmál þjóðarinnar af yfirvegun og festu og dró ekkert úr því að núverandi ríkisstjórn hefði gert margt og ynni hörðum höndum að því að finna lausn á hinum hrikalegu vandamálum þjóðarinnar, var ekki í sömu skotgröfunum og Framsóknarmenn hafa grafið sig í þó stjórnarandstæðingur sé. Sigríður Ingibjörg var einnig með upplýsandi innlegg en hefði að mínu viti mátt vera svolítið frekari til orðsins, hún átti fullt erindi inn í umræðuna.

Jón Daníelsson hagfræðingur sundurgreindi vel ástand dagsins og var bjartsýnni en flestir af hans stéttarbræðrum. Jón taldi upp margar aðgerðir ríkisstjórnar sem væru að skila árangri. Hann sagði einnig að álit umheimsins á vandamálum Íslands væru mikið að breytast okkur í vil og þar er líklega ekki síst að skila árangri að Alþingi tókst að ljúka við Icesave málinu illræmda, þar hefði stjórnarandstaðan vissulega mátt sýna meiri reisn. Sjálfstæðismenn virðast vera æði ráðvilltir og stefnulausir en Fram sóknarmenn hugsa fyrst og fremst um það að fiska í gruggugu vatni undir forystu Sigmundar Davíðs. Ekki kæmi á óvart þó honum tækist endanlega að leiða Framsóknarflokkinn fyrir björg með dyggum stuðningi Höskuldar Þórhallssonar  og Vigdísar Hauksdóttur.

En aftur að Silfri Egils.

Ketill Sigurjónsson lögfræðingur ræddi um orkumálin og þá sérstaklega un málefni HS Orku og tilboð kanadíska fjármálmannsins um kaup á hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. Það sem var skýrt í máli Ketils var að stjórnvöld og þjóðin öll, einnig stjórnendur orkufyrirtækja, eru mjög ráðvillt hvernig taka skuli á því að fá útlent fjármagn inn til að efla orkugeirann hérlendis. Fram til þessa hefur ekki komið annað til greina en taka útlent fjármagn að láni, þannig hefur Landsvirkjun verið fjármögnuð alla tíð, en hvað um beint eignarhald útlendra fjárfesta? Þar virðast allir vara ráðvilltir og nánast stefnulausir nema þeir sem sjá enga aðra leið til að bjarga fjárvana fyrirtækjum eins og HS Orka virðist vera.

Svo var það sjálfur Josep Eugene Stiglitz

Þessi merki hagfræðingur varaði strax árið 2001 við þeirri sápufroðuþróun sem nýfrjálshyggjupostular og ævintýramenn voru farnir að vinna að með dyggum stuðningi þáverandi ríkisstjórnar og allra eftirlitsstofnana þjóðfélagsins, sem voru geltar til að þær væru ekki að flækjast fyrir. Það var ótalmargt sem Jósep benti á og kannski var greining hans á ástandinu í Bandaríkjunum hvað skuggalegust. Bandaríkin  eru jú tvímælalaust svo yfirgnæfandi ríki ennþá að mikil hagstjórnarmistök þar hafa áhrif um allan heim. Hins vegar kom mér mjög á óvart að þessi merki hagfræðingur skyldi ráðleggja okkur eindregið að halda krónunni sem gjaldmiðli og taldi að með henni værum við með sveigjanlegri stöðu en ef við værum hluti af stærra myntsvæði. Það kann að vera rétt hjá spekingnum, en þessi örmynt hefur alltaf veið okkur til vandræða og einnig verið okkur fokdýr; að burðast með krónuræfilinn mun einnig kosta okkur mikið í framtíðinni. Hvernig á að vera hægt að búa við mynt sem enginn vill sjá og er hvergi gjaldgeng  nema með okurkjörum eins og nú kemur fram þegar þeir sem útlendrar myntar afla eru að fara fram hjá gjaldeyrishöftunum sem Jósep vildi ennþá halda í.

Þar var hann algjörlega ósammála Jóni Daníelssyni sem vildi gjaldeyrishöftin burt strax í dag. Ég fellst miklu fremur á rök Jóns en Jóseps.

Mér fannst þessi þáttur af Silfri Egils svo athyglisverður að ég held að hann ætti að senda út í þriðja sinn á góðum dagskrártíma og kynna hann rækilega; með því væri hægt að upplýsa almenning um þjóðfélagsástandið betur á einni klukkustund en gert hefur verið á undanförnum mánuðum.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 114094

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband