Sóðalegasti sorakjaftur landsins orðinn framlenging á penna Davíðs Oddssonar

Morgunblaðinu var bjargað frá gjaldþroti og útrýmingu og flestir héldu að tækifærið yrði notað til að efla blaðið sem víðsýnan fréttamiðil þar sem allir gætu komið skoðunum sínum á framfæri, en svo varð aldeilis ekki. Það mátti sjá hvað klukkan sló þegar hinn afdankaði forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, var gerður að ritstjóra. Var furða þó sá grunur læddist að mörgum að þarna ætti "sá fyrrverandi" að fá tækifæri til að naga og stinga fyrrum andstæðinga, en ganga svo einnig vasklega fram í því að verja í líf og blóð mesta rán Íslandssögunnar, ránið á fiskinum í sjónum, gjöfinni til gæðinganna. Ekki síður að berjast hatrammlega gegn endanlegri könnun á því hvað biði okkar í Evrópusambandinu sem ekki er hægt að fá úr skorið nema með því að sækja um aðild og fara í alvöru aðildarumræður. Þetta mátti ekki gerast, koma kynni í ljós í þeim umræðum að hag okkar yrði tvímælalaust betur borgið innan ES en utan.

Það er staðreynd að fjölmargir mótmæltu strax og sögðu blaðinu upp. Ég var ekki einn af þeim, ég var pistlahöfundur Morgunblaðsins í 16 ár og fann ætíð gott viðmót þar meðan Styrmir Gunnarsson var ritstjóri. Ég vildi sjá hver þróunin yrði, Morgunblaðið og morgunkaffið hafa  í mörg ár verið óaðskiljanleg, erfitt að skera á þau bönd. Kannski mundu hraklegustu spár ekki rætast.

En nú er svarið komi. Það mátti auðvitað vera sterk vísbending að hlutdrægasti fjölmiðlamaður landsins, Agnes Bragadóttir,  fékk að að sitja áfram við sína Gróu á Leitis tölvu í ritstjórninni.   En ég var enn með svolitla von; kannski mundi Eyjólfur hressast.

En endanlega svarið kom í morgun laugardaginn 14. nóv. árið 2009.

Á þeim degi birtist í Morgunblaðinu nýr pistlahöfundur, greinilegt að það var kominn nýr "Laugardagspistill" og höfundur hans er persóna sem nefnist Sverrir Stormsker. Ritstjóri sem velur sér til hjálpar sóðalegasta sorakjaft þessarar þjóðar hlýtur að hafa með því ákveðinn tilgang.

Sá tilgangur er augljós.

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins er lagður í krossferðina; að lemja niður þá sem hann telur að verði að jafna um, fólk sem hann stundum fann fyrir minnimáttarkennd gagnvart. Já vissulega ótrúlegt að ætla að Davíð Oddsson viti hvað minnimáttarkennd er, en sú kennd leynist víða og birtingarmynd hennar er oft andstæðan.

En Davíð Oddsson leggur ekki í það að koma framundir eigin nafni þegar sorinn skal vera sem mestur; hann fær sér leiguþý og sá fyrsti í þeim hópi er Sverrir Stormsker, vart hægt að fá hæfari mann til verksins. Engum kemur á óvart að fyrsti einstaklingurinn sem sorakjafturinn skal níða niður er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Níðgrein Sverris Stormskers (SS) um Ingibjörgu Sólrúnu er algjört einsdæmi í nútímanum, slíkt níð hefði jafnvel þótt fulllangt gengið á hinum margumtöluðu Hriflutímum sem svo eru nefndir og var þó Jónas frá Hriflu ekkert verri í skrifum sínum þá en margir aðrir sem voru á þeim dögum í pólitíkinni.

Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun.  Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.

Þessi grein skiptir sköpum fyrir mig. Ég mun á eftir senda Morgunblaðinu uppsögn á áskrift til áratuga. Ég vona að sem flestir fari að dæmi mínu og segi blaðinu upp. Það þarf að fá þá ráðningu sem það á skilið. Það endar líklega sem sorppollur sem gamall uppgjafapólitíkus notar til að ná sér niður á þá sem  áttu í fullu tré við hann.

Það munu verða endalok Morgunblaðsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Flottur pistill!

Snati (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 15:23

2 Smámynd: Finnur Bárðarson

Fylgi fordæmi þínu

Finnur Bárðarson, 14.11.2009 kl. 15:37

3 identicon

Gott Sigurður Grétar og Finnur.

Amir Kobblens (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 15:44

4 identicon

Heimskur ertu greyið!

Kristjana V Einarsdottir (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 15:57

5 identicon

Pípulagnir var hreint skelfilega ömurlegt lesefni !

 Sleppti því alltaf !

 Hélt þó áfram að kaupa Moggann !

 Prufaðu þetta varðandi Stormsker !!

Kalli Sveinss (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 16:09

6 Smámynd: Eyjólfur G Svavarsson

Ættli það sé ekki bara Dvíð að kenna þegar það er vont veður!!!

Eyjólfur G Svavarsson, 14.11.2009 kl. 16:28

7 Smámynd: Eygló

"Pípulagnir var hreint skelfilega ömurlegt lesefni !  Sleppti því alltaf !"

Hvernig veit manneskja að eitthvert efni sé skelfilega ömurlegt ef hún sleppir því alltaf?  Hmm... skil ekki.

Eygló, 14.11.2009 kl. 16:51

8 identicon

Leiðinlegt comment númer 4 og á engan rétt á sér.   Finnst spurning Eyjólfs góð: Öllu vondu er Davíð að kenna og akkúrat það sem Jón Á. Jóhannesson og hans líkar hafa haft tækifæri til að ljúga í Fréttablaðinu og öllu hans ógeðfellda miðla-veldi í langan tíma og mál að linni.  Nú kannski fyrst kemur nauðsynlegt mótvægi gegn hinum gerspilltu og ógeðfelldu Baugs-veldis áróðurstækjum???   Ætti fólk ekki að beina eiturspjótum sínum að rygsugum bankanna og þeim stórhættulegu stjórnarflokkum sem ætla að koma börnunum okkar í Icesave-þræla-hald næstu öldina fyrir breska og hollenska ríkissjóði? 

ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 17:08

9 identicon

Átti að vera:  Finnst spurning Eyjólfs góð: Allt vont . . .

ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 17:13

10 identicon

Sverrir er alltaf sjálfum sér samkvæmur og lætur allt flakka

Hann náði sér ekkert sérlega vel á flug í þessari grein en stundum er gaman að honum

Grímur (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 17:31

11 identicon

ElleE, þótt að fólk gagnríni Dabba Moggakóng, þá þýðir það ekki að fólk sé að mæla fréttablaðinu bót. Moggin var eini einkarekni fjölmiðilinn sem var hægt að treysta, núna er ekki hægt að treysta neinum.

En þér og félaga þínum Eyjólfi finnst greinilega rétt að berjast gegn spillingu með enn meiri spillingu. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 18:04

12 identicon

Ég las ekki greinina hans Stormskers en ég las oft lagnafréttir og mér þóttu þær fróðlegar. Án þess að hafa lesið greinina hans Stormskers geri ég mér í hugarlund að hann hafi verið dónalegur og fyndinn. Það er hans stíll til að ná athygli og virkar.

Mér skildist á grein Óskars útg. við ritstjóraskiftin að það að skifta um ritstjóra væri tilraun sem eigendur væru að gera og annaðhvort gengi betur eða þetta væri hvort sem er búið. Ég sjálf sé engan mun á hvort Davíð skrifar undir nafni eða hans hægri hugsanir og túlkanir á atburðum koma í gegnum aðra fyrrum ritstjóra.  Davíð er einn kall með eina rödd og einn penna. Í þennan miðil er ég að skrifa, þú, og óteljandi aðrir.

Ef Mogginn hættir þá hverfur af sviðinu ákveðin menning sem lengi hefur verið partur af lífi hins venjulega íslendings. Ekkert annað blað hefur getað sinnt því að skrifa eins vítt, landsbyggðin hafði sitt pláss, fréttir, fræðsla, pólitík, listir, viðskipti, matur, ferðalög, menning, músík, bækur, íþróttir, minningagreinar og lagnafréttir. Allt í sátt,  með virðingu fyrir fjölbreyttum hópi lesenda aðeins staðfestar fréttir á traustum grunni og skrifað af úrvali af bestu blaðamönnum landsins.

Nú þegar eru blikur á lofti held ég að hlutverk Davíðs sé ofmetið, eins og oft áður. Áður en hann kom til sögunnar er  annað sem vóg að "dagblaðinu" þ.e. netið og kreppan.

Ég sjálf hleyp af mislitlum áhuga í gegnum blaðið almennt og finnst að efnið flest geti alveg eins birst á netinu, en geymi mér nú orðið sunnudagsblaðið til sunnudagsmorgna og les það eins og tímarit og mjög ánægð með það. Almenn áskrift kostar ca 3000 ef ég man rétt. Það er fínt verð fyrir 4 tímarit hvað þá 25 blöð. Þó  blaðamönnum hafi fækkað umtalsvert eru þeir sem eftir eru með puttann á púlsinum og að gera góða hluti.

Í dag hafa 300 manns kíkt á greinina þína þegar þetta er skrifað. Það er frábært en sannar líka að það þýðir ekkert að berja höfðinu við steininn. Yngra fólk mun líklega ekki gerast áskrifendur af dagblöðum, útgáfa dagblaða er ekki umhverfisvænt atferli. Allir munu að lokum fá "blaðið" sitt í Kindle eða slíkt og heimurinn verður bara betri. En þangað til, langar mig til að fá mitt blað, fullt af fjölbreyttu efni, fræðslu og fréttum í bland, ... og lagnafréttir líka.  Geri mér grein fyrir að það minnkar efnið með hverjum sem segir upp blaðinu en kenni ekki þér um, ekki Sverri og ekki Davíð.

Bkv frá lesanda lagnafrétta.

Björg Sveins (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 18:22

13 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Sóðaleg skrif.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 14.11.2009 kl. 18:42

14 identicon

No. 11.  Nei, ég er EKKI að berjast fyrir neinni spillingu.  Hinsvegar get ég ekki séð að allt vont sé einum manni að kenna eins og hljómurinn hefur verið í landinu.

ElleE (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 18:45

15 identicon

Já þú villt meina að Agnes Braga sé gróa á leiti. Þú kannksi getur þá komið með einhverjar sannanir fyrir þessum gróusögum að þetta sé allt Davíð að kenna, var það kannski Jón Ásgeir sem sagði þér það. Þér finnst ekkert að því að ausa skít yfir Davíð og Morgunblaðið og notast við tæki moggans til þess. Geri fastlega ráð fyrir að þú versli einnig í Bónus Hann er jú Ódýrastur eigandinn hefur ekki kostað þjóðina nema 1000 milljarða.

Sigurður Hjaltested (IP-tala skráð) 14.11.2009 kl. 19:09

16 Smámynd: Brynjar Jóhannsson

Heimir

sóðaskapi er best lýst með sóðalegum skrifum og erfitt er fyrir svínin að sjá eitthvað athugavert við soran sem þau þrífast í. Mér sýnist þessi pistill vera sannleikanum samkvæmur.

Brynjar Jóhannsson, 14.11.2009 kl. 20:22

17 Smámynd: Kama Sutra

Ég las Lagnafréttir mér til ánægju og skemmtunar í mörg ár áður en ég sagði upp áskriftinni að Bleðlinum.  Þetta voru mjög fróðlegir og vel skrifaðir pistlar.  Takk fyrir mig.

Bleðillinn, eins og hann er í dag, höfðar ekki til mín og er ekki lengur lesinn á mínu heimili.

Kama Sutra, 14.11.2009 kl. 21:07

18 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Eyjólfur G. nr.6 hittir naglann á hausinn .

Mér fannst pistlarnir hans Sigurðar skemmtilegir.Þeir voru ekki bara þurr lagnafræði heldur kryddaðir skemmtilegheitum og speki.

Guðmundur Benediktsson, 14.11.2009 kl. 23:08

19 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þegar ég var til sjós fékk maður 15 til 20 blöð  í einu og því voru dægurflugur ekki í jafn miklu uppáhaldi. Þá kom oft frir að ég  las Lagnafréttir enda voru pistlarnir fróðlegir og læsilegir. en  pistlarnir   hans Sverris frænda míns  eru tær snilld,

Sigurður Þórðarson, 15.11.2009 kl. 00:34

20 Smámynd: Sólveig Þóra Jónsdóttir

Lastaranum líkar ei neitt.
Lætur hann ganga róginn.
Finni hann fölnað laufblað eitt
þá fordæmir hann skóginn.
Höfundur:
Steingrímur Thorsteinsson,
Mér finnst Sverrir Stormsker frábær penni og flott að fá hann sem pistlahöfund á Morgunblaðið. Ég er því miður allaf að sjá betur og betur hvað heilaþvottur fjölmiðla Jóns Ásgeirs hefur virkað vel á þjóðina, enda hefur sá heilaþvottur staðið yfir í mörg ár. Því miður þá er það meira en sorglegt.

Sólveig Þóra Jónsdóttir, 15.11.2009 kl. 01:05

21 identicon

Hún er athyglisverð kenningin að Stormsker hljóti að vera "leiguþý" (fingraför Gróu á Leiti virðast fylgja slíkri fullyrðingu) af því að hann skrifar núna í Moggann eitthvað sem hann hefur alltaf haldið fram.  Stormsker sennilega gefur lítið sem ekkert fyrir Ingibjörgu Sólrúnu og er langt því frá einn um slíkt.  Því ætti hún ekki skilið að fá sína yfirhalningu eins og td. Davíð hefur fengið?  Sama á við Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon.  Þetta eru aðilar sem eiga örugglega að fá það óþvegið frá öflugum pennum, á nákvæmlega sama hátt og Davíð hefur þurft að láta sér linda í gegnum tíðina.  En litlu kommarnir og kratatarnir fara á límingunum, af því að Davíð er núna í of góðri aðstöðu að puðra  til baka.  Þeir hafa ekki lengur lögvarinn einkarétt að slíkum einstefnuskrifum og skítkasti. 

Það skemmtilega við Stormsker er að hann hlær af öllu draslinu, og heur ma. tekið ágætlega í lurginn á Davíð sjálfum, sem og sennilega öllum sem þykjast eitthvað merkilegir, en honum síður.  Heimasíða Stormskers á Moggablogginu er ágæt til að kynnast skoðunum listamannsins á stjórnmálamönnum, öðrum mönnum og ýmsum málefnum.  En meðan pistilhöfundurinn hér leyfir sér td. að kalla Agnesi Bragadóttur "Gróu á Leiti" og leggur ekkert fram máli sínu til stuðnings eða sönnunar, er hann á sömu hillu og hann velur Stormskeri, Agnesi og Davíð, hvað áræðanleika og smekklegheit varðar. 

En hvernig var það annars, voru Kári Jónasson og Þorsteinn Pálsson ekki örugglega gerðir meðhöfundur og einn ábyrgur fyrir sóðaskrifum margra Bauspenna eins og td. Hallgríms Helgasonar, áður en hann þóttist hafað fengið þá vitrun að bakhjarlar og meintir eigendur Samfylkingarinnar væru ómerkilegir loddarar?  En kannski eru allt aðrar leikreglur þegar röðin kemur að kommum og krötum að vera við kjötkatlana og skothríðin stendur til baka á þá?  Var einhver að tala um hræsni?

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 01:06

22 Smámynd: ÞJÓÐARSÁLIN

Hér er brot frá Sverri:
en þegar einhver sagði mér að Imba Solla væri með eitthvað í hausnum þá sagði ég að það gæti bara ekki verið.

Ég hef keypt Moggann í 40 ár og ég hélt satt að segja að á síðum blaðsins yrði aldrei leyft að uppnefna fólk og tala háðslega um eitthvað sem tengist veikindum.

Mér þykir miður að þessi grein hafi verið birt. Einelti á hvergi rétt á sér.

ÞJÓÐARSÁLIN, 15.11.2009 kl. 01:55

23 identicon

Merkilegt nokk !! Andstæðingar Davíðs vita alltaf meira um hvað Davíð gerir, segir og skrifar en þeir sem virðast dýrka hann eða er sama um hann. Þetta sýnir að andstæðingar hans geta ekki án Moggans verið, eða hvað...  

Brynja Daníelsdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 02:59

24 Smámynd: Oddur Ólafsson

Takk fyrir pistilinn.

Þetta eru nýjar og áður óþekktar lægðir hjá Morgunblaðinu.

Ég las SS pistilinn í síðustu viku og ekki var hann fallegri í þessari.  Hann gerir á sérstaklega ósmekklegan hátt út á veikindi ISG.

Oddur Ólafsson, 15.11.2009 kl. 04:36

25 identicon

Sverrir Stormsker hefur oft tjáð sig opinberlega áður, er búinn að vera með moggablogg í mörg ár og hefur skrifað greinar sem hafa birst í mogganum. Af hverju lætur fólk alltaf eins og allt sem birtist í mogganum sé hreinlega skrifað af Davíð sjálfum?

Held að andstæðingar hans hafi meiri trú á honum heldur en fylgjendur.

Þórður Ingi (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 11:20

26 identicon

Goðan dagin!

Nýlega skrifaði Jóhannes í Bónus í Morgunblaðið.

Ætli Davíð hafi líka hjálpað honum við skrifin?

Ætli það!

Jón Ásgeir (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 11:29

27 Smámynd: Kristinn Pétursson

Það stoðar lítið að segja upp mogganum "í fúlustu alvöru" þó húmorinn hjá Sverri Stormsker sé beittur - og lesa svo moggan í laumi á eftir þegar fráhvarfseinkennin um moggaleysið fara að koma fram.

Kristinn Pétursson, 15.11.2009 kl. 11:40

28 identicon

Sæll .

Já, hér mættur sóðalegasti penni  íslandssögunnar  og er honum ekkert heilagt. Maðurinn er undir handbendi ........... !

Nú hallar undan fæti hér á Blogginu !

Kveðja.

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 11:51

29 identicon

Smá viðbót. Sverrir stormsker þýðir í raun Sverrir Ormker !

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 11:53

30 identicon

Einkennilegt hjá þeim sem halda að Davíð Oddsson sé eins og hver annar veðurfræðingur sem engu ræður um veðrið. Hann er RITSTJÓRI moggans forkræingádlád. Sverrir Stormsker skrifar sóðapistla (sem og Agnes Bragadóttir). Þau mega skrifa þá mín vegna. Að birta þá í Morgunblaðinu er hins vegar á ábyrgð ritstjóranna.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 12:20

31 Smámynd: Guðmundur Benediktsson

Sólveig Þóra nr.20: Heilaþvottur Moggans er búinn að standa yfir síðan 1913. Það veitir kannski ekki af mótvægi.

Guðmundur Benediktsson, 15.11.2009 kl. 13:08

32 identicon

Langar bara að benda á að ritstjórnarstíll DV er mun soralegri en nokkur penni hjá Mogganum, og margir pennar á blogginu eru á sama plani og DV, því miður! Þannig að allur þessi æsingur er ekkert annað en steinkast úr glerhúsi

Brynja Daníelsdóttir (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 13:19

33 identicon

Játa að það var góður punktur hjá Ómari (no. 30) með ritjstjóravaldið.  Hinsvegar hefur einn maður verið sakaður af fjöldanum um nánast allt sem miður fór eins og hann hafi guðs- eða veðurguðs-vald. 

ElleE (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 13:37

34 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Alveg ótrúlegt.

En ótrúlegra að einhverjir íslendingar (skal ekkert fullyrða um að þeir séu fleiri en 5) telja húmor í skrifum umrædds einstaklings.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 15.11.2009 kl. 13:44

35 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ef Sverrir Stormsker er húmoristi þá er það ný sýn á húmör. Þá hafa frægustu húmoristar heimsbókmenntanna ekki verið húmoristar.

Árni Gunnarsson, 15.11.2009 kl. 14:19

36 identicon

Þakka þér fyrir að benda mér á þessa grein Sverris - mikið er ég sammála honum og mikið vorkenni ég þér. 

Jón Garðar (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 14:34

37 Smámynd: Árni Gunnarsson

Skaust út og fletti Mogganum. Las í skyndi pistil Sverris S. og held að ég taki undir flest það sem hann sagði um IGS. Hefði kannski orðað það öðruvísi sem er ekki neitt  stórmál.

Árni Gunnarsson, 15.11.2009 kl. 16:18

38 identicon

Ýmsir aðilar í okkar þjóðfélagi, bæði háttsettiir og lágtsettir, fá það óþvegið hjá Stormskerinu.

En allt eru þetta menn sem Davíð er illa við. En það er auðvitað bara helber tilviljun.

Svavar Bjarnason (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 17:07

39 Smámynd: Helgi Már Bjarnason

Leiðinlegt hvað það er óvandað fólk sem fær að vaða á blogginu.  Það er vonandi búið fyrir löngu að rýra þennan vettvang skoðanaskipta það mikið  að það tekur vonandi enginn mark á svona geðveikislegri heift og þrugli. Held reyndar að almennir lesendur með snefil af heilbrigðri skynsemi hreinlega vorkenni svona einstaklingum.

Og að nota síðan blogg morgunblaðsins til að koma því á framfæri er eiginlega bara nett fyndið.  Kjánahrollur dagsins kominn.

Vinsamlega segðu mér hvað það er sem gerir það að verkum að þú ert svona bitur út í lífið. :)     Svo má nefna að skrif Sverrir Stormskers voru hreint út sagt frábær skemmtun, meinfýsin skrif og skemmtilegur leikur að íslenskri tungu. :)

Helgi Már Bjarnason, 15.11.2009 kl. 18:20

40 Smámynd: Helgi Már Bjarnason

aaaaah kannski snýst þetta um að það var verið að segja þér upp hjá Morgunblaðinu. :)  heheh

Helgi Már Bjarnason, 15.11.2009 kl. 18:26

41 identicon

"Leiðinlegt hvað það er óvandað fólk sem fær að vaða á blogginu. "

Já, leiðinlegt hvað það er óvandað fólk sem fær að vaða á blogginu.  Og eftir lestur athugasemdanna að ofanverðu finnst mér þú einn af þeim ósvífnustu.  Og það kemur ekkert neinum flokki eða hagsmunum við að mér finnst það, heldur andstyggð orða þinna.  Það hlakkar í þér að geta ráðist að þeim manni sem hefur skoðanir sem ekki falla að þinum. Það eru nokkrir svona sem vaða um bloggið og fá kikk út úr að níða niður fólk.  Og varstu að tala um geðveiki?   Ertu fær um að dæma það?   Lærður geðlæknir kannski?   

Jói (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 19:58

42 identicon

Sverrir Stormsker er flottur.

sandkassi (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 20:34

43 identicon

Audvitad er thad kjánalegt og mjög barnalegt af Sverri ad skrifa svona heimskulega grein.  Audvitad er thad bjánalegt og vitnar um óthroska og illt innraeti ad birta slíka grein.  Ritstjórn ber ábyrgd á thví sem fer í prentun.  Ritstjórn á audvitad ad bidja thjódina um afsökun á hegdun sinni.

Geri ég rád fyrir ad ritstjórn bidji thjódina um afsökun......thví midur verd ég ad segja nei.  

Lifid heil.

Gummi sem veit betur (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 22:17

44 identicon

Sverrir Stormsker hennti mér út fyrir svona ári síðan vegna þess að ég spurði hann um heiðarleika þeirra sem hefðu það í sér að styðja óheiðarlega stjórnmálamenn. Þetta var mjög kurteist og í alla staði án skítkasts. Mig langaði bara að vita í einlægni hvað það væri sem fengi fólk til að styðja t.d. mannaráðningu eins og þegar sonur Davíðs var ráðinn í feitt embætti. Ég sagði að þó svo ég væri pólitískur þá myndi ég aldrei verja svona mannaráðningar því eins og í tilfelli sonar Davíðs þá vissu allir að þetta var spilling með stóru S. Hann var ekki sá eini sem hennti mér út fyrir nákvæmlega sömu athugasemdina, Hjörtur J Guðmundsson, Gísli Freyr Valdórsson, og nokkrir í viðbót af hægri kanntinum bönnuðu mig líka. Þegar ég setti þessa athugasemdina inn hjá Sverri Stormsker, datt mér ekki í hug eina mínútu að hann af öllum myndi banna mig í kjölfarið, sjálfur töffarinn. En jú, töffara-mottóið féll fyrir flokknum, því ekki mátti skyggja á almættið eða falla kusk á hvítflibba og dásamlega er að gaurinn er kominn í vinnu hjá foringjanum.

En út af hverju bönnuðu þessir aðilar mig vegna saklausrar spurningar, sem reyndar fjallaði um son foringjans? 

Mér dettur helst í hug að það sé vegna þess að bloggarar sem eru Sjálfstæðismenn séu hræddir við það að aðrir Sjálfstæðismenn, eða valdamiklir menn innan FLOKKSINS sjái að þeir hafi leyft slíka athugasemd sem gæti komið illa út fyrir FLOKKINN og það geti orðið til þess að þeir hagnist síður á stuðningi sínum við FLOKKINN.  Það virðist vera þannig að því duglegri sem menn eru í að verja  stjórnmálagjörninga Sjálfstæðisflokksins sérstaklega baráttu Davíðs við andstæðinga sína, þeim mun líklegra sé að þeir fái sína bitlinga í staðin, getur það verið? 

Kveðja
Valsól

Valsól (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 22:18

45 identicon

Henti mér út af athugasemdakerfi sínu, átti þetta að vera

Valsól (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 22:18

46 Smámynd: Steingrímur Helgason

Alltaf tekzt Zwerri að hræra vel upp í grautarzkál þankagángz zjálfzumglaðra vandlætíngarzinna...

Steingrímur Helgason, 15.11.2009 kl. 23:02

47 Smámynd: Þórður Guðmundsson

Ég er búinn að lesa þennan pistil eftir Sverri Stormsker. Hann er ekki þess eðlis að hann sé prenthæfur. Ef ég hefði komið með þennan pistil til Morgunblaðsins þá efast ég um að ég hefði fengið hann birtan. Þarna er mjög ósmekklegt níð um Ingibjörgu Sólrúnu og þessi pistill hefði ekki átt að komast á prent. Hann er engum til sóma, ekki Sverri St. né heldur Morgunblaðinu. 

Er Sverrir núna frjáls að því, í skjóli áratuga frægðar í tónlist, að birta ljótar, illa skrifaðar greinar sem enginn myndi fá birtar?

Þórður Guðmundsson, 15.11.2009 kl. 23:04

48 identicon

Pistill Sverris Sóðakjafts Stormskers er viðbjóðslegur - svona rétt eins og hann sjálfur  !

Morgunblaðið er nothæft þegar maður á ekki fyrir klósettpappír í Davíðskreppunni - Enn það er bara verst Sigurður, stíflar það þá  ekki öll rörin ?

HG (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 23:44

49 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Það virðist vera útbreiddur misskilningur hérna að pistlum Sverris Stormsker hafi verið ætlað að vera í stíl við Lagnafréttir.

Pistlar Sverris Stormsker eiga engan sinn líkan. 

Sigurður Þórðarson, 16.11.2009 kl. 10:49

50 Smámynd: Kjartan Sigurgeirsson

Það má vel vera að Sverrir sé sóðakjaftur, en það er alveg ótrlulega langt seilst að tengja skrif SS við Davíð Oddson.  Ég hef hvorki trú á að D.O. þurfi að fá einhvern til að túlka og koma skoðunum sínum á framfæri  né að SS þurfi aðstoð við skoðanamyndun.  En sennilega er það eina skiptið sem ég hef verið sammála Ingibjörgu Sólrúnu, þegar hún sagði að salurinn talaði ekki í umboði þjóðarinnar.

Kjartan Sigurgeirsson, 16.11.2009 kl. 11:19

51 identicon

Þessi grein Sverris Stormskers var vandaðri, kurteisari og byggð á haldbetri rökum en allur þorri húskarlapistla Baugsblaðsins. Menn þurfa ekki að fara í gegnum marga Fréttableðla Baugsveldissins til að finna margfalt sóðalegri greinar Baugssveina.

Pétur Guðmundur Ingimarsson (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 19:15

52 identicon

http://stormsker.blog.is/blog/stormsker/

Átt þú við þessa grein?

Eftir að hafa séð viðtalið við Geir Haarde Hardtalk:

http://news.bbc.co.uk/2/hi/programmes/hardtalk/7885583.stm

og síðan viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu, þar sem saman fór hroki og yfirgengilegt dómgreindarleysi, eins og var einnig raunin um Geir Haarde. 

Hvers vegna var ekki hægt að biðjast afsökunar t.d. gagnvart öðrum þjóðum?

Hins vegar hefur þú auðvitað algjörlega rétt fyrir þér varðandi Davíð Oddson. Hversu oft á að ljúga að þjóðinni um orsakavalda Bankahrunsins?

Hverjir lugu að þjóðinni, t.d. þegar Búnaðarbankinn var seldur samkvæmt helmingarskiptareglunni? Með láni frá Landsbankanum, og síðan Landsbankinn keyptur með láni frá Búnaðarbankanum?

Hver bar ábyrgð á þeirri lygi að Björgúlfsfeðgar væru fjallrikir eftir ferð til Rússlands? Hverjir stjórnuðu þessu leikriti?

Sennilega hafa Bandaríkjamenn góða reglu um 8 ár við stjórnun í stóli t.d. Borgarstjóra eða Forsætisráðherra.

Sverrir Stormsker er oft grófur, en verulega fyndinn náungi!

Góðar stundir.

Erlingur Þorsteinsson (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 19:48

53 Smámynd: Pétur Harðarson

Ég vil benda alþjóð á að þegar þessi soragrein er lesin ættu lesendur að gera sér grein fyrir því að Sverrir Stormsker (SS) er ekkert annað en leiguþý. Þessi soragrein er á ábyrgð ritstjórans Davíðs Oddssonar og ekki nokkur vafi að hún er skrifuð að hans undirlagi og með hans velþóknun.  Ég tel fullvíst að Sverrir Stormsker (SS) hafi verið fenginn ganggert til að vinna þetta verk; alt bendir til að næstu laugardaga verði framhald á skítkastinu og fyrrum andstæðingar Davíðs Oddssonar rakkaðir niður af orðljótasta manni landsins, sá mun gelta þegar honum verður sigað.

Þó að orðalag Sverris sé kannski vafasamt á köflum þá rökstyður hann mál sitt ansi vel. Það er eitthvað annað en málsgreinin hér fyrir ofan.  Hvað hefur þú fyrir því að Sverrir sé leiguþý Davíðs?  Hefurðu einhver rök fyrir þessu?  Ef þú hefur komist upp með svona skrif þessi 16 ár sem þú vannst fyrir Moggann þá getur ritstjórnarstefnan í dag ekki verið verri en hún var þá.

Mér finnst sú hugmynd að Sverrir Stormsker sé leigurakki Davíðs Oddssonar ein sú heimskulegasta sem ég hef heyrt lengi en ef þú getur rökstutt hana að einhverju leyti þá væri gaman að heyra það.

Pétur Harðarson, 17.11.2009 kl. 06:09

54 identicon

Ég býst við að það sé þetta sem fer svona rosalega fyrir brjóstið á fólki "en þegar einhver sagði mér að Imba Solla væri með eitthvað í hausnum þá sagði ég að það gæti bara ekki verið." (Ég gat ekki annað en glott þegar ég las þetta :D ).

Restin af pistlinum er með því mildara sem ég hef lesið frá Sverri. Það sem meira er, þetta er all satt, Sverrir setur þetta bara fram með sínum stíl

Gunnar (IP-tala skráð) 17.11.2009 kl. 15:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 7
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband