Við höfum ekki gleymt því hverjir stofnuðu Icesave reikningana, þar í hópi var Kjartan Gunnarsson þáverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins

Þennan pistil sendi ég manni að nafni Axel Jóhann, hann er greinilega einn af þessum forstokkuðu Sjafstæðismönnum sem heldur að hægt sé að sefja almenning til að gleyma því hvaða stjórnmálflokkar stóðu fyrir hinni svokölluðu "einkavæðingu" bankanna og hverjir stofnuðu hina skelfilegu ICESAVE reikninga

 Þér væri nær Axel Jóhann að beina geiri þínum að þeim pólitíkusum sem létu fjárglæframenn úr Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum  stela ríkisbönkunum, Landsbanka og Búnaðarbanka. Voru þessir pólitíkusar ekki einmitt úr þessum tveimur fyrrnefndum flokkum? Voru það ekki fjárglæframenn úr Sjálfstæðisflokknum sem stofnuðu ICESAVE reikningana í Hollandi og Bretlandi, þeir sem þóttust ætla að kaupa Landsbankann en fengu lán til þess hjá Framsóknarglæframönnunum í Búnaðarbankanum og borguðu aldrei lánið. Var ekki framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins Kjartan Gunnarsson í bankaráði Landbankans þegar þessir glæpsamlegu ICESAVE reikningar voru stofnaðir til að sjúga fé út  úr sparifjáreigendum í Hollandi og Bretlandi.

Hvert var þeim peningum komið, eru þeir grafnir á Tortóla eyjum? Þú og aðrir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins haldið að það sé hægt að fá íslenskan almenning til að gleyma öllu þessu glæpsamlega athæfi með því að ráðast að þeim sem eru að vinna hörðum höndum að því að endurreisa Ísland en ykkur verður ekki kápan úr því klæði!!!


Ég er ekki svartsýnn en mér verður óglatt af síðustu fréttum úr heimi bankanna

Nágranni minn einn ágætur læðir stundum að mér eldri eintökum af DV. Síðan ég sagði Morgunblaðinu upp hef ég háð baráttu fyrir því að við íbúar Þorlákshafnar fáum kost á Fréttblaðinu og hefur þar verið gerð mikil bragarbót en betur má ef duga skal.

Í  DV var farið yfir hverjir væru helstu "Sturlungar" nútímans, þeir sem fram að þessu hafa verið nefndir "útrásarvíkingar". Ég verð að segja að þessir menn eiga engan rétt á að vera nefndir "víkingar" og þó. Víkingar miðalda fóru vissulega ránshendi um lönd í Vestur-Evrópu og hver sá sem stal mestu góssi, að ógleymdum glæslegum yngismeyjum, var fremstur meðal jafningja. En þessir víkingar rændu ekki í eigin landi, þeir rændu meðal annarra þjóða og komu heim með ránsfenginn hvort sem var eðalmálmar eða íturvaxnar meyjar sem að sjálfsögðu misstu þann titil um leið og þær voru komnar í klærnar á illa þefjandi og lúsugum ránsmönnum, þessum svokölluðu víkingum.

En arftakar þeirra í nútímanum, við skulum gefa þeim nýtt "sæmdarheiti" og nefna þá "tortólalubba". Flestir eru þeir flúnir land, út af fyrir sig er það ágætt og vonandi að þeir komi aldrei til baka. Vonandi tekst okkar ágæta Sérstaka saksóknara og hans fólki að endurheimta sem mest af því sem totólalubbarnir hafa stolið frá þessari fámennu þjóð og grafið í grenjum á Tortóla og víðar.

Ég var farinn að fagna því að totóalubbarnir kæmu aldrei til baka. En þar fagnaði ég of fljótt. Ég ætlaði ekki að trúa mínu augum og eyrum þegar það var kunngjört að Óafur nokkur Ólafsson kenndur við Samskip (sem hann ásamt fleiri fjarglæframönnum Framsóknarflokksins tókst að véla til sín út úr reitum Sambands íslenskra samvinnufélaga) væri kominn til landsins frá Sviss og hvað beið hans hér;

Arionbanki rétti honum á silfurfati þetta fyrirtæki, Samskip, aftur til eignar og ábúðar.

Ég spyr; eru engin takmörk fyrir því hvað á að reka ofan í kok landsmanna með illu eða góðu. Finnur bankastjóri Arionbanka kemur vígreifur á skjáinn og segir kokhraustur gegn betri vitund:

Við afskrifuðum ekki nett!!!

Almenningur stendur agndofa og algjörlega máttvana. Arionbanki hefur verið einkavæddur enda ekki um anað að ræða, kröfuhafarnir hirtu bankann. 

En líklega sýnir þetta okkur hvað er í vændum. Eru fleiri tortúlulubbar en Ólafur Ólafsson á heimleið, þeir ætla líklega ekki að láta sér nægja það fé sem þeir eru búnir að grafa á ýmsum eyjum eins og gamlir sjóræningjar gerðu fyrr á öldum. 

Það eru mikil verðmæti heima á gamla landinu sem þeir léku svo grátt, á gamla landinu þar sem þeir rændu og rupluðu. Siðgæði þeirra er á sama núlli og það var þegar þeir voru að moka fé í milljarðatugum í vildarvini út úr bönkunum á meðan þessir sömu bankar hrundu. Svo létu þeir sig hverfa út í hið alþjóðlega náttmyrkur eins og rónar sem leita skjóls meðan  hellirignir en fara á stjá um leið og upp styttir.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég finn hjá mér þörf til að berja pottlok, stórt og mikið pottlok.

 


Ég fékk gula spjaldið

Ég hef lítið látið fyrir mér fara hér á blogginu þennan mánuð þó ég hafi lesið það sem þar kemur og satt best að segja hefur umræðan lítið batnað, mikið um innhaldlausar upphrópanir sem fyrr

En ég byrjaði þetta merkilega ár á nokkuð óvæntan hátt, sjónin úr fókus, hægri hendi lömuð og málfarið brenglað. Helgi, okkar ágæti Heilsugæslulæknir hér í Þorlákshöfn reif sig upp og kom til mín samstundis, tveir vaskir sjúkraflutningamenn frá Selfossi fluttu mig á góðum hraða á Borgarspítalann.

Ég minnist sérstaklega á þetta til að þakka öllum þeim ágætu starfsmönnum í heilbrigðisgeiranum sem liðsinntu mér, við eigum sannarleg hæft fólk í heilbrigðisþjónustunni.

En ég hef verð að dunda við það eftir að heim var komið að vinna að eigin endurhæfingu, lyklaborðið er farið að hlýða mér, lesa upphátt Helgu konu mína hvort sem henni líkar betur eða verr,  lauk þar með við tvær frábærar ævisögur um Snorra Sturluson og Vigdísi Finnbogadóttur okkar fyrrum forseta. Ég held að til þess að fá sem bestan skilning á Snorra sé nauðsynlegt að hafa lesið Sturlungu og það oftar en einu sinni. Satt best að segja læddist að mér kaldur hrollur við lestur ævisögu Sturlu. Höfðingjar þá, flestir, voru ekki að hugsa um þjóðarhag heldur að ota sínum tota og vinna þannig að eigin tortímingu og má þar nefna feðgana Sturlu og föður hans Sighvat Sturluson, bróður Snorra, Þorvald Vatnsfirðing, Gissur Þorvaldsson og ekki var sonur Snorra, Órækja, barnanna bestur. Líklega hefur hann verið mesti ruddinn í þessum hópi. Snorri kom honum til valda á Vestfjörðum og þar máttu menn þola ótrúleg og miskunnarlaus rán og yfirgang Órækju. Í öllum þessum djöfulgangi miðjum sat Snorri og samdi sínar einstæðu bókmenntir, maður friðarins og var fyrir vikið sakaður um að vera bleyða.

Og hver urðu örlög hans?

Tengdasonur hans fyrrverandi, Gissur Þorvaldsson, lét læðast að honum að óvörum og myrða.

Eru einhverjar hliðstæður í nútímanum? Hvernig hafa útrásarvíkingarnir hagað sér, þeir hafa aldeilis ekki verið að hugsa um þjóðarhag eða þá ýmsir pótintátar í pólitíkinni. Hafa sumir hverjir pólitíkusanna ekki hugsað meira um það að kom höggi á núverandi ríkisstjórn sem er að moka flórinn eftir óráðsíu fyrri ára?

Það rifjaðist margt upp fyrir mér við lestur ævisögu Vigdísar og sérstakleg hvað margt var illvígt í kosningabaráttu hennar þegar hún fór fyrst í framboð 1980. Ég var þá formaður kosninganefndar Vigdísar í Kópavogi. Þá kynntist ég því hvað konur geta verið konum verstar. Ég vil eftir þennan langa tíma ekki nefna nein nöfn. En merkar konur sem sumar höfðu markað talsverð spor í  söguna, jafnvel konur sem höfðu verið frumkvöðlar í kvennabaráttu, höfnuðu því alfarið að styðja kjör Vigdísar sem forseta.

En Vigdís vann, það var ógleymanleg stund.

En þessi pistill minn átti að vera stutt æfing á lyklaborðinu en það vill oft fara svo að maður fer út um víðanvöll áður en varir. En lyklaborðið hlýðir mér bara bærilega svo það verður ekki látið friði hér eftir. 


Ótrúleg langloka í Sjónvarpinu um lýðskrumarann Sturlu vörubílstjóra

Ég er vart farinn að trúa því enn að Sjónvarpið hafi tekið besta sjónvarpstímann í gærkvöldi til að sýna eitthvað lélegasta sjónvarpsefni sem nokkurn tíma hefur ratað á skjáinn í Sjónvarpinu og þarf mikið til að komast á lágpunktinn. Sýnd var mynd eftir þann gamla Kópavogsbúa Helga Felixson sem bar nafnið "Guð blessi Ísland". Í fyrsta lagi var mynd þessi ákaflega illa gerð, langloka sem tók hvorki meira né minna en 1 klst. og 40 mín. að sýna. Mikið efni var frá óeirðum og skrílslátum við Alþingishúsið, Hótel Borg, Lögreglustöðina og Stjórnarráðshúsið. Ekki fór á milli mála með hverjum hjarta kviðmyndgerðarmannsins sló. Fólk á fullan rétt á að mótmæla og halda útifundi en það er með ólíkindum hvað skríllinn, sem notaði tækifærið, fékk að starfa í skjóli þeirra sem fyrir útifundum stóðu, fékk að vaða uppi og tæplega mátti á hann anda. Ólíklegasta fólk tók upp hanskann fyrir skrílinn m. a.  mælti einn af núverandi ráðherrum, Álfheiður Ingadóttir, þáverandi óbreyttur Alþingismaður, skrílnum bót, skrílnum sem reyndi að brjótast inn í Lögreglustöðina við Hverfisgötu og hefur ekki tekið þann stuðning til baka. Þar var réðst skríllinn á Lögreglustöðina til að frelsa mömmustrákinn sem var í skrílnum með mömmu sinni,en hún lék stórt hlutverk í mynd Helga.

En aðalhlutverkið lék Sturla vörubílstjóri sem hefur tekist að ná ótrúlega langt með því að leika einhverskonar frelsishetju, en er þó fyrst og fremst lýðskrumari og hræsnari. Sturla gefur sig út fyrir að vera fórnarlamb hrunsins sem er langt frá öllum staðreyndum. Hann var þegar árið 2007 kominn í þrot með offjárfestingum m. a. með kaupum á einhverjum yfirgengilegasta vöruflutningabíl með vagni sem sést hefur hérlendis. Enda játuðu bæði kona hans og sonur að á árinu 2007 hefði fjölskyldan þegar alvarlega rætt um að flýja land.

Sturla vörubílstjóri þurfti ekkert hrun til að komast í þrot, hann væri maður að meiri ef hann viðurkenndi það opinberlega í stað þess að leika einhvern frelsandi engil sem í öðru orðinu ætlar að bjarga Íslandi en í hinu að flýja land.

Þetta kunna að þykja hörð orð en lýðskrumarar og hræsnarar hafa aldrei átt upp á pallborðið hjá mér. 

Ég ætla að vona að Sjónvarpið sjái að sér og bjóði ekki landmönnum upp á jafn illa gerða þvættingsmynd og sýnd var í gærkvöldi á besta tíma undir því slepjulega heiti "Guð blessi ísland".


Er umfjöllun um ICESAVE endanlega lokið?

Að sjálfsögðu ekki, samþykkt Alþingis er komin í hendur Forseta Íslands til samþykktar eða synjunar. Ég hef heyrt þær raddir sem telja það vísbendingu um hvað hann ætlist fyrir að hann afgreiddi ekki lögin á Ríkisráðsfundi á gamlársdag. Aldrei hvarflaði að mér að það mundi Ólafur Ragnar gera. Ef hann hefði hann gert það hefði hann orðið fyrir hafsjó að gagnrýni þeirra sem enn lifa í voninni um að hann muni synja um samþykki, þ. e. a. s. ef hann hefði samþykkt lagafrumvarpið hálfum sólarhring eftir að Alþingi afgreiddi málið. Sú hraða afgreiðsla hefði vissulega verið gagnrýni verð burtséð frá því hver afgreiðslan hefði orðið.

Ólafur Ragnar flutti nýársávarp sitt í dag  nýársdag, skv. venju. Mér fannst margt vel sagt í ávarpinu sérstaklega hvað hann var afgerandi og gagnrýninn á flokkshollustu og pólitískar ráðningar embættismanna, þar sem flokksskírteinið var þýðingarmeira oft á tíðum en menntun og hæfileikar. Margir hafa greinilega hlustað grannt eftir því hvort Ólafur Ragnar gæfi vísbendingu um á hvern veg hann ætlar að afgreiða ICESAVE lögin. Honum tókst að nálgast það á þann hátt að þeir sem vilja að hann synji telja sig finna sterkar vísbendingar fyrir að svo fari þegar hann ræddi um þjóðarvilja og þýðingu þess að þjóðin komi meir að stórum ákvörðunum.

Einn sem ég hef átt orðaskipti við hérna á blogginu heldur því statt og stöðugt fram að ICESAVE ábyrgðin hafi verið felld en ekki samþykkt á Alþingi 30. des. sl. Hann rökstyður það með því að ákveðnir þingmann Vinstri granna hafi kosið gegn eigin sannfæringu, verið þvingaðir til að greiða atkvæði með frumvarpinu, verið beittir flokksaga. Ég hef enga trú á því að nokkur þingmaður láti kúga sig þannig. En á móti má þá segja og spyrja: Voru allir þingmenn minnihlutans á Alþingi (að Þráni undanskildum) að fylgja sinni innstu sannfæringu og greiða atkv. gegn frumvarpinu? Voru einhverjir í þeirra hópi þvingaðir til að greiða atkvæði á annan hátt en samviska þeirra og skoðun sagði þeim að gera, voru þeir einhverjir kengbeygðir undir flokksaga? Ég held ekki. Ég hef það mikla tiltrú á Alþingismönnum að þeir láti ekki kúga sig hvort sem eru stjórnarsinnar eða í stjórnarandstöðu.

Nú munu undirskriftir undir áskorun til Forseta Íslands um að samþykkja ekki lögin frá Alþingi vera orðnar nær 55.000. Er þetta ekki nokkuð stór hópur þjóðarinnar? Vissulega en við vitum ekkert um hve mikill hluti þjóðarinnar vill að Forseti staðfesti lögin. Ég ætla hér og nú að lýsa þeirri skoðun minni  að undirskriftalistar hafa harla lítið gildi í mínum huga, en einhver óáreiðanlegasta birtingarmynd lýðræðis og ekki sé hægt að treysta því að þar komi fram vilji þeirra  sem þar setja nöfn sín. Það hefur oft verið sýnt fram á að það virðist vera hægt að fá mikinn fjölda til að setja nöfn sín á lista sem eru að mótmæla einhverju. Nýlega kom í ljós að einhver hópur ýtti af stað undirskriftasöfnun (ekki hérlendis) til að krefjast þess að unnið sé af alefli fyrir útrýmingu H2O. Þetta voru að sjálfsögðu einhverjir loftslagshópar sem nú fara mikinn víða um lönd. Og það er ekki að orðlengja það að þessi undirskriftasöfnun gekk mjög vel.

Mikill fjöldi manna og kvenna skráði nafn sitt á lista og krafðist þess að unnið yrði af afefli að því að útrýma VATNI.

En hvað tekur við ef Forseti Íslands samþykkir ekki lögin um ICESAVE ábyrgðina frá Alþingi?

Ég hef fengið fá svör frá þeim sem berjast fyrir ógildingu og þjóðaratkvæði hvað þá taki við. Kristinn Pétursson kenndur við Bakkfjörð er sá fyrsti sem hafði fyrir því að svara mér. Hann segir að ef Forseti synji og lögin verði felld í þjóðaratkvæði gildi lögin sem samþykkt voru sl. sumar.

Þetta tel ég nánast útilokað að þar sé nokkur lausn. Skuldheimtumenn höfnuðu þeim lögum, þess vegna varð að semja upp á nýtt. Nú við ég minna á gagnorða grein eftir fyrrverandi Alþingismann Kristin Gunnarsson. Hann varaði eindregið við því að halda þannig á málum að skuldheimtumenn fái ástæðu til að fara með málið fyrir dómstóla, það gæti skapað okkur miklu meiri fjárútlát heldur en þeir samningar sem náðst hafa.

Þetta er það sem ég óttast ef Forseti synjar og þjóðin fellir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lög Alþingis um ICESAVE frá sl. sumri eru gagnslaus með öllu, skuldheimtumenn hafa  hafnað þeim. Þá blasir við málrekstur sem standa mun nokkur ár og enda með miklu meiri fjárútlátum en núverandi lög vísa til. Mjög vafasamt er að núverandi Ríkisstjórn geti setið áfram, nánast útilokað. Yfir því munu margir gleðjast, en hvað tekur þá við?

Ég sé ekki annað en langvarandi stjórnarkreppu sem líklega yrði að leysa með kosningum.

Öll endurreisn fellur í dvala, það verða tekin mörg skref afturábak.

Ég krefst svara:

Hver er framtíðarsýn ykkar sem viljið að Forseti Íslands synji lögunum frá 30. des. 2009 og að þjóðin felli lögin endanlega í þjóðaratkvæðagreiðslu?


Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Jan. 2010
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.8.): 1
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 114283

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband