"Hamarinn" er vandaður sjónvarpsþáttur

Það er ekki heiglum hent að skapa góða sjónvarpsþætti. Við lifum í dag fyrir spennuþætti og spennusögur og yfir okkur hellast spennuþættir víða að. Ég er eingöngu með Sjónvarpið, og enn Skjá 1, og satt best að segja finnst mér spennuþættir frá BNA og Bretlandi í mikilli afturför. Það sem einkennir þróunina er að þeir verð stöðugt  grófari, mannát er að verða algengt, jafnvel að menn séu étnir smátt og smátt með því að skera af þeim líkamshluta lifandi eð flá af þeim höfuðleður, einnig lifandi. Sú var tíðin að það var hægt að horfa á "Criminal Mind" en satt best að segja eru þeir að verða þessari þróun á viðbjóði að bráð. "Barnaby ræður gátuna" voru einu sinni þættir  með aðalsmerkjum breskra gæða, en síðasti þáttur sem ég sá var bæði vitlaus og á köflum viðbjóðslegur. Í gærkvöldi var þáttur frá Morse heitnum, en arftaki hans er lítilmótlegur og ekki beint skemmtilegur. Þó var sá þáttur heldur skárri þó auðvitað verði að fjölga morðunum þar eins og í flestum þessar þátta. Það nægir ekki eitt morð aðeins til að skapa spennuna eins og hjá Agötu, fjöldamorð skal það vera til að lýðurinn fái sitt.

Kannski er eitt ljós eftir, gamli góði Taggart sem er þó sjálfur löngu dauður. En ætli hann verði ekki þróuninni að bráð eins og aðrir slíkir þættir, fjöldamorð og viðbjóður.

En þetta hraut óvart á skjáinn því ætlunin var að fjalla um "Hamarinn" spennuþátt í fjórum hlutum sem hafa runnið sitt skeið í Sjónvarpinu: Öll hlutverk voru vel skipuð. Íslensk leikarastétt hefur blómstrað síðan kvikmyndaöldin hófst og síðan Leiklistarskólinn var stofnaður. Sá skóli hefði þó komið fyrir lítið ef ekki hefðu tækifæri gefist fyrir þá sem byrjuðu að feta brautina eftir skóla með þessari ótrúlegu grósku í kvikmyndagerð. En þroski ungra íslenskra leikara er þó ekki síst því að þakka að flestir hafa fengið tækifæri í leikhúsunum. Vissulega er kvikmyndin mikil áskorun fyrir ungan leikara en ef hann fer á mis við leikhúsið þá vantar mikið. Dæmið um hina frægu leikkonu Oliviu de Haviland (sem er löngu látin) sýndi svo sannarlega hvað reynsla og þróun leikara var einhæf þegar hann hafði aldrei leikið nema fyrir fram tökuvel. Olivia leigði sér leikhús í NY og réð sér leikstjóra og allt sem til þurfti og setti upp leikrit þar sem hún lék aðalhlutverkið.

Það er skemmst frá því að segja að stykkið kolféll, Olivia, þessi dáða kvikmyndaleikkona, fór lítt eftir ráðum leikstjórans, lék eins og hún var vön fyrir framan tökuvélina. Enginn heyrði hvað hún sagði og hreyfingar og látbragð þótti með eindæmum bragðadauft, hún hafði enga reynslu af leiksviðinu.

En auðvitað var þetta útúrdúr og aftur að Hamrinum. Umgjörðin Hamarsins var mjög góð, landslag, sveitahýbýli og persónur féllu mjög vel saman, allt gekk upp.

En hvað var það sem skipti sköpum, hvað var það sem gerði Hamarinn að mögnuðu og góðu verki? Hefur því ekki verið svarað með hrósi um nánast allt sem máli skipti?

Nei, eitt er eftir, það sem oftast brestur í kvikmyndgerð. Við sjáum fjölmargar erlendar myndir þar sem  ekkert er sparað, en samt nær kvikmyndin aldrei flugi. Hvernig stendur á því með einvalaliði leikara, leikstjóra, tækniliðs?

Það sem oftast vantar er HANDRITIÐ. En það er einmitt það sem er undirstaðan að því að gera Hamarinn að svo góðu verki sem raun ber vitni. Handrit Sveinbjörns I. Baldvinssonar var hreint afbragð. Ekki aðeins öll samtöl og framvinda, ekki síður hvernig honum tekst að auka á spennuna með því að nota okkar gömlu góðu þjóðtrú án þess þó að falla í þá gryfju að gera hana að raunverulegum eða sönnum þáttum þegar upp er staðið.

Ég hef oft hugsað um það hvað handritshöfundar í kvikmyndagerð eru lítils metnir, sem betur fer virðist ekki svo vera hérlendis, Hamarinn bendir til þess. Í leikhúsinu dettur okkur ekki í hug annað en að höfundarnir séu undirstaðan sem raunar öll framvinda verksins byggist á hvort sem þeir heita Skakspeare, Ibsen eða  Jökull.

Vonandi ber íslensk kvikmyndagerð gæfu til þess hér eftir sem hingað til að skilja mikilvægi handrits og þar með handritahöfunda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband