Er umfjöllun um ICESAVE endanlega lokið?

Að sjálfsögðu ekki, samþykkt Alþingis er komin í hendur Forseta Íslands til samþykktar eða synjunar. Ég hef heyrt þær raddir sem telja það vísbendingu um hvað hann ætlist fyrir að hann afgreiddi ekki lögin á Ríkisráðsfundi á gamlársdag. Aldrei hvarflaði að mér að það mundi Ólafur Ragnar gera. Ef hann hefði hann gert það hefði hann orðið fyrir hafsjó að gagnrýni þeirra sem enn lifa í voninni um að hann muni synja um samþykki, þ. e. a. s. ef hann hefði samþykkt lagafrumvarpið hálfum sólarhring eftir að Alþingi afgreiddi málið. Sú hraða afgreiðsla hefði vissulega verið gagnrýni verð burtséð frá því hver afgreiðslan hefði orðið.

Ólafur Ragnar flutti nýársávarp sitt í dag  nýársdag, skv. venju. Mér fannst margt vel sagt í ávarpinu sérstaklega hvað hann var afgerandi og gagnrýninn á flokkshollustu og pólitískar ráðningar embættismanna, þar sem flokksskírteinið var þýðingarmeira oft á tíðum en menntun og hæfileikar. Margir hafa greinilega hlustað grannt eftir því hvort Ólafur Ragnar gæfi vísbendingu um á hvern veg hann ætlar að afgreiða ICESAVE lögin. Honum tókst að nálgast það á þann hátt að þeir sem vilja að hann synji telja sig finna sterkar vísbendingar fyrir að svo fari þegar hann ræddi um þjóðarvilja og þýðingu þess að þjóðin komi meir að stórum ákvörðunum.

Einn sem ég hef átt orðaskipti við hérna á blogginu heldur því statt og stöðugt fram að ICESAVE ábyrgðin hafi verið felld en ekki samþykkt á Alþingi 30. des. sl. Hann rökstyður það með því að ákveðnir þingmann Vinstri granna hafi kosið gegn eigin sannfæringu, verið þvingaðir til að greiða atkvæði með frumvarpinu, verið beittir flokksaga. Ég hef enga trú á því að nokkur þingmaður láti kúga sig þannig. En á móti má þá segja og spyrja: Voru allir þingmenn minnihlutans á Alþingi (að Þráni undanskildum) að fylgja sinni innstu sannfæringu og greiða atkv. gegn frumvarpinu? Voru einhverjir í þeirra hópi þvingaðir til að greiða atkvæði á annan hátt en samviska þeirra og skoðun sagði þeim að gera, voru þeir einhverjir kengbeygðir undir flokksaga? Ég held ekki. Ég hef það mikla tiltrú á Alþingismönnum að þeir láti ekki kúga sig hvort sem eru stjórnarsinnar eða í stjórnarandstöðu.

Nú munu undirskriftir undir áskorun til Forseta Íslands um að samþykkja ekki lögin frá Alþingi vera orðnar nær 55.000. Er þetta ekki nokkuð stór hópur þjóðarinnar? Vissulega en við vitum ekkert um hve mikill hluti þjóðarinnar vill að Forseti staðfesti lögin. Ég ætla hér og nú að lýsa þeirri skoðun minni  að undirskriftalistar hafa harla lítið gildi í mínum huga, en einhver óáreiðanlegasta birtingarmynd lýðræðis og ekki sé hægt að treysta því að þar komi fram vilji þeirra  sem þar setja nöfn sín. Það hefur oft verið sýnt fram á að það virðist vera hægt að fá mikinn fjölda til að setja nöfn sín á lista sem eru að mótmæla einhverju. Nýlega kom í ljós að einhver hópur ýtti af stað undirskriftasöfnun (ekki hérlendis) til að krefjast þess að unnið sé af alefli fyrir útrýmingu H2O. Þetta voru að sjálfsögðu einhverjir loftslagshópar sem nú fara mikinn víða um lönd. Og það er ekki að orðlengja það að þessi undirskriftasöfnun gekk mjög vel.

Mikill fjöldi manna og kvenna skráði nafn sitt á lista og krafðist þess að unnið yrði af afefli að því að útrýma VATNI.

En hvað tekur við ef Forseti Íslands samþykkir ekki lögin um ICESAVE ábyrgðina frá Alþingi?

Ég hef fengið fá svör frá þeim sem berjast fyrir ógildingu og þjóðaratkvæði hvað þá taki við. Kristinn Pétursson kenndur við Bakkfjörð er sá fyrsti sem hafði fyrir því að svara mér. Hann segir að ef Forseti synji og lögin verði felld í þjóðaratkvæði gildi lögin sem samþykkt voru sl. sumar.

Þetta tel ég nánast útilokað að þar sé nokkur lausn. Skuldheimtumenn höfnuðu þeim lögum, þess vegna varð að semja upp á nýtt. Nú við ég minna á gagnorða grein eftir fyrrverandi Alþingismann Kristin Gunnarsson. Hann varaði eindregið við því að halda þannig á málum að skuldheimtumenn fái ástæðu til að fara með málið fyrir dómstóla, það gæti skapað okkur miklu meiri fjárútlát heldur en þeir samningar sem náðst hafa.

Þetta er það sem ég óttast ef Forseti synjar og þjóðin fellir í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lög Alþingis um ICESAVE frá sl. sumri eru gagnslaus með öllu, skuldheimtumenn hafa  hafnað þeim. Þá blasir við málrekstur sem standa mun nokkur ár og enda með miklu meiri fjárútlátum en núverandi lög vísa til. Mjög vafasamt er að núverandi Ríkisstjórn geti setið áfram, nánast útilokað. Yfir því munu margir gleðjast, en hvað tekur þá við?

Ég sé ekki annað en langvarandi stjórnarkreppu sem líklega yrði að leysa með kosningum.

Öll endurreisn fellur í dvala, það verða tekin mörg skref afturábak.

Ég krefst svara:

Hver er framtíðarsýn ykkar sem viljið að Forseti Íslands synji lögunum frá 30. des. 2009 og að þjóðin felli lögin endanlega í þjóðaratkvæðagreiðslu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: hilmar  jónsson

Mjög góð spurning.

Væntanlega myndi það hafa þær afleiðingar að stjórnarkreppa skylli á með öllum þeim hörmungum sem það hefði í för með sér.

hilmar jónsson, 2.1.2010 kl. 02:31

2 identicon

Það að samþykkja samning sem felur í sér að leggja byrgðar á þjóðina sem hún á ekki mögurleika á að standa undir, og engin lagaleg rök sem segja að við berum ábyrgð á heldur er verið að samþykkja þetta til öryggis svona helst til að styggja ekki ESB klíkuna. ef ekki hefði farið svona illa hjá þessum einkafyrirtækjum sem bankarnir voru og allir hefðu nú grætt á Icesave, má þá áætla að ég hefði átt að fá hlut af hagnaði þeirra sem tóku ákvörðun um að leggja fé sitt í þessa froðubanka? Með samþykki Icesave er verið að leggja allt okkar að veði, en ef dómstólaleiðin er farin og fengið úr því skorið að okkur beri að greiða, þá er ekki til undirrituð veðheimild í öllu okkar fyrir þeim dómi. Bretar og Hollendingar hvort sem um er að ræða einstaklinga eða sveitarfélög tóku meðvitaða ákvörðun um að leggja fé í þessa einkabanka með það að markmiði að græða peninga, ef þeir hefðu grætt hefði ég ekkert fengið en vegna þess að þeir töpuðu á ég að greiða... það bara gengur ekki upp. og annað sem vert er að velta fyrir sér er að með samþykkt Icesave er tekinn allur vafi af því að við berum þá áfram ábyrgð á þessum bönkum sem nú eru komnir í hendur einhverra fjárfesta sem við vitum ekki og fáum ekki að vita hverjir eru.

Óskar Guðjón Kjartansson (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 12:17

3 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Óskar Guðjón, mikið vildi ég óska að þú ræddir þessi mjög svo alvarlegu mál af rökum en ekki gífuryrðum. Það er löngu viðurkennd staðreynd að allar sparifjárinnstæður í íslensku bönkunum sem hrundu eru tryggðar bæði hjá Tryggingarsjóði sparifjáreigenda og auk þess með yfirlýsingum ráðamanna að innstæður sparifjáreiganda væru tryggðar. Þá skiptir ekki máli hvort sparifjáreigendur eru Hollenskir, Breskir eða Íslenskir. Ef þeir hafa lagt sparifé sitt inn í íslensku bankana, skiptir engu máli hvar þeirra útibú eru sem lagt var inn í, í hvaða landi þau útibú eru. Öðru máli hefði skipt ef Landsbankaútibúin í Hollandi eða Bretlandi hefðu verið sjálfstæðar stofnanir þó þær væru að fullu í eigu Landsbankans á Íslandi. Fræg eru ummæli þáverandi bankastjóra Seðlabankans að "Íslendingar ætluðu ekki að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum" en meira að segja hann varð að beygja sig fyrir íslensum ótvíræðum lögum. Það sem gerir þetta hörmulega mál svo erfitt og tilfinningaþrungið er þessi djúpstæði misskilningur fjölmargra hérlendis að við getum hreinlega sagt "við borgum ekki" og þar með gufu skuldin upp og við séum stikk frí. Þetta er það sem þú Óskar Guðjón virðist halda, þetta virðist vera þinn skilningur og þú ert ekki einn með þá skoðun. Líklega hafa flestir þeirra sem stóðu við Bessastaði i morgun verið haldnir þessari grillu, að við getum einfaldlega neitað að borga og þá sé málið úr sögunni.

Við létum það viðgangast að forráðamenn Landsbankans gátu farið um þessi tvö lönd og lokkað sparifjáreigendur til að leggja inn á ICESAVE með því að bjóða hærri vexti, hafi verið einhver glóra í Landsbankamönnum hafa þeir vitað þá þegar að þeir gætu aldrei greitt þetta sparifé út aftur. 

Og þetta létu þær tvær stofnanir sem áttu að hafa eftirlit með þessu, Seðlabakinn og Fjármáleftirlitið, viðgangast en þeim bar nákvæmlega sama lagaskylda til að hafa eftirlit með útibúum íslensku bankanna í útlöndum eins og hér heima á Íslandi. Þess vegna verðum við Íslendingar að bera greiðslubyrði næstu árin, undan því verður ekki komist.

Hvaða vit er í því að efna til þjóðaratkvæðis um lögin frá Alþingi 30. des. sl. ef allur sá fjöldi sem skrifaði undir  áskorun til Forseta íslands um synjun hefur ekki lágmarks skilning á þessu hörmulega máli. Þjóðaratkvæði er vissulega dýrmæt réttindi fyrir alla atkvæðisbæra menn. En þá verður að gera þá kröfu til hvers og eins að hann kryfji málið til mergjar, skoði grundvöll þess og réttarstöðu þjóðarinnar. Örðuvísi getur engin greitt atkvæði um þetta skelfilega mál.

Ég læt mér ekki detta í hug að allir komist að sömu niðurstöðu og ég en hver og ein niðurstaða, hvers einstaklings, verður að byggjast á ábyrgð og þekkingu á því sem á að taka afstöðu til.

Því miður eru þeir fjölmennir sem eru á sama róli og þú Óskar Guðjón og setja fram fullyrðinagar sem byggjast á óskhyggju frekar en rökum og staðreyndum. 

Sigurður Grétar Guðmundsson, 2.1.2010 kl. 14:33

4 identicon

Sælir Óskar og Sigurður,

Ég verð nú að segja að eftir lestur þess sem þið hafið ritað hér finnst mér augljóst hvor hefur fært betri rök fyrir sínu máli og hvor notar meiri gífuryrði.

Í evróputilskipun um innistæðutryggingasjóði kveður á um að ekkert ríki megi ábyrgjast þessar innistæður og því var þessum ábyrgðarsjóðum komið á fót.

Ég fæ ekki séð hvernig þú kemst að þeirri niðurstöðu Sigurður með að okkur beri skylda til þess að greiða skuldir einkafyrirtækis. Ef það lægi jafn ljóst fyrir þyrfti klárlega ekki að setja ný lög til þess að gangast í þessar ábyrgðir.

Þá finnst mér áhugavert það sem þú nefnir Óskar með að auðvelt er að færa fyrir því rök með að með þessum gjörningi sé verið að setja það slæma fordæmi að við séum í ábyrgðum fyrir bankana áfram, nú í eigu ósýnilegra eigenda og áhættusæknustu fyrirtækja heims, vogunarsjóða.

Íslensku eftirlitsstofnanirnar brugðust svo sannarlega en það gerðu eftirlitsstofnanir þeirra landa sem nú sækja á okkur líka og ábyrgð á meingölluðu kerfis frjálsra fjármagnsflutninga getur aldrei talist eðlilegt að smáþjóð beri ábyrgð á ein fyrir nálægt heila álfu.

Þar að auki finnst mér fólk tala af grunnhyggju þegar það talar fjálglega um að við "eigum bara að borga þetta" og ef síðar kemur í ljós hvað okkur ber að borga þá sé lágmark að semja um það þannig að mögulegt sé að standa í skilum.

Þeim sem að fylgdust með þingmönnum gera grein fyrir atkvæðum sínum þegar lög þessi voru samþykkt má vera ljóst að flestir þeir sem þarna kusu höfu ekki skylning á viðfangsefni sínu.

Hvað framtíðarsýn mína varðar þá sé ég stolta þjóð sem að ekki hefur látið kúga sig til hlýðni ef að ólög þessi fá ekki staðfestingu forseta.

Ef þessi lög verða hinsvegar samþykkt þarf ekki að spyrja að því að hérna verður ekki gott að búa. Unga fólkið er nú þegar farið að streyma frá landinu og það verður ekkert til þess að koma til ef menn ýta allri skynsemi til hliðar til þess eins að hafa möguleika á inngöngu í Brussel klúbbinn.

Að mínu mati er það í engu betra en landráð að halda því fram að við eigum að gangast við þessum ábyrgðum sem að m.a. evróputilskipunin um innistæðutryggingasjóði kveður á um að við eigum ekki að greiða.

Mæli með því að þið horfið á þetta viðtal: http://balinn.blog.is/blog/balinn/entry/934903/

Axel Óli (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 18:47

5 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sæll Sigurður Grétar.

Fátt leiðist mér meira en þvarg og þrætur, því fagna ég framtaki fornaldarmanna sem hófu að semja lög og síðar að skrá þau niður. Þegar menn beita rökum sem byggð eru á eigin sjónarmiðum, fæst enginn niðurstaða. Þess vegna koma menn sér saman um ákveðin viðmið.

Evrópureglurnar um fjármálamarkaði eru ófullkomnar að mati lögfróðra manna. Það er rétt sem kemur fram hjá Balanum, sem fyrir ofan mig ritar, samkvæmt orðanna hljóðan í reglum ESB segir hvergi að ríki eigi að ábyrgjast greiðslur úr innistæðutryggingasjóðum.

Ég verð að trúa því, ég hef hvergi séð skrifaðar reglur þar að lútandi, að okkur beri skylda til að borga, þess vegna álykta ég svo, að við eigum ekki að borga.

Ég hef lesið margt gott eftir þig Sigurður, og tel þig greindan mann, en enginn er alvitur.

Ég þarf betri rök til að sannfærast, heldur en yfirlýsingar Geirs H. Haarde og Davíðs Oddssonar. Þótt báðir hafi þeir verið valdamiklir menn í samfélaginu og allrar virðingar verðir, þá efast ég um að orð þeirra hafi ígildi laga. Einnig finnst mér undarlegt, að viðsemjendur okkar hafi ekki vilja dómstólaleiðina. Hún er fullkomlega eðlileg, ef menn hafa sitthvort sjónarmiðið.

Ég efast um að nokkur maður kjósi samfélag sem byggir á óljósum viðmiðum og skoðunum, og notar það sem lög. Skráðar og skýrar reglur virka best, og dómstólar eru besta leiðin til að fá niðurstöður í deilumál. En ekkert er fullkomið í heimi mannanna og ekkert heldur sjálfgefið.

En mér finnst óréttlátt mjög, að þurfa að borga skuldir sem mér ekki ber, samkvæmt skýrum lögum.

Ég er innilega sammála hverju orði sem þú skrifar um myndina "Guð blessi Ísland", þar tölum við sannarlega einum rómi, þótt við gerum það ekki varðandi Ice save.

Jón Ríkharðsson, 4.1.2010 kl. 12:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Sigurður Grétar Guðmundsson

Höfundur

Sigurður Grétar Guðmundsson
Sigurður Grétar Guðmundsson
Er vatnsvirkjameistari og orkuráðgjafi, býr í Þorlákshöfn. Höfundur "Lagnafrétta" í Fasteignablaði Mbl. í 16 ár
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • ...Djúpós
  • ...Kötluhlaup
  • ...Kötluhlaup
  • picture 3 1052200.png
  • ...osum_991993

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 19
  • Frá upphafi: 113917

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 19
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband